Kynningarfundur vegna hugsanlegrar staðsetningar pólýolverksmiðju á Húsavík.

5/5/03

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp á kynningarfundi á Húsavík
í tilefni af mati á staðsetningu Pólyolverksmiðju á Húsavík
þriðjudaginn 29. apríl 2003


Ágætu fundarmennm,

Iðnaðarráðuneytið hefur boðað til þessa fundar í samráði við Atvinnuþróunarélagið og Pólýolverksmiðjuna ehf., en fulltrúar hennar munu gera grein fyrir verkefninu hér á eftir.

Hugmyndin um Pólýolverksmiðju er ekki ný af nálinni. Iðnaðarráðuneyti kom að verkefninu þegar á frumstigi árið 1997 og tók þátt í verkefnisstjórn um þróun þess ásamt bandaríska frumkvöðlinum Terry Brix og fulltrúum IceChem. IceChem er íslenskt félag sem stofnað var 1994 um framgang þessa og fleiri nýsköpunarhugmynda á sviði efnaiðnaðar. Iðnaðarráðuneytið hefur því í nær sex ár fylgst með þróun Pólyolverkefnisins.

Pólyol er lífrænt efni sem notað er sem grunnefni í margskonar efnaiðnaði. Hefðbundið hráefni fyrir þessa framleiðslu er olía. Sú framleiðsluaðferð sem til skoðunar hefur verið fyrir Ísland byggir aftur á móti fyrst og fremst á notkun sykurs sem hráefni. Það sem er einna áhugaverðast við þessa framleiðslu er að við hvert tonn af Pólyoli bindast um 6 tonn af CO2 við ræktun sykursins fyrir framleiðsluna. Framleiðslan er því sérstaklega umhverfisvæn og má því hiklaust kalla framleiðsluferlið í heild sinni, þ.e. ræktun hráefnisins og iðnaðarframleiðsluna: grænan iðnað.

Áhugi ráðuneytisins beindist að verkefninu m.a. vegna þess að framleiðsla á pólyoli þarfnast mikillar jarðgufu og ráðuneytið hefur lengi viljað stuðla að meiri nýtingu jarðgufu til iðnaðar. Polýolframleiðslan þurfti mikla gufu með háan hita og mikinn þrýsting. Í byrjun var eingöngu horft til gufuöflunar frá háhitasvæðunum á Reykjanesi og í austanverðum Henglinum. Rannsóknir á öðrum háhitasvæðum voru á þeim tíma taldar of skammt á veg komnar til þess að unnt væri að reikna með hagnýtingu jarðgufu frá þeim.

Staða verkefnisins verður rakin hér á eftir en hún er í stórum dráttum þannig að nú er þróunar- og tilraunaverksmiðja í rekstri í Suður Afríku í samvinnu við þarlend fyrirtæki. Tilraunaverksmiðjan hefur verið í gangi með hléum frá 1999. Rannsóknir og þróun í verksmiðjunni hafa gengið vel og er nú komið að því að huga að staðsetningu verksmiðjunnar hér á landi. Við lokaþróun verkfræðinga á vinnsluferlum verksmiðjunnar hefur gufunotkunin minnkað og ekki er þörf á eins háum gufuþrýstingi. Þessi breyting gerir það að verkum að unnt er að flytja gufuna lengri leið en áður hefur verið talið hagkvæmt. Við það hefur gufuöflun frá háhitasvæðinu við Þeistareyki komið til álita, einkum vegna góðrar hafnar og annarrar aðstöðu hér á Húsavík.

Eins og ykkur er kunnugt seldi ríkið 51% hlut sinn í kísilgúrverksmiðjunni við Mývatn árið 2001. Í kjölfar þess samþykkti ríkisstjórnin að söluandvirðið skuli renna til atvinnuuppbyggingar í þeim sveitarfélögum sem verulegra hagsmuna hafa að gæta vegna starfsemi kisilgúrverksmiðjunnar. Í þrjú ár hafa margir iðnaðarkostir komið til athugunar í ráðuneytinu. Fljótlega var ákveðið að leggja 10 m.kr. til uppbyggingar baðlóns við Mývatn sem hagnýtti affallsvatn Bjarnarflagsvirkjunar, en beðið hefur verið með aðrar fjárfestingar. Þetta verkefni, um byggingu Pólyolverksmiðju á Húsavík, er lang öflugasta verkefnið sem ráðuneytið hefur skoðað og er líklegast til að skila varanlegum árangri í atvinnuuppbyggingu og styrkingu byggðar í héraðinu.

Nálægð Húsavíkur við háhitasvæðið, auk landrýmis og hafnar, gerir það að verkum að Húsavík er mjög álitlegur staður fyrir pólyolverksmiðjuna. Húsavík er jafnframt eini staðurinn utan þéttbýlisins á Suðvesturhorninu sem nú kemur til álita.

Það er á grundvelli þess að unnt verði að festa staðsetningu hér á Húsavík í sessi sem iðnaðarráðuneytið vill nú koma að þessu verkefni og leggja félaginu til aukið hlutafé. Staðsetning hér krefst skoðunar á allmörgum atriðum, eins og endurskoðun vinnsluferla og þátta sem lúta að staðarvalinu. Reiknað er með að þessar hagkvæmnisathuganir taki um 18 mánuði.

Ljóst er að með framlagi ríkisins er ekki unnt að tryggja að verksmiðjunni verði valinn staður á Húsvík. Fátt bendir þó til að aðrir staðir séu betri. Framlag ríkisins mun tryggja að mat á staðsetningu Polyolverksmiðjunnar verði fyrst og fremst beint að Húsavík og gufuöflun frá Þeistareykjum. Það er von mín og trú að innan fárra ára munum við sjá 100 þúsund tonna Pólyolverksmiðju rísa hér á Húsavík sem veita mun milli 65 og 70 manns vinnu. Ljóst er að tilkoma þeirrar starfsemi mun hafa mjög jákvæð áhrif á eflingu byggðar hér í sýslunni.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval