Aðalfundur Fjórðungssambands Vestfjarða

3/9/02

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp á aðalfundi Fjórðungssambands Vestfjarða
31. ágúst 2002


Fundarstjóri góðir fundarmenn!

Með samþykkt byggðaáætlunar sl. vor liggur stefna Alþingis og ríkisstjórnar í byggðamálum fyrir. Í áætluninni er tekið á fjölmörgum þáttum er snúa að atvinnumálum, menntamálum og jöfnun lífskjara. Byggðamál snerta málaflokka sem heyra undir mörg ráðuneyti. Því var, við gerð gildandi byggðaáætlunar, miðað við að einstökum ráðuneytum yrði falið að framfylgja þeim verkefnum sem undir þau heyra. Í þessu skyni voru skilgreind rúmlega 20 verkefni sem unnið verður að á gildistíma áætlunarinnar. Það er hins vegar verkefni iðnaðarráðherra að fylgja eftir á vettvangi ríkisstjórnarinnar að byggðaáætlun sé fylgt og hafa frumkvæði að endurskoðun og gerð nýrra áætlana.

Eitt af meginmarkmiðum stjórnvalda í byggðamálum er að draga úr þeim mismun sem er á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks milli svæða í landinu og skapa íbúum á landsbyggðinni sem hagstæðust skilyrði í starfi, menntun og leik. Á vegum iðnaðarráðuneytisins er nú unnið að gerð heildstæðrar athugunar á lífskjörum fólks eftir búsetu. Jafnframt er unnið að heildarathugun á starfsskilyrðum atvinnuveganna með tilliti til staðsetningar. Niðurstöður úr þessum athugunum munu liggja fyrir í lok þessa árs. Í framhaldi af því verða niðurstöður þeirra teknar til umfjöllunar og væntanlega metið hvort þær gefi tilefni til sérstakra aðgerða. Að báðum þessum athugunum er unnið í samræmi við byggðaáætlun fyrir tímabilið 2002-2005.

Samkvæmt byggðaáætluninni er lögð áhersla á greiðan aðgang að fjarskipta- og upplýsingatækni sem er meðal annars mikilvægur þáttur við að efla símenntun og auka aðgengi fólks að námi frá sinni heimabyggð. Nýting fjarskipta og upplýsingatækni felur í raun í sér einstaka möguleika til að jafna aðstöðumun milli borgaranna, sem skapast m.a. vegna fjarlægða og strjálbýlis. Aðgengi að þessari tækni er og verður í framtíðinni jafn mikilvæg fyrir einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir úti á landi eins og aðrar samgöngur. Á vegum Byggðastofnunar er verið að vinna að verkefni er miðar að því að efla notkun upplýsingatækninnar í sveitarfélögum. Mörg sveitarfélög hafa lýst yfir áhuga á að taka þátt í þessu verkefni, en það gengur undir heitinu "rafrænt samfélag".

Forsenda aukinnar fjölbreytni í atvinnulífinu er að rækta þá auðlind sem býr í fólkinu sjálfu. Samkvæmt byggðaáætlun verður unnið að því að jafna aðgengi fólks til að sækja endur- og símenntun óháð búsetu. Nú er til athugunar að kanna möguleika á uppbyggingu dreifmenntunar í Vestur Barðastrandasýslu. Með dreifmenntun er átt við að tengja saman skóla í þeim tilgangi að samnýta kennara. Gert er ráð fyrir að þetta verði tilraunaverkefni og er markmið þess að kanna möguleika sem felast í dreifmenntun til að draga úr kostnaði í skólahaldi og auka gæði og námsframboð í dreifbýli.

Einn af kostum ferðaþjónustunnar í tengslum við byggðaaðgerðir er að hún er mannaflsfrek atvinnugrein, en aukin fjölbreytni í atvinnutækifærum dregur að öllu jöfnu úr brottflutningi fólks. Að sama skapi getur sú afþreying sem byggist upp vegna ferðamanna aukið fjölbreytni íbúanna og bætt búsetuskilyrðin. Ferðaþjónusta getur þannig á tvennan hátt styrkt stoðir búsetu á stöðum sem eiga undir högg að sækja. Forsenda þess að uppbygging ferðaþjónustu gangi vel er að hún sé grundvölluð á heildstæðri byggða- og ferðamálastefnu sem haldast í hendur, en gangi ekki þvert hvor á aðra. Í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir næstu þrjú árin er lagt til að ríkisvaldið geri sérstaka áætlun um uppbyggingu ferðaþjónustu í dreifbýli. Þar verði lögð áhersla á rannsókna- og þróunarstarf, tengsl við skipulagsvinnu sveitarfélaga og markaðssetningu ferðaþjónustu til að tryggja markvissa uppbyggingu og sjálfbæra þróun greinarinnar.

Út frá þessum forsendum hafa Vestfirðingar unnið undanfarin ár og svæðið hlotið viðurkenningar fyrir, bæði innlendar og erlendar. Umhverfisvæn ferðamennska er vaxandi grein innan ferðaþjónustunnar og þar liggja m.a. sóknarfæri Vestfirðinga sem geta boðið ferðamönnum sem sækja þá heim fjölbreytta afþreyingu í einstakri náttúrufegurð og það þekki ég af eigin raun. En koma þarf Vestfjörðum enn betur á framfæri við innlenda og erlenda aðila. Liður að því markmiði er byggðaáætlun þar sem samgönguráðuneytinu, landbúnaðarráðuneytinu, atvinnu-þróunarfélögum, sveitarfélögum, fyrirtækjum í ferðaþjónustu ásamt rannsóknar- og menntastofnunum á sviði ferðamála er falið að vinna að markaðssetningu í dreifbýli. Þar er lögð áhersla á sérstöðu og getu hvers svæðis í að þróa ferðaþjónustu sem taki mið af sjálfbærri þróun.
  Þróunarsetur Vestfjarða hefur eflt samstarf stofnana og fyrirtækja á sviði rannsókna og þróunar og byggt upp samstarfsnet aðila jafnt innan setursins sem utan. Þar hefur skapast áhugaverður vinnustaður þar sem fólk með ólíka menntun hefur tækifæri til að skiptast á skoðunum og koma með ný sjónarhorn á þau verkefni sem verið er að fást við hverju sinni.
   Í samþykktri byggðaáætlun er eftirfarandi tillaga um aðgerðir til að auka verðmæti sjávarfangs: "Ríkisvaldið láti gera áætlun um hvernig hægt sé að auka verðmæti sjávarfangs og fiskeldis með sérstakri áherslu á nýtingu aukaafurða. Gert verði yfirlit yfir allar þær aukaafurðir sem ekki eru nýttar og sett fram áætlun um hvernig hægt verði að nýta þær í framtíðinni. Stuðlað verði að samstarfi sjávarútvegsfyrirtækja, háskóla, sjóða og rannsóknastofnana um rannsóknir og frumkvöðlastarf á þessu sviði með sérstakri áherslu á líftækni og nýjar vinnsluleiðir." Að mínu viti liggja miklir vaxtamöguleikar í bættri nýtingu sjávarfangs. Þar sem sjávarútvegur er undirstaða byggðar á Vestfjörðum þarf að huga sérstaklega að því hvernig t.d. Þróunarsetrið og sjávarútvegsfyrirtæki hér á Vestfjörðum geta tekið öflugan þátt í því nýsköpunarstarfi sem er framundan á þessu sviði.

   Málefni Orkubús Vesfjarða hafa verið mikið til umræðu á síðustu mánuðum og misserum. Ríkissjóður hefur keypt hlut allra sveitarfélaganna í fyrirtækinu og þá hefur verið stofnað hlutafélag um reksturinn. Í þeim viðræðum sem fram fóru um kaup ríkisins á hlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða var því ítrekað lýst yfir, af hálfu ríkisins, að það myndi ekki til framtíðar reka Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins í tveimur aðskyldum fyrirtækjum. Þessi afstaða ríkisins lá ljós fyrir þegar viðræður um kaupin fóru fram. Það kemur hins vegar skýrt fram í því samkomulagi sem gert var við sveitarfélögin að Orkubúið myndi starfa sem sjálfstæð eining og yrði ekki sameinað öðru eða öðrum orkufyrirtækjum fyrr en breytt skipulag raforkumála tekur gildi. Frumvarpið um nýskipan raforkumála hefur verið lagt fram á Alþingi og væntanlega verður það tekið til umfjöllunar þegar þing kemur saman í haust.

   Ríkið hefur staðið við alla þá samninga sem gerðir voru í tengslum við kaupin á Orkubúinu og ríkið mun áfram standa við þá samninga. Almenningur á Vestfjörðum, starfsmenn Orkubúsins og þeir sveitarstjórnarmenn sem tóku þátt í samningaviðræðunum geta treyst því að ríkið mun áfram standa við sitt í þessum efnum.

   Í upphafi árs 2000, eða nokkru áður en viðræður hófust um kaup ríkisins á hlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða, tók ríkisstjórnin upp samstarf við Akureyrarbæ um að kanna hagkvæmni þess að sameina Rafmagnsveitur ríkisins og Norðurorku á Akureyri. Í þeirri vinnu átti að miða við að höfuðstöðvar sameinaðs fyrirtækis yrðu á Akureyri. Niðurstaða athugunarinnar leiddi í ljós að hægt var að ná fram talsverðum sparnaði í rekstri fyrirtækjanna með sameiningu. Aukin hagkvæmni í rekstri orkufyrirtækja er eina leiðin til þess að lækka verð á raforku og þar með að bæta hag fólks og fyrirtækja. Það hefði því verið ábyrgðarhlutur af mér sem iðnaðarráðherra að láta ekki á það reyna hvort samningar náist um sameiningu RARIK og Norðurorku.

   Í febrúar 2001 samþykkti ríkisstjórnin að bjóða Akureyrarbæ til viðræðna um hugsanlega sameiningu Rafmagnsveitna ríkisins og Norðurorku. Í framhaldi af því var skipuð viðræðunefnd. Var nefndinni falið að miða við að stofnað yrði hlutafélag um rekstur hins sameinaða fyrirtækis í starfsumhverfi nýrra raforkulaga. Jafnframt átti nefndin að miða við að höfuðstöðvar sameinaðs fyrirtækis yrðu á Akureyri. Markmið ríkisins í þessum viðræðum sem enn standa yfir er tvíþætt. Í fyrsta lagi að stuðla að lækkun raforkuverðs. Í öðru lagi að koma á fót öflugu raforkufyrirtæki sem yrði staðsett utan höfðuborgarsvæðisins. Slíkt fyrirtæki þarf að hafa burði til að takast á við ný verkefni, t.d. á sviði orkuframleiðslu.

   Í sumar hefur verið unnið að því að leggja mat á virði fyrirtækjanna þriggja. Slíkt verðmat er grundvöllur þess að hægt verði að hefja samningaviðræður um eignarhluti í hinu nýja fyrirtæki.

   Verðmat fyrirtækjanna þriggja er flókið, enda er þetta í fyrsta skipti sem slíkt verðmat er unnið á orkufyrirtækjum að teknu tillti til breytts raforkuskipulags. Niðurstaða úr þessari vinnu mun væntanlega liggja fyrir á næstu vikum. Í framhaldi af því verður viðræðum væntanlega haldið áfram en á þessu stigi er ekki hægt að fullyrða um hvort samkomulag næst um sameiningu fyrirtækjanna. Mér finnst mikilvægt að sem mestur friður geti ríkt um þá niðurstöðu sem komist verður að og eru Vestfirðingar þar engin undantekning.

   Í sumar átti ég þess kost að heimsækja Vestfirði til að kynna mér starfsemi Orkubúsins og virkjanakosti í Hvalá í Ófeigsfirði. Tilefnið var m.a. að Alþingi samþykkti sl. vor tillögu til þingsályktunar um að rannsaka virkjunarmöguleika í Hvalá. Auk fulltrúa Orkubúsins voru með mér í för sérfræðingar Orkustofnunar og starfsmenn iðnaðarráðuneytisins. Gangi öll þau áform um stóriðju eftir sem nú eru til umræðu má búast við því að þessi virkjanakostur komi til alvarlegrar skoðunar. Þá er eins og menn vita á vegum Orkubúsins unnið að stækkun Þverárvirkjunar við Hólmavík. Aðrir virkjanakostir á Vestfjörðum hafa jafnframt verið kannaðir af Orkubúinu og ekki er ólíklegt að orkuframleiðsla muni aukast á svæðinu á næstu árum.


   Góðir fundarmenn

   Vestfirðingar hafa lagt fram sína eigin byggðaáætlun. Þar eru settar fram fjölmargar hugmyndir um aðgerðir til að treysta búsetu á Vestfjörðum. Ég vænti þess að geta átt gott samstarf við Vestfirðinga við að vinna að framgangi þeirra hugmynda eftir því sem hægt er. Ég er sannfærð um að mörg tækifæri eru til þess að efla búsetu á Vestfjörðum. Það skiptir mestu að virkja mannauðinn til að fá fram hugmyndir og hrinda þeim sem standast frekari skoðun í framkvæmd. Um þessar mundir er verið að vinna að stofnun nýsköpunarmiðstöðvar á Akureyri. Á gildistíma byggðaáætlunarinnar verður varið einum milljarði króna í verkefni á hennar vegum. Sérstök áhersla verður lögð á verkefni í hinum dreifðari byggðum. Ég vona að margar góðar hugmyndir m. a. af þessu svæði nái fram að ganga með aðstoð nýsköpunarmiðstöðvarinnar. Það er jafnframt stefna ríkisstjórnarinnar að styðja enn frekar við hina fjölbreyttu menningarstarfsemi sem er að finna um allt land. Hluti af þeim fjármunum sem fást við sölu ríkisfyrirtækja verða notaðir til að byggja menningarhús. Ljóst er að menningarhús á Vestfjörðum eru framarlega í forgangsröð þegar kemur að því að taka ákvarðanir um slíkar framkvæmdir.

   Ég þakka ykkur fyrir að bjóða mér á Fjórðungsþing Vestfirðinga.    

   Valgerður Sverrisdóttir


   Stoðval