Eimskipafélag Íslands hf hlaut ICEPRO verðlaunin árið 2003 og er það í annað sinn.

24/2/03

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ræða á aðalfundi ICEPRO, 21. febrúar 2003
og afhending ICEPRO verðlaunanna.


Ágætu fundargestir

Það er með ánægjulegri þáttum sem fylgja embætti mínu að fá af og til að veita verðlaun fyrir vel unnin verk. Hér á vettvangi ICEPRO, samstarfs um rafræn viðskipti, hlotnast mér sú ánægja í annað sinn.

Íslensk fyrirtæki og stjórnsýsla hafa undanfarin ár sýnt svart á hvítu að þau standa framarlega í beitingu upplýsingatækni í alþjóðlegum samanburði. Við búum við tölvu- og fjarskiptatækni á við það sem best gerist.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hefur allar götur frá stofnun ICEPRO- nefndarinnar árið 1989 stutt það gagnmerka starf sem fram hefur farið á vegum hennar. Hefur framlag ICEPRO fallið vel að því markmiði ráðuneytisins að auka fjölbreytni og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Er litið á nefndina sem mikilvægan hlekk í því að skapa betri skilyrði og styrkja umgjörð rafrænna viðskipta auk þess að skapa tækifæri fyrir enn fleiri aðila að feta þá braut. Samstarf ólíkra greina atvinnulífsins - oft á tíðum samkeppnisaðila, um sameiginlegar umferðarreglur, bæði tæknilegar og lagalegar, er grundvallaratriði til að viðskiptin nái að þrífast.

Gott lagalegt umhverfi þessa viðskiptamáta skiptir miklu máli. Með samþykkt þriggja lagafrumvarpa sem viðskiptaráðuneytið vann að og lagt var fram á Alþingi, hafa viðskiptalífinu verið sköpuð sambærileg lagaleg skilyrði og nágrannalönd okkar í Evrópu búa við og þannig átt ríkan þátt í að gera rafræn viðskipti jafn trygg og svo kölluð hefðbundin viðskipti. Þetta eru lög um rafrænar undirskriftir frá árinu 2001 en á síðasta ári voru tvenn ný lög til viðbótar samþykkt en það eru lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu og lög um rafeyrisfyrirtæki.

Einnig vil ég nefna á þessum vettvangi að við í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytunum höfum ákveðið að stuðla enn frekar að innleiðingu rafrænna viðskiptahátta með því að koma að tveimur stórum verkefnum á þessu sviði. Í fyrsta lagi höfum við ákveðið að hrinda í framkvæmd reynsluverkefni er nefnist rafrænt samfélag. Reynsluverkefnið gengur út á það að tvö byggðalög á starfssvæði Byggðastofnunar verði valin í kjölfar samkeppni til að þróa og prófa aðferðir sem aðrir geta tekið sem fyrirmyndarlausnir við eflingu atvinnulífsins, til að bæta menntun og menningu og efla lýðræðið, svo nokkuð sé nefnt. Markmiðið með verkefninu er að skapa aðstæður á landsbyggðinni svo íbúarnir geti til fullnustu nýtt sér þann ávinning sem upplýsinga- og fjarskipatæknin býður upp á.

Nú þegar hefur verið auglýst eftir umsóknum í forval og verður umsóknarfrestur til 4. mars. Sérstök valnefnd mun yfirfara umsóknir og velja 4-8 umsóknir til frekari skoðunar. Í júnímánuði verður síðan tilkynnt hvaða 2-4 byggðarlög verða valin. Þar með hefst hinn eiginlegi verkefnistími sem á að ljúka í júní 2006.

Í öðru lagi hefur ráðuneytið tekið frumkvæði með stuðningi sínum við verkefni um tilraunasamfélög fyrir rafræn viðskipti, sem verður kynnt nánar síðar á þessum fundi. Það verkefni felur í sér að fimm lönd gerast tilraunasamfélög fyrir rafræn viðskipti í Evrópu. Tilgangurinn er að til verði efnahagssamfélög sem geti þjónað sem rafræn viðskiptalíkön fyrir önnur lönd. Þar með náist fyrr þau markmið að fyrirtæki nýti sér rafræna tækni til að auka viðskipti innan landa og milli landa. Forystuland þarf að uppfylla tiltekin skilyrði sem talin eru forsenda farsællar þróunar slíkra viðskipta. Færð hafa verið fyrir því rök að Ísland uppfylli öll þau skilyrði að teljast forystuland. Ákveðið hefur verið að sækja um í sjöttu rammaáætlun ESB vegna verkefnisins. Umsóknarfrestur er til 24. apríl næstkomandi. Ástæða er til að nefna að Staðlaráð og FUT hafa unnið að framgangi þessa máls og eiga þau þakkir skyldar fyrir það.

Afhending ICEPRO-verðlaunanna.

Góðir fundarmenn! Eins og ég sagði áðan er það mér mikil ánægja að fá að afhenda ICEPRO-verðlaunin hér í dag.

Ég mun nú lesa úrskurð dómnefndar ICEPRO, en hana skipa:

Karl F. Garðarsson, formaður ICEPRO og forstöðumaður stjórnsýslusviðs embættis tollstjórans í Reykjavík,
Júlíus S. Ólafsson, forstjóri Ríkiskaupa og
Birgir Ármannsson, starfandi framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands.


"Það er tillaga dómnefndar að Eimskipafélag Íslands hf. skuli hljóta ICEPRO verðlaunin árið 2003 og er það í annað sinn. Ákvörðun dómnefndar grundvallast á því að Eimskip hafa enn sýnt að mikill metnaður er lagður í stefnu og útfærslu í upplýsingatæknimálum og rafrænum viðskiptum fyrirtækisins, þar sem viðurkenndir staðlar og samræmdar viðmiðanir eru lagðar til grundvallar. Auk þess sem vel er staðið að framkvæmd rótgróinna samskiptalausna á borð við EDI eða skjalasendingar milli tölva, hefur félagið einnig stigið markverð skref í þá átt að byggja upp rafræn viðskipti á Internetinu, bæði innanlands- og utan á grunni opinna og staðlaðra lausna."

Ég vil biðja fulltrúa Eimskipafélagsins að koma hér upp og veita verðlaununum viðtöku.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval