Ráðstefna Fræðslunets Suðurlands Hótel Örk 28. febrúar 2003.

3/3/03

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherraÁvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra á ráðstefnu Fræðslunets Suðurlands
"Uppbygging hátæknisamfélaga á landsbyggðinni - leið til nýsköpunar"
Hótel Örk, föstudaginn 28. febrúar 2003 kl 13:00

Fundarstjóri góðir fundarmenn.

Ég vil í upphafi máls míns þakka Fræðsluneti Suðurlands fyrir það ágæta framtak að efna til ráðstefnu um: Uppbyggingu hátæknisamfélaga á landsbyggðinni- leið til nýsköpunar" - og fyrir það að fá tækifæri til að ávarpa samkomuna.

Segja má að eitt af þeim verkefnum sem stöðugt eru til umfjöllunar í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytum sé samkeppnishæfni og endurnýjun atvinnulífisins á landsbyggðinni. Þetta er hið stóra mál sem starfsemi Byggðastofnunar snýst um og allir aðrir málefnaflokkar ráðuneytisins þurfa að taka tillit til.

Byggðastefna er liður í því hlutverki stjórnvalda að skipuleggja samfélagið og hafa jákvæð áhrif á þróun þess til heilla fyrir borgarana. Stjórnvöld bera þarna mikla ábyrgð. - Þeim ber að hlúa að menningu og menntun þjóðarinnar, gæta að skynsamlegri nýtingu náttúruauðlindanna og aðlögun byggðar og atvinnulífs að breytingum sem m.a. má rekja til aukinna krafna um lífsgæði, mikilla tækniframfara og breyttra sjónarmiða er varða viðskipti- og rekstur.

Nú liggur fyrir byggðastefna fyrir árin 2002- 2005 sem samþykkt var á Alþingi fyrir hart nær ári síðan. Byggðastefnan snýst um fólkið og hvernig hægt er að koma til móts við þarfir þess og væntingar um lífsskilyrði. Rannsóknir sýna að afstaða fólks til byggðarlaga og búsetu tekur mið af atvinnukostum, því sífellt eru gerðar meiri kröfur um fjölbreytni í starfsvali, aðgengi að góðri menntun auk ýmissa annarra þátta, tengdum þjónustu og umhverfi. Byggðastefnan þarf því að styrkja marga búsetuþætti í senn.

Ljóst er að hinar hefðbundnu stoðir atvinnulífsins, sjávarútvegur og landbúnaður munu ekki standa undir þörfum okkar og væntingum um atvinnu og framfærslu í framtíðinni. Auðvitað munu þær halda áfram að vera mikilvægir þættir í atvinnulífinu en nýjar greinar munu þurfa að bera uppi vöxtinn.

Nýjar atvinnugreinar verða að byggja á nýrri þekkingu sem ekki verður aflað án markvissrar og víðtækrar menntunar - og vissulega er þörf nokkurra viðhorfsbreytinga hjá bæði atvinnurekendum og launþegum. Það er af sem áður var að menntunar væri aflað í upphafi starfsævinnar, og dygði þar til henni lyki.

Í uppbyggingu atvinnulífsins á landsbyggðinni þurfum við í auknum mæli að horfa til nýrra fræðasviða sem skapað geta nýjan grunn fyrir atvinnuuppbygginguna. Líftæknin er vísindagrein sem hefur þróast í arðvænlegan iðnað. Líftækniiðnaðurinn byggir að stofni til á erfðaefni úr náttúrunni, t.d. úr sjó eða lífríki landbúnaðarins. Líftækniiðnaðurinn er t.d. svo tengdur landbúnaði að ég get auðveldlega séð fyrir mér að í framtíðinni rækti sunnlenskir bændur plöntur sem verði grunnefni fyrir líftækniiðnaðinn. Spurninguna um hvort slíkt ætti að teljast til landbúnaðar eða iðnaðar, eða hvar mörkin á milli þeirra liggja, verðum við að forðast en í stað þess að reyna að einbeita okkur að þeim samlegðaráhrifum sem samræmt rannsókna- og þróunarstarf getur leitt af sér.

Í ljósi þess að líftækniiðnaðurinn muni gegna veigamiklu hlutverki í framtíðinni - m.a. fyrir þá sem nú starfa í landbúnaði og við sjávarútveg tel ég vel koma til greina að iðnaðarráðuneytið komi að þróunarverkefnum á þessum sviðum í samvinnu við landbúnaðarráðuneytið, sjávarútvegsráðuneytið og menntamálaráðuneytið t.d. vegna háskólarannsókna, eða við stofnun seturs í auðlindalíftækni - svo dæmi séu tekin.

Ég geri þetta að umfjöllunarefni vegna þess að iðnaðarráðuneytið vill þjóna atvinnulífinu - án tillits til þess hvar hráefni þess er upprunnið. Jafnframt tel ég að árangur í byggðaþróuninni verði mestur við það að fleiri leggist á eitt við að ná markmiðunum sameiginlega. Ljóst er að mörg veigamikil verkefni í byggðamálum eru á verksviði annarra ráðuneyta en iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta. Til þess að ná tilætluðum árangri í uppbyggingu atvinnulífsins á landsbyggðinni hef ég því lagt áherslu á víðtækt samstarf við önnur ráðuneyti.

Ég hef áður minnst á mikilvægi menntunar á öllum skólastigum og einkum þó mikilvægi símenntunar, sem ég hef stundum nefnt - eitt af þungaviktarmálum atvinnuþróunarinnar. Það er því eðlilegt að iðnaðarráðuneytið leggist á sveif með menntamálaráðuneytinu til að efla símenntun á landsbyggðinni - eins og gengið var frá fyrr í þessari viku.

Ágætu fundarmenn.
Ég er sannfærð um að þrátt fyrir að atvinnulífið á landsbyggðinni hafi átt á brattann að sækja í allmörg ár þá séu margir sóknarmöguleikar í stöðunni. Þeir eiga það þó allir sameiginlegt að byggja á öðrum forsendum en áður. Nú er það mannvitið og ný þekking sem skiptir sköpum.

Það er ánægjulegt að vita að verulega hefur dregið úr fólksflutningum til höfuðborgarsvæðisins á síðustu árum. Landsmenn eru bjartsýnni en áður á efnahags- og atvinnuástand þjóðarinnar og hafa væntingar ekki verið jafn miklar frá því að Galup hóf að mæla væntingar manna fyrir 2 árum.
Tiltrú almennings á landsbyggðinni hefur aukist og er álitið að áhrifa gæti af átaki ríkis og sveitarfélaga til að örva efnahagslífið og draga úr atvinnuleysi.

Ég vil að lokum óska ykkur velfarnaðar í störfum ykkar hér í dag.

Takk fyrir áheyrnina.
 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval