Ársfundur Orkustofnunar.

20/3/03

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherraÁvarp á ársfundi Orkustofnunar
20. mars 2003


Ágætu ársfundargestir!

Fyrir réttu ári síðan gat ég þess í ávarpi mínu á ársfundi Orkustofnunar að ýmislegt hefði komið fram um það að þáverandi samstarfsaðilar okkar hjá Norsk Hydro vildu fresta ákvörðun um tímasetningu NORAL-verkefnisins sökum annarra fjárfestinga fyrirtækisins. Ég sagði einnig að ekkert benti þó til annars en að af þessu verkefni yrði þó svo óvissa um tímasetningu hefði komið upp og í mínum huga, og þeirra er næst þessu verkefni stæðu, væri ljóst að það myndi verða að veruleika.

Hér var vissulega mælt af nokkurri bjartsýni. Vænlegur kaupandi að orku Kárahnjúkavirkjunar í stað Norsk Hydro var þá ekki í augsýn, en skömmu síðar voru teknar upp viðræður við bandaríska álfyrirtækið Alcoa um að reisa og reka það álver á Reyðarfirði, sem viðræður við Hydro höfðu árum saman byggst á. Þær viðræður hafa nú leitt til þess að samningar milli Alcoa, íslenskra stjórnvalda, Landsvirkjunar og Fjarðabyggðar um byggingu og rekstur álvers á Reyðarfirði voru undirritaðir við eftirminnilega athöfn á Reyðarfirði s.l. laugardag. Þetta eru stærstu fjárfestingarsamningar sem undirritaðir hafa verið hér á landi og verður væntanlega bið á að aðrir ámóta samningar verði gerðir, en hér er um að ræða samninga er hafa í för með sér um 55% aukningu í raforkuframleiðslu þjóðarinnar.

Í síðustu viku voru samþykkt á Alþingi heimildarlög til samningsgerðar um stækkun álbræðslu Norðuráls á Grundartanga úr 180.000 tonna afkastagetu á ári upp í 300.000 tonn. Einnig voru samþykkt heimildarlög um stækkun Nesjavallavirkjunar, byggingu gufuaflsvirkjunar á Reykjanesi auk mannvirkja við Norðlingaölduveitu, en framkvæmdir við þessi mannvirki tengjast fyrirhugaðri stækkun álvers Norðuráls. Samkvæmt samningsdrögum um raforkusölu milli Landsvirkjunar og Norðuráls er að því stefnt að afhending orku fyrir 90.000 tonna áfanga stækkunar fyrirtækisins geti orðið í ársbyrjun 2006 og er mikilvægt að svo verði, til að draga úr áhrifum af samtímaálagi þessarar framkvæmdar og byggingar Kárahnjúkavirkjunar og álvers Fjarðaáls. Heildarfjárfesting sem ráðist er í með öllum þessum framkvæmdum mun nema á bilinu 240-250 milljörðum króna sem skiptist um það bil að jöfnu milli virkjunarmannvirkja og framkvæmda við álverin. Fjárfestingin vegna virkjana lætur nærri að vera svipuð upphæð og heildareignir Landsvirkjunar eru samkvæmt ársreikningum fyrirtækisins. Af þessu má m.a. sjá hversu gríðarleg fjárfesting mun verða í orkumannvirkjum hér á landi á næstu 5-6 árum.

Í síðustu viku voru ekki aðeins samþykkt á Alþingi lög um álver og virkjanir heldur voru þar einnig samþykkt fyrstu raforkulög hér á landi. Frumvarp til raforkulaga hefur verið til umfjöllunar á fyrri ársfundum Orkustofnunar og mun ég ekki fjalla nánar um efnisatriði hinna nýju laga, en ég þykist fullviss um að orkumálastjóri muni gera grein fyrir því hér á eftir hvaða áhrif hin nýju lög munu hafa á starfsemi stofnunarinnar. Þá hefur á síðustu tveimur árum verið fjallað mikið um raforkulagafrumvarpið meðal helstu hagsmunaaðila í orkuiðnaðinum. Þó sátt hafi orðið um það á hvern hátt við munum stíga fyrstu skrefin okkar í átt að nýju raforkuumhverfi, á eftir að móta þau skref, en lögin móta aðeins þann ramma sem nauðsynlegur er til að halda utan um framkvæmdina. Mikil vinna er framundan við reglugerðarsmíði og þurfa margir aðilar að koma að verki. Vafalaust munum við þurfa að breyta ýmsum ákvæðum laganna er fram líða tímar eins og gerst hefur víða, en aðalatriðið er þó að okkur takist á farsælan hátt að aðlaga lagaumhverfi í framtíðinni á sem bestan hátt að okkar eigin aðstæðum.

Loks voru á Alþingi samþykkt sem lög frumvarp um Orkustofnun og Íslenskar orkurannsóknir, sem unnið hefur verið að á síðasta ári. Þessi frumvörp voru rækilega kynnt starfsmönnum Orkustofnunar fyrir nokkru og því eru helstu ákvæði laganna vel kunn flestum hér. Vegna hins aukna stjórnsýslu- og eftirlitshlutverks sem Orkustofnun hefur verið falið í lögunum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og í hinum nýju raforkulögum var talið óhjákvæmilegt að skilja rannsóknarsvið stofnunarinnar frá henni og mynda um þá starfsemi sérstaka stofnun, Íslenskar orkurannsóknir. Nokkur umræða var við undirbúning frumvarpsins og raunar í meðferð Alþingis hvort gera ætti rannsóknarsviðið að sjálfstæðu hlutafélagi, en niðurstaðan varð sú að taka það skref ekki að fullu að þessu sinni þar eð talið var eðlilegra að ákveða slíkt þegar reynsla væri fengin af hinni sjálfstæðu stofnun. Hið sama á raunar við um Vatnamælingar, þar varð niðurstaðan sú að um sinn yrði sú starfsemi vistuð á Orkustofnun eins og verið hefur hingað til, en ýmsir aðilar töldu þó að eðlilegra væri að hafa vatnamælingar sem sjálfstæða stofnun. Tel ég að svo muni verða í náinni framtíð. Hins vegar var talið rétt að kanna hvort grundvöllur væri fyrir því að efla og styrkja Vatnamælingar með því að sameina svipaða faglega starfsemi í öðrum stofnunum eða fyrirtækjum í einni öflugri stofnun hér á landi á sviði vatnafars. Sérstakri nefnd, sem skipuð verður helstu hagsmunaaðilum á þessu sviði, mun falið að fjalla um þetta mál á næstu misserum.

Þó svo að vel hafi tekist til með að ljúka afgreiðslu á þeim frumvörpum á sviði orkumála er lágu fyrir síðasta þingi bíða okkar á næstunni mörg brýn verkefni. Unnið er að lokadrögum að frumvarpi um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum auk frumvarps til nýrra vatnalaga og loks má nefna að lítillega hefur verið unnið að frumvarpi til laga um hitaveitur. Öll þessi frumvörp þarf að leggja fram á næsta þingi ef vel á að vera meðal annars vegna þeirra breytinga á umhverfi orkufyrirtækja sem leiða af nýjum raforkulögum. Eins og gefur að skilja munu starfsmenn Orkustofnunar og Íslenskra orkurannsókna gegna viðamiklu hlutverki við þá vinnu.

Við Íslendingar höfum eins og alkunna er lyft grettistaki í uppbyggingu hitaveitna víða um land allt á undanförnum þremur áratugum til að auka hagkvæmni við húshitun okkar. Hin mikla uppbygging hitaveitna samhliða styrkingu flutnings- og dreifikerfis landsins hefur leitt til þess að hlutur olíu í húshitun landsmanna á síðustu áratugum hefur nánast horfið og er svo komið að í dag njóta um 89% landsmanna hitunar frá jarðvarma. Sú spurning brennur á mörgum hvort enn megi gera betur við nýtingu jarðhitans hér á landi með aukinni og bættri tækni. Frá árinu 1998 hefur markvisst verið unnið að jarðhitaleit á svokölluðum köldum svæðum. Þetta átak hefur þegar leitt til þess að heitt vatn hefur fundist allvíða og ný byggðarlög fengið hitaveitur þar sem áður var talið að ekki væri heitt vatn að finna. Í því skyni hafa stjórnvöld lengi örvað landsmenn til aukinnar notkunar á rafhitun í stað olíuhitunar með því að greiða niður verð á rafhitun. Ný lög voru samþykkt á vorþingi 2002 um niðurgreiðslur á raforku og olíu til húshitunar, þar sem ekki er um aðra hitunarkosti að ræða, og loks um styrki til nýrra hitaveitna. Umsjón og eftirlit með framkvæmd þessara laga mun Orkustofnun annast og fer sú starfsemi fram á nýju Akureyrarsetri stofnunarinnar, sem nýlega hefur verið opnað og ber að fagna því. Þar verður einnig vistuð umsjón með smávirkjunum til sveita, en nýlega var gefið út af iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu veglegt kynningar- og upplýsingarit um smávirkjanir til að leiðbeina áhugasömum aðilum um nauðsynlegan undirbúning að framkvæmdum. Hið nýja kynningarrit bætir úr brýnni þörf þar eð mikill áhugi er nú á byggingu smávirkjana víða um land sem ber að fagna.

Aukin tækni, þekking og reynsla gerir okkur sífellt kleift að öðlast meiri skilning á eðli jarðhitans hér á landi og eykur um leið möguleikana á því að finna heitt vatn á svæðum sem áður voru ekki talin líkleg jarðhitasvæði. Því tel ég eðlilegt að skipuleg jarðhitaleit verði fastur liður í orkurannsóknum hins opinbera í stað þess að þurfa að styðjast við sérstök átaksverkefni um skamman tíma eins og verið hefur undanfarin ár. Undir þennan fasta rannsóknarlið gæti einnig fallið athugun á notkun varmadælna víða um land þar sem sýnt þykir að ekki fáist nægur jarðhiti til húshitunar.

Mörg spennandi verkefni blasa við okkur á jarðhitasviðinu á næstu árum. Víða um land er að finna sjóðandi lághita, sem í dag er aðeins nýttur til hitaveitna. Litlar rannsóknir hafa verið gerðar á möguleikum á frekari nýtingu þessara svæða, en hugsanlegt er að nýta mætti þau mun betur, meðal annars til raforkuframleiðslu. Mörg þessara svæða eru í námunda við byggðakjarna og gæti aukin nýting jarðhitans vafalaust eflt byggð á þessum svæðum. Þá er rétt að minnast á hið svokallaða djúpborunarverkefni sem er samstarfsverkefni hérlendra orkufyrirtækja og erlendra aðila. Takist okkur á komandi árum að virkja jarðhitann með djúpborunum mun slík vinnsla stóauka afköst háhitasvæða miðað við það sem áður hefur verið reiknað með. Verður nánar fjallað um þetta áhugaverða efni hér á fundinum í dag.

Eins og flestum er kunnugt er vinna við fyrsta áfanga Rammaáætlunar um virkjanir á lokastigi. Markmið áætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og náttúruverðmæta. Um þessar mundir eru faghópar, sem fjalla um einstök sérsvið að skila áliti sínu til verkefnisstjórnar sem síðan mun flokka þessa kosti og vega saman. Ýmsir hafa mistúlkað vinnu við Rammaáætlun á þann veg að hér sé um að ræða einhvern Stóradóm um það hvað megi virkja og hvað ekki. Svo er alls ekki þó svo að niðurstöður geti gefið vísbendingar um hagkvæmni virkjunarkosta og verndargildi svæða. Þessi vinna mun án efa gagnast sem leiðbeinandi vinna við frekari rannsóknir og undirbúning virkjana og við gerð skipulagsáætlana og náttúruverndaráætlana.

Því miður hefur fjárveiting ríkisins til orkurannsókna farið lækkandi undanfarin ár. Nauðsynlegt er af þeim sökum og vegna breytinga á lagaumhverfi orkufyrirtækja að skilgreina hlutverk ríkisins í almennum orkurannsóknum og setja reglur um það að hve miklu leyti ríkið beri sjálft þennan kostnað á móti orkufyrirtækjum og öðrum aðilum er nýta þessar rannsóknir. Því hef ég í hyggju að koma á fót á næstunni nefnd sem í eiga sæti fulltrúar orkufyrirtækja og ríkisins til að gera tillögur um þetta efni og jafnframt myndi nefndin koma fram með tillögur um fjármögnun þessara rannsókna.

Á undanförnum árum hefur þróun tækni við að nota vetni sem orkubera aukist hratt. Enn er langt í land að úr því fáist skorið hvenær hagkvæmt kunni að verða fyrir íslenskt samfélag að nota vetni eða annað vetnisbundið eldsneyti til að knýja samgöngutæki okkar og fiskveiðiflota. Hitt er afar mikilvægt að Íslendingar taki þátt í þeirri öru þróun í notkun hreinna orkugjafa og orkubera í stað notkunar brennsluefna í samgöngutækjum og fiskiskipum, þátttaka okkar mun beina sjónum annarra ríkja að hinni hreinu ímynd Íslands í vaxandi mæli. Takist okkur að nýta ónýttar orkulindir þjóðarinnar á hagkvæman hátt til að framleiða með einum eða öðrum hætti orkubera í stað olíueldsneytis yrði staða Íslands meðal þjóða heims einstök.
Á þessu sviði höfum við Íslendingar komið nokkuð við sögu. Fyrirtækið Íslensk NýOrka hefur á síðasta ári verið þátttakandi í rannsóknarverkefni á notkun vetnis í almenningsfarartækjum ásamt fleiri aðilum og félagið hefur einnig í hyggju að rannsaka notkun vetnis í skipum, en það verkefni er enn ekki komið á tilraunastig.

Í síðustu viku kom hingað til lands vetnisstöð er sjá mun þremur strætisvögnum fyrir eldsneyti í tilraunaverkefni Íslenskrar NýOrku hér á landi um tveggja ára skeið. Hinn 24. apríl verður vetnisstöðin formlega opnuð, en hún er fyrsta stöðin sem framleiðir vetni á staðnum fyrir almenna notkun með rafgreiningu vatns. Þetta verkefni hefur vakið gífurlegan áhuga á íslenskum orkumálum víða um heim og vekur þá ekki síst athygli meðal erlendra aðila á hvern hátt Íslendingar hafa staðið að því að draga úr olíunotkun sinni. Íslensk stjórnvöld hafa stutt heilshugar þær rannsóknir er fram fara á notkun vetnis sem orkubera hér á landi og stefna að því marki, þegar hagkvæmt þykir og tækniþróun leyfir, að nýta endurnýjanlegar orkulindir landsins til að framleiða vetni til notkunar á farartæki og skipaflota landsmanna í stað olíu.

Ágætu ársfundargestir.
Á síðasta ársfundi Orkustofnunar greindi ég frá því að ég hefði lagt það til við fjármálaráðherra að Orkustofnun yrði tilnefnd sem fyrirmyndarstofnun ríkisins fyrir árið 2002. Margar opinberar stofnanir fengu slíkar tilnefningar, en óháð nefnd sérfræðinga valdi Orkustofnun sem bestu opinberu stofnunina árið 2002. Þetta er að mínu mati verðug viðurkenning á stórmerku rannsóknarstarfi stofnunarinnar í 36 ár. Ekki síður er þetta viðurkenning til núverandi og fyrrverandi starfsmanna fyrir framúrskarandi störf að því markmiði okkar allra að efla og treysta hagsæld þjóðarinnar til framtíðar með aukinni nýtingu allra orkuauðlinda landsins.

Að lokum þetta:
Þetta er síðasti ársfundur Orkustofnunar sem rannsóknar- og stjórnsýslustofnunar. Tímarnir breytast, stofnanir líka og mennirnir með. Miklar breytingar eru fyrirsjáanlegar á sviði orkumála á næstu árum og hér í ræðu minni hef ég bent á ýmis sóknarfæri sem við þurfum að beina kröftum okkar að á næstu árum. Við verðum að horfa fram á við og stefna hátt við að bæta lífskjör okkar í framtíðinni. Ég veit ekki hvort það verði mitt hlutskipti að fylgja þeim málum eftir á næstu árum. Í mínum huga stendur þó efst þakklæti til ykkar starfsmanna allra fyrir frábært samstarf og óska ykkur farsældar í mikilvægu starfi ykkar í framtíðinni við að efla enn frekar velferð þjóðarinnar.

Ég þakka áheyrnina.
 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval