Eldhúsdagsumræður á Alþingi, 24.04.2002

26/4/02

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Eldhúsdagsumræður á Alþingi,
23. apríl 2002


Hr. forseti, góðir áheyrendur.

Eldhúsdag má líta á sem uppgjör eftir vertíð. Stjórn og stjórnarandstaða takast á um ágæti þeirra þingmála sem hér hafa fengið afgreiðslu eða munu fá afgreiðslu á næstu dögum.

Enginn stjórnarandstæðingur, sem talað hefur hér í kvöld, hefur verið sannfærandi í þeim málflutningi sínum að landinu sé illa stjórnað. Á þeim tíma sem núverandi stjórnarflokkar, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa starfað saman, hefur náðst ótrúlegur árangur. Enda hefur ríkt samstaða um grundvallaratriði og mikill metnaður verið uppi um að styrkja stöðu Íslands gagnvart öðrum þjóðum.
Ég hef í störfum mínum sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagt höfuðáherslu á bætta samkeppisstöðu íslensks atvinnulífs. Þær breytingar sem orðið hafa í heiminum, með auknu frelsi viðskipta, með falli kommúnismans og með samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði, gera það að verkum að Ísland er hluti af stærri heild. Alþingi og ríkisstjórn hafa í færri málum bein afskipti af rekstri fyrirtækja, en hlutverk þeirra er nú, fyrst og fremst, að skapa heilbrigt og eðlilegt laga- og rekstrarumhverfi í alþjóðlegu markaðshagkerfi.

Á miðjum síðasta áratug vorum við Íslendingar að tapa fólki úr landi, ekki síst menntafólki. Þeir sem fluttu úr landi árið 1995 voru 1500 umfram þá sem fluttu til landsins. Nú hefur þetta snúist við. Þetta er mælikvarði á samkeppnishæfni Íslands. Það sem fékk hjólin til að snúast aftur voru aðallega verkefni á sviði stóriðju. Þar er ég að tala um uppbyggingu Norðuráls og stækkun Ísals og Járnblendisins. Hvers vegna gerðist þetta? Jú, vegna þess að Ísland á þessa auðlind sem er vatnsaflið og Ísland er samkeppnishæft á þessu sviði.

Á síðari hluta nýliðinnar aldar lyftu Íslendingar Grettistaki í nýtingu auðlinda sinna, landsmönnum öllum til heilla. Það er skynsamlegt og raunar mjög brýnt að við höldum því áfram, að sjálfssögðu innan eðlilegra marka.
Undirbúningur virkjunar- og stórðjuframkvæmda á Austurlandi hefur átt sér stað síðustu ár, en framhald málsins er nú í ákveðinni óvissu. Það ríkir hins vegar engin óvissa um það, að verkefnið er áhugavert og arðbært. Lög hafa verið samþykkt um Kárahnjúkavirkjun, umhverfismat liggur fyrir um virkjunina, álverið í Reyðarfirði og háspennulínur. Þá er vegagerð og hafnargerð í tengslum við framkvæmdina í góðum farvegi. Íslenska ákvæðið í tengslum við Kyoto-bókunina er í höfn. Allt þetta gerir það að verkum að þó að ekkert verði úr samstarfi við Norsk Hydro og Reyðarál, þá er ekki öll nótt úti. Sá áhugi sem stærsta álfyrirtæki á Vesturlöndum, Alcoa, sýnir þessu verkefni er uppörvandi. Allt bendir til þess að af verkefninu verði, sem er mikilvægt bæði fyrir þjóðarbúið sem heild og alveg sérstaklega mikilvægt fyrir Austurland.
Út af orðum síðasta ræðumanns vil ég taka það fram að ég er stolt af því að vera í forsvari fyrir þetta verkefni.

Hv. forseti.
Ég hef hér fjallað lítillega um samkeppnishæfni Íslands og minnkandi afskipti stjórnvalda af viðskiptalífinu. Segja má að hið sama gildi um stjórn efnahagsmála. Þau áhrif sem stjórnvöld hafa í dag á þann þátt mála eru fyrst og fremst í gegnum fjárlög og með því að setja Seðlabankanum verðbólgumarkmið. Stefna Seðlabankans í vaxtamálum hefur vissulega verið umdeild. Mikilvægast er þó að allt bendir til þess að við höfum náð tökum á verðbólgunni og að rauðu strikin svokölluðu haldi. Það er hins vegar umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga að hagfræðingar hafa leitt að því líkum að Íslendingar þurfi að greiða hátt áhættuálag ofan á vexti vegna krónunnar. Það hlýtur hins vegar að vera markmið okkar til lengri tíma að vextir hér séu ekki hærri en gengur og gerist í viðskiptalöndum okkar.

Með þeirri lækkun sem varð á sköttum fyrirtækja á síðasta ári var stigið stórt skref til framfara. Að frumkvæði Fjárfestingarstofunnar er nú unnin viðamikil greining á vegum KPMG á samkeppnishæfni íslensks rekstrarumhverfis. Þar er borin saman stofn- og rekstrarkostnaður 14 ólíkra atvinnugreina í 115 borgum og svæðum í Evrópu, Ameríku og Japan. Meðal þeirra atvinnugreina sem skoðaðar eru má nefna: hugbúnaðargerð, líftæknirannsóknir, lyfja-, efna- og heilbrigðisiðnað, gagnavistun og þorskeldi. Fyrstu niðurstöður benda til að Ísland skipi sér í fremstu röð þjóða. Þessi skýrsla mun því veita okkur í fyrsta skipti innsýn inn í samkeppnisstöðu landsins þar sem við getum með auðveldum hætti borið einstaka liði rekstrar saman við það sem gerist erlendis. Endanlegar niðurstöður skýrslunnar eru væntanlegar í lok mánaðarins.
.
Allt það sem ég hef hér nefnt segir mér að við eigum alla möguleika til þess að búa svo um hnútana hér að Ísland standist alla samkeppni. Að sjálfsögðu verðum við að fylgjast vel með alþjóðavæðingunni og leggja okkur fram um að bregðast rétt við þeim breytingum, sem þar verða, einkum og sér í lagi innan Evrópusambandsins. Með því skrefi sem stigið var við inngöngu í EES getum við ekki horft einangrað á Ísland í neinu þeirra mála sem lúta að viðskiptum. Við búum á innri markaði Evrópusambandsins og erum ekki á leiðinni til baka.
Ný byggðaáætlun verður afgreidd frá Alþingi einhvern næstu daga. Nýmæli í þessari tillögu eru þau, að gerð er grein fyrir 22 vel skilgreindum verkefnum, sem ráðast skal í og er einn aðili, sem oftast er eitthvert ráðuneytanna, gerður ábyrgur fyrir framkvæmd.
Það er mikilvægt að við sameinumst í því að búa landsbyggðinni almenn skilyrði til vaxtar, íbúum til búsetu og fyrirtækjum til rekstrar.

Hv. forseti.
Ég hafði þá ánægju um síðustu helgi að sækja þing þjóðræknisfélaga Íslendinga í vesturheimi fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Í fyrsta sinn var stefnt saman félögum bæði í Bandaríkjunum og Kanada. Segja má að með landafundaverkefninu árið 2000 hafi nýju lífi verið blásið í starfsemi félaganna í Norður-Ameríku. Á þriðja þúsund duglegir einstaklingar starfa í félögunum, stoltir af uppruna sínum.
Það skiptir meira máli nú, en áður, að þekkja hvar ræturnar liggja. Nútíminn er ögrandi og óstöðugleiki og eirðarleysi lætur á sér kræla.
Þetta skiptir ekki einungis máli fyrir Vestur Íslendinga, þetta er mikilvægt fyrir okkur öll. Það er gott að vera Íslendingur, það er gott að eiga þetta gjöfula land
Ég vil þakka landsmönnum áheyrnina og óska þeim gleðilegs sumars.
Góðar stundir.
 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval