Verk og vit 2006

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra

17/3/06

Góðir gestir.

Það er mér mikið gleðiefni að bjóða ykkur velkomin á opnunarhátíð stærstu og fjölbreyttustu sýningar á sviði byggingariðnaðar, skipulagsmála og mannvirkjagerðar, sem nokkru sinni hefur verið haldin á Íslandi.

Hér má á einum stað fræðast um nýjustu tækni í byggingariðnaði, innlend og innflutt byggingarefni og búnað til mannvirkjagerðar, auk þess að kynnast því besta í ráðgjöf, þjónustu og verktakastarfsemi sem markaðurinn hefur upp á að bjóða þessa stundina.

Við lifum nú á mesta framfaraskeiði í sögu þjóðarinnar. Gríðarlegar fjárfestingar eiga sér stað við uppbyggingu á öllum sviðum. Fjármunamyndun í byggingum og mannvirkjagerð var á síðast liðnu ári um 180 milljarðar króna, sem er ríflega 17% aukning frá árinu áður. Heildar fjármunaeign þjóðarinnar var um síðust áramót 3.500 milljarðar króna. Tæplega 90% hennar, eða um 3.100 milljarðar króna, er bundin í byggingum og mannvirkjum af ýmsum toga. Þetta er hinn efnislegi þjóðarauður Íslendinga. Miklu skiptir að viðhalda honum vel.

Velsæld þjóðarinnar byggir að mestu á mannvirkjum, sem reist hafa verið eftir síðustu heimsstyrjöld, það er að segja á undanförnum 60 árum. Þar á meðal eru hús, vegir, brýr, hafnir, virkjanir og verksmiðjur. Við upphaf þess tímabils var fagþekking hérlendis af skornum skammti og að mestu í höndum erlendra hönnuða og verktaka, en smám saman með aukinni menntun og framförum hefur okkur auðnast að tileinka okkur þá kunnáttu og verkmenningu, sem til þarf.

Er nú svo komið, að íslenskt hugvit og handverk ráða við að byggja flest þau mannvirki, sem hér þarf að reisa. Samtímis hafa fagmennska og þekking aukist á öllum sviðum svo sem byggingarrannsóknum, hönnun, framkvæmdum og fjármálaþjónustu. Eitt besta dæmi um það hve góðum tökum íslenskir fagmenn hafa náð á flókinni mannvirkjagerð er bygging álvers Norðuráls á Grundartanga. Framkvæmdir þær sem nú standa yfir við stækkun álversins eru því sem næst alfarið í höndum íslenskra hönnuða og verktaka og fjármögnun er undir handleiðslu íslenskra banka.

Hér hefur menntun, áræði og verkvit ofist saman við meðfædda sjálfsbjargarviðleitni íslensku þjóðarinnar og skilað einstökum árangri. Nú þegar er farið að bera á útrás til annarra landa á vettvangi verkþekkingar og mannvirkjagerðar, ekki síst á sérsviði okkar, sem er virkjun og nýting jarðvarmaorku, og verður spennandi að fylgjast með þeirri þróun í framtíðinni.

 

Gamalt máltæki segir „betur vinnur vit en strit". Ég er ekki viss um að það eigi við í dag og tel raunar að sýningin hér í Laugardal sýni það betur en nokkur orð fái lýst hve nauðsynlegt það er að verk og vit haldist í hendur.

Ég vil að lokum fyrir hönd iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, sem er einn aðstandenda sýningarinnar, þakka öllum þeim fjölmörgu sem lagt hafa hönd á plóginn við að gera hana svo vel úr garði sem raun ber vitni, og óska þeim til hamingju með árangurinn.

Að svo mæltu lýsi ég sýninguna Verk og vit 2006 opna. 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval