Ráðstefna um áhrif breyttrar kjördæmaskipunar á hlut kvenna á Alþingi.

1/10/02

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.


Það mun skila sér.
Ávarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra á ráðstefnu um
breytta kjördæmaskipan.


Það umfjöllunarefni, sem hér er reifað var að sjálfsögðu nokkuð rætt í þeirri nefnd sem vann tillögur að breyttri kjördæmaskipan.
Ég sat í nefndinni, sem fulltrúi þingflokks Framsóknarmanna. Leitast var við að fjalla faglega um málið og voru vísindamenn kallaðir til. Farið var yfir reynslu annarra þjóða. Dregnir voru fram alþjóðlegir sáttmálar og samningar þar sem fjallað er um réttindi kvenna. Það var einnig fjallað um skyldur ríkisins. Það er nefnilega ekki nóg að tryggja formlegan rétt manna til að vera kjörnir með því að veita borgurum "formlegan kjörgengisrétt" með tilteknum skilyrðum eins og aldri og búsetu. Aðildarríkjum sérstaks alþjóðasamnings frá 1953, sem ætlað var að tryggja stjórnmálaréttindi kvenna, ber að grípa til ákveðinna aðgerða til að tryggja þennan rétt. Með alþjóðasamningi um afnám alls misréttis gagnvart konum frá 1979, skuldbundu aðildarríki samningsins sig til að grípa til ráðstafana til að konur nytu í raun mannréttinda sinna.

Hér á landi hefur það ekki gerst af sjálfu sér að staðan er orðin sú á Alþingi að við getum nokkurn veginn kinnroðalaust mætt fulltrúum annarra þjóðþinga og fundist við vera þjóð á meðal þjóða. Þar hafði kvennalistinn mikil áhrif á sínum tíma. Ég vil einnig nefna að þær konur sem setið hafa á Alþingi fyrir hönd hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka og þannig rutt brautina hafa líka haft mikil áhrif.
Á 122. löggjafarþingi var samþykkt þingsályktunartillaga, þar sem kveðið var á um átak af hálfu stjórnvalda til þess að fjölga konum í stjórnmálum. Fyrsti flutningsmaður var Siv Friðleifdóttir, en flutningsmenn voru úr öllum stjórnmálaflokkum, sem fulltrúa áttu á Alþingi. Nefndin skyldi starfa í 5 ár og hafa heimild til að ráða sér verkefnisstjóra. Það var nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum. Starfið er nú á 4. ári og mikilvægt að fjármagn fáist á næsta ári til þess að ljúka verkinu, þ.e.a.s. að svo miklu leyti, sem þessu verki verður lokið í eitt skipti fyrir öll, sem er að sjálfsögðu ekki raunin. Því baráttan heldur áfram.
Ég er ekki í nokkrum vafa um það að þessi ráðstöfun hefur haft jákvæðar afleiðingar. Eitthvað var um að auglýsingar sem birtar voru af hálfu nefndarinnar vektu hneykslan, eða a.m.k. umtal, en til þess var leikurinn gerður.

Kem ég nú að umfjöllunarefninu, sem hér er fyrst og fremst til umræðu , þ.e.a.s. áhrif breyttrar kjördæmaskipunar á hlut kvenna á Alþingi.
Ég kaus að hafa látlausa yfirskrift á erindi mínu. Einfaldlega: Það mun skila sér. Í þessum orðum felst þó fullyrðing þess efnis að breytingin muni skila fleiri konum inn á þing. Nú get ég ekki vitnað til afgerandi niðurstöðu vísindamanna þegar ég segi þetta heldur er afstaða mín fyrst og fremst byggð á reynslu minni af afskiptum af stjórnmálum í 30 ár, verandi íbúi í landsbyggðarkjördæmi og þingmaður.
Í niðurstöðu nefndarinnar, segir að þær breytingar á kjördæmaskipun og kosningakerfi, sem hún gerði tillögur um, skapi ekki síðri skilyrði fyrir stjórnmálaþátttöku kvenna en nú eru. Þarna var ekki kveðið mjög sterkt að orði, en engu að síður nefndin var sammála um það að ástandið myndi ekki versna.

Það sem gerir það að verkum að ég tel að kjördæmabreytingin muni skila sér í aukinni þátttöku kvenna er fyrst og fremst það, að fleiri einstaklingar verða að jafnaði kjörnir af hverjum lista sem fulltrúar á Alþingi. Reynslan segir okkur að í tveimur minnstu kjördæmunum, þ.e.a.s. Norðurlandi vestra og Vestfjörðum, hefur ekki verið kjörin kona á þing. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir var flakkari og því uppbótarþingmaður og Sigríður Ingvarsdóttir kemur inn sem varaþingmaður þegar aðalmaður lætur af þingstörfum. Fram undir þetta hefur það verið undantekningartilfelli ef konur hafa leitt lista í kjördæmum. Það gefur auga leið að listi, sem gerir sér vonir um að fá meira en tvo fulltrúa kjörna mun veigra sér við að stilla upp körlum í 3 sæti í röð og hvað þá fleiri. Ég veit þó að núna við fyrstu uppröðun í nýrri skipan, eru margir um hituna og eflaust eigum við eftir að sjá einlita lista hvað kynferði varðar, en þegar frá líður mun þetta breytast.

Það sem skiptir mestu máli er að það sé raunverulegur pólitískur vilji í stjórnmálaflokkunum að auka hlut kvenna. Aðferðin sem t.d. er beitt í Bangladesh er ekki áhugaverð þótt hún vissulega skili konum inn á þing. Aðferðin er sú að 30 sætum af 330 er úthlutað fyrir konur með sérstakri kosningu þingsins. Þá þekkist einnig sú aðferð að konur séu meðhöndlaðar sem minnihlutahópar og fái sérstaka meðhöndlun sem slíkar, sem gefur þeim ákveðið vægi. Þannig aðferð verður ekki héreftir tekin upp á Íslandi, svo slæmt er ástandið ekki. Í því felist ákveðin gengisfelling.
Það er hinn raunverulegi pólitíski vilji stjórnmálaflokkanna, sem skiptir mestu máli.

Það er óhætt að segja að Framsóknarflokkurinn hafi tekið bærilega við sér í jafnréttismálum. Þegar ég settist á þing 1987 hafði ekki kona setið í þingflokknum í yfir 30 ár. Síðan hefur þetta allt saman verið frekar upp á við og um tíma var fullt jafnrétti í ráðherraliðinu, 3 konur og 3 karlar, sem síðan breyttist við það að Ingibjörg Pálmadóttir hætti sem ráðherra.
Við höfum unnið samkvæmt jafnréttisáætlun síðan 1996, en þá samþykkti flokksþing að hlutur kvenna og karla skyldi aldrei vera lakari en 40% í starfi á vegum flokksins. Framsóknarflokkurinn var fyrstur flokka til þess að koma fram með ítarlega jafnréttisáætlun, sem felur í sér vel skilgreind markmið og leiðir til að ná þeim.

Ég vil að síðustu nefna þann gríðarlega mun sem ég tel vera á því að gegna þingstörfum sem landsbyggðarþingmaður og þingmaður hér á höfuðborgarsvæðinu. Vegna þess hversu störf á Alþingi eru tímafrek og fundir langir er ekki um annað að ræða fyrir þingmenn af landsbyggðinni en að flytja til Reykjavíkur með börn og buru yfir vetrartímann. Vegna þess að við eigum enn nokkuð í land með það að jafnrétti ríki á milli karla og kvenna hefur það verið dálítið snúið þó ekki sé nú meira sagt að fá konur af landsbyggðinni í pólitík. Það eru nefnilega ekki allir karlar tilbúnir í að elta kerlu sína til höfuðborgarinnar þó svo að hún fái þá hugmynd að fara í pólitík.
Ég vil þó fullyrða það að þetta er að breytast og svona vandkvæði munu heyra sögunni til. Spurningin er bara hversu langan tíma það mun taka og ég segi aftur: baráttan heldur áfram.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að konur séu virkar í stjórnmálum. Þær þurfa að ná ákveðnu hlutfalli í hópi til þess að njóta sín og til þess að þær hafi áhrif. Mér er minnisstætt ráð, sem f.v. formaður míns flokks gaf okkur ungu konunum, sem vorum að berjast fyrir bættri stöðu í flokknum fyrir mörgum árum síðan. Þetta var Eysteinn Jónsson. Hann sagði að við mættum ekki sitja saman í hóp heldur ættum við að dreifa okkur þegar við sætum fundi á vegum flokksins. Þannig hefðum við meiri áhrif. Mér hafa oft komið í hug þessi orð aldraðs stjórnmálaforingja, sem gerði sér grein fyrir því að flokkurinn ætti ekki framtíð án þess að þar störfuðu konur jafnt sem karlar.

Það hefur vissulega margt færst til betri vegar þegar við skoðum stöðu kvenna í stjórnmálum á Íslandi.

Ég segi í 3ja sinn. Baráttan heldur áfram.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval