Hver er nýsköpunin í útrásinni?

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra

9/3/06

Ágætu þinggestir: I. Útrás íslenskra fyrirtækja hefur vakið verðskuldaða athygli víða um lönd. Eflaust má rekja ástæður hennar til margra áhrifaþátta en einkum eru það þrjár ástæður sem þyngst vega. Í fyrsta lagi aðild okkar að EES sem m.a. opnaði okkur aðgang að innri markaði Evrópu og leiddi til þess að hér á landi gilda sömu meginreglur í viðskiptum og annarsstaðar á þessu stærsta viðskiptasvæði okkar. Í öðru lagi var það sala ríkisfyrirtækja, einkum ríkisbankanna, sem leysti úr læðingi fjármagn sem síðan hefur verið eitt helsta hreyfiafl útrásarinnar og Í þriðja lagi eru það svo margvíslegar skattalegar umbætur, einkum lækkun tekjuskatts fyrirtækja og heimildir til uppgjörs í erlendum gjaldmiðlum. II. Auk þessara ytri þátta, sem fyrst og fremst hafa nýst starfandi fyrirtækjum, hefur aukin áhersla verið lögð á frumstig nýsköpunarinnar sem oftast tengist hinum nýrri og smærri fyrirtækjum. Fjárfestingar okkar Íslendinga í rannsóknum og tækniþróun nema nú um 3% af landsframleiðslu og hafa þær næstum tvöfaldast á tíu árum. Framlög ríkisins hafa að meðaltali aukist um 7,2% á ári sem er talsvert umfram aukningu í landsframleiðslu. Tilkoma Tækniþróunarsjóðs og efling annarra samkeppnissjóða vega hér einna þyngst. Sé litið til fyrirtækja landsins þá er hlutur deCode í rannsóknum og þróun að sjálfsögðu veigamestur enda nema þær um fjórðungi af heildinni, þ.e. 0,7 til 0,8% af alls 3%. Nokkur önnur fyrirtæki eru veigamiklir þátttakendur í nýsköpuninni og má nefna Actavis, Marel og Össur sem dæmi um frábærar fyrirmyndir í þessum efnum. Flest önnur fyrirtæki eru smærri, en að mati Iðntæknistofnunar stunda 150 til 200 fyrirtæki rannsóknir og nýsköpun hér á landi. Samkvæmt nýlegri skýrslu ESB stunda flest þessara fyrirtækja svokallaða tækniaðlögun en mun færri reka rannsókna- og þróunarstarfsemi sem kjarnastarfsemi. Þetta eru ekki nógu góðar fréttir því eitt brýnasta verkefni langtíma stefnumótunar iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta er að stuðla að hraðari vexti hátæknigreina og aukinni framleiðni á öllum sviðum. Í þessu felst m.a. að skilgreina þarf markvissar aðgerðir til að efla þekkingarstig fyrirtækja og hvaða aðgerða sé þörf til að fjarlægja þær hindranir sem eru á vegi umbreytinga atvinnulífsins frá lágtækni yfir í þekkingargreinar. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti telja því mikilvægt að Vísinda- og tækniráð og aðrir þeir sem koma að opinberri stefnumótun rannsókna, tækniþróunar og nýsköpunar hugi sérstaklega að því með hvaða hætti sé unnt að hvetja fyrirtæki til þess að auka fjárfestingar sínar í rannsóknum og þróun og að þau beini áherslum sínum í auknum mæli að þekkingargreinum. III. Vísindi og tæknigreinar koma oft fyrst upp í hugann þegar rætt er um nýsköpun. Það er í sjálfu sér ekki neitt við það að athuga enda hafa þessar greinar verið mest áberandi í almennri umfjöllun um nýsköpunina. Því má þó ekki gleyma að íslenskt efnahagslíf einkennist umfram annað af verslun og þjónustugreinum. Samkvæmt hagtölum telst þjónusta einkaaðila vera um 34% af landsframleiðslu og þjónusta hins opinbera um 22% til viðbótar – eða samtals 56% af landsframleiðslu. Vöxtur þjónustugreina hefur verið ör og ber hiklaus framganga fjármálafyrirtækja á erlendri grund glöggt vitni um það. Ég geri þetta að umfjöllunarefni hér af tveimur ástæðum. Annars vegar til þess að hvetja til aukinnar umræðu um nýsköpun atvinnulífsins og efnahagslegra framfara - á fræðasviðum sem tengjast ekki nýsköpun með beinum hætti, eins og í hugvísindum og félagsvísindum. Hins vegar til að vekja athygli á yfirskrift fundarins sem er: Hver er nýsköpunin í útrásinni ? Þetta er dálítið snúin yfirskrift – en ég skil hana svo að þar sé m.a. vísað til þeirrar sérstöðu sem við Íslendingar búum við - í fámennu landi, - þar sem tengslanet manna á milli er mjög virkt. Meðal annars vegna þess er lagskipting í fyrirtækjum minni en víðast annars staðar og aðgangur að efstu stjórnendum fyrirtækja og stjórnsýslu greiðari. Yfirskriftin vísar einnig til þess að nýsköpunin er ekki bara bundin við vísindi og tækni heldur er hún þverfagleg og flæðir í raun yfir öll hefðbundin mörk. Það verður fróðlegt að heyra innlegg frummælendanna hér á eftir um þetta efni. Takk fyrir

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval