Ávarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra í tilefni af formlegri opnun Akureyrarseturs Orkustofnunar.

28/2/03

Valgerðar Sverrisdóttur
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra,
í tilefni af formlegri opnun Akureyrarseturs Orkustofnunar,
27. febrúar 2003.


Mér er það ánægjuefni að ávarpa þessa samkomu sem haldin er vegna aukinna umsvifa einnar af helstu stofnunum iðnaðarráðuneytisins, Orkustofnunar, hér á Akureyri, sem raunar er verðlaunuð fyrirmyndarstofnun ríkisins árið 2002.

Orkustofnun þjónar lögum samkvæmt landinu öllu og viðfangsefni hennar eru vitaskuld dreifð um landið. Stofnunin steig skref í þá átt að færa reksturinn nær vettvangi rannsókna með því að stofna útibú frá Rannsóknasviði sínu fyrir fjórum árum. Í ársbyrjun 1999 var undirritaður rammasamningur milli Orkustofnunar og Háskólans á Akureyri um slíkt samstarf. Útibú Rannsóknasviðsins hefur sinnt þjónustu fyrir orkuiðnaðinn hér á Norðurlandi, einkum það fyrirtæki sem hér er til húsa, Norðurorku og ánægjulegt er að enn frekari útrás er áformuð hingað til Akureyrar. Hér á þessari samkomu verður undirritaður samstarfssamningur milli Vatnamælinga Orkustofnunar og Háskólans á Akureyri til merkis um það að á sviði vatnafarsrannsókna verður aukning á starfsemi hér norðanlands.

Umsvif Orkustofnunar í stjórnsýslu orkumála eru að aukast og samkvæmt frumvarpi til nýrra raforkulaga, og frumvarpi um Orkustofnun, mun hlutverk stofnunarinnar, sem þá verður einungis stjórnsýslustofnun, aukast mikið og verulegur hluti af þessum nýju verkefnum lýtur að orkumálum landsbyggðarinnar. Því fagna ég þeirri ákvörðun Orkustofnunar að færa aukinn þátt stjórnsýslu stofnunarinnar nær vettvangi, hingað til Akureyrar, sem er í raun tilefni þessarar samkomu okkar hér í dag. Hið tvíþætta setur Orkustofnunar hér á Akureyri verður fyrst um sinn til húsa hér á Rangárvöllum í sambýli við Norðurorku og ber að þakka fyrirtækinu og Akureyrarbæ fyrir að veita Orkustofnun þessa aðstöðu. Með tilkomu nýja Rannsóknarhússins við Háskólann er gert ráð fyrir að þessi starfsemi flytjist þangað. Útibú rannsóknasviðsins, hefur verið vistað hjá Háskólanum á Akureyri. Flutningur þess hingað merkir engan veginn að stofnunin sé að draga úr tengslum sínum við Háskólann; fyrrgreindur samningur hans við Vatnamælingar Orkustofnunar sýnir hið gagnstæða. Ef frumvarp um Íslenskar orkurannsóknir verður að lögum á núverandi þingi vænti ég þess að sú nýja stofnun muni erfa sinn hluta í samkomulaginu við Háskólann og samstarf þessara aðila muni eflast.

Og um leið og vatnamælingar eru nefndar vil ég fagna því sérstaklega að við þessa athöfn verður lögð fram skýrsla nefndar sem hefur hugað að möguleikum smávirkjana, bændavirkjana. Akureyrarsetur Orkustofnunar mun ljá því lið að þessir orkukostir fái verðuga umfjöllun og þjónustu sem lög og reglur kveða á um.

Ekki þarf að orðlengja mikilvægi þess að styrkja byggð í landinu og með byggðaáætlun, sem samþykkt var á Alþingi s.l. vor, er sérstök áhersla lögð á að efla Eyjafjarðarsvæðið. Takist það er viðbúið að lát verði á flutningi fólks til höfuðborgarsvæðisins og jafnvel beint til útlanda. Meðal þess sem stjórnvöld geta gert í þessu sambandi er að efla starfsemi í opinberri þjónustu og á sviði menntamála. Öll sjáum við sem dæmi árangurinn af starfrækslu Háskólans á Akureyri.

Að svo mæltu segi ég hið aukna og nýja Akureyrarsetur Orkustofnunar formlega opnað og óska starfsemi þess og starfsmönnum öllum alls hins besta í framtíðinni.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval