Ávarp á aðalfundi Bílgreinasambandsins, 16.03.2002

18/3/02

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Erindi á aðalfundi Bílgreinasambandsins
16. mars 2002

Fundarstjóri, ágætu aðalfundargestir!

Það er mér sönn ánægja að vera hér í dag og ræða ýmis mál sem mér eru hugleikin og varða störf og stöðu íslenskra bílgreina og annarra þeirra sem vinna við þessi ómissandi "heimilistæki" nútíma Íslendinga, bifreiðar.

Það kann einhverjum að þykja það óvenjulegt að nota orðið "heimilistæki" um fjölskyldubifreiðina en ég held þó að það sé almennt oriðið viðurkennd staðreynd að ein bifreið, eða jafnvel tvær á heimilum þar sem hjón eru bæði útivinnandi sé ekki lengur stöðutákn heldur brýn nauðsyn.

Samhliða slíkum viðhorfsbreytingum og aukinni kaupgetu almennings tel ég að í dag geti flestir verið sammála um að hér sé um að ræða dýrar neysluvörur sem jafnframt eigi að falla undir almenna neytendavernd.

Almennt um aukna neytendavernd
Á undanförnum árum hafa íslensk stjórnvöld í síauknum mæli lagt áherslu á aukna vernd neytenda. Ástæður þess má ekki síst rekja til þátttöku okkar í samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið, en á undanförnum árum hefur verið lögð meiri áhersla á að styrkja réttarstöðu neytenda á ýmsum sviðum í viðskiptum sínum við seljendur á vörum og þjónustu. Á næstu árum má búast við enn meiri áherslu á slíkar aðgerðir á vettvangi Evrópusambandsins enda er nú að finna nýlegt ákvæði í stjórnarskrá þess, sem leggur nýjar og auknar skyldur á herðar stjórnvöldum í þessum efnum.

Ítarlegar rannsóknir og reynsla margra undangenginna ára hafa sýnt að það er þjóðhagslega hagkvæmt að stjórnvöld hugi að vernd neytenda. Fjárhæðir í einstökum málum er þetta varða, kunna að vera smáar en þegar litið er til heildarinnar, þá er augljóst að margt smátt gerir eitt stórt, - og við það er miðað.

Aukin neytendavernd – ný tækifæri
Mikilvægt er að þeir sem starfa að sölu á vörum og þjónustu á markaði líti ekki á slíkar aðgerðir sem ógn eða hindrun við sölustarfsemi sína.

Í sífellt harðnandi samkeppni, kunna að felast mörg ný tækifæri fyrir metnaðarfulla stjórnendur á sviði bílasölu eða þjónustu við bíleigendur um að veita viðskiptamönnum sínum meiri þjónustu. Í því felst að fyrirtækin setja viðskiptamanninn í öndvegi, kanna til hlítar hvaða lagaleg réttindi hann á og með hvaða hætti fyrirtækið getur aukið eða bætt þau réttindi eða þjónustu sem viðskiptavinurinn er að fá frá fyrirtækinu.


Sérstök tilvik: bílasölur - bílaviðgerðir
Bílasölur
Í þessu sambandi vil ég nefna til dæmis löggjöf sem sett var á Alþingi fyrst árið 1994, um sölu notaðra ökutækja. Meginmarkmið þeirrar lagasetningar var að auka öryggi neytenda í viðskiptum sínum með notaðar bifreiðar. Gert var að skyldu að þeir sem veita slíkum fyrirtækjum forstöðu, skyldu leita sér sérstakrar menntunar og þjálfunar. Allar götur síðan hefur Bílgreinasambandið staðið fyrir námskeiðum og prófi sem veitir rétt til sölu notaðra ökutækja. Ég tel það mikilvægt fyrir gæðaþróun innan þeirrar starfsemi. Hins vegar er ljóst að hér hefur markaðurinn sjálfur einnig miklum skyldum að gegna, sem ekki verður komið á með valdboði. Aðeins seljendur sjálfir geta aukið traust viðskipavina sinna og aukið við þá þjónustu þannig að þeir komi aftur og aftur þegar þeir hyggjast kaupa eða selja þessi heimilistæki sín. Í dag eru þessar kröfur sífellt að aukast og því tel ég mikilvægt að fræðsla og símenntun sé höfð að leiðarljósi, námskeið skipulögð af hálfu samtakanna til að bæta samkeppnishæfni þeirra sem starfa á þessum markaði og gæði þeirrar þjónustu sem veitt er.


Þjónustukaup
Annað dæmi um löggjöf sem sett hefur verið á Alþingi og varðar aukna vernd neytenda eru svonefnd þjónustukaupalög. Lög þessi eru nýmæli og fela í sér að neytendum er veitt sambærileg vernd við kaup á gallaðri þjónustu og þegar þeir kaupa gallaða vöru.
Við öll sem hér erum höfum alist upp við þau sjálfsögðu réttindi að ef keypt vara reynist verulega gölluð eigum við rétt til riftunar eða skaðabóta af hálfu seljandans. Á undanförnum áratugum hefur almenningur, í kjölfar meiri almennrar eignamyndunar í auknum mæli þurft að kaupa ýmis konar viðhaldsþjónustu af öllu tagi. Viðhald bifreiða er eðlilega einn af þessum útgjaldaliðum heimilanna í landinu og hér á landi hefur að mínu mati byggst upp góð og öflug þjónusta á þessu sviði. Í öllum viðskiptum geta þó átt sér stað mistök, eða samningur um kaup á þjónustu farið úrskeiðis. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að til sé í lögum ákveðið öryggisnet fyrir neytendur og úrræði ef til vanefnda kemur af hálfu seljanda. Að mínu mati geta slík ákvæði jafnframt orðið hvatning til aðila sem starfa að viðhaldi og sölu á þjónustu að sjá til þess að þeirra þjónusta uppfylli ávallt þær lágmarkskröfur sem lögin ákveða og leggi metnað sinn í að þeirra þjónusta skari fram úr að þessu leyti. Í viðskiptum um kaup á þjónustu er mikilvægt að skýr samningur liggi til grundvallar milli seljanda og kaupanda . Af þessari ástæðu hlutaðist viðskiptaráðuneytið til um að gerður var staðlaður samningur í samvinnu við hagsmunaðila sem unnt væri að nota til viðmiðunar, þegar gerður er samningur um viðhald eða viðgerðir við neytendur. Þennan rammasamning má finna á heimasíðu viðskiptaráðuneytisins ivr.is

Neytendavernd er þverfagleg
Undanfarin ár hafa verið samþykkt ýmis önnur lagafyrirmæli sem hafa að markmiði að styrkja stöðu neytenda í viðskiptum en ég læt ógert að rekja frekar að sinni. Aðalatriðið er að neytendavernd er að aukast á öllum sviðum - á fagmáli er sagt að neytendamál séu nú orðin þverfagleg. Í reynd þýðir það að í æ meira mæli má búast við að löggjafinn setji reglur sem miða að aukinni neytendavernd og koma inn á mörg ólík lagasetningarsvið. Til dæmis hefur á undanförnum árum verið lögð mikil og aukin áhersla á neytendafræðslu í skólum og námsefni útbúið í því skyni sem jafnframt er í sífelldri þróun hjá kennurum og Kennaraháskóla Íslands. Á heimasíðu Félags íslenskra bifreiðaeigenda er einnig að finna gagnlegar upplýsingar fyrir neytendur. Augljóst er að á sviði aukinnar fræðslu eru einnig mörg ný tækifæri, ekki hvað síst varðandi eins flókin tæki og bifreiðar eru. Neytendavernd með svipuðum hætti og umhverfismál kunna því að hafa áhrif þvert á ýmis hefðbundin lagasetningarsvið en umfjöllun á Alþingi þessa dagana um afnám þungaskatts og upptöku díselgjalds er einmitt gott dæmi um hvernig að tiltekinn málaflokkur getur haft áhrif þvert á önnur svið löggjafarinnar.

Í gær samþykkti ríkisstjórnin að leggja fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um orkumerkingar heimilistækja o.fl. Breytingunni er ætlað að gera mögulegt að innleiða ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins um aðgengi neytenda að upplýsingum um eldsneytiseyðslu og koltvísýringslosun við markaðssetningu nýrra fólksbifreiða. Tilskipunin kveður m.a. á um að seljendur nýrra fólksbifreiða skuli láta liggja frammi á sölustað upplýsingar um eldsneytisnotkun og losun koltvísýrings frá hverri bifreið sem boðin er til sölu. Markmiðið með þessu er að reyna að draga úr losun koltvísýrings frá fólksbifreiðum með því að hafa áhrif á val neytenda með upplýsingagjöf.

Neytendavernd og úrlausn kvörtunarmála á sviði viðskipta með bifreiðir
Ég hef hér á undan vikið að því að jafnt hér innanlands sem og á vettvangi Evrópusambandsins hefur neytendavernd aukist. Á síðast liðnu ári gerðist viðskiptaráðuneytið aðili að samstarfi allra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu sem miða á að því að tryggja neytendum á öllum Innri markaðnum í Evrópu greiða og örugga leið að skjótri og ódýrri úrslausn ágreiningsmála sem kunna að koma upp í viðskiptum neytenda við seljendur á vörum og þjónustu. Samstarf þetta er verið að þróa og hefur ráðuneytið í samræmi við samning þennan komið á fót Evrópsku neytendaaðstoðinni á Íslandi en nánari upplýsingar er að finna á sérstakri heimasíðu aðstoðarinnar. Á næstu vikum ber Evrópsku neytendaaðstoðinni að tilkynna til framvæmdastjórnar ESB hvaða úrskurðaraðilar eru starfandi hér á landi og sem fullnægja lágmarkskröfum sem gerðar eru samkvæmt tilmælum ESB. Mér er kunnugt um að undanfarið hafa farið fram viðræður og undirbúningur af hálfu Bílgreinasambandsins, Félags íslenskra bifreiðaeigenda og Evrópsku neytendaðstoðarinnar, sem miða eiga að því að ganga frá slíkri tilkynningu til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Það er ljóst að þetta samstarf við Evrópusambandið sem í upphafi var hugsað fyrst og fremst til að greiða fyrir lausn ágreingsmála yfir landamæri á innri markaði, skilar sér með þessum hætti beint til íslenskra neytenda.
Það er ánægjulegt að vita að í samstarfi Bílgreinasambandsins og FÍB hefur mörg undanfarin ár verið rekin ódýr og skilvirk þjónusta fyrir neytendur og leyst ágreiningsmál á einfaldan og skjótan hátt. Jafnframt þegar að slík tilkynning hefur verið gerð og birt á heimasíðu allra hlutaðeigandi aðila í Evrópu mun sjást að hér á landi leggja aðilar metnað sinn í það að veita greiðan aðgang að slíkum úrræðum á sviði bifreiðaviðskipta.

Ágætu aðalfundargestir og þátttakendur hér í dag. Þegar ég lít yfir dagskrá ykkar þá er ég bjartsýn fyrir hönd íslenskra bilgreina og hag neytenda í framtíðinni. Velji ég aðeins hér af handahófi nokkur lykilorð s.s. "menntastefna Bílgreinasambandsins", "nýjar áherslur verkstæða" "markaðssetning verkstæða" og "bílavefur" þá held ég að það sé augljóst að hér ríkir metnaður til áframahaldandi þróunar innar greinarinnar og vilji til að horfa til framtíðar. Á tímum örra breytinga og breyttra viðskiptahátta þá tel ég að þannig eigi jafnframt að standa að málum á öllum sviðum atvinnulífsins.
Að lokum vil ég því óska ykkur alls góðs í umræðum ykkar og störfum hér í dag.
Þakka áheyrnina!.
 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval