Opinn fundur Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra

18/5/06

Ágætu Vestfirðingar

Ég vil byrja á því að þakka fyrir að vera boðin til þessa fundar.

Atvinnumál eru mér jafnan ofarlega í huga og þá ekki síst atvinnumál á landsbyggðinni. Undanfarnar vikur hefur verið mikil umræða í þjóðfélaginu um frumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi um Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Frumvarpið ber reyndar heitið – frumvarp til laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að mikil umræða skapist um jafn stórt mál og þetta enda verulega miklir hagsmunir í húfi og mjög brýnt að vel takist til. Umræða sem slík er líka af hinu góða, ekki síst ef málefnalega er að henni staðið. Það sem mér hefur hins vegar verulega þótt skorta á í umræðunni um þetta mál er að fjallað sé um þá hugmyndafræði sem býr að baki og að fjallað sé um þær aðstæður sem við búum við hvað varðar nauðsyn þess að viðhalda samkeppnishæfni atvinnulífsins í landinu.

Eins og allir vita þá lifum við á tímum mikilla og örra breytinga. Þær þjóðir sem við berum okkur saman við keppast við að efla nýsköpun á öllum sviðum og viðhalda með því samkeppnishæfni atvinnulífsins. Eitt af því sem gefið hefur góða raun í þeim efnum er starfræksla svokallaðra þekkingarsetra en í þeim eru sköpuð skilyrði og aðstæður fyrir atvinnulíf, háskóla og rannsóknarstofnanir til að vinna saman að þróun nýrra atvinnutækifæra. Í frumvarpinu um Nýsköpunarmiðstöð Íslands er lagt til að eitt af aðalverkefnum hennar verði að efla samstarf á milli rannsóknarstofnana, háskóla og fyrirtækja og styrkja tengsl þeirra við atvinnuþróunarfélög.

Góð hugmynd getur orðið til hvar sem er í heiminum og ekkert síður á Vestfjörðum en annars staðar. Til þess að góð hugmynd geti orðið að raunverulegri viðskiptahugmynd þarf hins vegar margt að koma til. Í sumum tilvikum rannsóknir á tæknilegum atriðum, vinna við vöruþróun, gerð viðskiptaáætlunar og svo mætti lengja telja. Í þekkingarsetrum er ætlunin að það bakland geti orðið til sem nauðsynlegt er til að þróa og hlúa að góðum hugmyndum og auka þar með líkurnar á því að þær geti skapað verðmæti.

 

Það er ekkert óeðlilegt við það að jafn mikil skipulagsbreyting og lögð er til með frumvarpinu vekji spurningar og jafnvel ótta um það að landsbyggðin muni verða undir við stofnanasameiningu eins og þá sem lögð er til. Það verður þó að hafa hugfast, nú sem endranær, að því er þannig farið að þær breytingar sem eiga sér stað í heiminum taka ekki mið af áratuga gömlu stofnanafyrirkomulagi á Íslandi heldur verður stofnanakerfið hér að taka mið af breyttum aðstæðum í heiminum. Hlutverk Byggðastofnunar er fyrst og fremst það að hafa áhrif á þróun atvinnulífs á landsbyggðinni og er starfræksla Byggðastofnunar einungis einn liður af mörgum í viðleitni stjórnvalda við að jafna búsetuskilyrði og lífskjör í landinu. Byggðastofnun er ekki stór stofnun og getur eðli málsins samkvæmt ekki boðið nema takmarkaða þjónustu af þeim sökum.

 

Í ljósi hinnar síharðnandi samkeppni er það mín trú að sameina verði Byggðastofnun annarri atvinnuþróunarstarfsemi sem fyrir er í landinu. Verði það ekki gert er að mínu mati mun meiri hætta á því að atvinnulíf á landsbyggðinni dragist aftur úr annarri atvinnustarfsemi.

Í framvarpinu um Nýsköpunarmiðstöð Íslands er gert ráð fyrir að atvinnurþróunarfélög gegni lykilhlutverki við atvinnuuppbyggingu á hverjum stað eins og nú er. Gert er ráð fyrir því að í staðbundinni þjónustustarfsemi við frumkvöðla og fyrirtæki verði haft samráð við atvinnuþróunarfélög og einnig að atvinnuþróunarfélög vinni í nánu samstarfi við þekkingarsetur. Atvinnuþróunarfélög þurfa því ekki að óttast verkefnaskort verði frumvarpið að lögum.

----------------

 

Ágætu gestir

Nú er til meðferðar á Alþingi tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006 – 2009.

Aðalmarkmið byggðaáætlunarinnar eru að bæta búsetuskilyrði á landsbyggðinni og efla samkeppnishæfni landsins.

Í þingsályktuninni eru 23 aðgerðatillögur. Þessar tillögur bera það með sér að þær eru flestar hverjar unnar í samstarfi við viðkomandi fagráðuneyti. Ég mun hér á eftir gera grein fyrir þeim tillögum í byggðaáætluninni sem mestu skipta fyrir Vestfirðinga. Hins vegar verður að hafa í huga að sá árangur sem næst er fyrst og fremst undir því kominn að heimamenn sjái hverjir möguleikarnir eru og nýti þau áhöld sem standa til boða.

 

Engir vita betur en Vestfirðingar hversu miklu máli samgöngurnar skipta. Það er því ekki að ófyrirsynju að fyrsta aðgerðin í byggðaáætluninni skuli heita "Bættar samgöngur". Það er viðurkennd staðreynd að góðar og öruggar samgöngur hafa afgerandi áhrif á búsetuskilyrði á landsbyggðinni. Þar þurfa bæði til að koma bættar samgöngur innan landshluta og eins til annara landshluta. Með því að hafa þessa aðgerð fremst er einfaldlega verið að undirstrika mikilvægi samgöngubóta og stuðla að því að sem mestu fé verið varið til þess málaflokks á komandi árum.

Bætt fjarskipti skipta líka gríðarlegu mái fyrir landsbyggðina. Tryggir gagnaflutningar með háhraða verða að standa til boða um land allt, svo og GSM símaþjónusta og aðgangur að gagnvirku sjónvarpi. Þetta er einmitt þriðja aðgerðin í byggðaáætluninni og það sama á við og um samgöngubæturnar. Mikið átak er nú í gangi til að bæta fjarskipti í landinu, sem tengist sölu Símans.

 

Hér á Vestfjörðum var skrifað undir vaxtarsamning fyrir um það bil ári síðan en gerð og framkvæmd vaxtarsamninga er fjórða aðgerðin í byggðaáætluninni. Eins og þið vitið þá er það Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða sem sér um framkvæmd vaxtarsamningsins en meginmarkmið vaxtarsamninga er einmitt að flytja ábyrgð á framkvæmdum á sviði byggðamála heim í hérað og stuðla jafnframt að auknu samstarfi heimaaðila.

Það hefur háð allri umræðu um byggðamál að tölfræðileg gögn eru af mjög skornum skammti. Það liggja fyrir tölur um íbúaþróun einstakra svæða svo og atvinnuleysi en ekki til dæmis varðandi tekjuþróun eða fjölda starfa. Fimmta aðgerð byggðaáætlunarinnar felur Byggðastofnun að vinna að lausn vandans. Er nú þegar komin í gang vinna við að reikna út hagvöxt einstakra svæða. Tölfræðigrunnur um þessi efni þarf að vera aðgengilegur þeim sem vilja og þurfa á að halda.

 

Sjötta aðgerð byggðaáætlunar er undirbúningur að gerð landshlutaáætlana. Það skiptir miklu máli að ná að skapa samkennd og samstöðu innan landshlutanna og laða alla aðila til samstarfs um þróun og áherslur frekar en harðrar samkeppni. Víða erlendis er unnið skipulag fyrir stór landsvæði þar sem mynduð er sameiginleg framtíðarsýn um sjálfbæra þróun efnahags, samfélags og náttúrufars. Byggðastofnun er ásamt Skipulagsstofnun þátttakandi í fjölþjóðlegu verkefni um gerð svæðisáætlana á norðlægum slóðum. Er þess vænst að niðurstaða verkefnisins nýtist sem grunnur til að vinna landshlutaáætlanir sem saman nái yfir Ísland allt.

 

Sjöunda aðgerð byggðaáætlunar er athugun á stöðu byggðarlaga sem búa við viðvarandi fólksfækkun. Það er staðreynd að þó að á ýmsum svæðum fjölgi nú fólki þar sem áður var fækkun, svo sem í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, í Eyjafirði og á Mið-Austurlandi, þá er viðvarandi fólksfækkun á öðrum svæðum. Það á til dæmis við um stóran hluta Vestfjarða. Þessi þróun veldur mér áhyggjum ekki síður en ykkur sem hér búið. Byggðastofnun mun í samstarfi við atvinnuþróunarfélögin, sveitarfélögin og fleiri vinna sérstaka úttekt á stöðu byggðarlaga sem glímt hafa við viðvarandi fólksfækkun. Styrkleikar og veikleikar verða metnir og greindir möguleikar til eflingar byggðarlaganna.

Ég vil engu að síður segja að ég sé ýmis jákvæð teikn á lofti á Vestfjörðum. Heimamenn eru að vinna að mörgum áhugaverðum verkefnum og hér ríkir meiri bjartsýni og meiri baráttuvilji en oft hefur verið. Ég óska ykkur til hamingju með það.

 

Áttunda aðgerð byggðaáætlunar snýst um styrkingu atvinnuþróunar. Á undanförnum árum hafa greiðslur atvinnuþróunarfélaganna hækkað verulega umfram verðlag eða úr 106 milljónum árið 2002 í 133 milljónir í ár. Atvinnuþróunarfélögin eru hornsteinar svæðisbundinnar nýsköpunar og gegna ákaflega þýðingarmiklu hlutverki hvert á sínu svæði.

Tíunda aðgerð byggðaáætlunar er uppbygging þekkingarsetra/háskólasetra. Sá merki áfangi náðist vorið 2005 á Háskólasetur Vestfjarða var stofnað. Það á að verða gróðrarstöð fjölbreittrar háskólamenntunar, rannsókna- og þekkingarstarfs á Vestfjörðum. Ég tel eðlilegt að í upphafi beini þekkingarsetrið sjónum að þeim sérkennum og styrk atvinnu- og mannlífs á Vestfjörðum. Mjög mikilvægt er að hér takist vel til því háskólanám á heimaslóð og vísinda- og þekkingarstarf er ein af forsendum fyrir öflugu nýsköpunarstarfi. Í þessu felast mikil sóknarfæri.

 

Ég get haldið áfram að tilgreina aðgerðir í byggðaáætlun 2006 – 2008 sem eru mikilvægar fyrir Vestfirðinga. Ég nefni hér aðeins í viðbót eflingu þjónustu við innflytjendur og aukna fjölmenningu.

Ágætu Vestfirðingar.

Umræða um byggðamál er oft á neikvæðum nótum. Horft er fram hjá þeim árangri sem náðst hefur en vandamálin aftur á móti blásin út. Það er engum til góðs. Við eigum að horfast í augu við þau verkefni sem við okkur blasa og leita saman að lausnum. Horfum bjartsýn en raunsæ til framtíðar. Til þess eru öll efni þegar á heildina er litið.

Takk fyrir. 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval