Sameiginlegur fundur iðnaðarráðherra og samgönguráðherra á Ísafirði 14. apríl 2003

15/4/03

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.


Ávarp
iðnaðar- og viðskiptaráðherra
í tilefni af undirritun samkomulags við samgönguráðherra
um verkefni í ferðamálum er tengjast framkvæmd byggðaáætlunar.

Hótel Ísafirði, mánudaginn 14. apríl 2003, kl. 10:30 - 12:30.


Samgönguráðherra, fundarstjóri, ágætu fundarmenn.

Ég vil bjóða ykkur velkomin til þessa fundar sem er haldinn sameiginlega af mér, samgönguráðherra og Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða.


Nú er rétt ár liðið síðan þingsályktun um stefnu byggðamála fyrir árið 2002-2005 var samþykkt á Alþingi.

Þessi fundur er haldinn í tilefni þess að við og samgönguráðherra munum hér á eftir undirrita samkomulag um sameiginleg verkefni í uppbyggingu og þróun ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Þessi sameiginlegu verkefni okkar eru tengd framkvæmd byggðaáætlunarinnar og er því við hæfi að ég geri í fáeinum orðum grein fyrir stöðu hennar.


Fyrsta stóra verkefnið sem hrint var í framkvæmd í tengslum við byggðaáætlunina var opnun Nýsköpunarmiðstöðvar á Akureyri í lok síðastliðins árs. Nýsköpunarmiðstöðin á að vera framvörður í nýrri atvinnusókn á landsbyggðinni þar sem megináhersla verður lögð á aukna þekkingu og hæfni í atvinnulífinu. Í þessu felst m.a. víðtæk fræðsla um frumkvöðlastarfsemi, stofnun og rekstur fyrirtækja, endurbætur á innri gerð fyrirtækja, innleiðing nýrrar tækni í ný og starfandi fyrirtæki og nýsköpun á sem flestum sviðum.

Tilkoma Nýsköpunarmiðstöðvarinnar byggir á þeirri skoðun að til þess að landsbyggðin nái að þróast í takt við þarfir nútímans þurfi framfarir atvinnulífsins að grundvallast á nýrri þekkingu. Traust búseta byggist á því að til verði fjölbreytt atvinnulíf sem staðið getur undir vel launuðum störfum m.a. fyrir fólk, sem öðlast hefur háskólamenntun.

Vegna mikilvægis þessarar starfsemi fyrir atvinnuþróunina verður sérstök kynning á starfsemi nýsköpunarmiðstöðvarinnar hér á eftir. Berglind Hallgrímsdóttir sem er forstöðumaður IMPRU á Iðntæknistofnun mun annast þá kynningu.


Á sömu forsendum - að menntun sé mikilvægur þáttur í atvinnuþróun framtíðarinnar, höfum við menntamálaráðherra gengið frá samstarfssamningi um átak til uppbyggingar menntunar og menningar á landsbyggðinni. Þar er lögð áhersla á tengsl menntunar og menningar við eflingu atvinnulífsins og nýtingu upplýsingatækni til að auka námsframboð, jafnframt því að treysta starfsemi símenntunarmiðstöðvanna.

Áhersla er lögð á að efla samstarf atvinnulífs og skóla og að tryggja samkeppnishæfni byggðarlaga. Meðal annars að styrkja grundvöll fyrir uppbyggingu háskólanámssetra hér á Vestfjörðum, eins og á Egilsstöðum og Húsavík. Sú uppbygging verður þróuð út frá þeirri starfsemi sem er í símenntunarmiðstöðvunum.

Á framhaldsskólastiginu höfum við í iðnaðarráðuneytinu lagt áherslu á uppbyggingu starfsmenntunar á landsbyggðinni með fjarnámi og beitingu upplýsinga- og fjarskiptatækni. Í því sambandi verða kjarnaskólar í starfsmenntun efldir og framhaldsskólar munu vinna að því að fyrirtæki taki að sér hluta kennslunnar í samvinnu við kjarnaskóla. Með því vonast ég til að tengsl atvinnulífsins við skólana verði markvissari.

Á grunnskólastiginu er lögð áhersla á rafræna menntun og þróun dreifmenntunar. Dreifmenntun er hugtak sem lýsir blöndu af menntun sem er sótt með aðferðum fjarnáms og nýtir stóran hóp sérhæfðra kennara óháð búsetu þeirra og nemendanna. Hér er um að ræða lausn sem hefur víðtækt gildi eins og að leysa vandkvæði sem skapast við sameiningu sveitarfélaga þegar færa á skólahald á færri staði og flytja þarf börn daglega langar leiðir.

Veigamesta dreifmenntunarverkefnið er þróunarverkefni í grunnskólum hér á Vestfjörðum.

Byggðaáætlun fyrir Vestfirði var, í byrjun síðastliðins árs, unnin hér í fjórðungnum til stuðnings þáverandi tillögu að þingsályktun um stefnu í byggðamálum. Tillögurnar sem þar koma fram eru mjög áhugaverðar og hefur verið stuðst við þær m.a. við mótun hugmynda um samstarfsverkefni ráðuneytanna.

Ef ég ætti að draga fram eitt sem mér finnst áhugaverðara en annað og sneiða framhjá samgöngumálum og sjávarútvegsmálum þá yrðu það hugmyndir um uppbyggingu klasa- fyrirtækja sem í nánu samstarfi leggði stund á tækniþróun, nýsköpun og framleiðslu á grunni sjávarútvegs og úrvinnslu sjávarafurða. Ljóst er að hér er þegar fyrir hendi sterkur kjarni að slíkum klasa.
Um er að ræða fyrirtæki í tæknigreinum, veiðarfæragerð, margskonar þjónustu, veiðum, vinnslu og matvælaiðnaði. Styrkurinn felst ekki hvað síst í því að á svæðinu eru starfandi fyrirtæki með mikla þekkingu og alþjóðlega markaðsreynslu sem er gulls ígildi. Ef vel tekst til við þróun þessara klasahugmynda þá er hægt að leysa hér úr læðingi heilmikla sókn í nýsköpun atvinnulífsins. Grunnforsendur þess eru að atvinnulífið sé tilbúið til þess að leggja á sig þá undirbúningsvinnu sem nauðsynleg er og einnig að skuldbinda sig til þess samstarfs sem fylgir í kjölfarið.

Í byggðaáætluninni fyrir Vestfirði er rík áhersla lögð á að efla Ísafjarðarbæ sem kjarna stjórnsýslu, menntunar og atvinnulífs í fjórðungnum. Ég er sammála mikilvægi þess að efla byggðakjarna á Vestfjörðum og er það álit stutt á umfangsmikilli rannsókn um búsetu og starfsskilyrði á landsbyggðinni sem unnin var af Hagfræðistofnun og Byggðarannsóknastofnun fyrir iðnaðarráðuneytið.

Ein helsta tillagan sem þar er sett fram er að stefnt verði að því að efla þrjá stóra byggðakjarna utan höfuðborgarsvæðisins; Norðurland með Akureyri sem miðpunkt, Vestfirði með Ísafjörð sem miðpunkt og Austurland með þéttbýliskjarna á Mið-Austurlandi. Markmiðið er af efla miðlæga byggðakjarna sem styrkt geti viðkomandi svæði í heild sinni. Fjárfestingar í innviðum þyrftu þá að taka mið af því að stækka áhrifasvæði byggðakjarnanna svo byggðirnar umhverfis geti sótt þangað þjónustu sem annars væri ekki fáanleg innan svæðisins.
Því hef ég ákveðið að hafin verði vinna við byggðaáætlun fyrir Vestfirði með Ísafjörð sem þungamiðju. Nokkur reynsla er nú komin á þá vinnu sem fram fer fyrir norðan í sambandi við byggðaáætlun fyrir Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið og gengur það starf vel. Starfið hér verður grundvallað á aðstæðum hér fyrir vestan en verður ekki eftirlíking á starfi Eyjafjarðarnefndarinnar.

Það sem einnig hefur áhrif á þessa ákvarðanatöku er að í síðasta mánuði var tekin ákvörðun um uppbyggingu stóriðju á Austurlandi. Í framhaldinu er augljóst að athyglin beinist hingað vestur. Það er því mikilvægt starf framundan, sem fyrst og fremst mun byggjast á heimamönnum en í náinni samvinnu við ráðuneytið.

Ágætu fundarmenn.
Í þessari ræðu minni hef ég drepið á það helsta sem lýtur að framkvæmd byggðaáætlunar 2002-2004. Vinnan hefur farið vel af stað og hefur samstarfið við önnur ráðuneyti um sameiginleg verkefni verið ákaflega ánægjuleg.

Tilefni þessa fundar er, eins og fram hefur komið, undirritun samkomulags um sameiginlegt átak í uppbyggingu og þróun ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Með þessu samkomulagi viljum við samgönguráðherra sameiginlega vinna að verkefnum um eflingu ferðaþjónustu í samræmi við byggðaáætlun 2002-2005. Við höfum skilgreint sex verkefni sem við viljum veita brautargengi á þessu ári. Þau eru: - Hlunnindabúskapur og sjósókn á sunnanverðum Vestfjörðum. - Gullkistan - veiðar og vinnsla sjávarfangs við Djúp. - Ferðaþjónusta er byggir á Gíslasögu Súrssonar. - Efling markaðssetningar á ferðaþjónustu á Vestfjörðum. - Vottun umhverfisvænnar og sjálfbærrar ferðaþjónustu og - Menningarvefur fyrir ferðaþjónustu í tengslum við Snorrastofu.

Um leið og ég lýk máli mínu vil ég bjóða samgönguráðherra að undirrita samkomulagið með mér.


 

Valgerður Sverrisdóttir






Stoðval