Opinn fundur á Reyðarfirði um álvers- og orkuframkvæmdir á Austurlandi

3/4/02

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Álvers- og orkuframkvæmdir á Austurlandi.
Ávarp ráðherra á opnum fundi á Reyðarfirði,
2. apríl 2002.


Fundarstjóri, ágætu fundarmenn:

Þessi fundur er haldinn í samstarfi iðnaðarráðuneytisins og Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi, það er vel við hæfi því samstarf ráðuneytisins við sveitarstjórnarmenn hér á Austurlandi í tengslum við þau mál sem hér eru til umfjöllunar hefur verið einstaklega gott.

Skemmst er frá því að segja, að tilefni þessa fundar er ekki sérstaklega ánægjulegt. Engu að síður er nauðsynlegt að koma hér saman og ræða þau mikilvægu mál sem hér eru á dagskrá. Fyrir nokkru kom í ljós að hik var komið á Norsk Hydro varðandi tímasetningar Noral verkefnisins og var það staðfest í óformlegum viðræðum mínum við aðalforstjóra fyrirtækisins, Eivind Reiten, fyrir um það bil tveimur vikum. Þetta var auðvitað áfall fyrir mig og aðra sem hafa unnið að því að leggja grunn að farsælli niðurstöðu í þessu þýðingarmikla máli fyrir Austurland og þjóðarbúið. Það eru margir og flóknir hagsmunir sem tengjast þessu máli og því eðlilegt að vonbrigðin yrðu mikil, ekki síst fyrir Austfirðinga – og vonbrigðin urðu auðvitað meiri fyrir þær sakir að fyrir réttum tveimur árum stóðum við hér í svipuðum sporum og ræddum frestun sömu framkvæmda.

Þegar ég segi svipuðum sporum vísa ég náttúrlega til tímasetninga, því um flest annað stöndum við miklu betur en þá. Þessu til stuðnings má meðal annars nefna að fyrir liggja drög að öllum helstu samningum Reyðaráls við stjórnvöld, Landsvirkjun og Fjarðabyggð. Jafnframt er niðurstaða fengin varðandi umhverfismat á álveri og virkjun og einnig er Kyotoferlið að baki. Loks er virkjunarleyfi vegna Kárahnjúkavirkjunar og starfsleyfi vegna Reyðaráls í burðarliðnum. Allir þættir sem snúa að stjórnvöldum og Landsvirkjun hafa þannig haft framgang í samræmi við tímaáætlanir og þær skuldbindingar sem við höfum gengist undir. Þá er undirbúningur heimamanna hér á Austurlandi til mikillar fyrirmyndar. Við höfum því unnið okkar heimavinnu. Á þessum grunni hafa arðsemis- og kostnaðaráætlanir verið byggðar sem sýna að verkefnið er mjög álitlegt - og reyndar virðist staðsetning álvers í Reyðarfirði vera einn besti kosturinn fyrir byggingu nýs álvers sem í boði er í heiminum í dag. Þetta er skoðun allra aðila að þessu verkefni. Við höfum því búið vel í haginn fyrir álver í Reyðarfirði, þótt tímasetningar hafi brugðist af ástæðum sem við þekkjum og liggja alfarið hjá fjárfestunum í álverinu.

Það sem eftir var af grunnvinnu vegna áformaðrar ákvörðunar 1. september næstkomandi sneri nær eingöngu að álverinu. Þar skipti tvennt mestu máli. Annars vegar ákvarðanir um eignarhald og hins vegar samningar um fjármögnun. Varðandi eignarhaldið er rétt að taka það fram að þriðji aðili var í myndinni og því var í augsýn lausn á þeim vanda sem stafaði af því að hlutur íslenskra fjárfesta var stærri en þeir réðu almennilega við, einkum vegna verklokaábyrgða sem þeir hefðu þurft að taka á sig. Að þessu leyti var því ekki lengur erfið hindrun í veginum. Hvað fjármögnunina snertir átti sú vinna að fara fram á tímabilinu mars-maí samkvæmt umsaminni tímaáætlun. Þannig átti að leita eftir tilboðum frá fjármálastofnunum með það fyrir augum að niðurstöður lægju fyrir um kostnað við fjármögnunina í byrjun júní. Þessi vinna var í raun forsenda þess að verkefnið væru nógu vel mótað í júníbyrjun til þess að samráðsnefndarmenn gæti tekið ákvörðun um að mæla með því við hlutaðeigandi yfirstjórnir að formleg ákvörðun yrði tekin um framkvæmdir á tilsettum tíma þann 1. september.

Þetta var í hnotskurn staða verkefnisins þegar hikið kom á Hydro. Í þessu ljósi ætla ég að ræða nánar stöðu málsins, fyrst aðdragandann eða tímasetningarnar, þ. e. hvenær hver vissi hvað. Þetta er spurning sem fjölmiðlar hafa velt fyrir sér að undanförnu. Ég fæ gott tækifæri hér til að fara nákvæmlega yfir málið. Þar á eftir mun ég fjalla um yfirlýsinguna og skýra frekar þau atriði sem ég tel mestu máli skipta. Loks ætla ég að ræða hvernig við munum standa að framhaldi málsins, sem ég tel í raun aðalatriðið.

Hvenær vissi hver hvað?
Eins og fram hefur komið í fréttum að undanförnu hafa tímasetningar vegna ákvörðunar Norsk Hydro verið í brennidepli umræðunnar. Það er að mörgu leyti skiljanlegt í ljósi þess að þetta er auðvitað ákaflega stórt og mikilvægt mál og gríðarlegir hagsmunir í húfi. Því er eðlilegt að menn spyrji hvenær hver vissi hvað um ákvörðun fyrirtækisins. En í þessu efni mega menn ekki heldur fara fram úr sjálfum sér. Það er að jafnaði ekki svo að einn góðan veðurdag vakni menn með fullmótaða hugmynd um breytingar frá fyrri stefnu, heldur fer af stað ákveðið ferli sem að lokum leiðir til niðurstöðu. Svona var það líka að þessu sinni.

Í þessu ferli voru tvær tímasetningar einkar mikilvægar: annars vegar í síðustu viku febrúrmánaðar og hins vegar 19 mars síðastliðinn. Í síðustu viku febrúar voru haldnir fundir innan Hydro þar sem þessi mál voru yfirfarin með Eivind Reiten aðalforstjóra fyrirtækisins. Þessir fundir leiddu til þeirrar niðurstöðu að tímasetningar Noral verkefnisins kynnu að raskast og í framhaldi af þeim gerði Jostein Flo, aðalsamningamaður Hydro, Þórði Friðjónssyni grein fyrir stöðu málsins. Þórður svaraði því til að hann hefði ekki umboð til að semja um breytingar á tímaáætluninni og því yrði að taka málið upp milli æðstráðandi hjá Norsk Hydro og ráðherra. Jafnframt skýrði Þórður mér frá stöðunni. Í kjölfarið eða um og upp úr mánaðamótunum febrúar mars átti ég fyrstu samtölin við stjórnendur fyrirtækisins.

Á þessu stigi málsins lá hins vegar ekki fyrir nein niðurstaða. Í fyrstu beindist umræðan að því hvort unnt væri að gera einhverjar lágmarksbreytingar á tímarammanum sem gætu verið ásættanlegar fyrir báða aðila. Í þessu skyni og til að skýra stöðuna frekar komu tveir samningamenn Hydro til Íslands 8 mars og reifuðu kostina sem menn stæðu frammi fyrir. Snemma varð þó ljóst að niðurstaða fengist ekki nema með beinum samtölum ráðherra og Eivinds Reiten forstjóra Norsk Hydro. Það liggur í augum uppi að á þessum dögum og fram til 19. mars voru viðræður á mjög viðkvæmu stigi milli aðila og því hefði verið óskynsamlegt að stofna til opinberrar umræðu um þetta mál fyrr en úrslit væru í sjónmáli.

Eins og komið hefur fram voru málin síðan til lykta leidd í samtölum mínum og Eivind Reiten forstjóra Norsk Hydro 19. mars síðastliðinn. Í þeim samtölum var ákveðið að gefa út sameiginlega yfirlýsingu og var Þórði Friðjónssyni, Truls Gautesen, forstjóra áldeildar Hydro, og Josteini Flo falið að vinna að henni í samráði við aðra aðila verkefnisins. Daginn eftir, eða 20. mars, gerði ég Alþingi grein fyrir að von væri á umræddri yfirlýsingu og á föstudaginn 22. mars las ég hana upp á Alþingi. Þannig gekk þetta fyrir sig.

Eins og gerist og gengur í undirbúningsvinnu af þessu tagi skiptast á góðir sprettir og hægagangur. Þótt illa gangi um hríð verða menn náttúrlega að halda jafnvægi sínu og einbeita kröftunum að því að finna lausnir sem samstaða getur náðst um. Ekki dugir að rjúka upp til handa og fóta. Frá því gengið var frá tímaáætluninni rákust menn auðvitað öðru hvoru á hindranir og efi sótti jafnvel að mönnum um að tímasetningar gætu staðist. Þetta er eðlilegt í svona vinnuferli. En það er ekki fyrr en í síðustu vikunni í febrúar sem afstaða Hydro fer að skýrast og í framhaldi verður atburðarrásin í samræmi við það sem ég hef lýst hér á undan.

Yfirlýsingin

Er þá komið að yfirlýsingunni. Í henni koma fram nokkur mikilvæg efnisatriði sem ég tel nauðsynlegt að skýra nánar áður en ég fjalla um framhald málsins.

1. Áætlanir sýna að Noral verkefnið er arðbær fjárfesting og öll undirbúningsvinna hefur fram til þessa gengið vel. Undirbúningsvinnan hefur staðfest að um mjög áhugaverðan kost er að ræða. Um þetta eru allir aðilar að verkefninu sammála, enda hefur enginn lýst áhuga á að segja sig frá því.
2. Ástæðan fyrir umræddri ákvörðun Norsk Hydro er eingöngu sú að fyrirtækið telur sig þurfa svigrúm til að endurskoða fjárfestingastefnu sína vegna yfirtökunnar á þýska fyrirtækinu VAW. Þetta var mikil fjárfesting, um 300 milljarðar króna, og margslungnir og flóknir hagsmunir tengjast henni. Í því sambandi nægir að nefna að innan VAW samsteypunnar voru álfyrirtæki sem voru í minnihlutaeign hennar og fyrir vikið er Hydro ekki ráðandi aðili um hvað gert verður í þessum fyrirtækjum í framtíðinni. Fyrirtækið kann því að þurfa að taka afstöðu til frekari fjárbindingar vegna stækkunar þeirra án þess að hafa mikið um það að segja hvort skuli ráðist í þær. Einnig má nefna að málaferli eru hafin í tengslum við þessi kaup. Það er rétt að undirstrika að þessi þörf fyrirtækisins fyrir stefnumarkandi endurmat tengdist á engan hátt mati þess á arðsemi Noral verkefnisins.

3. Í þessu felst að Hydro telur fjárfestingu í álveri við Reyðarfjörð áfram áhugaverðan kost á forsendum fyrirliggjandi samninga og samningsdraga, þótt fyrirtækið telji sig ekki hafa stöðu til þess að sinni að festa tímasetningu lokaákvörðunar um að ráðast í verkefnið. Af þessu leiðir að fyrirtækið hefur áhuga á að halda áfram að þróa verkefnið sem leiðandi álfjárfestir með það að markmiði að festa niður sem fyrst endurnýjaða tímaáætlun.
4. Ákvörðun Hydro leiðir til millibilsástands sem dregur athyglina að því að hagsmunir íslenskra stjórnvalda og Landsvirkjunar hvað varðar tímasetningar fara ekki saman við hagsmuni fjárfestanna í álverinu sjálfu. Fyrir vikið blasir við að stjórnvöld og Landsvirkjun munu leita eftir nýjum samstarfsaðila vegna byggingar álvers í Reyðarfirði.

Þetta er í aðalatriðum boðskapur yfirlýsingarinnar. Við stöndum því núna á tímamótun og augljóst er að miklu máli skiptir hvernig staðið verður að framhaldinu. Ákvörðun Norsk Hydro er viðskiptaleg ákvörðun og þótt hún sé okkur ekki að skapi verðum við að horfast í auga við niðurstöðu þeirra og vinna úr málinu á þeim grunni. Markmiðið er að sjálfsögðu að nýta sem fyrst þann hagfellda kost sem felst í virkjun Kárahnjúka og byggingu álvers í Reyðarfirði. Við höfum ágæt spil á hendi í því efni, eins og undirbúningsvinnan vegna Noral verkefnisins hefur staðfest. Þetta er grundvallaratriði sem við eigum að færa okkur í nyt eftir því sem aðstæður leyfa.

Þá kem ég að framhaldinu
Það gefur auga leið að við getum ekki setið með hendur í skauti meðan Hydro endurmetur fjárfestingaráætlanir sínar. Þennan tíma verðum við að nýta til að kanna hvort annað álfyrirtæki er reiðubúið að taka keflið og leiða álverkefnið til lykta hér á Austurlandi. Í því efni þurfum við að hafa hugfast að kjöraðstæður eru hér fyrir slíka fjárfestingu og þess vegna verða að teljast ágætar líkur á að annað fyrirtæki en Hydro vilji taka að sér þetta hlutverk.

Bygging og rekstur álvers í Reyðarfirði er stórt verkefni jafnvel á mælikvarða helstu álfyrirtækja í heiminum. Áætlaður fjárfestingarkostnaður við fyrsta áfanga 250.000 tonna álvers í Reyðarfirði er um 120 milljarðar króna þegar vaxtakostnaður á byggingartíma er talinn með. Það þarf því mikla fjárhagslega burði til að reisa og reka svona álver. Við bætist að tryggja þarf hráefni til framleiðslunnar og sölu afurða með öruggum hætti. Loks þarf að vera aðgangur að nútímatækni til framleiðslunnar.

Þessar kröfur gera það að verkum að ekki eru mörg fyrirtæki í greininni sem hafa bolmagn til að standa undir þessu verkefni. Það eru þó nokkrir aðilar sem kæmu til álita. Þar á meðal eru Alcoa, sem er stærsta álfyritæki í heimi með höfuðstöðvar í Bandaríkjunum, kanadíska fyrirtækið Alcan, sem er eigandi Ísals, franska fyrirtækið Pechiney og ástralsk/hollenska fyrirtækið BHP Billiton. Þetta eru ásamt Norsk Hydro fimm stærstu álfyrirtækin á Vesturlöndum. Þá hafa rússneskir aðilar í samvinnu við íslenska aðila í áliðnaði sett á fót fyrirtæki hér á landi, sem hefur það að markmiði að reisa og reka álverksmiðju á Íslandi. Hafa þeir þegar lýst áhuga á að eiga viðræður við íslensk stjórnvöld um aðkomu fyrirtæksins að álveri í Reyðarfirði. Rússneski álrisinn RussAl, sem er næst stærsti álframleiðandi í heimi, kæmi þá að þeim viðræðum. Fleiri fyrirtæki kæmu e. t. v. til greina, s. s. bandaríska fyrirtækið Noranda sem reyndar er ekki stórt í áliðnaði en hefur sterkan bakhjarl.

Samvinnuverkefni smærri álfyrirtækja er ekki útilokað. Hljótum við þar að horfa til Kenneth Peterson eiganda Norðuráls sem leiðandi aðila í slíku verkefni. Við höfum einstaklega góða reynslu af Norðuráli og eiganda þess. Rekstur þess gengur vel og Kenneth Peterson hefur sýnt að hann er maður orða sinna. Hann kom mörgum á óvart þegar hann byggði álverið á Grundartanga – sögusagnir voru á kreiki um að hann hefði ekki fjárhagslega burði til þess og einnig héldu margir fram að svo lítið álver gæti aldrei borið sig. Allar þessar sögusagnir eru nú þagnaðar.

Af þessu má sjá að fyrirtækin sem koma til greina eru tiltölulega fá og fyrir bragðið ætti það ekki að taka ýkja langan tíma að kanna hvort raunhæfur grundvöllur er fyrir leiðandi þátttöku þeirra í þessu álverkefni. Fyrst þarf að kynna verkefnið rækilega fyrir þeim og í framhaldi að meta hvort forsendur séu til þess að hefja formlegar samningaviðræður við eitthvert þeirra. Þetta gerist því í tveimur áföngum. Fyrst verða að fara fram könnunarviðræður við nýja aðila sem koma til álita og þegar fyrir liggur niðurstaða úr þeim viðræðum þarf að meta hvort áhugi einhvers þeirra er nægilega mikill og traustur til að hefja nýtt formlegt samninga- og undirbúningsferli með föstum tímasetningum. Á því stigi þurfum við að gera það upp við okkur með hvaða fyrirtæki verður gengið til samninga. Um leið og formlegt undirbúningsferli er hafið með tilheyrandi kostnaði, vinnu og vaxandi skuldbindingum eftir því sem á ferlið líður er ekki unnt að vera með tvo eða fleiri viðmælendur á sama tíma. Í þessu felst að ef annar aðili verður á þessum tíma talinn vænlegri kostur en Hydro verður samstarfinu við þá sjálfhætt.

Ég hef þegar ákveðið að skipa nefnd til að annast þessar könnunarviðræður og hefur hún það verkefni að skila sem fyrst niðurstöðum um áhuga annarra álfyrirtækja en Hydro til að leiða fjárfestingu í álveri við Reyðarfjörð; eitt eða í samvinnu við önnur álfyrirtæki og hugsanlega innlenda fjárfesta. Þegar niðurstaða liggur fyrir um þetta efni getur formlegt samninga- og undirbúningsferli hafist með þeim skuldbindingum sem til þarf. Ég vænti þess að niðurstöður þessara könnunarviðræðna liggi fyrir innan tiltölulega skamms tíma. Hins vegar er engin leið að sjá fyrir fram hversu langan tíma tekur að ljúka samningum við nýjan aðila. Það fer að sjálfsögðu eftir mörgum þáttum sem ekki eru þekktir nú. Í því sambandi má meðal annars benda á að helsta samkeppnin sem við stöndum frammi fyrir kemur væntanlega fremur frá þeim möguleikum sem eru til stækkunar starfandi álvera en byggingu nýrra annars staðar. Þetta stafar af því að áhugi álfyrirtækja hefur í ríkum mæli beinst að slíkum möguleikum á undanförnum árum og jafnframt yfirtökum og samrunum. Allt kapp verður lagt á að hraða þessari vinnu. Hér hjálpar að sjálfsögðu að fyrirtækin eru ekki mörg og jafnframt er verkefnið vel afmarkað.

Nefndin sem annast þessar könnunarviðræður er skipuð þremur mönnum. Finnur Ingólfsson, bankastjóri Seðlabankans, verður formaður og með honum verða Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar og Kristján Skarphéðinsson, skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneytinu. Ég tel mikinn feng að Finni Ingólfssyni í þetta starf. Fyrir það fyrsta vil ég nefna að Finn þekki ég auðvitað vel – við unnum lengi saman í stjórnmálum. Ég treysti honum og veit að hæfari mann er ekki hægt að fá til verksins. Hann þekkir vel til málaflokksins sem fyrrverandi iðnaðarráðherra, er vel skipulagður og atorkusamur. Þá er einnig rétt að geta þess að fordæmi eru fyrir því að Seðlabankastjóri sinni stóriðjumálum hér á landi. Það að nefndin sé m.a. skipuð seðlabankastjóra sem er fv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og forstjóra Landsvirkjunar, sem er fv. fjármálaráðherra sýnir að stjórnvöldum er mikil alvara með þessari nefndaskipan, og full alvara í því efni að ná að þessu verkefni nýjum samstarfsaðila. Með nefndinni mun starfa Garðar Ingvarsson, framkvæmdastjóri Fjárfestingarstofunnar – orkusviðs og Gunnar Örn Gunnarsson starfsmaður iðnaðarráðuneytisins og fyrrum forstjóri Kísiliðjunnar við Mývatn.

Eins og segir í yfirlýsingunni verður samhliða unnið að Noral verkefninu með það að markmiði að endurnýja sem fyrst tímaáætlun fyrir verkið og koma á viðhlítandi skuldbindingum til að tryggja framgang málsins. Sú vinna verður í aðalatriðum í sömu skorðum og hingað til og mun Þórður Friðjónsson stýra því verki fyrir hönd stjórnvalda. Í umræddri yfirlýsingu kemur fram að þegar hefur verið ákveðið að endurmeta stöðu verkefnisins í byrjun júní.
Með þessari tilhögun myndast samkeppni um þennan góða kost sem við getum boðið til að reisa álver í Reyðarfirði. Er það von mín að þannig megi flýta sem mest fyrir ákvörðun um þessar framkvæmdir á Austurlandi. Tímasetningar eru auðvitað mjög mikilvægar í þessu efni. Þar leggst á sömu sveif að Landsvirkjun hefur þegar lagt mikla fjármuni í Kárahnjúkavirjun, eða fast að þremur milljörðum króna, og að þjóðarbúið þarf aukna fjárfestingu til að glæða hagvöxt og útflutning á næstu árum. Síðast en ekki síst bætast við hagsmunir Austfirðinga. Enginn velkist í vafa um að þessi fjárfesting eflir mjög byggðarlagið og sú óvissa sem hefur ríkt er þjakandi og raunar alls óviðunandi fyrir þá sem hér búa.

Að lokum vil ég ítreka að við stöndum á vissum tímamótum í þessu verkefni sem okkur hefur verið svo umhugað um og svo miklir hagsmunir tengjast fyrir þjóðarbú og Austurland. Við verðum því að nota tímann fram undan skynsamlega og verja kröftunum til þess að tryggja eftir megni framgang málsins. Ég mun gera það sem í mínu valdi stendur til að ná þessu markmiði eins fljótt og auðið er. Mikið undirbúningsstarf hefur verið unnið. Á þeim grunni verður að byggja. Það hefur ekki verið til einskis barist og sú barátta heldur áfram. Ekkert er mikilvægara í þeirri baráttu en ykkar samstaða, - ykkar stuðningur við verkefnið. Jafnframt vona ég að við eigum eftir að eiga gagnlega umræðu hér á eftir um hvernig við getum leitt þetta mikilvæga mál til farsællar niðurstöðu.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval