Ársfundur Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

30/11/05

Ágætu ársfundargestir.

Mér finnst við hæfi á öðrum ársfundi Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands að gera stuttlega grein fyrir fáeinum málum sem um þessar mundir eru ofarlega á baugi í iðnaðarráðuneytinu og snerta beint og óbeint starfssvið ykkar. Ég mun byrja á því að fjalla lítillega um nýskipan orkumála og þau mál sem þar eru efst á baugi. Þá mun ég gera grein fyrir þeirri vinnu sem er í gangi varðandi byggingu nýs álvers hér á landi og að lokum mun ég fjalla um sameiningu opinberra rannsóknarstofnana.

Eins og flestum er kunnugt um hefur skipulag orkumála breyst mikið á allra síðustu árum og þá einkum í raforkugeiranum. Að grunni til hefur skipulag og lagaumhverfi raforkumála byggst á lögum er sett voru fyrir hartnær 40 árum. Enda þótt þau hafi að mörgu leyti reynst vel var talið eðlilegt að endurskoða lagaumhverfi raforkumála þar sem aðstæður hafa breyst mikið frá þeim tíma er raforkukerfi landsins byggðist upp.

Ný raforkulög voru samþykkt á Alþingi 15. mars 2003 og tóku gildi þann 1. júlí sama ár. Koma þau að fullu til framkvæmda um næstu áramót. Raforkulögin grundvallast að verulegu leyti á tilskipun Evrópusambandsins um innri markað raforku, sem er eins og kunnugt er hluti af EES-samningnum. Samkvæmt hinum nýju lögum fær almenningur valfrelsi við raforkukaup frá næstu áramótum, en flutningur og dreifing raforku verður einkaleyfisskyldur rekstur undir eftirliti hins opinbera í verðlagningu. Í nágrannaríkjum okkar hefur áunnist veruleg reynsla á sviði samkeppni, vinnslu og sölu raforku. Við Íslendingar erum hins vegar meðal síðustu þjóða í Evrópu til að innleiða breytingar á raforkuumhverfi í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins. Aðskilnaður samkeppnis- og einokunarþátta er þar höfuðatriði en rekstrarform þessara þátta getur verið mismunandi eftir eðli þeirra.

 

Til þessa verður að telja að framkvæmd laganna hafi tekist vel og góð samvinna hefur verið á milli helstu hagsmunaaðila. Opnun markaðarins hefur frá síðustu áramótum verið takmörkuð við stærri notendur, en mun opnast öllum notendum frá og með næstu áramótum. Enn er þó mikið verk óunnið við að koma raforkulögunum að fullu í framkvæmd og margvísleg vandamál þarf að leysa á næstu misserum í samstarfi við hagsmunaaðila. Þá bíður okkar mikilvægt starf við að kynna fyrir almenningi opnun markaðarins og þau tækifæri sem nýtt markaðsumhverfi býður upp á fyrir notendur jafnt sem raforkuframleiðendur.

 

Þær skipulagsbreytingar er leiða af nýjum raforkulögum krefjast þess að við þurfum að koma á fót skilvirku eftirlitskerfi með áherslu á hagkvæmni og aðhaldi í flutnings- og dreifikerfinu, en einnig til að tryggja hagsmuni neytenda varðandi gæði og afhendingaröryggi raforku. Í þessu skyni hefur lögum um Orkustofnun verið breytt þannig að hún er í dag stjórnsýslustofnun, sem hefur miklu hlutverki að gegna í eftirliti með framkvæmd raforkulaganna ásamt Neytendastofu og Samkeppniseftirliti.

Það hefur margt áorkast á undanförnum árum í sambandi við nýtingu jarðhitans hér á landi, eins og flestum er kunnugt um. Þar bera hæst þær umfangsmiklu rannsóknir og virkjanaframkvæmdir sem unnið er að á Hellisheiði og á Reykjanesi. Á Reykjanesi er áformað að ráðast í sérstaka djúpborun á einni borholunni á svæðinu sem er afar áhugavert verkefni og vakið hefur alþjóðaathygli.

 

Forathuganir á jarðhita á síðustu árum leiða að því líkur að nýtanlegar háhitaauðlindir landsins kunni að vera stórlega vanmetnar. Því hafa orkufyrirtæki landsins og stjórnvöld sameinast um að láta rannsaka til hlítar möguleika á að nýta jarðvarma á mun meira dýpi en hingað til hefur verið gert, til að ganga úr skugga um hvort unnt væri að nýta hann við mun hærra hitastig og þrýsting en áður. Þetta verkefni hefur fengið vinnuheitið íslenska djúpborunarverkefnið. Markmið verkefnisins er að kanna hugsanlega nýtingu varma úr rótum háhitakerfa á allt að 5 km dýpi og virkja með því móti mun meiri orku úr háhitanum en áður hefur verið gert. Komi í ljós að vinnanleg gufa fáist á þessu dýpi er líklegt að unnt verði að vinna margfalt meiri orku úr háhitasvæðum landsins. Þá yrðu umhverfisáhrif af jarðhitavinnslu ekki meiri en við hefðbundna jarðhitanýtingu. Að auki yrði orkunýtni slíkrar orkuvinnslu mun meiri en við hefðbundna nýtingu háhitasvæða. Heppnist þetta verkefni er ljóst að möguleikar íslendinga til aukinnar jarðvarmanýtingar mun gjörbreytast miðað við núverandi notkun á þessari auðlind.

 

 

Víkjum þá að sameiningu opinberra rannsóknarstofnana.

Í stefnu Vísinda- og tækniráðs er rík áhersla lögð á að treysta menningarlega og efnahagslega stöðu Íslands í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi þannig að efnahagur og lífsgæði Íslendinga skipi þeim áfram í fremstu röð meðal þjóða heims. Ennfremur er lögð áhersla á sjálfbæra nýtingu auðlinda og aukna verðmætasköpun.

Á grundvelli þessarar stefnu hafa stjórnvöld m.a. lagt áherslu á eftirfarandi verkefni:

· Í fyrsta lagi að auka úthlutunarfé opinberra samkeppnissjóða, sem m.a. kemur fram í stofnun Tækniþróunarsjóðs.

· Í öðru lagi að byggja upp og efla fjölbreyttar háskólarannsóknir á Íslandi.

· Í þriðja lagi að endurskilgreina skipulag og starfshætti opinberra rannsóknastofnana.

 

Starfsemi Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og Rannsókna-stofnunar iðnaðarins var mótuð árið 1965 með sérstökum lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Um leið var atvinnudeild Háskóla Íslands skipt upp og stofnaðar 5 sjálfstæðar atvinnugreinastofnanir. Þrátt fyrir að þessi skipting hafi verið góð og gild á sínum tíma hefur margt breyst síðan þá og er nú svo komið að rekstur Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins skarast á nokkrum sérfræði-sviðum, auk þess sem unnt er að sameina tækjakost að nokkru leyti við sameiningu stofnananna. Stofnanirnar hafa raunar þegar haft með sér náið samstarf um nokkurra ára skeið og til að mynda rekið sameiginlega símsvörun. Með sameiningu þeirra skapast umtalsverð samlegðaráhrif,

bæði hvað varðar faglega getu og rekstrarlega hagræðingu. Þá eru verulegar líkur á ennfrekari samþættingu og sameiningu stofnana sem starfa á sviði nýsköpunar og atvinnuþróunar.

Þá má geta þess að búið er að kynna frumvarp um stofnun Matvælarannsókna hf. í ríkisstjórn. Þar er gert ráð fyrir að myndað verði hlutafélag um matvælarannsóknir Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Iðntæknistofnunar Íslands og Rannsóknastofa Umhverfisstofnunar, sem renni inn í þessa nýju stofnun.

Að lokum mun ég fjalla nokuð um áætlanir um ný álver til næstu framtíðar.

 

 

Fjárfestingarstofan og nokkur sveitarfélög á Norðurlandi gerðu samkomulag við ALCOA um sameiginlega aðgerðaráætlun um hugsanlega byggingu álvers á Norðurlandi fyrr á þessu ári. Verkefnið er unnið í þremur áföngum. Í fyrstu er unnið við að ljúka staðarvalsathugunum á þrem iðnaðarsvæðum á Norðurlandi. Að því loknu verður gerð samanburðarathugun á þessum stöðum með tilliti til byggingar álvers. Á grundvelli hennar velur ALCOA þann stað sem hagkvæmastur er talinn og gerir forhagkvæmniathugun á mögulegri byggingu álvers. Niðurstöður ALCOA verða kynntar í febrúar n.k. fyrir samráðsnefnd aðila, sem leggur á ráðin um næstu skref. Þessa dagana eru aðilar samkomulagsins í Kanada til að kynna sér álver ALCOA þar og hvernig að starfsemi fyrirtækisins er staðið.

 

Einnig er unnið að áætlunum um stækkun eða nýbyggingu núverandi álvera á Suðvesturlandi. Síðast liðið vor gerði Norðurál samning við Reykjanesbæ og Hitaveitu Suðurnesja um að kanna sameiginlega möguleika á byggingu meðalstórs álvers í Helguvík. Fjárfestingarstofan hefur tekið þátt í þessu verkefni og veitir upplýsingar og aðstoð eftir þörfum.

Alcan á Íslandi hefur eins og kunnugt er um nokkurt skeið unnið að möguleikum á frekari stækkun álversins í Straumsvík. Skipulagsstofnun úrskurðaði jákvætt um mat á umhverfisáhrifum stækkunar í allt að 460.000 tonn á ári og Orkuveita Reykjavíkur hefur ritað undir viljayfirlýsingu um að leggja til allt að 200 MW afl frá jarðhitasvæðum fyrirtækisins í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Þá hefur Umhverfisstofnun nýlega gefið út starfsleyfi fyrir fyrirhugaðri stækkun með ákveðnum skilmálum.

 

Sú mikla uppbygging áliðnaðar á Íslandi sem orðið hefur á liðnum áratug leiðir hugann að þeirri staðreynd að íslenska þjóðin er óðum að þróast frá því að vera fyrst og fremst fiskveiðiþjóð í að verða iðnaðar- og hátækniþjóð. Álframleiðsla nú á dögum er ögrandi framleiðslugrein sem krefst mikillar sérþekkingar og reynslu. Stefnt er að því að í Fjarðaáli verði m.a. framleiddur álvír til notkunar í háspennukapla og frekari úrvinnsla áls hlýtur að verða keppikefli okkar í samningum við álfyrirtæki í framtíðinni. Þá skulum við minnast þess að ál er umhverfisvænn málmur, sem auðvelt er að endurvinna og sú vinnsla krefst aðeins um 5% þeirrar orku sem upphafleg framleiðsla krefst.

 

 

Ágætu ársfundargestir.

Forsendur fyrir aukinni úrvinnslu áls og þátttöku íslensks atvinnulífs í þeim iðnaði eru í fyrsta lagi öflug frumvinnsla og þjónusta í landinu og í öðru lagi og ekki síður í menntun og sérþekkingu starfsfólks til þess að takast á við verkefnin. Þar kemur meðal annars til kasta háskólanna við að efla kennslu og hlúa að rannsóknum í léttmálmafræðum. Vaxtartækifærin í áliðnaði felast því einna helst í úrvinnsluiðnaði og virðisauka sem verður til við sérhæfða framleiðslu á búnaði úr áli. Markmið okkar hlýtur því að vera að stuðla að aukinni nýtingu auðlinda landsins og um leið hagsæld þjóðarinnar með bættri verk- og tæknimenningu, til að standast samkeppni við aðrar þjóðir við nýtingu þeirra verðmæta sem landið okkar býður upp á.

Ég þakka áheyrnina. 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval