Ársfundur Iðntæknistofnunar

6/6/02

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp á ársfundi Iðntæknistofnunar
6. júní 2002 í Salnum, Kópavogi.


Ágætu ársfundargestir.

Miklar breytingar eru fyrirhugaðar í stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi á næstu misserum og mun Iðntæknistofnun gegna þar mikilvægu hlutverki. Mér finnst því við hæfi að nota þetta tækifæri til að stikla á stóru í þeim efnum.

Stór þáttur í þessum breytingum er boðuð nýskipan opinbers stuðnings við vísindarannsóknir, tækniþróun og nýsköpun, sem hefur verið sett fram í þrem samstæðum frumvörpum sem voru til umfjöllunar á nýliðnu vorþingi. Frumvörpin komu ekki til endanlegrar afgreiðslu þá og verða því endurflutt næsta haust. Megingerð frumvarpanna verður væntanlega óbreytt, en búast má við því að felldar verði inn ábendingar sem borist hafa og lúta m.a. að því að styrkja þá þætti sem sameina frumvörpin eins og t.d. starfsemi "Þjónustumiðstöðvar vísindarannsókna", sem svo hefur verið nefnd.

Þá þætti málsins sem lúta að nýsköpuninni og lögskipuðu hlutverki Iðntæknistofnunar er fyrst og fremst að finna í frumvarpi til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins. Í hnotskurn snýst það frumvarp um aðkomu ríkisins að stuðningi við frumkvöðla og fyrirtæki við að umbreyta vísindalegri þekkingu í söluhæfar afurðir, hvort sem er með því að auka framleiðni eða framleiða nýja vöru eða þjónustu. Þessi þáttur í nýsköpunarkeðjunni hefur oft verið nefndur nýsköpunargjáin vegna þess að þótt hið opinbera hafi veitt fé til vísindarannókna og framtaksfjárfestar hafi verið tilbúnir til að fjárfesta í álitlegum viðskiptahugmyndum, þá hefur skort á að til væri brúklegur farvegur þarna á milli. Því hefur verið haldið fram að áhugaverðar hugmyndir dagi uppi og verði aldrei að veruleika vegna þess að ekki fáist viðunandi stuðningur til tækniþróunar, þ.e. að þróa hinar vísindalegu lausnir þannig að unnt sé að sýna fram á hagnýtt gildi þeirra og efnahagslegan ávinning af frekari fjárfestingu í þeim.

Með hinni fyrirhuguðu nýskipan er stefnt að lögfestingu þess að á vegum Iðntæknistofnunar verði rekin nýsköpunarmiðstöð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem þjóni öllum íslenskum atvinnugreinum. IMPRA hefur gegnt líku hlutverki frá árinu 1999 en nú verður sú starfsemi útvíkkuð og fest í sessi. Meðal hlutverka nýsköpunarmiðstöðvarinnar er að hafa frumkvæði að samstarfi þeirra fjölmörgu opinberu aðila sem mynda stoðkerfi atvinnulífsins. Samstarfið hefur fram til þessa verið frekar lítið og má búast við að með nánara samstarfi og hugsanlegum samruna þeirra megi vænta mun meiri árangurs.

Nýsköpunarmiðstöðinni er ætlað að leiða mótun stuðningsverkefna sem stuðla að bættum rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja og framgangi nýrra viðskiptahugmynda sem spretta af frumkvæði einstaklinga - eða rannsóknum og þróunarstarfi háskóla, stofnana og fyrirtækja. Henni er einnig ætlað að vera tengiliður við þá sem stunda grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir er leitt geta til nýsköpunar í atvinnulífinu, svo og að miðla vísindalegri og tæknilegri þekkingu og beita sér fyrir hagnýtingu hennar.

Í samræmi við stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002-2005 er að því stefnt að nýsköpunarmiðstöð verði starfrækt á vegum Iðntæknistofnunar á Akureyri auk starfseminnar í Reykjavík. Starfsemin á Akureyri verði að grunni til með svipuðu sniði og í Reykjavík en sérstök áhersla verði á eflingu atvinnulífs á landsbyggðinni, t.d. með nánu samstarfi við atvinnuráðgjafa sem þar starfa.

Þar sem byggðaáætlunin hefur þegar verið samþykkt, mun iðnaðarráðuneytið í samvinnu við Iðntæknistofnun vinna í sumar að skilgreiningu á starfsemi nýsköpunarmiðstöðvar á Akureyri og gera rekstraráætlanir með það að markmiði að unnt verði að hefja starfsemina þar í haust, eða snemma vetrar. Þetta er vel gjörlegt þótt frumvarpið um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins hafi ekki öðlast lagalegt gildi, enda um tvær sjálfstæðar ákvarðanir að ræða.

Eðli máls samkvæmt er mikilvægt að starfsemi nýsköpunarmiðstöðvar sé í návígi við annað nýsköpunar- og frumkvöðlastarf. Þannig háttar til hjá Impru í Reykjavík, sem nýtur sambýlisins við rannsóknarumhverfið á Keldnaholti. Á Akureyri er í undirbúningi að reisa Rannsókna- og nýsköpunarhús við Háskólann þar sem 14 ríkisstofnanir hafa sýnt áhuga á að fá inni með fjölbreytta rannsóknastarfsemi sem þar verður í sambýli við raungreinakennslu háskólans. Í framtíðinni er ráðgert að við stækkun byggingarinnar verði sérstaklega hugað að því að hýsa sprotafyrirtæki. Verði þessar áætlanir að veruleika er hugmyndin sú að nýsköpunarmiðstöðin á Akureyri fái inni í Rannsókna- og nýsköpunarhúsinu og gæti það orðið fyrir árslok 2003.

Ágætu ársfundargestir.

Þótt ég hafi helgað fyrirhugðari nýsköpunarmiðstöð meginhluta þessa ávarps vil ég ekki láta hjá líða að minnast á að hjá Iðntæknistofnun er rekin margþætt rannsóknarstarfsemi sem skilað hefur miklum ávinningi fyrir atvinnulífið. Frumvörpin um opinberan stuðning við vísindarannsóknir og nýsköpun munu hafa verulega þýðingu fyrir rannsóknastarfsemi Iðntæknistofnunuar og allar rannsóknir sem með einhverjum hætti njóta aðkomu ríkisins. Í þessu sambandi er mikilvægast, að í stað þess að stefnumótun í vísindum og rannsóknum verði á hendi margra og ólíkra aðila, eins og nú er, verður stefnumótunin færð í efsta þrep stjórnsýslunnar og samræmd undir forustu forsætisráðherra. Gert er ráð fyrir að stefnumótun í málefnum vísindarannsókna, tækniþróunar og nýsköpunar fari fram í sérstöku vísinda og tækniráði þar sem fulltrúar atvinnulífsins, háskóla og ráðuneyta eiga sæti. Með því verður unnt að samhæfa starfsemi hins opinbera og jafnvel sameina þá þætti sem virðast hagkvæmir. Við gerð frumvarpanna hefur verið haft til hliðsjónar að stefna í vísindum, rannsóknum og nýsköpun setji ótvíræðan svip á almenna stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum. Að mínu mati er hér verið að stíga eitt mikilvægasta skref síðari ára til að efla vísindarannsóknir og tækniþróun í landinu í því skyni að treysta stoðir íslenskrar menningar og auka samkeppnishæfni atvinnulífsins. Ég er þess fullviss að rannsóknastarfsemi Iðntæknistofnunar mun njóta góðs af þessum breytingum og einnig önnur opinber rannsóknarstarfsemi í þágu atvinnulífsins.

Takk fyrir.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval