Útgáfa margmiðlunardisks um nám og störf í rafiðnaði.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

18/11/05

Góðir gestir.

Það er mér sönn ánægja að fá að vera með ykkur hér í dag og samfagna með ykkur útgáfu á þessum glæsilega margmiðlunardiski. Það má með sanni segja að með þessu framtaki sýni Rafiðnaðarsambandið enn og aftur í verki hversu öflug samtökin eru.

Rafiðnaðarsamband Íslands var stofnað 28. nóvember 1970 af um 450 rafiðnaðarmönnum og fagnar það því brátt 35 ára afmæli sínu.

Fjölgun rafiðnaðarstarfa er umfram fjölgun landsmanna, eða um 3% á ári. Árlega ljúka um 110-130 nemar námi í rafiðnaðargreinum en auk þess fjölgar rafiðnaðartæknimönnum sem eru með skemmra nám að baki töluvert

Í ráðherratíð minni hef ég lagt mikla áherslu á að bæta samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Hafa stjórnvöld í heild sinni starfað ötullega að þessu markmiði og gert breytingar á skipulagi efnahagsmála hér á landi í samræmi við það.

Fleiri eiga þátt í þessum glæsilega árangri en stjórnvöld ein. Til þess að tryggja aukna samkeppnishæfni verður m.a. að hámarka framleiðni fyrirtækjanna. Það er torvelt viðfangsefni nema til komi að þau tileinki sér bestu tækni hvers tíma. Til þess þurfa fyrirtækin þjónustu góðra og vel menntaðra tæknimanna.

Rafiðnaðarsamband Íslands hefur stutt við uppbyggingu íslensks atvinnulífs með því að verja umtalsverðum fjármunum í menntun innan rafiðnaðargeirans. Rafiðnaðarmenn eiga til að mynda og reka Rafiðnaðarskólann sem er ein öflugasta starfsmenntastöð atvinnulífsins. Um helmingur rafiðnaðarmanna fer þannig að jafnaði á eitt starfsmenntanámskeið á ári. Þetta hefur skilað sér í því að íslenskir rafiðnaðarmenn eru í dag meðal þeirra hæfustu í heiminum og eftirsóttir í samræmi við það.

 

Ég vil fullyrða að störf í rafiðnaði eiga að vera eftirsótt. Ef litið er til stöðunnar hér á landi má sjá að atvinnuástand innan rafiðnaðargeirans hefur ætíð verið mjög gott. Atvinnuleysi meðal rafiðnaðarmanna hefur þannig ekki farið upp fyrir 2,5% síðan árið 1996. Undanfarið ár hefur það verið vel innan við 1% og er í dag aðeins 0.2%. Eru vafalaust einkum tveir þættir sem ráða þar mestu um, annars vegar ör tækniþróun og hins vegar mikil og stöðug símenntun rafiðnaðarmanna sem hefur stækkað atvinnusvið þeirra verulega.

 

Góðir gestir.

Margar atvinnugreinar á Íslandi eiga í harðri samkeppni um að laða til sín ungt, kröftugt og vel menntað fólk. Til að verða ekki undir í þeirri samkeppni er ljóst að þessar greinar verða að standa vel að umhverfi starfsmanna sinna og ekki síður hitt að samtök eða sambönd starfsgreinanna þurfa að standa að öflugri kynningu á viðkomandi grein - réttindum, námi og starfi.

Rafiðnaðarmenn þurfa svo sannarlega ekki að örvænta um sinn hag. Rafiðnaðarsamband Íslands er sterkt samband sem sýnir kraft sinn í verki á margvíslegan hátt. Gott dæmi um það er þessi glæsilegi margmiðlunardiskur sem á vafalítið eftir að gagnast vel í öflugri kynningarstarfsemi. Ég vil að lokum óska sambandinu til hamingju með útgáfuna og sömuleiðis til hamingju með afmælið í lok mánaðarins.

Þakka ykkur fyrir. 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval