Upplýsingatækni áhrif og ávinningur.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra

24/1/06

Ráðstefnustjóri, góðir gestir,

Það er mér mikið fagnaðarefni að við skulum vera hér saman komin til að ræða um upplýsingatæknina á Íslandi og þýðingu hennar fyrir það samfélag sem land okkar byggir. Fyrir mitt leyti vil ég segja að það var orðið tímabært að þessari mikilvægu grein væri helgaður sérstakur dagur og er von mín sú að viðburðurinn takist vel og að framhald megi verða á.

- o -

Reglulega birtast okkur niðurstöður hinna ýmsu kannana þar sem borinn er saman árangur þjóða heims á fjölmörgum sviðum og eiga þær það sammerkt að Ísland er ávallt í fremstu röð. Má þar nefna lista yfir lífskjör og ríkidæmi, samkeppnishæfni, vænlegt viðskiptaumhverfi og svona mætti halda lengi áfram.

Skýringarnar á þessu eru m.a. þær að á liðnum árum hafa stjórnvöld beitt sér fyrir miklum skipulagsbreytingum og endurbótum á íslensku atvinnu- og efnahagslífi. Fjármálamarkaður hefur gjörbreyst, markvisst hefur verið unnið að því að draga hið opinbera úr samkeppnisrekstri, stjórnsýslan hefur verið gerð skilvirkari, leikreglur atvinnulífsins hafa verið bættar og erlend fjárfesting hefur aukist, svo fátt eitt sé nefnt. Þegar á heildina er litið má því segja að Ísland og Íslendingar hafi á undanförnum árum borið gæfu til að stórauka þátttöku sína í alþjóðavæðingu heimsins, á grunni bættra almennra starfsskilyrða og aukinnar samkeppnishæfni. Þetta hefur skilað sér í meiri verðmætasköpun, atvinnu og bættum lífskjörum.

Viðamikill þáttur í þessum góða árangri, ekki síst bættri samkeppnisstöðu Íslands, er sú áhersla sem lögð hefur verið á aukna nýsköpun á undanförnum árum. Má þar nefna að ríkisstjórn Íslands ákvað að verja hluta af söluandvirði Símans til að auka fjármagn til Nýsköpunarsjóðs um 2,5 milljarða króna í áföngum til ársins 2009. Þá má einnig minnast á Tækniþróunarsjóð sem varð til árið 2004 en hlutverk sjóðsins er að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Með tilkomu sjóðsins má segja að náðst hafi samfella í opinberum stuðningi frá því að hugmynd að vísindarannsóknum verður til og fram til þess að ný söluhæf afurð er tilbúin til markaðssetningar. Framlag til Tækniþróunarsjóðs úr ríkissjóði mun fara stigvaxandi og miða áætlanir að því að 500 milljónir kr. verði til ráðstöfunar úr sjóðnum árið 2007. Bind ég miklar vonir við að þessar breytingar á umhverfi og fjármögnun nýsköpunar og sprotafyrirtækja skili sér í formi aukins frumkvöðlastarfs og endurnýjunar í atvinnulífinu.

Þrátt fyrir góðan árangur á mörgum sviðum er því ekki að neita að sterk staða krónunnar hefur að undanförnu komið útflutnings- og samkeppnisgreinum illa og er hátækniiðnaðurinn þar á meðal. Horfur virðast vera á að gengi krónunnar muni gefa eftir á þessu ári sem kemur greininni vel en við þurfum að gera okkur grein fyrir að sveiflur sem þessar eru mjög erfiðar allri uppbyggingu og langtímaáætlunum.

Íslensk stjórnvöld hafa átt ágætt samstarf við hagsmunaaðila í upplýsinga- og hátækniiðnaði um að skapa hér á landi þau skilyrði sem greitt geta fyrir vexti greinarinnar. Mig langar í þessu samhengi til að minnast á það að á Iðnþingi í mars s.l. fékk ég afhent tilboð Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja til stjórnvalda, sem nefnt er „Þriðja stoðin". Markmið tilboðsins er að upplýsingatækni verði meginstoð í verðmætasköpun og gjaldeyristekjum Íslands árið 2010. Skýrsla sem kom út á síðasta ári og unnin var í samvinnu Samtaka iðnaðarins, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta og Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja, staðfestir hins vegar að þróun í uppbyggingu hátækniiðnaðar hefur ekki orðið jafn hröð hér á landi og annars staðar og leita þarf leiða til að bæta úr. Þrátt fyrir þetta segja opinberar tölur okkur að árið 2004 hafi um 4% verðmætasköpunarinnar og yfir 7% gjaldeyristekna komið frá hátækniiðnaði og innan hans hafi þá starfað um 6.400 manns. Það er því ljóst að til mikils er að vinna við að efla þennan iðnað og hafa stjórnvöld tekið tilboðinu af fullri alvöru eins og ég mun koma nánar að hér á eftir.

Fyrrgreint tilboð samanstendur af verkefnum sem spanna víðfeðmt svið og heyra undir fjölmörg ráðuneyti. Því var ákveðið í samráði við forsvarsmenn Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja að beina tilboðinu til Vísinda- og tækniráðs sem ályktaði þann 19. desember sl. að beina því til „viðkomandi ráðherra að vinna að eflingu hátækniiðnaðar og sprotafyrirtækja". Þá kynnti ég tilboðið í ríkisstjórn í desember s.l. og var samþykkt að erindi er varða framgang málsins yrðu send til þeirra fagráðuneyta sem fara með viðkomandi málaflokka sem verkefnin heyra undir. Hefur það erindi verið sent út og er viðbragða að vænta á næstunni.

Mig langar einnig til að nefna að s.l. vor skipaði ég starfshóp um fjármögnun nýsköpunar. Starfshópurinn skilaði tillögum sínum til mín í lok síðasta árs. Þær beinast aðallega að skattalegum umbótum sem fulltrúar fjármálamarkaðarins telja nauðsynlegar til þess að auka aðgang nýsköpunarfyrirtækja að áhættufjármagni. Veigamesta tillagan lýtur að því að virkja samlagshlutafélagaformið sem vettvang þar sem ólíkir fjárfestar geta komið saman til þess að fjárfesta í nýsköpun. Þá er tillaga sem miðar að því að auðvelda þátttöku lífeyrissjóða í samlagshlutafélögum. Þriðja tillagan fjallar um þróunartíma nýsköpunarfyrirtækja og þau markmið laga um virðisaukaskatt að veita fyrirtækjum nægan aðlögunartíma til uppbyggingar. Fjórða og síðasta tillaga fjallar um skattaívilnanir til tæknifyrirtækja sem stunda rannsókna- og þróunarstarfsemi.

Um þessar mundir eru í gangi viðræður á vettvangi ríkisstjórnarinnar um hvernig vinna megi að framgangi fyrrgreindra tillagna og verkefna. Hafa þær viðræður verið góðar og ríkir einhugur um að hrinda í framkvæmd aðgerðum sem bæta munu almenn starfsskilyrði fyrirtækja hér á landi, ekki hvað síst fyrir fyrirtæki í hátækniiðnaði.

Vil ég geta þess að nú þegar hefur verið ákveðið á þessum vettvangi að taka til athugunar mál sem snerta samkeppnisstöðu hýsingarfyrirtækja, sem miðar að því að gerðar verði nauðsynlegar breytingar til að fyrirtæki á almennum markaði sem veita hýsingarþjónustu geti keppt á jafnréttisgrundvelli um verkefni sem nú eru í einhverjum tilfellum innan deilda og stofnana hjá hinu opinbera. Snerta þær breytingar á virðisaukaskattkerfinu en hingað til hafa opinberir aðilar þurft að greiða virðisaukaskatt ef þeir kjósa að úthýsa hýsingu tölvukerfa. Sleppa þeir hins vegar við að greiða skattinn ef þeir hýsa tölvukerfin sjálfir. Ég er bjartsýn á að þetta mál hljóti farsæl málalok.

Í þessu sambandi má einnig nefna það að fyrir fáeinum árum var á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis unnin könnun á umfangi hugbúnaðargerðar ríkisins. Hafa aðstæður og umfang opinberra upplýsingatæknideilda án vafa breyst síðan sú könnun var gerð. Tel ég því eðlilegt að skoða þetta mál aftur nú og að ráðist verði í úttekt sem hefði það að markmiði að kanna eðli og umfang upplýsingatæknistarfsemi opinberra aðila.

Þá hafa stjórnvöld til skoðunar að gera breytingu á virðisaukaskattkerfinu sem tekur tillit til langs þróunartíma sprotafyrirtækja, en í dag er almennt gert ráð fyrir að sprotafyrirtæki þurfi 10-12 ár til að ná jákvæðri niðurstöðu í rekstrarreikningi. Stjórnvöld telja mikilvægt að búa þannig í haginn að sprotafyrirtæki fái þennan nauðsynlega tíma til að þróast til enda og skila eigendum sínum og samfélaginu arði. Í dag veitir skattkerfið sprotafyrirtækjum svigrúm til að nýta innskatt í allt að sex ár, þrátt fyrir tekjuleysi. Stjórnvöld eru hins vegar að kanna kosti þess að lengja þennan aðlögunartíma sprotafyrirtækja að virðisaukaskattskerfinu úr sex árum í allt að 10-12 ár.

Fyrr í máli mínu minntist ég á eflingu Nýsköpunarsjóðs. Sjóðurinn hefur nú fengið heimildir til að stofna til nýrra sameignarsjóða með öðrum fjárfestum. Þrátt fyrir mikinn áhuga fjárfesta á að ganga til liðs við slíka sjóði hefur það staðið málinu fyrir þrifum að hér á landi eru samlagshlutafélög sjálfstæður skattaðili. Fjárfestar sem eru undanþegnir skatti, eins og til að mynda lífeyrissjóðir, hafa því ekki getað tekið þátt í fjárfestingarsjóðum með skattskyldum fjárfestum, án þess að þeim sé íþyngt með skattlagningu innan samlagshlutafélaga. Hér er um mál að ræða sem kann að virka einfalt við fyrstu sýn en er nokkuð flókið í framkvæmd. Stjórnvöld hafa þó tekið þá ákvörðun að endurskoða lagaumhverfi samlagshlutafélaga, m.a. með það að markmiði að samlagshlutafélögum sé gert kleift að starfa hér á landi án þess að vera sjálfstæðir skattaðilar.

Þá vil ég einnig geta þess að í gangi er ýmis sú vinna sem atvinnulífið hefur kallað á, m.a. hvað varðar einföldun Stjórnarráðsins og endurskoðun atvinnuþróunarstarfsemi iðnaðarráðuneytisins. Miðar endurskoðun atvinnuþróunarstarfseminnar að samhæfingu eða samþættingu þeirrar viðamiklu starfsemi sem unnin er á því sviði á vegum ráðuneytisins, með það að markmiði að tryggja sterka stöðu og stuðla að öflugri atvinnuþróun og nýsköpun. Má segja að fyrrgreind einföldun og endurskoðun sé löngu tímabær enda miðaðist uppbygging Stjórnarráðsins og að hluta til atvinnuþróunarstarfsemi ráðuneytisins við annan tíma og gjörbreytt starfsumhverfi en nú er. Aðrar tillögur „Þriðju stoðarinnar" eru einnig á viðræðustigi milli ráðuneyta eins og ég greindi frá áðan.

Stjórnvöld hafa ekki aðeins unnið að almennri eflingu íslensks upplýsingatækni- og hátækniiðnaðar, heldur hafa þau einnig beitt sér fyrir útbreiðslu tækninnar þannig að allir þjóðfélagshópar, hvar á landinu sem fólk er statt, geti hagnýtt sér kosti hennar. Er það í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið sem unnið er eftir til ársins 2008. Langar mig því til að nefna áhersluatriði í síðustu byggðaáætlun sem snérist um það að valin voru nokkur sveitarfélög, að undangenginni hugmyndasamkeppni, sem fengu fjármagn frá hinu opinbera til að vinna að eflingu búsetuskilyrða á sínu svæði með markvissri hagnýtingu upplýsingatækni og fjarskipta. Sveitarfélögin sem urðu fyrir valinu eru annars vegar Húsvíkurbær, Aðaldælahreppur og Þingeyjarsveit, sem vinna verkefnið undir heitinu „Virkjum alla", og hins vegar Árborg, Hveragerði og Ölfus, sem vinna verkefni undir heitinu Sunnan 3. Hafa verkefnin gengið vel og verða m.a. bæði kynnt sérstaklega á ráðstefnunni síðar í dag. Er ég þess fullviss að þær kynningar muni vekja mikla athygli og verða rafrænni uppbyggingu annarra sveitarfélaga góð fyrirmynd.

Í þingsályktunartillögu að nýrri byggðaáætlun sem nú liggur fyrir er gert ráð fyrir að fjármagn verði lagt í að yfirfæra þekkingu og reynslu fyrrgreindra sveitarfélaga til annarra sveitarfélaga. Tímapunkturinn gæti vart verið betri þar sem stjórnvöld boða um þessar mundir gríðarlega eflingu fjarskipta og háhraðatenginga um land allt.

Góðir gestir,

Við höfum öll tækifæri til þess að standa í fararbroddi meðal þjóða heims hvað varðar uppbyggingu og vöxt hátæknigreina. Við höfum ágæta innviði – eins og kom fram í erindi Guðfinnu hér áðan - og búum yfir miklum metnaði og nýjungargirni, auk framúrskarandi fólks sem býr yfir mikilli þekkingu og hæfileikum. Að mörgu er þó að hyggja og enn er hægt að bæta og gera betur. Ég er þess fullviss að UT-dagurinn geti varpað enn skýrara ljósi á þau tækifæri sem upplýsinga- og fjarskiptatæknin geta fært okkur. Ef almenningur, atvinnulíf og opinberir aðilar leggjast öll á sömu sveif er enginn vafi á því að tækifæri tækninnar munu hafa jákvæð áhrif á íslenskt samfélag, okkur sjálfum og afkomendum okkar til heilla. Ávinningurinn getur orðið enn meiri en við gerum okkur í hugarlund í dag.

Takk fyrir.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval