Landsbanki Íslands hf á Akureyri 100 ára.

19/6/02

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp í hátíðarkvöldverði
á aldarafmæli Landsbanka Íslands hf. á Akureyri
18. júní 2002.Virðulegu gestir, háttvirta samkoma!

Ég vil byrja á því að óska Landsbanka Íslands til hamingju með daginn - og þá auðvitað alveg sérstaklega Landsbankanum hér á Akureyri - sem er elsta og stærsta útibú bankans utan Reykjavíkur og jafnframt elsta peningastofnun sem enn starfar í bænum.

Af sögu hans sem við höfum nú heyrt og séð rakta í máli og myndum má ráða að býsna mikil festa hefur ríkt í starfsemi bankans á Akureyri þau hundrað ár sem í dag eru liðin frá því að hann opnaði dyr sínar fyrst fyrir viðskiptavinum í Hafnarstræti 2.

Ekki er það síðra dæmi um festuna í starfsemi stofnunarinnar og umhugsunarvert á tímum örra breytinga að fyrstu 60 árin eða þar um bil voru útibússtjórarnir aðeins tveir. Þótt heil öld sé liðin frá því að sá fyrsti var ráðinn muna rosknir Akureyringar enn eftir húsi og garði bankans og Júlíusar Sigurðssonar í Hafnarstræti 107, sem stóð þar sem sýslumannsembættið er nú til húsa, og minnast þess að hafa séð gamla manninn spóka sig þar á pallinum á skyrtu og vesti. Það er eins og dæmi um samhengi tímans og sögunnar að þegar húsið var rifið til þess að rýma fyrir fyrsta hluta nýbyggingarinnar - sem hýsti reyndar Útvegsbankann lengi vel - voru trén úr garðinum flutt á Ráðhústorg. Þótt þau séu nú horfin stóðu þau þar lengi eins og tákn vaxtar og traustleika og blöstu við augum þeirra sem störfuðu í bankanum á Ráðhústorgi 7 og í Strandgötu 1 eða áttu þangað erindi. Og mér finnst það líka táknrænt fyrir langa og farsæla samfylgd bæjar og banka að eftir að bankinn eignaðist eigið húsnæði leigði hann Akureyrarbæ aðra hæðina undir bæjarskrifstofurnar og rafveitunni og skattstofunni þá þriðju meðan hann þurfti ekki sjálfur á þeim að halda.

Það er erfitt að hugsa sér Akureyri án Landsbankans enda verður varla nein stórbreyting á sambúð þeirra á næstunni og banki og bær þurfa hvor á öðrum að halda. En miklar hafa breytingarnar orðið á bankarekstrinum og umsvifum útibúsins og því umhverfi sem það starfar í þá öld sem liðin er. Það sést best á sögusýningunni sem opnuð var fyrir skemmstu í afgreiðslusal bankans og standa á í sumar. Hinir eldri sem þangað koma geta lifað þar endurfundi við þann tíma þegar allt var handfært og út voru gefnar gegnumdregnar bankabækur með lakki og innsigli og ekta eiginhandarundirskrift útibússtjórans og aðalgjaldkerans. Þeim yngstu, sem hafa heiminn allan undir og alast upp við rafræn viðskipti á tölvuöld, gæti jafnvel orðið starsýnt á grænu Facit-reiknivélina frá 1960, að ekki sé nú talað um ensku Imperial-ritvélina frá 1910 sem hraðametin voru sett á næsta áratuginn. Og gamlir seðlar og gamlar auglýsingar segja sína sögu. Það var góð hugmynd að setja upp slíka sýningu á þessum tímamótum og ástæða til þess að þakka öllum sem að því unnu.

Ekki þarf að fjölyrða um hve sterk peningastofnun er eintaklingum og fyrirtækjum mikils virði og hve öflug og alhliða bankastarfsemi skiptir miklu máli fyrir vöxt þeirra og viðgang og allt atvinnu- og fjármálalífið. Hlutdeild Landsbankans er mikil í atvinnu- og viðskiptalífi Akureyrar og nágrennis. Það er ekki lítið fé sem þar fer inn og út, að ekki sé nú talað um á öllu svæðinu sem útibúið þjónar, og sjálft er það eitt af hinum traustu og öflugu fyrirtækjum sem veitir mörgum atvinnu.

Það er stundum sagt að fyrirtæki, stór og smá, væru lítils virði án starfsfólksins. Ekki á það síður við um Landsbankann á Akureyri en aðrar stofnanir. Það er staðreynd að hann hefur verið heppinn með starfsfólk sitt og það með hann, því að hér starfa hlutfallslega margir með langan starfsaldur að baki. Það hefur átt sinn þátt í þeirri festu sem ég gat um áður og hefur ríkt í starfi bankans. Hann hefur lengst af verið alfarið ríkisbanki eða að meirihluta í eigu ríkisins og mig langar að nota þetta tækifæri til þess að þakka starfsfólki hans fyrr og síðar fyrir vel unnin störf sem hafa lagt grundvöll að því trausti sem hann nýtur. Dagurinn í dag er ekki síst dagur þess.

Maðurinn er félagsvera og heimsþorpið og hnattvæðingin er staðreynd. Af því leiðir að þótt það sé draumur okkar að vera sjálfstæð og öðrum óháð á sem flestum sviðum og það eigi bæði við um einstaklinga og fyrirtæki getum við það aldrei nema að vissu marki. Við erum ekki ein í heiminum og verðum að taka tillit til staðreynda. Við lifum óvissutíma í alþjóðastjórnmálum og viðskiptum og miklar breytingar eru í deiglu á ýmsum sviðum, bæði innanlands og utan.

Þær taka m.a. til breytts eignarhalds eins og nýafstaðin sala hlutafjár í Landsbankanum er dæmi um. Með þeirri sölu verður ríkið í fyrsta sinn minnihlutaeigandi í Landsbankanum, en hún er þó væntanlega aðeins upphaf frekari hlutafjársölu, ekki síst í ljósi þess hvernig til tókst. Breytingar á eignarhaldi og aðrar slíkar grundvallarbreytingar á stöðu og rekstrarformi bankanna og í bankamálum yfirleitt hljóta alltaf að verða háðar pólitísku valdi og vilja á hverjum tíma, en það er trú okkar sem nú förum með þessi mál að þær breytingar sem að er unnið verði til góðs þegar upp er staðið.

Um afmælisbarn dagsins, Landsbankann á Akureyri, gildir það líka að öflug og vaxandi starfsemi hans á gömlum merg er í fullu samræmi við þau áform sem uppi eru um að efla Akureyri og nágrannabyggðir sem einn helsta byggðakjarna landsins.

Ég lýsi yfir sérstakri ánægju með þá ákvörðun bankaráðs Landsbanka Íslands frá því í dag að verja 5 milljónum króna til náms- og rannsóknastyrkja við Háskólann á Akureyri á næstu 5 árum til þess að efla skólann. Það hljómar svo sannarlega vel í eyrum okkar Eyfirðinga.

Það er sagt að illt sé að spá, einkum um framtíðina, en vonandi verður nýbyrjuð öld happatími bæði fyrir Landsbankann og viðskiptavini hans þrátt fyrir breytingar sem enginn sér fyrir til hlítar og við ráðum ekki að öllu leyti ein. Það hefur komið fram í starfi bankans og orðum forráðamanna hans að hann vill vera stofnun sem stenst kröfur og man upphaf sitt, man að hann var stofnaður til að þjóna fólki og efla velferð heils samfélags. Í því hlutverki hefur bankinn staðið sig vel og lagt mikið af mörkum til þess að byggja upp það Ísland sem nú er okkar.

Meginmáli skiptir að þetta gleymist aldrei og að þjónustukrafan verði forgangskrafa hér eftir sem hingað til. Gangi allt að óskum vex bankinn af viðskiptunum og hagur viðskiptavinanna og þjóðfélagsins alls blómgast af því að eiga hann að bakhjarli.

Í þeirri von endurtek ég heillaóskir mínar til Landsbankans á Akureyri á þessum tímamótum.
 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval