Kjördæmisþing framsóknarmanna í norð-austur kjördæmi.

21/10/02

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.


Ávarp á kjördæmisþingi framsóknarmanna
í norð-austur kjördæmi,
haldið á Egilsstöðum 18.-19. október 2002


Þingforseti, ágætu fulltrúar og gestir.

"Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi. Framsóknarstefnan setur manninn og velferð hans í öndvegi".

Þetta er grundvöllur að stefnu Framsóknarflokksins og gerir það að verkum að við erum hér samankomin í kvöld. Við höfum valið að starfa innan Framsóknarflokksins og taka á þann hátt þátt í starfi, sem sérhvert lýðræðisþjóðfélag byggir grundvöll sinn á. Fólk með svipaða lífssýn og svipaðar hugmyndir að lausn mála skipar sér í hóp og berst fyrir umbótum á samfélaginu, berst fyrir velferð fólksins, berst fyrir öryggi borgaranna og svona mætti lengi telja.

Við skulum hafa það í huga að Framsóknarflokkurinn er okkar tæki til þess að hafa áhrif, og Framsóknarflokkurinn hefur svo sannarlega haft áhrif. Hann er elsti flokkurinn í flóru stjórnmálaflokka á Íslandi. Hann er vissulega kominn nokkuð til ára sinna, 85 ára gamall. Þegar farið er yfir sögu flokksins er augljóst, að alltaf þegar stór framfaramál hafa komið upp í landinu okkar þá hefur Framsóknarflokkurinn verið skammt undan. Í því sambandi má nefna landhelgismálið, aðildina að Atlandshafsbandalaginu, stórfenglega uppbyggingu í sjávarútvegi og þar með landsbyggðarinnar, og ég nefni einnig EES-samninginn. Framsóknarflokkurinn fór með forystu í ríkisstjórn þegar línur voru lagðar í upphafi um að Efta þjóðirnar og Evrópubandalagið mynduðu samstarf um samning á sviði frelsis í viðskiptum og fólksflutningum innan Evrópu, sem kallaður hefur verið EES-samningur. Þessi samningur hefur haft mikil og jákvæð áhrif á þróun mála á síðustu árum og þó svo að umræðan á Alþingi hafi tekið 100 klukkustundir á sínum tíma og ótrúlegar fullyrðingar hafi verið látnar falla um neikvæð áhrif samningsins. Í dag heldur enginn því fram að Ísland hefði átt að standa utan við þetta samstarf. Því er miklu frekar haldið fram að samningurinn sé svo góður að hann fullnægi okkar kröfum um samskipti við Evrópu og því sé allt hjal um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu óþarft og óraunhæft. Svona geta hlutirnir breyst á grundvelli reynslu og þekkingar og þannig mun það verða áfram.

Í breyttu samfélagi hefur markaðurinn mikil völd. Verðlag er frjálst, samkeppni á að halda verðlagi í skefjum og eins og frægt er þá er ólöglegt að hafa samráð um verðlagningu á milli fyrirtækja.
Sjórnvöld hafa allt annað og minna hlutverk í viðskiptum en áður var. Þetta hefur að sjálfsögðu gerst í áföngum.
Fyrir fáum áratugum þurfti samþykkt stjórnvalda fyrir hvers konar viðskiptum við útlönd, leyfi þurfti til gjaldeyrisyfirfærslu en nú eru gjaldeyrisviðskipti frjáls með öllu.
En það sem getur gert hluti tortryggilega í þessu nýja kerfi er að það er leyfilegt að vera ríkur, þ.e.a.s. ef menn auðgast á grundvelli heiðarlegra viðskipta. Hið nýja hagkerfi er að verulegu leyti drifið áfram með framtaki einstaklingsins og þeir sem standa sig vel og eru jafnvel heppnir, þeir auðgast.
Fyrirtæki eru skráð í Kauphöll, á markaði og viðskiptin eiga sér stað án aðkomu stjórnvalda og án aðkomu eigenda. Fólkið í þorpinu veit ekki hver á útgerðarfélagið á morgun.
Hvar er gamla góða öryggið á blómaskeiði kaupfélaganna. En var það öryggi? Það sýndi sig í mörgum þorpum og bæjum að kaupfélagið var ekki það öryggi sem álitið var. Kröfurnar til kaupfélagsins voru miklar. Það voru félagslegar kröfur en samt átti kaupfélagið að standa sig í samkeppni við þann aðila, sem enginn gerði félagslegar kröfur til. Enda gerðist það sem búast mátti við. Fólkið hætti að versla í kaupfélaginu af því að það mat það svo að kaupin gerðust betri á hinni eyrinni. Fólkinu fækkaði m.a. vegna breyttra búskaparhátta og breytinga í stjórnun fiskveiða.
Þegar á allt er litið er þetta fyrst og fremst þróun. Allt snýst þetta núorðið um að standa sig í samkeppni. Ekki bara samkeppni á milli íslenskra aðila í viðskiptum heldur það að standa sig í samkeppni við útlönd á frjálsum innri markaði Evrópu, sem við erum hluti af og þess má geta að fyrir viku síðan sat ég ráðstefnu Evrópusambandsins – EES um samkeppnishæfni Evrópu gagnvart Ameríku. Evrópusambandið virðist gera sér grein fyrir því að frelsið kemur illa við veikari svæði, jaðarsvæði. Þess vegna er rekin öflug byggðastefna innan Evrópusambandsins. Sú stefna er farin að þrýsta á Norðmenn að huga að aðild vegna stöðunnar í Svíþjóð og Finnlandi, samt verja Norðmenn miklum fjármunum til byggðamála. Stefna ESB í byggðamálum er staðfesting á því að það markaðskerfi sem ríkir á innri markaði Evrópu skekkir samkeppnisstöðuna og því þarf að beita aðgerðum til þess að sporna við byggðaröskun.

Þessar aðgerðir köllum við byggðaaðgerðir eða byggðastefnu.
Stefna ríkisstjórnar Íslands í byggðamálum kemur skýrt fram í þingsályktun um stefnu í byggðamálum sem samþykkt var á Alþingi síðastliðið vor. Eitt meginmarkmið þeirrar stefnu er að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni með því m.a. að efla þau byggðarlög sem eru fjölmennust, hafa mest aðdráttarafl fyrir fólk og besta möguleika til uppbyggingar atvinnulífs, skóla, menningarlífs og opinberrar þjónustu. Forsendur þessarar stefnu eru flestum ljósar. Þær eru vaxandi kröfur almennings um fjölbreyttari atvinnukosti, þjónustu og betri lífskjör. Sömu þróun má greina á Norðurlöndum og víða í Evrópu. Fólk sækist eftir að búa í eða í nágrenni við stærri þéttbýlissvæði þar sem fleiri atvinnutækifæri og fjölbreyttari þjónustu er að finna. Því fjölmennari, öflugri og fjölbreyttari sem byggðarlög eru því meira aðdráttarafl hafa þau fyrir fólk og atvinnulíf. Stefna stjórnvalda í byggðamálum hlýtur að taka mið af þessari staðreynd.
Ástæða er til að leggja áherslu á að efling stærstu þéttbýlisstaðanna á landsbyggðinni er ekki á kostnað minni og dreifbýlli svæða umhverfis þá. Þvert á móti. Með greiðum og sífellt betri samgöngum auka sterkir byggðakjarnar möguleika íbúanna í dreifðari byggðum til að búa þar áfram. Vegna bættra samgangna geta íbúar á mjög stóru landsvæði haft beinan hag af uppbyggingu stærstu þéttbýlisstaðanna á landsbyggðinni. Öflugir byggðakjarnar gefa jafnframt fólki sem nauðsynlega þarf að flytja um set, svo sem vegna skólagöngu eða öldrunar, aukið færi á að búa áfram í sínum landshluta og í nágrenni við fjölskyldu sína og heimabyggð.
Í samræmi við áðurnefnd markmið er gerð um það sérstök tillaga í núgildandi byggðaáætlun að ríkið og sveitarfélögin vinni saman að gerð byggðaáætlunar fyrir Eyjafjörð. Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið eru öflugasta þéttbýlissvæðið utan höfuðborgarsvæðisins og vel í sveit sett til að þjóna sem miðstöð atvinnulífs og þjónustu á Norður- og Austurlandi. Gerð byggðaáætlunar fyrir Eyjafjarðarsvæðið verður að vissu leyti tilraun sem ekki hefur áður verið reynd hér á landi. Verði reynslan af henni góð er ekkert því til fyrirstöðu að sambærilegar áætlanir verði unnar fyrir önnur svæði á landinu, svo sem Austurland.
Eitt af því sem ákveðið var með nýrri byggðaáætlun var að setja 1 milljarð króna í nýsköpun atvinnulífs á landsbyggðinni. Öllum er ljóst að landbúnaður í hefðbundinni mynd fjölgar ekki störfum og sama er að segja um sjávarútveginn. Það fjármagn sem hér um ræðir getur því skipt sköpum við það að gera atvinnulífið fjölbreyttara. Ég bind t.d. miklar vonir við líftækni, bæði á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs.

Góðir þingfulltrúar,
Það sem alltaf hefur einkennt stefnu Framsóknarflokksins og aðgerðir er áhuginn á atvinnulífinu og sá skilningur flokksmanna að sterkt atvinnulíf sé undirstaða þess að hægt sé að reka öflugt velferðarkerfi þar sem þeir sem minna hafa handa á milli geti tekið fullan þátt í samfélaginu og að fólk þurfi ekki að líða skort. Þetta er sá skilningur sem við framsóknarmenn leggjum í það að vera félagshyggjumaður. Það þýðir ekki að vera sósíalisti eins og ýmsir hafa viljað meina nú á seinni árum, það þýðir að láta sig varða um náungann, um velferð hans og félagslegar aðstæður.


Þessi sjónarmið hafa verið í hávegum höfð í þeim ríkisstjórnum, sem Framsóknarflokkurinn hefur átt aðild að á síðustu tveimur kjörtímabilum.
Hvernig var það sem okkur tókst að fá hjólin til að snúast á nýjan leik eftir stöðnun á fyrri hluta 10. áratugarins. Það var þegar ákveðið var að stækka álverið í Straumsvík og byggja nýtt álver á Grundartanga. Það ríkti svo sannarlega engin samstaða um framkvæmdir Norðuráls í upphafi þó svo að nú vilji allir Lilju kveðið hafa. Þáverandi iðnaðarráðherra Finni Ingólfssyni voru afhent mótmæli undir lögregluvernd á Arnarhóli, svo að eitthvað sé nefnt.

Og enn á ný eru það stóriðjuframkvæmdir sem að öllum líkindum munu skipta sköpum um vöxt í íslensku efnahagslífi.

Það er náttúrlega alveg ótrúlegt, að við séum búin að ræsa tækin og að framkvæmdir skuli vera hafnar við Kárahnjúka við virkjanaframkvæmdir á jökulánum sem Austfirðingar hafa svo lengi beðið eftir að verði beislaðar í þágu atvinnulífs í fjórðungnum. Við erum u.þ.b. að þora að fagna sigri en við skulum þó ekki gera það fyrr en ákvörðun liggur fyrir. Allt bendir til þess að við getum staðið við að gefa svar við stóru spurningunni um álver í Reyðarfirði í janúar n.k.

Þá eru umræður í gangi um mögulega uppbyggingu súrálsverksmiðju og álvers í tengslum við háhitasvæðið á Þeistareykjum. Það er fyrirtækið Atlantsál sem þar á í hlut. Það mál er á frumstigi, en er þó komið í ákveðinn farveg í samstarfi við stjórnvöld.

En það er fleira gott að gerast. Auk þess sem rekstur sjávarútvegsfyrirtækjanna gengur vel, er fiskeldið að ryðja sér til rúms á nýjan leik. Það er ástæða til að rifja upp að framsóknarmenn á Alþingi, í ríkisstjórn og utan ríkisstjórnar áttu ekki litla aðkomu að því að koma þessari atvinnugrein aftur á legg. Stjórnarandstöðuflokkarnir kepptu um að taka málið upp utan dagskrár og spöruðu ekki stóru orðin í árásum sínum á Framsóknarflokkinn. En gamla Framsókn gefst ekki upp og lætur ekki slá sig út af laginu.

Það er mikilvægt að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum. Þannig skapast skilyrði fyrir aukinn hagvöxt. Ríkissjóður hefur verið rekinn með afgangi uppá 32 milljarða á síðustu 3 árum. Þrátt fyrir að aðhalds hefur verið gætt, hefur velferðarkerfið verið styrkt með stórauknum framlögum til heilbrigðismála, sem nemur um 10% á ári hverju, dregið hefur verið úr tekjutengingu barnabóta, ný og metnaðarfull löggjöf um fæðingarorlof hefur verið samþykkt og hagur aldraðra og öryrkja sem lægstar tekjur hafa, hefur verið bættur og verður bættur frekar á þessum vetri.
Breytingar hafa verið gerðar á skattalöggjöfinni þannig að tekjuskattur einstaklinga hefur lækkað og skattar fyrirtækja hafa lækkað úr 30% í 18%.
Það sem hinsvegar skyggir nokkuð á, er að hagvöxtur verður enginn í ár, en hefur verið á milli 4 – 5% á síðustu árum.

Það sem eru þó líklega mestu tíðindin er að útflutningur hefur orðið meiri en áður, sem þýðir það að viðskipti við útlönd verða í jafnvægi í fyrsta sinn síðan 1996. Fyrir aðeins 2 árum var hann óhagstæður um tæpa 40 milljarða. Allt þetta sýnir að ríkisstjórnin heldur vel á málum hvað varðar allar undirstöður. Þær virkjana- og stóriðjuframkvæmdir, sem framundan eru, eru nauðsynlegar til þess að auka hagvöxt í þjóðfélaginu á nýjan leik. Þetta sjá allir sem vilja sjá samhengi hlutanna og vita að það þarf framleiðslu og öflugt atvinnulíf til þess að aðrir þættir geti bori sig. Þar á ég við hugbúnaðargeirann og aðrar þjónustugreinar. Það var ánægjulegt að heyra einn mesta framámann á sviði hugbúnaðar segja nýlega þegar hann fagnaði 15 ára afmæli fyrirtækisins, að án öflugs atvinnulífs gætu hugbúnaðarfyrirtæki ekki þróast og eflst. Þetta segir okkur að fullyrðingar andstæðinga okkar sem ganga út á það að hátæknin og hugbúnaður geti komið í staðinn fyrir stóriðju og virkjanir eru rangar. Það er ekki annað hvort eða. Það er bæði og.

Kæru félagar,

Ég hef hér farið yfir ýmis mál, sem eru mér ofarlega í huga og snerta mig sem stjórnmálamann og væntanlegan frambjóðanda í NA-kjördæmi. Verkefnin í stjórnmálum eru óþrjótandi og okkur hættir stundum til að gleyma okkur í umræðum um það sem kallar að þá stundina. Málefnin sem næst okkur eru í tíma virðast oft stærri og mikilvægari, en þau sem lengra eru inni í framtíðinni. En við vitum líka að til að hafa sæmilega stjórn á lífi okkar, þurfum við að vita hvert við viljum stefna og hvaða skref nauðsynlegt er að stíga til að ná markmiðum okkar. Við þurfum sífellt að velta því fyrir okkur hvernig samfélagi við viljum búa í og hvernig við getum gert það samfélag að veruleika. Beislun jökulvatnanna hér til atvinnuuppbyggingar á Austurlandi er mál sem lengi hefur verið í undirbúningi. Við framsóknarmenn höfum lengi vitað hvert við vildum stefna í því máli.
Það var einu sinni sagt: "Þar sem er skipulag, þar er skynsemi. Þar sem er skynsemi þar er tilgangur. Þar sem er tilgangur þar er von."
Við höfum unnið að stóriðjumálunum hér á Austurlandi með skipulegum hætti. Ég trúi því að það sem var von fyrir nokkru síðan, verði árangur og raunveruleiki.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval