Hornsteinn lagður að stöðvarhúsi Káranhnjúkavirkjunar.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

12/5/06

Skáldið Einar Benediktsson segir í einu kvæða sinna:

Hve mætti bæta lands og lýðs vors kjör

að leggja á bogastreng þinn kraftsins ör, -

að nota máttinn rétt í hrapsins hæðum,

svo hafinn yrði í veldi fallsins skör.

- Og frjómögn lofts má draga að blómi og björk,

já, búning hitans sníða úr jökuls klæðum.

Hér mætti leiða líf úr dauðans örk

og ljósið tendra í húmsins eyðimörk

við hjartaslög þíns afls í segulæðum. –

Hér er dýrt kveðið og ástæða til að vitna til skáldsins sem sameinaði svo skemmtilega skáldskapargyðjuna og athafnamanninn. Hann sem vildi sjá orkuauðlindir nýttar til framfara fyrir þá þjóð sem hann ann svo mjög og bjó við bág kjör á norðlægum slóðum. "Hve mætti bæta lands og lýðs vors kjör."

Þær aðstæður sem íslensk þjóð býr við í dag eru á engan hátt sambærilegar við það sem þá var, enda lífskjör hér á landi talin meðal þeirra bestu sem þekkjast. Það sem á sér stað hér í dag og hefur verið að gerast á Austurlandi á síðustu misserum mun engu að síður valda straumhvörfum. Með því að nota máttinn rétt, eins og segir í kvæðinu og reisa Kárahnjúkavirkjun og álver á Reyðarfirði, eru bætt kjör Austfirðinga þannig að nú horfum við fram á fólksfjölgun hér, fjölbreyttara atvinnulíf, uppbyggingu á fjölmörgum sviðum og blómlegri byggð.

Það hafa verið áform allra ríkisstjórna Íslands síðustu 50 árin að nýta orkulindirnar til að byggja upp atvinnu og efla mannlíf. Hér á Austurlandi átti sú þróun sér lengri aðdraganda en nokkurn óraði fyrir. Fyrstu hugmyndir að nýtingu hinna kraftmiklu fallvatna norðan Vatnajökuls til eflingar atvinnulífs á Austurlandi má rekja til áttunda áratugs síðustu aldar þegar stóriðjunefnd bauð norska álfyrirtækinu – Ardal Sunndal að skoða aðstæður á Reyðarfirði fyrir byggingu álvers. Þrátt fyrir góð áform varð ekkert úr þeim framkvæmdum og það er kannski kaldhæðni örlaganna að hið sama gerðist með annað norskt fyrirtæki sem sýndi málinu áhuga síðar. Er ég þá að vitna til þess að eftir 5 ára undirbúning að byggingu álvers á Reyðarfirði í samstarfi við Norsk Hydro skaut fyrirtækið þeim áformum á frest á vordögum árið 2002.

 

Þá tóku við erfiðir tímar fyrir Austfirðinga en ég dáðist að þeirri yfirvegun sem fólk sýndi við þær aðstæður. Mér er eftirminnilegur fundur sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar ásamt sveitarstjórnarfólki átti með íbúum hér á Austurlandi þar sem ný staða var rædd. Upp úr stóð samstaðan sem þar ríkti og ákveðnin um að markmiðum skyldi engu að síður náð.

Fram kom á fundinum fyrirspurn um hversu langan tíma það tæki að finna nýjan fjárfesti. – Því var svarað til af forsvarsmönnum Reyðaráls að það gæti tekið 5 ár.

 

Á sama tíma átti sér hins vegar stað fyrsti fundur fulltrúa iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar með Alcoa úti í New York. Ég vildi þó ekki greina frá því á borgarafundinum á Reyðarfirði til að vekja ekki vonir, sem e.t.v. væri ekki hægt að standa undir.

Um framhaldið þarf þó ekki að hafa mörg orð.

Í stuttu máli sagt náðist að fella áform Alcoa inn í tímaáætlun Norsk Hydro og þess vegna erum við saman komin hér í dag. Eftir 1 ár mun álver Alcoa, Fjarðaál, hefja starfsemi sína og veita hundruðum karla og kvenna vel launuð störf.

 

Það er stórkostlegt að hafa verið þátttakandi í því ævintýri sem hér um ræðir. Ekkert eitt verkefni hefur haft jafnmikil áhrif á þróun byggðar og lífsgæða hér á þessu svæði síðustu áratugi. Verkefnið mun auk þess hafa varanleg jákvæð áhrif á efnahag íslensku þjóðarinnar.

Ég hóf mál mitt með því að fara með erindi úr kvæði Einars Benediktssonar um Dettifoss. Í því felst auðvitað engin vísbending um að uppi séu áform um virkjun Jökulsár á Fjöllum. Um það ríkir samstaða að vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum skuli friðað.

 

Nýlega heyrði ég Vilhjálm Hjálmarsson fyrrverandi menntamálaráðherra rifja upp þá tíð þegar hann var sveitarstjórnarmaður í Mjóafirði og var þátttakandi sendinefndar á vegum Fjórðungssambands Austurlands í ferð norður að Laugum í Reykjadal til stuðnings áformum Norðlendinga um virkjun Dettifoss. Það er tímanna tákn að nú finnst sérhverjum Íslendingi slík framkvæmd útilokuð af umhverfisástæðum.

Kæru Austfirðingar, forsvarsmenn Landsvirkjunar og aðrir gestir.

Ég óska ykkur til hamingju með áfangann. Hann er stórt skref á þeirri leið sem við nú förum í átt til betri byggðar á Austurlandi og bættra kjara á landinu öllu.

  

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval