Málþing um byggðamál á Akureyri.

21/3/03

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp á málþingi um byggðamál
í tilefni af kynningu á skýrslu Byggðarannsóknastofnunar og Hagfræðistofnunar
um búsetu og starfsskilyrði á landsbyggðinni
í Háskólanum á Akureyri
föstudaginn 21. mars 2003.Fundarstjóri, ágætu fundarmenn.

Nú er rétt ár liðið síðan þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002-2005 var samþykkt á Alþingi. Í því felst að Alþingi hefur falið ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi áætlunar um byggðamál á grundvelli tiltekinna markmiða.

Markmiðin snúast um það meginatriði að draga úr mismun á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks milli byggðalaga og skapa íbúum á landsbyggðinni hagstæð búsetuskilyrði. Jafnframt eru í byggðaáætluninni settar fram tillögur um alls 22 aðgerðir til að ná fram markmiðum hennar.

Það er skemmst frá því að segja að framkvæmd byggðaáætlunarinnar er nú að komast á gott skrið og hefur m.a. náðst góð samstaða við önnur ráðuneyti um framkvæmd sameiginlegra verkefna þeirra og iðnaðarráðuneytis.

Fyrsta stóra verkefnið sem hrint var í framkvæmd í tengslum við byggðaáætlunina var opnun Nýsköpunarmiðstöðvar hér á Akureyri í lok síðastliðins árs. Nýsköpunarmiðstöðin á að vera framvörður í nýrri atvinnusókn á landsbyggðinni þar sem megináhersla verður lögð á aukna þekkingu og hæfni í atvinnulífinu. Í þessu felst m.a. víðtæk fræðsla um frumkvöðlastarfsemi, stofnun og rekstur fyrirtækja, endurbætur á innri gerð fyrirtækja, innleiðing nýrrar tækni í ný og starfandi fyrirtæki og nýsköpun á sem flestum sviðum.

Tilkoma Nýsköpunarmiðstöðvarinnar byggir á þeirri skoðun að til þess að landsbyggðin nái að þróast í takt við þarfir nútímans þurfi framfarir atvinnulífsins að grundvallast á nýrri þekkingu. Traust búseta byggist á því að til verði fjölbreytt atvinnulíf sem staðið getur undir vel launuðum störfum m.a. fyrir fólk, sem öðlast hefur háskólamenntun.

Á sömu forsendum, - að menntun sé undirstaða atvinnuþróunar framtíðarinnar, höfum við menntamálaráðherra gengið frá samstarfssamningi um átak til uppbyggingar menntunar og menningar á landsbyggðinni, í samræmi við byggðaáætlunina. Þar er lögð áhersla á tengsl menntunar og menningar til eflingar atvinnulífs og nýtingu upplýsingatækni til að auka námsframboð.

Það er ástæða til að leggja áherslu á möguleika landsbyggðarinnar tengda fölmörgum kostum upplýsingasamfélagsins. Landsbyggðin stenst ekki samanburð við höfuðborgarsvæðið hvað varðar hagnýtingu upplýsinga- og fjarskiptatækni og er nauðsynlegt að bæta úr í þeim efnum.

Með það í huga var samkeppninni um "rafrænt samfélag" komið af stað. Forvali lauk fyrir viku síðan og voru þá fjögur byggðarlög valin til þátttöku í lokasamkeppninni. Hún snýst um þróun verkefna sem geta orðið fyrirmynd að innleiðingu upplýsingasamfélagsins víðsvegar um landið. Það er von mín að til verði öflug þróunarverkefni sem geti eflt nýsköpun. Einnig er þörf fyrir verkefni sem flýta fyrir þróun rafrænna viðskipta, stuðla að eflingu menntunar og menningarstarfsemi og bæti stöðu jaðarhópa svo dæmi séu tekin um þau fjölmörgu verkefni sem óleyst eru. Aukin nýting upplýsinga- og fjarskiptatækninnar er tvímælalaust til þess fallin að styrkja samkeppnisstöðu landsbyggðarinnar, - eða öllu heldur - og í víðara samhengi- að efla samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs í alþjóðlegu tilliti.

Sem dæmi um veigameiri verkefni sem geta verið leiðandi í mótun atvinnuþróunar vil ég nefna stofnsetningu öndvegisseturs á sviði auðlindalíftækni hér við Háskólann á Akureyri.

Í þessari hugmynd felst að safnað verði saman á einn stað allri þeirri þekkingu og reynslu sem nauðsynleg er - og unnt er að ná í - til þess að byggja upp rannsókna- og nýsköpunarstarfsemi á sviði auðlindalíftækni. Markmiðið er að unnt verði að stofna til arðbærs fyrirtækjareksturs innan fárra ára sem t.d. gæti tengst sjávarlíftækni, þar sem erfðaefnið er fengið úr lífríki sjávarins - eða sem tengist landbúnaðarlíftækni þar sem t.d. erfðabreytt iðnaðarprótein væru ræktuð með hefðbundnum ræktunaraðferðum landbúnaðarins.

Þessi áform hafa nú þegar verið kynnt fyrir helstu hagsmunaaðilum, m.a. sjávarútvegsráðuneyti og landbúnaðarráðuneyti, og er það von mín að niðurstaða liggi fyrir fljótlega.

Ágætu fundarmenn.

Tilgangur þessara inngangsorða er að gefa yfirlit um nokkur þeirra verkefna sem ýtt hefur verið úr vör og tengjast framkvæmd byggðaáætlunarinnar. Margt er þó látið ósagt enda tilgangurinn aðeins sá að upplýsa um það - í hvaða átt stefnan hefur verið tekin.

Þessa stefnu þarf stöðugt að vakta, bæta og leiðrétta. Mikilvægur þáttur í þeirri leiðréttingu, og í framkvæmd byggðaáætlunarinnar í heild sinni, er að til staðar sé vitneskja um mismunandi búsetuskilyrði fólks og starfsskilyrði atvinnuveganna eftir landshlutum. Slík þekking er nauðsynleg - og til að afla hennar þurfum við að njóta aðstoðar vísindamanna. Það höfum við gert og afrakstur þeirrar vinnu er meginviðfangsefni þessa málþings um byggðamál.

Hér verður kynnt og til umræðu skýrslan: Fólk og fyrirtæki - um búsetu - og starfsskilyrði á landsbyggðinni, sem unnin hefur verið af Byggðarannsóknastofnun og Hagfræðistofnun.

Fyrir liggur áhugaverð dagskrá og verður bæði forvitnilegt og fróðlegt að hlýða á erindin sem bíða okkar.

Með þessum orðum er málþing um búsetu - og starfsskilyrði á landsbyggðinni sett.

Takk fyrir.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval