Ráðherra heimsækir nemendur Viðskiptaháskólans á Bifröst.

27/9/02

Valgerður Sverrisdóttir
viðskiptaráðherra.


Ræða á fundi með nemendum Viðskiptaháskólans á Bifröst,
26. september 2002.

Góðir nemendur, kennarar og aðrir gestir. Mér er það ætíð mikið ánægjuefni að koma hér á þennan fallega stað. Ég á ljúfar minningar frá Bifröst þó að aldrei hafi ég setið hér á skólabekk. Ég fékk hins vegar tækifæri til að sitja í skólanefnd Samvinnuháskólans á skemmtilegum uppbyggingartíma í lífi hins unga háskóla á fyrri hluta síðasta áratugar. Það fór mikill tími í að aðlaga hinn nýja skóla að nýjum tímum í menntamálum og breyttum viðskiptaháttum í atvinnulífinu. Sú breyting hefur tekist afar vel og skilað góðu fólki með ferskar hugmyndir inn í atvinnulífið.

Ég ætla að gera fjármálamarkaðinn að umtalsefni hér í dag, lagaumhverfi hans og hlutverk ríkisins. Fjármálamarkaðurinn er dæmi um grein sem hefur blómstrað á undanförnum árum. Í raun má halda því fram að hagvöxtur síðustu ára hefði orðið mun minni ef breytingar á fjármagnsmarkaðnum hefðu ekki verið jafn örar og raun ber vitni. Það eru ekki einungis skipulagsbreytingar á fjármálamarkaðnum sem leitt hafa til þessa árangurs heldur ekki síður frumkvæði og nýjungar sem fylgt hafa hinni auknu samkeppni á markaðnum. Ungt og vel menntað fólk haslar sér völl í þessari atvinnugrein í síauknum mæli. Fólk sem menntað hefur sig í hinum ýmsu greinum erlendis finnur störf við sitt hæfi á íslenskum fjármálamarkaði. Þetta fólk skapar verðmæti með nýjum hugmyndum og ferskir vindar leika í kjölfarið um íslenskt atvinnulíf. Hinn einsleiti og niðurnjörvaði fjármálamarkaður heyrir því sögunni til og í staðinn hafa komið þekkingarfyrirtæki fólks með fjölbreyttan bakgrunn.
Frá því að Ísland gerðist aðili að samningnum um evrópska efnahagssvæðið hafa átt sér stað miklar breytingar á íslenskum fjármálamarkaði. Þar má nefna:

- Afnám síðustu gjaldeyrishafta. Þar með tengdist íslenskur fjármálamarkaður erlendum mörkuðum traustari böndum en áður.
- Hlutafélagavæðing ríkisviðskiptabanka, sameining fjárfestingarlánasjóða í eigu ríkisins og sala á eignarhlutum ríkisins í þessum fyrirtækjum.
- Efling hlutabréfamarkaðar og stofnun gjaldeyrismarkaðar.
- Veruleg aukning fjárfestinga í erlendum verðbréfum.
- Lánsfjáröflun ríkissjóðs með markaðsútboðum og samkomulag fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans um að ríkissjóður afli sér lánsfjár á markaði en taki ekki lán hjá Seðlabankanum. Þetta atriði var staðfest í nýjum lögum um Seðlabanka Íslands sem juku sjálfstæði hans.
- Aukin áhersla fyrirtækja og sveitarfélaga á að afla lánsfjár með sölu skuldabréfa á verðbréfamarkaði í stað hefðbundinna bankalána.
- Samruni fjármálafyrirtækja og flóknara eignarhald.
- Ný stofnun, Fjármálaeftirlitið, tók yfir verkefni bankaeftirlits Seðlabanka Íslands og Vátryggingaeftirlitsins og hefur eftirlit með lánamarkaði, verðbréfamarkaði, vátryggingamarkaði og lífeyrissjóðum.
- Með aðild að evrópska efnahagssvæðinu hafa skapast auknir möguleikar erlendra fjármálafyrirtækja til að veita þjónustu hér á landi.
- Sókn innlendra fjármálafyrirtækja á erlenda markaði með stofnun útibúa og skrifstofa, stofnun dótturfélaga og með kaupum á erlendum bönkum.

Bankakerfið hefur vaxið mjög ört á undanförnum árum, sér í lagi frá árinu 1997. Útlán og markaðsverðbréf bankakerfisins á verðlagi í janúar 2002 námu 264 milljörðum króna árið 1991 en höfðu hækkað í 752 milljarða króna í lok árs 2001. Árið 1991 voru útlán og markaðsverðbréf bankakerfisins rétt um helmingur af landsframleiðslu en um 110% af landsframleiðslu árið 2001. Myndin sýnir útlán og markaðsverðbréf bankakerfisins 1991-2001.

Athyglisvert er jafnframt að skoða fjármögnun bankakerfisins á þessum tíma. Árið 1991 voru um 70% eigna bankakerfisins fjármagnaðar með innlánum, 10% með verðbréfaútgáfu og 20% með erlendum lánum. Árið 2000 voru innlán tæplega helmingur af fjármögnun bankakerfisins, verðbréfaútgáfa um fimmtungur og erlend lán um þriðjungur. Innlán jukust lítillega sem hlutfall af landsframleiðslu en hlutur verðbréfaútgáfu og erlendra lána stórjókst.
Ríkið hefur um áratugaskeið verið ráðandi á íslenskum fjármálamarkaði þó mjög hafi dregið úr áhrifum þess á síðustu árum. Áður fyrr ákvað ríkið vexti í landinu og jafnframt hvernig lífeyrissjóðir skyldu ráðstafa fé sínu svo dæmi séu tekin. Þetta er að sjálfsögðu liðin tíð.

Ítök ríkisins eru samt sem áður sterk. Ríkið á ennþá stóran hluta í tveimur af þremur viðskiptabönkum landsins. Þó mikið verk sé enn óunnið í þeim efnum verður að taka með í reikninginn að ríkið hefur nú þegar selt um tvo þriðju hluta eigna sinna á fjármálamarkaði. Það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar að eiga þessar eignir til langframa. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er skýrt kveðið á um að ríkið hyggist selja hlutafé sitt í bönkunum. Slík stefnumörkun liggur ekki fyrir með sama hætti í mörgum öðrum löndum sem byggja að miklu leyti á ríkisbankakerfi, svo sem í Þýskalandi, Frakklandi og Noregi svo dæmi séu tekin.

Umræðan við hlutafélagavæðingu ríkisviðskiptabankanna snérist að mjög miklu leyti um hlutverk ríkisins á fjármálamarkaði. Smátt og smátt hafa viðhorf í þjóðfélaginu breyst og má hiklaust telja að þorri þjóðarinnar og þingmanna telji ríkið ekki hafa hlutverki að gegna í viðskiptabankastarfsemi.

Það er stefna ríkisstjórnarinnar að ríkið eigi almennt ekki að sinna atvinnustarfsemi sem einkaaðilar geta stundað með eðlilegum hætti og virk samkeppni er fyrir hendi. Er þetta í samræmi við viðtekin sjónarmið í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Ríkisviðskiptabankarnar áttu rætur að rekja til þess tíma þegar takmarkað framboð var á fjármagni og því talið nauðsynlegt að ríkið hlutaðist til um þessa starfsemi og tæki jafnframt áhættuna af henni. Nú er þessi staða ekki lengur fyrir hendi.
Ríkisstjórnin hefur allt frá hlutafélagavæðingu ríkisviðskiptabankanna lagt áherslu á dreifða eignaraðild að bönkum. Í Landsbanka og Búnaðarbanka eru nú tugþúsundir hluthafa og eru bankanir í hópi fjölmennustu almenningshlutafélaga landsins. En ríkisstjórnin hefur ekki sagt að stærsti hluthafinn eigi einungis að ráða yfir örfáum prósentum heildarhlutafjár. Slíkt er ekki farsælt fyrir bankana til lengdar.

Í umræðum síðustu ára um sölu banka hefur því oft verið haldið á lofti að tryggja ætti dreifða eignaraðild að bönkum með lagasetningu sem bannaði fjárfestingu í bönkum yfir ákveðnu hámarki. Ráðherrar lýstu því yfir á sínum tíma að þetta væri fýsileg leið, m.a. lýsti ég því yfir að hana ætti að skoða vandlega. Ég lét í framhaldinu kanna það hvaða leiðir væru færar til þess að takmarka hættuna á því að stærri hluthafar í fjármálafyrirtækjum hefðu skaðleg áhrif á þau og þar með á fjármálamarkaðinn allan. Við nána skoðun var talið að sú leið að takmarka í löggjöf hámark þess hlutafjár eða atkvæðisréttar sem einstakir aðilar mega eiga í fjármálafyrirtækjum myndi hafa í för með sér skaðleg efnahagsleg áhrif og draga úr samkeppnishæfni íslensks fjármálamarkaðar.

Í framhaldi af ítarlegri skoðun á kostum og göllum hinna ýmsu leiða tók ríkisstjórnin ákvörðun um að leggja til þann kost að styrkja verulega eftirlit með eigendum stórra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Frumvarpið varð síðan að lögum vorið 2001. Tilgangurinn með hinum nýju lögum er sá að draga úr hættunni á að stórir hluthafar í fjármálafyrirtækjum hafi skaðleg áhrif á rekstur þeirra. Viss hætta þykir á að stórir hluthafar í fjármálafyrirtækjum beiti áhrifum sínum, sem fylgja eignarhaldinu, í því skyni að afla sjálfum sér ávinnings á kostnað fyrirtækjanna, annarra hluthafa eða eftir atvikum annarra viðskiptavina. Slík háttsemi er skaðleg viðkomandi fyrirtækjum og til þess fallin að draga úr tiltrú almennings á fjármálamarkaðnum. Fjármálaeftirlitið hefur þegar beitt þessum ákvæðum við eftirlit á hæfi eigenda virkra eignarhluta. Með þessum lögum hefur ríkisstjórnin skilgreint stefnu sína með ítarlegum hætti og lokið málinu.
Mörgum finnst sem hægt gangi að einkavæða bankanna. Ég get ekki tekið undir það. Bankarnir eru verðmætar þjóðareignir og sala þeirra fer ekki fram eins og hendi væri veifað. Skipulagsbreytingar á fjármálamarkaðnum hafa alls ekki tekið langan tíma. Landsbanka og Búnaðarbanka var breytt í hlutafélög í ársbyrjun 1998, fyrir aðeins fjórum árum síðan, eftir langan og vandaðan undirbúning. Á sama tíma hóf FBA starfsemi á grunni gamalla fjárfestingarlánasjóða. Á árinu 1998 voru þessir þrír bankar skráðir á Verðbréfaþingi Íslands sem jók aga og aðhald í rekstri þeirra. Á sama tíma var hluti FBA seldur og gefið út nýtt hlutafé í viðskiptabönkunum. Yfir þriðjungur þjóðarinnar tók þátt í þessum útboðum. Á árinu 1999 var einkavæðingu FBA lokið og ríkið seldi jafnframt 15% hlut í Landsbanka og Búnaðarbanka. Hlutur ríkisins hefur síðan minnkað enn frekar á síðustu tveimur árum, með hlutafjárútboðum, samrunum og með sölu á 20% hlut í Landsbanka Íslands í gegnum viðskiptakerfi Kauphallarinnar. Nú er svo komið að ríkið á minnihluta í Landsbanka, eða 48%, en um 55% í Búnaðarbanka.

Í júní síðastliðnum óskuðu íslenskir fjárfestar eftir viðræðum um kaup á stórum eignarhlut í Landsbankanum en ríkið hafði þá án árangurs leitað að erlendum banka til að koma að rekstri Landsbankans. Ríkisstjórnin brást við viðræðubeiðninni með því að auglýsa eftir áhuga annarra fjárfesta í bæði Landsbankann og Búnaðarbankann. Þar með var jafnræðis gætt á milli fjárfesta. Fimm fjárfestahópar gáfu til kynna áhuga sinn og hefur nú einn þeirra, eignarhaldsfélagið Samson, verið valinn til viðræðna um kaup á stórum eignarhluta í Landsbankanum. Valið var byggt á áliti ráðgjafa einkavæðingarnefndar í bankasölumálum, breska bankans HSBC. Ómögulegt er að segja til um það á þessu stigi hvort samningaviðræður við Samson leiða til sölu bankans. Málið varð hins vegar mjög eldfimt vegna þess að fulltrúi fjármálaráðherra sagði sig úr einkavæðingarnefnd vegna ágreinings um val á fjárfesti. Ríkið brást við með því að tilkynna Ríkisendurskoðun um málið og fer hún nú yfir störf einkavæðingarnefndar í þessu máli.
Góðir fundarmenn. Mér hefur orðið tíðrætt um stöðu ríkisins sem eiganda viðskiptabanka. En ljóst má vera að því hlutverki fer senn að ljúka. Hlutverk ríkisins er og verður fyrst og fremst að bæta samkeppnishæfni fjármagnsmarkaðarins og gæta hags viðskiptamanna fjármálafyrirtækja. Af nógu er að taka í því efni því markaðnum fleygir fram og fjármálalöggjöf sömuleiðis.

Við þurfum að nýta okkur fjármálalöggjöfina til að búa til sem bestar aðstæður fyrir íslensk fjármálafyrirtæki. Með því á ég ekki við að regluverk sem þessi fyrirtæki búa við sé sem léttbærast fyrir þau. Þau ríki sem þannig hafa búið um hnúta njóta almennt ekki trausts. En regluverkið verður að vera skilvirkt og réttlátt. Það getur ekki verið markmið í sjálfu sér að regluverkið sé sem umfangsmest.

Regluverk á fjármagnsmarkaði er til muna meira heldur en í flestum öðrum atvinnugreinum. Það kemur til af mikilvægi fjármagnsmarkaðarins í hagkerfinu. Fjármálafyrirtæki geyma sparnað almennings, veita almenningi og fyrirtækjum lán og ráðgjöf og sinna greiðslumiðlun. Fjármálafyrirtæki eiga allt sitt undir trausti viðskiptavina. Viðskiptavinir fyrirtækjanna verða að geta treyst því fullkomlega að hagsmunir þeirra sitji í fyrirrúmi en ekki hagsmunir fyrirtækisins sjálfs, starfsmanna þess eða aðrir hagsmunir. Þetta er lykilatriði. Gjaldþrot eins fjármálafyrirtækis hefur víðtækari áhrif á virkni hagkerfisins heldur en í öðrum atvinnugreinum. Með umfangsmiklu eftirliti og ítarlegri reglusetningu reyna stjórnvöld því að stuðla að sem mestu öryggi í starfsemi lánastofnana.

Grunnur flestra laga á fjármagnsmarkaði var að mestu mótaður um það leyti sem við Íslendingar skrifuðum undir Samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það var mjög stórt skref á sínum tíma. Við uppfylltum tilskipanir ESB á mjög skömmum tíma og höfum síðan verið að byggja ofan á þann grunn. Nú þegar markaðurinn er orðinn þroskaðri er kominn tími á að endurskoða grunninn.

Síðastliðin þrjú ár hefur verið að störfum sérstök bankalaganefnd í því skyni að endurskoða bankalöggjöfina og gera hana skilvirkari. Nefndin er um þessar mundir að ljúka við frumvarp til laga um fjármálafyrirtæki og hyggst ég leggja það fyrir Alþingi nú á haustþingi. Í frumvarpinu er safnað saman ákvæðum um stofnun og starfsemi allra tegunda fjármálafyrirtækja, en þau eru viðskiptabankar, sparisjóðir, fjárfestingarbankar, rafeyrisfyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir og rekstrarfélög verðbréfasjóða. Með þessari heildarlöggjöf falla úr gildi fern eldri lög á sviði fjármálamarkaðar. Þá mun ég leggja fram á Alþingi ný heildarfrumvörp um verðbréfaviðskipti annars vegar og verðbréfasjóði hins vegar.
Við þinglega meðferð frumvarps um fjármálafyrirtæki má búast við mikilli umræðu um sparisjóði, enda hafa málefni þeirra verið mjög í brennidepli í sumar. Í frumvarpinu er kveðið á um sterkari yfirtökuvarnir sparisjóða heldur en í gildandi lögum. Ástæða er til að fara nokkrum orðum um þetta mál.

Rekstur sparisjóða víðs vegar um landið er dæmi um gömul og góð gildi sem ástæða er til að varðveita. Sparisjóðir eru hér á landi sem annars staðar staðbundin fjármálafyrirtæki með sterk tengsl við starfssvæði sitt og nána samvinnu sín á milli. Þeir hafa sterkar félagslegar rætur og markmiðið með rekstrinum er að stuðla að almannahag. Sparisjóðirnir hafa verið reknir með hag sparifjáreigenda og almennings fyrir augum en ekki til hámarksarðs fyrir stofnfjáreigendur. Sparisjóðir hafa í dag sömu starfsheimildir og viðskiptabankar en sérstaða þeirra er enn mikil. Þeir eru yfirleitt lítil fjármálafyrirtæki í miklum tengslum við sitt nánasta umhverfi. Flestir þeirra starfa einungis á takmörkuðu svæði. Þannig myndast yfirleitt sterkari tenging við mannlíf og atvinnulíf á starfssvæði sparisjóðsins og meiri nálægð við viðskiptavini en tíðkast meðal annarra fjármálafyrirtækja.

Stofnfjáreigendur leggja sparisjóðnum til stofnfé og eiga rétt á að fá það fé til baka, verðbætt við tilteknar aðstæður. Þeir eiga, ólíkt hluthöfum í hlutafélagi, ekkert tilkall til uppsafnaðs hagnaðar sparisjóðanna. Enginn getur gert tilkall til uppsafnaðs hagnaðar sparisjóðs, en við slit hans rennur afraksturinn til líknar- og menningarmála á starfssvæði hans. Stofnfjáreigendur eiga hins vegar rétt á arði af stofnfé sínu samkvæmt nánari reglum í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði.

Deilurnar í sumar hafa aðallega staðið um það hvort framsal stofnfjárhluta á yfirverði sé heimilt. Framsal stofnfjárhluta var fyrst heimilað árið 1985 og var framsal bundið því skilyrði að viðkomandi sparisjóðsstjórn gæfi samþykki sitt hverju sinni. Af athugasemdum við frumvarp það, sem varð að þessum lögum árið 1985 og athugasemdum við síðari breytingar á lagaákvæðum um sparisjóði, má ráða að vilji löggjafans hafi ekki staðið til að viðskipti með stofnfjárbréf yrðu almenn, eða að þau ættu sér stað með þeim hætti sem ráðgerður var nú í sumar. Á hinn bóginn fólu lögin ekki í sér ótvírætt bann við því að stofnfjárbréf væru seld á yfirverði.

Lagaákvæði sem leggja bönd á ráðstöfunarheimildir manna með stofnfjárhluti í sparisjóðum voru sett með hliðsjón af því sérstaka hlutverki, sem sparisjóðirnir gegna á fjármálamarkaði. Þá eru ákvæðin sett með hliðsjón af sérstakri uppbyggingu þeirra. Í flestum sparisjóðum er því svo farið, að stofnfé nemur aðeins litlum hluta af heildar eigin fé þeirra. Bróðurpartur eigin fjár er í eigu sparisjóðsins sjálfs, og til þess hluta eiga stofnfjáreigendur ekkert tilkall. Að sama skapi er ljóst að yfirráð yfir stjórn sparisjóðs veitir stofnfjáreigandanum völd til að stjórna þessum fjármunum.

Telja verður að þau lagarök, sem að framan eru nefnd, eigi enn við. Sparisjóðirnir í landinu eru margir og flestir smáir. Þeir byggja samkeppnishæfni sína mjög á samstarfi, þar sem hinir stærri sjóðir leggja til mestu stærðarhagkvæmnina. Er því fyrirsjáanlegt að sparisjóðakerfið muni líða undir lok, ef aðrir aðilar geta án hindrunar yfirtekið hina stærri og fjársterkari sparisjóði. Lagaramma um starfsemi sparisjóða er ætlað að girða fyrir yfirtöku eins aðila á sparisjóði, enda hefur dreifð eignaraðild verið einn af hornsteinum sparisjóðakerfisins. Leitast verður við að tryggja þetta í því frumvarpi sem ég hyggst leggja fyrir Alþingi.
Ég vil að lokum víkja stuttlega að EES-samningnum. Það er engin spurning um það í mínum huga að samningurinn hefur orðið íslenskum fjármagnsmarkaði til góðs. Við getum treyst því að regluumhverfi íslensks fjármálamarkaðar er ekki ólíkt því sem gengur og gerist meðal annarra Evrópuríkja. Nýjungar í fjármálalöggjöf innan sambandsins eru strax teknar upp í íslenskan rétt og við njótum góðs af því sem og annarri vinnu sem frá ESB kemur.

Samstarf Evrópusambandsins á sviði fjármagnsmarkaðar er sífellt að verða umfangsmeira. ESB hefur gefið út framkvæmdaáætlun til næstu fimm ára um aðgerðir sem það hyggst grípa til á sviði fjármagnsmarkaðar. Áætlunin er mjög umfangsmikil og ber þess merki að sambandið telur að með tilkomu evrunnar og Netsins sé loksins unnt að koma á hinum sameiginlega innri markaði á sviði hefðbundinnar bankaþjónustu. Á síðustu árum hefur myndast skilvirkur innri markaður í fjárfestingarbankastarfsemi en hið sama hefur ekki verið uppá tengingnum hvað varðar viðskipti við heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki. Það er hins vegar að breytast. Sú breyting mun hafa mikil áhrif á hagkerfi Evrópuríkja. Bankar búa sig undir þessa samkeppni með samrunum og veita gríðarlegum fjármunum í rannsóknir og þróun í upplýsingatækni.

Við munum á næstu árum þurfa að uppfylla fjöldamargar tilskipanir á sviði fjármálamarkaðar. Margar þeirra snerta rafræn viðskipti á þessu sviði, svo sem tilskipanir um rafeyri og fjarsölu. Allt er þetta gert til að auðvelda framþróun fjármálaþjónustu yfir landamæri.
Góðir fundarmenn. Ég hef hér í dag fjallað almennt um málefni fjármálamarkaðar; þróun hans, einkavæðingu banka, dreifða eignaraðild, regluverk á markaðnum og sparisjóði. Af mörgu er að taka enda fjármálamarkaður margslunginn og í örri þróun. Ég vona að fyrirlestur minn hafi vakið upp spurningar hjá ykkur þannig að við getum haft hér fjörlegar umræður.
Ég þakka fyrir. 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval