Ávarp við afhendingu markaðsverðlauna Ímarks, 10.01.2002

10/1/02

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp við afhendingu markaðsverðlauna ÍMARKs,
Hótel Sögu 10. janúar 2002.


Góðir gestir.
Markaðsverðlaun Ímarks eru orðin gamalgróin í íslensku viðskiptalífi, enda afhent nú í 11. sinn. Það er engum blöðum um það að fletta, að Ímark hefur með starfsemi sinni og þessum verðlaunum, aukið veg markaðsmála hérlendis og stuðlað að almennri kynningarstarfsemi á markaðsstörfum sem atvinnugrein.

Markaðsverðlaun Ímarks eru veitt aðilum, sem hafa verið áberandi í markaðsmálum á síðasta ári, og sýnilegur árangur hefur náðst. Verðlaunaafhending sem þessi glæðir vitund okkar fyrir nauðsyn þess að efla atvinnulífið og þann drifkraft sem fólginn er í öflugri markaðsstarfsemi. Verðlaunin minna á það sem vel er gert.

Til að bæta hag þjóðarinnar þurfum við á því að halda að nýta auðlindir okkar og hugvit. Til þess þurfum við öflug fyrirtæki, bæði stór og smá, og síðast en ekki síst kröftugt markaðsstarf. Við þurfum framsýni, dugnað og fagmennsku eins og verið er að verðlauna hér í dag.


Góðir gestir.
Ég sný mér nú að aðalatriðinu, markaðsverðlaunum Ímarks fyrir árið 2001. Það er ekki eftir neinu að bíða.
Þrjú afburða fyrirtæki voru valin af stjórn Ímarks en alls um 50 aðilar fengu tilnefningar. Ingólfur Guðmundsson fór hér áðan yfir verðleika og árangur þessara fyrirtækja; Bláa lónsins, Háskólans í Reykjavík og Pharmaco, og dylst engum að þessir aðilar eru vel að þessum heiðri komnir.

Það fyrirtæki sem hlýtur markaðsverðlaun Ímarks fyrir árið 2002 er

Bláa lónið.

Bláa lónið er vel að þessum verðlaunum komið. Við höfum öll fylgst með mikilli uppbyggingu fyrirtækisins á síðustu árum. Bláa lónið hefur með markvissu markaðsstarfi verið leiðandi í að innleiða nýjungar í ferðaþjónustu og er lónið nú vinsælasti ferðamannastaður landsins. Ég hef stundum haldið því fram í góðum hópi að lónið sé staðfesting á því að virkjanir og ferðaþjónusta fari vel saman.

En fyrirtækið rekur ekki eingöngu heilsulindina heldur einnig meðferðadeild og framleiðir vinsælar heilsuvörur. Markaðsstarf fyrirtækisins miðar að því að byggja upp sterkt vörumerki sem endurspeglar ímynd heilsu, vellíðunar og fegurðar og einstakrar upplifunar í hugum neytenda.

Ég vil óska Bláa lóninu innilega til hamingju með markaðsverðlaun Ímarks fyrir árið 2001.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval