Aðalfundur IcePro.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

27/2/06

Ágætu fundargestir. Á undanförnum árum hefur verið mikill uppgangur í íslensku efnahagslífi. Hagkerfið hefur vaxið stórum skrefum og tækniþróunin og framfarir á fjölmörgum sviðum hafa í raun umbreytt heiminum öllum. Er í því samhengi gjarnan talað um svokallaða alþjóðavæðingu. Í þessum umskiptum felst m.a. að tilkoma rafrænna viðskipta hefur smám saman breytt hefðbundnum viðskiptaháttum og má ætla að þróunin á því sviði geti orðið enn hraðari á komandi árum. Sú hagræðing og sá drifkraftur sem felst að mínu mati í hagnýtingu rafrænna viðskipta getur skipt sköpum í aukinni samkeppnishæfni þjóðarinnar og þar af leiðandi velferð hennar. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hefur allt frá stofnun IcePro stutt það starf sem fram hefur farið á vegum vettvangsins. Hlutverk IcePro er, eins og ykkur er kunnugt um, að tryggja einfalt og samræmt verklag í rafrænum viðskiptum þar sem alþjóðlegar verklagsreglur og staðlar á sviði rafrænna viðskipta eru lagðir til grundvallar. Fellur þetta vel að því markmiði ráðuneytisins að efla samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Sem dæmi um það góða starf sem fram fer fyrir tilstilli og með aðkomu IcePro er samstarf Norðurlandaþjóða í þróun eins sameiginlegs staðals fyrir rafræn skjöl. Ákveðið var að byrja þróunina á reikningum en fleiri skjöl munu væntanlega fylgja í kjölfarið. Ef vel gengur mun vera um arðvænlegt starf að ræða sem ef til vill getur haft nokkuð víðtæk áhrif á alþjóðavísu. Það má því segja með sanni að Íslendingar komi víða við á sviði jafnt hefðbundinna sem rafrænna viðskipta og áhrifin nái inn á fleiri svið en gengisbreytinga íslenskrar krónu og annarra og fjarlægari mynta. Í árdaga rafrænna viðskiptahátta á Íslandi lagði iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið áherslu á að kynna þá möguleika sem í þeim fælist fyrir markaðnum. Síðar var farið út í þá vinnu að athuga hvort breyta þyrfti lögum og reglum til að ekki væru lagalegar hindranir fyrir rafrænum viðskiptaháttum hér á landi. Á síðustu árum hafa verið samþykkt nokkur frumvörp á þessu sviði sem ráðuneytið hefur unnið að og er nú svo komið að ekki verður séð að lög hamli rafrænum viðskiptum, né að lög skorti til þess að slíkir viðskiptahættir fái þrifist. Tæknilegar forsendur ættu ekki heldur að vera nein hindrun því Íslendingar hafa líkt og aðrir tekið Netinu opnum örmum er nú svo komið að notkun þess er hér einhver sú mesta í heiminum. Í því samhengi má geta þess að ef litið er til alþjóðlegs samanburðar er Ísland í öðru sæti á lista yfir þjóðir heims þegar litið er til þess hversu tilbúnar þær eru til að taka þátt í og haganýta sér upplýsinga- og samskiptatækni. Innviðirnir eru því fyrir hendi og undir okkur sjálfum komið að nýta tækifærin. Til að ýta undir að tækifærin séu nýtt hefur iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið á liðnum mánuðum og árum beitt sér fyrir því með ýmsum hætti að fólk og fyrirtæki séu meðvituð um hagnýtingu og ávinning tækninnar. Fyrir tæpu ári síðan lét ég í ljós í ávarpi eindreginn vilja minn til að beita mér fyrir sérstökum degi upplýsingatækninnar, svokölluðum UT-degi. Var sá dagur haldinn í lok janúar s.l. og er það samdóma álit manna að vel hafi tekist til. Það sem var e.t.v. hvað gleðilegast við þennan viðburð er að ég varð þess áskynja að mörgum kom á óvart hversu mikill kraftur og fjölbreytni er ríkjandi hjá íslenskum upplýsingatæknifyrirtækjum. Er það von mín að þennan skemmtilega viðburð megi endurtaka með einhverjum hætti. Í tengslum við UT-daginn fól iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið einni af undirstofnunum ráðuneytisins, Impru nýsköpunarmiðstöð, að taka saman fræðsluefni um rafræn viðskipti. Var fyrsti vísirinn að slíku efni birtur á vefsíðu Impru um miðjan janúar s.l. og þykist ég vita að við það verði aukið á næstu mánuðum. Þá má og nefna að IcePro stóð fyrir svokölluðum „XML degi rafrænna reikninga“ í tengslum við UT-daginn. Í framhaldi þess fundar var stofnaður vinnuhópur sem tengist fyrrgreindu samstarfi Norðurlandaþjóða í þróun sameiginlegs staðals fyrir rafræn skjöl. Í ávarpi mínu á ráðstefnu UT-dagsins nefndi ég að á liðnum mánuðum hefði verið unnið að því á vegum ráðuneytisins að skapa hér á landi skilyrði sem greitt gætu fyrir vexti íslensks upplýsingatækni- og hátækniiðnaðar. Tengist sú vinna m.a. tilboði sem Samtök upplýsingatæknifyrirtækja afhentu stjórnvöldum á síðasta ári, sem og starfshópi sem ég setti á laggirnar og tengist fjármögnun nýsköpunar. Er ánægjulegt að geta greint frá því að samstaða hefur náðst um framgang tillagna sem lúta að því að: · virkja samlagshlutafélagaformið sem vettvang þar sem ólíkir fjárfestar geta komið saman til þess að fjárfesta í nýsköpun · auðvelda þátttöku lífeyrissjóða í samlagshlutafélögum · veita fyrirtækjum nægan aðlögunartíma til uppbyggingar með breytingum á virðisaukaskattsumhverfinu Jafnframt er unnið að öðrum aðriðum sem ljóst þykir að bætt geta almenn starfsskilyrði fyrirtækja hér á landi. Þá hefur legið fyrir um skeið að breytingar kunni að vera framundan á stoðumhverfi rafrænna viðskipta. Þær stofnanir og samtök sem með einum eða öðrum hætti tengjast þróun rafrænna samskipta hafa um nokkra hríð unnið að auknu samstarfi eða samruna. Hillir undir að því ferli geti e.t.v. lokið á þessu ári. Afhending IcePro-verðlaunanna Góðir fundarmenn. Það er með ánægjulegri þáttum sem fylgja embætti mínu að fá af og til að veita verðlaun fyrir vel unnin verk en nú er einmitt komið að afhendingu IcePro-verðlaunanna. Ég mun nú lesa úrskurð dómnefndar Icepro, en hana skipa: Karl Friðrik Garðarsson, formaður ICEPRO og forstöðumaður stjórnsýslusviðs tollstjórans í Reykjavík. Vilhjálmur Egilsson, ráðuneytisstjóri sjávarútvegsráðuneytis og verðandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Júlíus Sæberg Ólafsson, forstjóri Ríkiskaupa Ríkisskattstjóri hefur á undanförnum árum verið leiðandi í rafrænni stjórnsýslu á Íslandi. Á síðustu árum hefur orðið bylting í skilum á skattframtölum og það sem áður var leiðinleg kvöð er nú þægileg kvöldstund fyrir alla fjölskylduna og skilmerkilegt uppgjör á fjármálum síðasta árs. Yfir 90% framtala einstaklinga og fyrirtækja er skilað rafrænt. Rafræn bakvinnsla er í lykilhlutverk í hagkvæmri og öruggri vinnslu skattkerfisins. Í 80 - 90% tilvika er enginn pappír notaður fyrr en að prentun álagningarseðilsins kemur og þeim sem óska er sendur rafrænn skattseðill. Ríkisskattstjóri hefur undanfarin 8 ár notað rafræn skilríki til öruggra samskipta við endurskoðendur og bókara. Nú hyllir undir almenna útbreiðsla slíkra skilríkja á Íslandi. Ríkisskattstjóri hefur sýnt að nýta má þróaða upplýsingatækni til að breyta þunglamalegum pappírsferlum í einföld rafræn samskipti til hagsbóta fyrir stofnunina, fyrirtæki og almenning. Ég vil biðja fulltrúa Ríkisskattstjóra að koma hér upp og veita verðlaununum viðtöku.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval