Ávarp við opnun Handbókar byggingariðnaðarins

27/2/02

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Ávarp
í tilefni af opnun Handbókar byggingariðnaðarins,
sem er upplýsingabanki á heimasíðu
Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins á Keldnaholti.
26. febrúar 2002.


Ágætu samkomugestir.

Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins gegnir mikilvægu hlutverki í þágu byggingariðaðarins og almennra þjóðhagslegra hagsmuna. Viðfangsefnin eru fjölþætt, m.a. hagnýtar rannsóknir, tæknilegar prófanir og tækniþjónusta, útgáfa vottorða og samræmisyfirlýsingar og upplýsinga- og útgáfumál.

Ljóst er að allir landsmenn eiga mikilla hagsmuna að gæta í starfsemi stofnunarinnar því talið er að um 80% af þjóðarauði okkar sé bundinn í mannvirkjum. Í þessu felst að stór hluti af sparifé almennings liggur í fasteignum, - en drjúgur hlutur fer einnig í viðhald þeirra, eða um 1 til 3% af nýbyggingarverði mannvirkja.

Af þessu leiðir að mikils er um vert að allir sem koma að mannvirkjagerð og viðhaldi þeirra eigi greiðan aðagang að nýjustu og bestu upplýsingum um hvaðeina sem snertir byggingarmálefni. Þetta á jafnt við um mannvirkjahönnuði, iðnaðarmenn, skólafólk og húseigendur. Einkum er þetta mikilvægt vegna þess að verðurfarslegar og landfræðilegar aðstæður á Íslandi eru um flest sérstæðar og erfiðari en víða erlendis. Alþjóðlegar rannsóknir í byggingartækni eru því ekki yfirfæranlegar til Íslands án aðlögunar.

Ég fagna því sérstaklega að upplýsingabanki um þennan mikilvæga málaflokk skuli nú vera kominn á það stig að hægt er að opna hann fyrir almenning. Ég hef lagt áherslu á að sem mest af þeim miklu upplýsingum sem finna má innan veggja opinberra stofnana verði gert aðgengilegt almenningi í opnum gagnagrunnum. Verkefnisstjórn forsætisráðuneytisins um málefni upplýsingasamfélagsins hefur einnig lagt áherslu á þetta og veitt þessu verkefni stuðning.

Með því að opna aðgang að upplýsingum Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins um byggingartækni stuðlum við að eflingu samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Við erum að miðla þekkingu til fjölmargra aðila og það leiðir til aukinnar framleiðni í iðnaði og bættrar iðnaðarframleiðslu. Við erum að miðla þekkingu inn í skólakerfið þannig að nemendur á öllum skólastigum eigi greiðari aðgang að kennsluefni. Síðast en ekki síst er verið að miðla þekkingu til húseigenda sem leitt getur til færri mistaka, betra efnisvals og vandaðri vinnubragða en ella.

Ég vil að lokum þakka Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins fyrir að fá tækifæri til að vera hér í dag. Ég hlakka til að fræðast um innihald gagnagrunnsins sem fengið hefur nafnið Handbók byggingariðnaðarins.

Til hamingu með þennan mikilvæga áfanga, sem ég trúi að eigi eftir að vaxa og dafna vel í famtíðinni - byggingariðnaðinum til hagsbóta og landsmönnnum öllum til mikils gagns.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval