Vegaframkvæmdir að Kárahnjúkastíflu og brú yfir Jöklu.

6/12/02

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp við verklok vegaframkvæmda að Kárahnjúkastíflu og
brú yfir Jöklu, 5. desember 2002.

Ágætu samkomugestir.

Ég vil fyrir hönd iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar bjóða ykkur öll velkomin til þessarar ánægjulegu móttöku hér í Végarði.

Við erum hér saman komin í dag til að fagna þeim merka áfanga við undirbúning Kárahnjúkavirkjunar, að framkvæmdum við veg að Kárahnjúkastíflu og brú yfir Jöklu er nú lokið. Þessi áfangi er ef til vill ekki stór þegar verkefnið í heild er haft í huga, en minnumst þess að merkustu áfangar eru ekki alltaf stærstu skrefin sem stigin eru, heldur þeir er byggja grunninn að verkinu, sem framundan er.

Brúarsaga Jöklu er mjög merkileg og er fyrsta brúarmannvirki árinnar náttúrusmíð, en sagnir herma að til forna hafi verið náttúrulegur steinbogi á ánni hjá bænum Brú og þaðan sé komið nafnið á ánni og bænum. Sagt er að þessi steinbogi hafi hrunið snemma á 16. öld og skömmu síðar hafi þýskir kaupmenn gefið efni til að reisa þar nýja brú. Búna tók af í jökulhlaupi 1625, að því er talið hefur verið, en hefur margoft síðan verið endurbyggð.
Margar aðrar brýr hafa síðan verið reistar yfir Jöklu á öðrum stöðum og er sú brú sem nú hefur verið byggð sjötta brúin yfir ána. Ókunnuga kann að undra það að svo margar brýr skuli hafa verið nauðsynlegt að reisa yfir ána samanborið við aðrar ár hér á landi. Þegar haft er í huga að áin er eitt lengsta og mesta vatnsfall landsins og ávallt verið mikill farartálmi í ferðum milli Norður- og Austurlands, auk þess sem hún hefur klofið sveitarfélagið að endilöngu, er engin furða þó svo að menn hafi á síðustu öldum séð sér hag í því að brúa ána til að tengja saman sveitirnar norðan og sunnan árinnar, enda er hún víða auðbrúuð ofantil.

Að byggja brú er að tengja saman lönd sitt hvoru megin árinnar. Mannvirkjagerðin sem slík hefur litla þýðingu, það sem hefur þýðingu eru þau mannlegu tengsl er hún hefur í för með sér, að brúa vík á milli vina. Þeir möguleikar er mannvirkið hefur í för með sér fyrir fólkið á nærliggjandi svæðum til að efla lífsafkomu þeirra og störf er í raun ávallt tilgangurinn með því að ráðast í framkvæmdir. Þetta þekkja Jökuldælingar og Héraðsmenn best allra hér á landi. Með vígslu Kárahnjúkavegar og brúar við Kárahnjúka höfum við stigið stórt skref til þess að efla og styrkja alla innviði samfélags á Austfjörðum og þjóðarinnar allrar um langa framtíð.
Við vígslu brúa hér á landi hafa skáld oft flutt hátíðarljóð í tilefni slíkra athafna. Eitt ljóð ber þó af að mínu mati og langar mig í lokin að hafa eftir eitt erindi Hannesar Hafstein, þáverandi fulltrúa Landshöfðingja, er hann orti í tilefni vígslu brúarinnar yfir Ölfusá árið 1891 og lýsir vel hvílíkar vonir menn bundu við gerð slíkra mannvirkja:

Vakni von og kvikni
varmur neisti} í barmi,
vilji, von og elja
vinnu saman inni.
Þá mun hefjast brú til betri tíða,
brú til vonarlanda okkar lýða,
brú til frelsis, brú til mennta hæða,
brú til mannfélagsins æðstu gæða.

Þessi orð okkar ástsæla skálds og fyrsta ráðherra Íslands eiga hér við í dag. Við erum að stíga það skref er skáldið segir, að byggja brú til mannfélagsins æðstu gæða með því starfi er hér hefur verið unnið, og mun verða unnið til að búa í haginn fyrir bættum hag allra þegna landsins.

Það verk er þið hafið innt af hendi, hönnuðir, verktakar og starfsmenn allir, hefur verið unnið af elju og dugnaði. Vil ég óska ykkur til hamingju.

Vil ég leyfa mér að lyfta glasi mínu ykkur öllum til heiðurs og óska ykkur enn og aftur til hamingju með vel unnin verk.

Ykkar skál.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval