Opnun Hönnunardaga 2005 og sýningar Húsa og híbýla í Laugardalshöll.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra

18/11/05

Góðir gestir.

Við Íslendingar stöndum framarlega meðal þjóða heims á fjölmörgum sviðum og erum stolt af. Er þetta m.a. að þakka aukinni áherslu á nýsköpun, sprotastarfsemi, menntun og rannsóknum. Árangur þessa endurspeglast í samkeppnishæfni þjóðarinnar þar sem við erum í fremstu röð meðal auðugustu og framsæknustu þjóða heims.

Nýsköpun atvinnulífsins byggir á fleiri þáttum en vísindalegri þekkingu. Reynsla annarra þjóða hefur sýnt að fyrirtæki sem leggja aukna áherslu á hönnun í þróun framleiðslu sinnar njóta betri afkomu en þau sem gera það ekki. Hér á landi er stór hópur hönnuða sem hefur getið sér gott orð víða um heim. Til að efla starfsemi þeirra og tengja betur við framleiðendur hefur iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið stofnað til samstarfs um hönnun með Samtökum iðnaðarins, Útflutningsráði Íslands, Iðntæknistofnun og Aflvaka.

Tilgangur Hönnunarvettvangs er að á einum stað verði aflað upplýsinga um íslenska hönnun og hönnuði, upplýsingum miðlað milli hönnuða og fyrirtækja, efla iðnhönnun og koma íslenskum hönnuðum á framfæri hér heima og erlendis.

Framkvæmdastjóri Hönnunarvettvangs hefur svo sannarlega látið hendur standa fram úr ermum síðan til verkefnisins var stofnað og í góðri samvinnu við öfluga aðila unnið að þeim glæsilegu viðburðum sem framundan eru. Í tengslum við Hönnunardaga 2005 verða haldnar sýningar, námstefna, fyrirlestrar og fleira mætti nefna.

Fyrir um viku síðan stóð Hönnunarvettvangur fyrir komu fulltrúa frá bandaríska fyrirtækinu IDEO sem stóðu að fyrirlestri og námskeiði fyrir hönnuði og aðra þá sem áhuga hafa á að læra áhrifaríkar vinnuaðferðir sem tengjast hönnun og nýsköpun. Móttökurnar voru góðar og sýna þann kraft sem ríkir í greininni.

Meðal þess sem finna má á Hönnunardögunum sjálfum og í tengslum við þá eru m.a. sýning Húsa og híbýla sem fram fer hér í Laugardalshöll og er einkar glæsileg. Voru arkitekt og hönnuðir fengnir til aðstoðar við útlit sýningarinnar enda tókst að fylla nýju Laugardalshöllina af sýnendum þrátt fyrir að sýningarsvæði hennar sé u.þ.b. þrisvar sinnum stærra en svæði gömlu Laugardalshallarinnar. Á sýningarsvæðinu er einnig að finna sýningu Hönnunarvettvangs á íslenskri hönnun og ber hún yfirskriftina „Brum". Er sú sýning staðsett í miðri Laugardalshöllinni. Allir þeir hlutir sem þar eru til sýnis hafa verið unnir á síðastliðnum tveimur árum og tengjast hugtakinu „heimili" á einn eða annan hátt. Hönnuðir Brums eru þeir Óðinn Bolli Björgvinsson og Ísak Winther en listrænn stjórnandi og ábyrgðarmaður sýningarinnar er Hrafnkell Birgisson.

Fleiri sýningar má nefna sem tengjast við Hönnunardaga en miðborgin verður um helgina iðandi af lífi og skemmtilegum uppákomum. Alls munu þar verða opnar 26 sýningar. Sumar þeirra má finna í búðargluggum en aðrar á vinnustofum og í sýningarsölum. Flestar þessara sýninga munu opna annað kvöld.

Ekki er allt upp talið því á morgun verða fluttir fjölmargir fyrirlestrar undir yfirskriftinni „Hönnun, viðskipti og innblástur". Þar hafa Hönnunarvettvangur og hin ýmsu fagfélög unnið að því að setja saman fjölbreytta og fróðlega dagskrá þar sem allir eiga að finna eitthvað við sitt hæfi. Að fyrirlestrunum loknum rennur svo upp einn af hápunktum viðburðanna en þá verða Hönnunarverðlaunin 2005 veitt fyrir þann eða þá sem þótt hafa sýna framúrskarandi árangur á sviði hönnunar á árinu.

Góðir gestir.

Hönnunardagar eins og þessir geta ekki átt sér stað nema til komi gott samstarf fjölda fólks, fyrirtækja og stofnana sem leggjast á eitt við að gera slíka uppákomu að raunveruleika. Markmiðið er að þróa einstakan viðburð á Íslandi.

Ég vil að lokum nota tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgum sem komið hafa að þeim viðburðum sem framundan eru og óska ykkur til hamingju með afraksturinn. Með þeim orðum segi ég Hönnunardaga 2005 setta og mun nú jafnframt opna hinar glæsilegu sýningar Húsa og híbýla og Hönnunarvettvangs.

Gjörið svo vel og njótið. 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval