Aðalfundur Samorku á Akureyri.

30/5/02

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp
á aðalfundi Samorku á Akureyri
2002


Ágætu ársfundarfulltrúar og gestir!

Ég vil í upphafi máls míns þakka Samorku fyrir að hafa haft frumkvæði að undirbúningi og skipulagi þriðja orkuþingsins, sem haldið var dagana 11.-13. október s.l. Ég fagna sérstaklega hinni miklu þátttöku sem varð á orkuþingi, dagskráin var mikil og fjölbreytt og spannaði nánast öll svið orkumála. Hin öra tækniþróun síðustu ára sýnir augljóslega að full þörf er á að halda þing sem þetta oftar en á tíu ára fresti og vil ég lýsa yfir fullum stuðningi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins við þá hugmynd og óska eftir samstarfi við Samorku um að skoða þann möguleika á næstu misserum.

Orkumál hafa um nokkurt skeið verið mjög til umræðu í heiminum. Æ fleirum er orðið ljóst að vandamál þróunarríkja heimsins vegna fátæktar og félagslegra aðstæðna eru nátengd ástandi orkumála viðkomandi ríkja. Sú staðreynd að um tveir milljarðar jarðarbúa eiga ekki kost á raforku til húshitunar og notkunar, en notast aðeins við brennslu lífræns efnis til orkuöflunar, færir mönnum sýn á að nauðsynlegar framfarir og þróun í þessum ríkjum gerist ekki án aukinnar rafvæðingar. Raunar hefur Alþjóða orkumálaráðið lengi hampað þessu sjónarmiði og kom það vel fram á fundi þess í Buenos Aires s.l. haust þar sem nokkrir fulltrúar Íslands sátu. Sameinuðu þjóðirnar hafa einnig tekið undir þessa skoðun og í drögum að áliti fyrir fund þjóðarleiðtoga heims í haust um sjálfbæra þróun er lögð áhersla á að ein megin forsenda fyrir þeirri þróun sé aukin notkun endurnýjanlegra orkulinda og rafvæðing meðal fátækari þjóða heims.

Sérstaða Íslendinga hvað varðar endurnýjanlegar orkulindir er eins og öllum hér er kunnugt einstök og hefur vakið athygli á alþjóðavettvangi. Um 70% af heildarorkuþörf þjóðarinnar er aflað með endurnýjanlegum og hreinum orkulindum sem hafa aðeins að hluta til verið nýttar. Á vettvangi Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar hefur um árabil verið bent á nauðsyn þess að nýta í auknum mæli hreinar orkulindir við iðnaðarframleiðslu og draga með því móti úr orkuframleiðslu brennsluorkuvera sem iðnríki heims hafa í verulegum mæli notast við til raforkuframleiðslu um áratuga skeið.

Á 7. samningafundi aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í Marrakesh í nóvember s.l. náðist samkomulag aðildarríkjanna um hið svokallaða íslenska ákvæði varðandi nýtingu endurnýjanlegra og hreinna orkulinda til iðnaðarframleiðslu sem væri stór hluti af efnahagskerfi viðkomandi ríkis. Með þessu ákvæði verður Íslandi heimilt að losa um 1.600.000 tonn á ári af koltvíoxíði á árabilinu 2008-2013 umfram þá losunarheimild er þjóðin fékk með Kyoto- bókuninni. Allt bendir því til þess að bjart sé framundan næsta áratuginn varðandi aukna möguleika á nýtingu orkulinda okkar.

Hin jákvæða þróun orkumála hér á landi á undanförnum áratugum hefur leitt til þess að sívaxandi áhugi erlendra aðila er á samstarfi við Íslendinga og þá aðallega um rannsóknir og nýtingu jarðhitans. Á síðasta ári fóru fram viðræður við stjórnvöld í Rússlandi og Ungverjalandi og í framhaldi af því var gerður samningur við orkumálaráðuneyti Ungverjalands síðastliðið haust um víðtækt samstarf um jarðhitarannsóknir og nýtingu. Vinna er þegar hafin við nokkur verkefni og eru verulegar líkur taldar á að af árangursríku samstarfi geti orðið á því sviði milli landanna. Þá ber ekki síst að nefna samstarf við kínversk stjórnvöld og fyrirtæki þar í landi um rannsóknir og byggingu jarðvarmaveitna. Íslensk fyrirtæki hafa nú þegar haslað sér þar nokkurn völl og ber að fagna því. Verkefnin þar í landi virðast nánast óþrjótandi en vitaskuld er viðskiptalegt umhverfi og opinber stjórnun ólík því sem við eigum að venjast. Á síðasta ári hefur iðnaðarráðuneytið haft nána og góða samvinnu við fyrirtækið Enex hf. varðandi samstarfsverkefni og samvinnu milli þeirra landa sem hér um ræðir.

Fyrirtækið er í eigu helstu orku- og ráðgjafafyrirtækja landsins, auk ríkisins. Þó svo að fyrirtækið hafi aðeins starfað í tæpt ár hefur það haft með höndum undirbúning flestra þeirra jarðhitaverkefna sem hér hefur verið minnst á og er að mínu mati afar mikilvægt að efla starf fyrirtækisins til frekari átaka.

Eins og ég gat um á síðasta ársfundi Samorku lágu þá fyrir Alþingi drög að frumvarpi til raforkulaga en það var lagt fram til kynningar á Alþingi á vorþingi 2001 og var til umfjöllunar í iðnaðarnefnd Alþingis síðastliðið sumar. Frumvarpið byggir að grunni til á tilskipun ESB um innri markað raforku og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, en þar er lagður grunnur að markaðsfyrirkomulagi í raforkugeiranum. Frumvarpið var að nýju lagt fram á Alþingi á nýliðnu þingi í endurskoðaðri gerð þar sem tekið hafði verið tillit til margvíslegra athugasemda er fram komu við kynningu frumvarpsins á liðnu sumri. Vegna tímaskorts við lokaafgreiðslu þingmála tókst aðeins að mæla fyrir frumvarpinu þannig að það verður enn að nýju lagt fram á fyrstu dögum þingsins á hausti komanda. Ýmsum ákvæðum þess hefur verið breytt nokkuð og önnur hafa verið útfærð frekar þannig að meiri sátt virðist nú vera um meginmarkmið þess. Horfið hefur verið frá því að hafa fullan aðskilnað milli einokunarþátta og samkeppnisþátta í rekstri raforkufyrirtækja en bókhaldslegur aðskilnaður þeirra látinn nægja með sérstöku lagaákvæði um framkvæmd hans. Ljóst er því að tilskipun Evrópusambandsins mun ekki koma til framkvæmda hér á landi fyrr en á næsta ári.


Þá voru á síðasta þingi lögð fam nokkur frumvörp um breytingar á ýmsum lögum á orkusviði sem tengjast nýjum raforkulögum. Unnið er að breytingum á orkulögum frá 1967, sem í raun felast í því að þau falla úr gildi en í stað einstakra lagakafla þeirra um Orkustofnun, Rafmagnsveitur ríkisins og hitaveitur koma sérlög þar um. Frumvarp um Rafmagnsveitur ríkisins var lagt fram á síðasta þingi, en var ekki afgreitt, og nýlega var hafin vinna við gerð frumvarps um hitaveitur. Hins vegar varð að lögum frumvarp um niðurgreiðslur á raforku til húshitunar og greiðslu stofnstyrkja til nýrra hitaveitna sem festa í sessi framkvæmd reglna sem gilt hafa um greiðslur slíkra styrkja.

Frumvarp um Orkustofnun hefur verið að fæðast að undanförnu í samræmi við vaxandi hlutverk stofnunarinnar við stjórnsýslu orkumála. Sérstök nefnd á vegum iðnaðarráðuneytisins hefur á undanförnum mánuðum unnið að endurskipulagningu stofnunarinnar í samræmi við breytt hlutverk hennar í breyttu umhverfi. Tillögur nefndarinnar eru í þá veru að aðskilja stjórnsýsluhluta stofnunarinnar frá rannsóknarhluta hennar að fullu, enda er hér um að ræða gjörólík verksvið. Þá liggja fyrir í ráðuneytinu drög að breytingum á vatnalögum sem unnið hefur verið að í vetur og síðast en ekki síst er nauðsynlegt að endurskoða lögin um rannsóknir á auðlindum í jörð en það mun fjalla almennt um rannsóknir á jarðhita og vatnsorku landsins og undirbúning nýrra virkjana.

Með nýjum lögum um orkumál og breytingum á umhverfi orkumála þarf jafnframt að skoða hlutverk ríkisins í orkurannsóknum almennt. Óumdeilanlegt er að ríkið þarf að annast helstu almennu grunnrannsóknir á orkulindum landsins, en hversu langt þær ná kann að vera álitaefni, og því þarf að huga að því hvernig þeim mikilvæga þætti orkumála verður best fyrir komið til framtíðar. Um þetta efni og önnur álitamál varðandi gerð annarra frumvarpa, er ég hef hér að framan minnst á, óska ég eftir góðu samstarfi við Samorku í náinni framtíð.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að ég tel eðlilegt að orkufyrirtæki og stjórnvöld hafi einhvern samráðsvettvang til að ræða sín á milli um sameiginleg mál. Á liðnu ári hef ég orðið vör við það að mikil þörf væri fyrir slíkt samstarf og þá ekki síst í sambandi við vinnu að þeim lagabreytingum á orkusviði og raunar einnig öðrum sviðum er tengjast orkuiðnaðinum sem fyrirsjáanlegt er að unnið verði að á næstu árum. Mun iðnaðarráðuneytið hafa forgöngu um að boða til slíks samstarfs. Sífellt fleiri aðilar í samfélagi okkar hafa lagst gegn uppbyggingu orkuiðnaðarins í náinni framtíð og því er ljóst að tryggja verður eðlilegt samráð og samstarf allra hagsmunaaðila til að bregðast við slíkum viðhorfum.

Því miður er það svo að þar spila menn oft ekki á hin efnis- eða efnahagslegu rök, né heldur rök náttúruverndar, heldur grípa í þess stað í auknum mæli til tilfinningalegra ástæðna, sem vissulega ber að virða þó svo að slíkt eitt eigi ekki að ráða nema í undantekningartilfellum. Lífskjör þjóðarinnar til framtíðar hljóta ávallt að vega þyngst þegar ákvarðanir um uppbyggingu orkuiðnaðarins eru teknar. Því er mikilvægt að allir hagmunaaðilar orkuiðnaðarins standi saman.

Góðir ársfundargestir!

Ég hef hér aðeins tæpt á fáum en mikilvægum málum sem ég tel ástæðu til að minnast á, bæði til að upplýsa ykkur um stöðu helstu mála er varðar löggjöf um orkuiðnaðinn og hitt sem framundan er.
Við sem hér sitjum höfum sömu framtíðarhugsjónir. Saga síðustu áratuga segir okkur hvaða sóknarfæri felast í nýtingu orkulinda þjóðarinnar. Með áframhaldandi nýtingu þeirra erum við að stuðla að hagsæld komandi kynslóða um langa framtíð.

Ég vil að lokum enn og aftur þakka Samorku fyrir frábært samstarf á liðnu ári í hvívetna. Þá vil ég þakka fyrir að fá tækifæri til að vera hér með ykkur í dag og vonast til að fundur ykkar verði til allra heilla fyrir íslenska orkunýtingu í náinni framtíð.

Ég þakka áheyrnina


 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval