Stóriðjuskóli álversins í Straumsvík, útskrift, 14. maí 2002

16/5/02

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp við útskrift 6. hóps úr Stóriðjuskóla
álversins í Straumsvík, 14. maí 2002.

Ágætu samkomugestir,

Það er af sem áður var að hægt sé að líta svo á - að menntun sé bundin við ákveðið æviskeið í lífinu. Tækniframfarirnar eru nú svo hraðar að hluti þekkingar okkar úreldist mörgum sinnum á lífsleiðinni. Glöggt dæmi um þetta er tölvutæknin, sem margt fólk af minni kynslóð hefur orðið að tileinka sér eftir að almennri skólagöngu lauk. En þá þekkingu, þ.e. tölvukunnáttuna, hefur einnig orðið að endurnýja nokkrum sinnum síðan og er því nær að tala um símenntun. Í dag eru endurmenntun og símenntun orðin viðtekin hugtök í daglegu orðfæri fólks og lýsir það vel þeim breytingum sem orðið hafa í menntun fólks sem starfar á hinum almenna vinnumarkaði.

Eins og við er að búast hefur verk- og tæknimenntun alloft borið á góma í iðnaðarráðuneytinu og hefur það vakið athygli mína hversu fyrirtæki og t.d. forystumenn iðnaðarmanna hafa verið vakandi yfir þessu mikla hagsmunamáli. Upphaf iðnfræðslu hér á landi má raunar rekja til áhuga iðnaðarmanna sjálfra á því að bæta menntun sína. Almennt sýnist mér einnig að flestir séu meðvitaðir um að hér er um að ræða gagnkvæma hagsmuni starfsmanna og fyrirtækja. Ég get þó ekki leynt því að ég hef nokkrar áhyggjur af því að verkmenntum hér á landi hafi dregist aftur úr framþróun menntunar á öðrum sviðum. Þannig sýnist mér að verkmenntun í minni skólum á landsbyggðinni eigi almennt undir högg að sækja. Það er mjög alvarlegt mál er þarfnast leiðréttingar. Mér er það því sérstakt ánægjuefni þegar fyrirtæki og starfsmenn taka höndum saman um veigamikla menntun til handa starfsmönnum, eins og Stóiðjuskólinn er gott dæmi um.

Mikilvægt er að menn geri sér grein fyrir því hve stóriðjan er orðin mikilvæg atvinnugrein hér á landi og fer enn vaxandi. Enginn vafi er á að vöxtur hennar hefur verið einn af mikilvægustu þáttum í að efla og styrkja íslenskt samfélag á liðnum áratugum. Ánægjulegt er hve vel starfmönnum hefur líkað að vinna við áliðnað og ber hæg starfsmannavelta augljóst vitni um það. Þá hafa þau fyrirtæki er hér um ræðir getað greitt hærri laun en almennt hefur gerst á vinnumarkaði, sem stuðlað hefur að ánægju starfsmanna. Loks ber að nefna að kröfur um vandvirkni og gæði í framleiðslu álfyrirtækja aukast stöðugt, sem aftur krefst meiri menntunar starfsfólks. Því fara hagsmunir fyrirtækjanna og starfsfólksins að öllu leyti saman hvað varðar þörf fyrir símenntun starfsfólks á þessu sviði.
Ég vil því í tilefni af útskrift ykkar úr skólanum, óska ykkur til hamingju með þennan merka áfanga sem ég tel víst að verði ykkur til faglegs framdráttar og einnig til að efla starfsánægju ykkar. Jafnframt vil ég óska aðstandendum skólans til hamingju með frábært framtak sem aðrir geta tekið sér til fyrirmyndar. 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval