Gæðakerfi vottað á Iðntæknistofnun.

4/4/03

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp á Iðntæknistofnun
vegna vottunar gæðakerfis.


Ágætu starfsmenn Iðntæknistofnunar, viðskiptavinir og aðrir aðstandendur og gestir.

Það er mér mikil ánægja að óska stofnunninni til hamingju með þennan athyglisverða áfanga sem vottun gæðakerfis er. Iðntæknistofnun hefur með þessari vottun sýnt það og sannað að það er vilji til að veita þjónustu þar sem gæði eru í fyrirrúmi. Fyrirtæki hafa á undanförnum árum fengið vottun á hluta eða allri starfsemi sinni, en með því móti er fest niður verklag sem fylgt er til að tryggja gæði framleiðslunnar eða þjónustunnar. Þær eru fáar opinberu stofnanirnar sem hafa fengið slíka vottun. Skilaboðin sem Iðntæknistofnun, og þau fyrirtæki sem hafa fengið vottun, senda frá sér er að gæði þeirrar þjónustu sem veitt er skulu vera sýnileg, mælanleg og um leið byggi starfsemin á sífelldu umbótastarfi. Umræða um starfsemi hins opinbera hefur á liðnum árum snúist um árangursstjórnun þar sem áherslan er á stöðugar umbætur í rekstri til að ná betri árangri. Gæðakerfi er tvímælalaust leið til að skila árangri. Árangur næst með skilvirkum vinnubrögðum og áherslum sem taka mið af þeim markaði sem unnið er á. Í því alþjóðlega umhverfi sem við erum hluti af og kristallast í hinum samevrópska markaði, er ljóst að gildi þess að veita vottaða viðurkennda þjónustu er mikilvægt. Í því sambandi vil ég nefna að nálægðin við vottaða rannsókna- og þróunarstarfsemi auðveldar fyrirtækjum uppbyggingu þekkingar og að vottuð prófunarstarfsemi tryggir aðgang að markaði.

Í kjölfar þeirrar umræðu sem verið hefur um uppbyggingu atvinnutækifæra samfara stóriðjuframkvæmdum hefur vottuð prófanastarfsemi mikla þýðingu. Alþjóðleg fyrirtæki, sem fjárfesta í framleiðslufyrirtækjum, eru vön að vinna með undirverktökum og krefjast að farið sé að alþjóðlegum stöðlum um þá vinnu. Staðlar leggja á það áherslu að starfsmenn verktaka séu vottaðir með hæfni í t.d. málmsuðu og að þeir sem votti slíka hæfni hafi einnig vottun á sinni starfsemi. Mjög mikilvægt er, af samkeppnislegum ástæðum, að hérlendir verktakar hafi alla möguleika á að fá þessa þjónustu til að tryggja samkeppnishæfni. Með þeirri vottun sem hér er veitt í dag hefur Iðntæknistofnun tekið stórt skref í þá átt að tryggja m. a. málmiðnaðinum þessa samkeppnisstöðu og vil ég hvetja fyrirtæki til að styrkja þessa þróun með því að nýta sér þá þjónustu sem í boði er.

Takk fyrir
 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval