Norðurland vestra 2020 - Málþing um atvinnumál á Norðurlandi vestra.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

8/11/05

Kæru gestir.

Það er mér sönn ánægja að fá tækifæri til að ávarpa þetta málþing um atvinnumál á Norðurlandi vestra og ekki skemmir veðrið í dag. Segja má að Skagafjörður skartar sínu fegursta. Svo sem sjá má af yfirskrift þess þings verður hér í dag skyggnst til framtíðar en vart er hægt að gera það svo vel sé nema huga aðeins að því sem hefur verið að gerast í þessum landshluta á liðnum árum, eða eins og segir í máltækinu „að fortíð skal hyggja þá framtíð á að byggja". Einar Benediktsson skáld og athafnamaður orðaði þetta raunar á eftirfarandi hátt í einu ljóða sinna:

„Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja,

án fræðslu þess liðna sést ei hvað er nýtt."

Í þessum tveimur ljóðlínum felst að við eigum að muna eftir fortíðinni þegar við horfum fram á veginn og hugum að því hvernig hægt sé að bæta og efla.

Á síðustu árum hafa átt sér stað örar breytingar í heiminum, sem rekja má m.a. til aukins frjálsræðis í viðskiptum og tæknilegra framfara. Áhrifa þeirra gætir víða og á fjölmörgum sviðum t.d. í menntun, menningu og efnahagsmálum. Óhjákvæmilega hafa breytingarnar einnig áhrif á þróun byggðar og samkeppnishæfni atvinnulífs, hér á landi sem í nágrannalöndunum. Eins og allir sem hér sitja vita þá hefur þróun byggðar á Íslandi síðustu ár og áratugi verið með nokkuð misjöfnum hætti sé litið til einstakra landshluta. Þróunin hefur á heildina séð verið þannig að fólk hefur flust úr dreifbýli í þéttbýli og langsamlega mesta fjölgunin verið á höfuðborgarsvæðinu. Á síðustu árum hefur hið svokallaða höfuðborgarsvæði verið að stækka og vilja margir meina að áhrifasvæði þess nái nú langt upp í Borgarfjörð sé horft til norðurs og allt austur fyrir Árborg.

Því miður hefur Norðurland vestra verið einn þeirra landshluta sem hefur orðið fyrir því að fólksfjöldi hefur dregist saman. Í hinu gamla kjördæmi, og þá er Siglufjörður meðtalinn, bjuggu þann 1. desember árið 1990 10.446 manns en þann 1. desember sl. bjuggu hér 8.985 manns. Nemur fækkunin því 1.461 íbúa eða sem nemur rétt tæpum 14%. Á þessu sama tímabili hefur íbúum landsins alls fjölgað um tæp 15%. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það að þróunin hefur ekki verið nógu góð hvað þetta varðar og er að mörgu að hyggja þegar leitað er skýringa á því af hverju svo hefur farið. Augljósasta skýringin eru alþjóðavæðing, aukin sérhæfing og breyttir atvinnuhættir því störfum í hinum hefðbundnu atvinnugreinum sjávarútvegs og landbúnaðar, ásamt afurðaframleiðslugreinum tengdum þeim, hefur fækkað og jafnframt ekki verið mætt með fjölgun starfa í þjónustu og þekkingariðnaði, líkt og gerst hefur til að mynda á höfuðborgarsvæðinu.

Einhvern hluta af skýringunni kann í því samhengi að vera að leita hjá okkur konum og auknu sjálfstæði kvenna því í fróðlegri grein sem ég las í málgagni okkar bænda fyrir stuttu síðan hefur ný rannsókn leitt í ljós að konur eigi gjarnan frumkvæði að búferlaflutningum hér á landi. Er það þá vegna samdráttar í einhverjum tilteknum atvinnugreinum, til að mynda í landbúnaði, sem ýtir undir það að konur leiti að starfi við sitt hæfi. Ég hef löngum barist fyrir jafnrétti kynjanna og bættri stöðu kvenna og get þar til að mynda bent á nýlegar skýrslur sem gefnar hafa verið út á vegum minna ráðuneyta um eignarhald og stöðu kvenna í íslensku atvinnulífi og um aukinn hlut kvenna í yfirstjórnum fyrirtækja. Þessi niðurstaða sem birtist í rannsókn sem greint var frá í Bændablaðinu kom mér sem sagt ekki á óvart. Þrátt fyrir það að hún hafi haft þessi áhrif á byggðaþróun þá finnst mér meira um vert að sjálfstæði kvenna hefur aukist.

Atvinnulíf á Norðurlandi vestra hefur mörgum landshlutum fremur byggt á hinum hefðbundnu greinum landbúnaðar og sjávarútvegs. Sökum hagræðingar, tæknivæðingar og stækkunar fyrirtækja og býla á allra síðustu árum hefur störfum þar fækkað. Afleiðingin er fólksfækkun eins og fyrr var getið og það alvarlegasta er að sú fækkun virðist einkum hafa verið hjá fólki á svokölluðum „fjölskyldualdri", þ.e. fólki á aldrinum 25-35/40 ára. Athuganir hafa einnig greint frá því að margt bendi til þess að menntunarstig á Norðurlandi vestra sé lægra en í flestum öðrum landshlutum og kunni að verða svo enn um sinn.

Ég ætla ekki að vera með eintómt svartsýnisraus hér enda er það ekki minn stíll, en það þýðir ekki að stinga höfðinu í sandinn og láta sem ég sjái ekki vandann. Verkefni okkar stjórnmálamanna, í samvinnu við heimamenn og fleiri aðila, er að ráða bót á þessu og leita leiða til að snúa vörn í sókn. Stundum er sagt að stjórnmálamenn hafi ekki framtíðarsýn nema til fjögurra ára í senn. Kannski má það að einhverju leyti til sanns vegar færa en ég hef þó þá trú að flest okkar starfi af heilindum við að vinna landi og þjóð gagn, hvort sem um er að ræða alþingismenn eða sveitarstjórnarmenn.

Ég vil í framhjáhlaupi fá að geta þeirrar skoðunar minnar að það séu ákveðin forréttindi að gegna starfi stjórnmálamanns. Ég minnist þess að fyrir nokkuð mörgum árum heyrði ég fyrrverandi forseta Stórþingsins í Noregi, Jo Benkov, segja að það væru forréttindi að gegna starfi, þar sem maður væri kjörinn af fólkinu, „at være valgt af folket i landet". Ég get svo sannarlega tekið undir þessi orð og tel mig tala af reynslu þar sem ég hef nú verið alþingismaður í 18 ár og það sem fulltrúi landsbyggðarkjördæmis, sem mér finnst vera ákveðin forréttindi. Að mínu mati er nálægðin við kjósendur á landsbyggðinni meiri og öðruvísi en ég skynja hjá félögum mínum af höfuðborgarsvæðinu.

Að þessu sögðu ætla ég að fara aðeins yfir sviðið og gera tilraun til þess að skyggnast til framtíðar.

- II -

Á Norðurlandi vestra er sem fyrr segir til staðar mikil staðbundin þekking í atvinnugreinum eins og landbúnaði, sjávarútvegi og tengdum greinum. Því miður hefur ekki tekist að nýta hana sem grunn að atvinnuþróun í átt að hátækniiðnaði. Allar forsendur eru hins vegar fyrir hendi til að efla hér matvælaframleiðslu og uppbyggingu á sviði hestamennsku, hrossaræktar, fiskeldis, ferðamennsku og jafnvel fornleifafræði.

Í hinum svonefndu vaxtarsamningum, sem ég ætla að koma betur inn á í lok ræðu minnar, er áhersla lögð á sérstöðu og styrkleika svæða og samkeppnishæfni atvinnulífs, þar sem byggt er á markaðstengdum aðgerðum. Markmiðið er að auka samkeppnishæfni og hagvöxt svæða, fjölga atvinnutækifærum og treysta viðkomandi byggðakjarna svo hann eða þeir geti enn frekar sinnt því lykilhlutverki að vera miðstöð atvinnu, menningar og þjónustu.

Á viðamikilli ráðstefnu um byggðamál á vegum OECD fyrir skömmu var sérstök áhersla lögð á eftirfarandi atriði varðandi einstök svæði: Í fyrsta lagi að stuðla að aukinni samkeppnishæfni atvinnulífs og svæða. Í öðru lagi að auka völd og ábyrgð svæða á byggðamálum. Í þriðja lagi að auka samstarf á milli hinna ýmsu hópa um byggðamál. Í fjórða lagi að auka samstarf innan sem og á milli svæða - og landa um byggðamál. Í fimmta lagi að auka sjálfstæði svæða, sterkari einkenni þeirra og ímynd. Í sjötta lagi gegna klasar miklu hlutverki í uppbyggingu byggðakjarna. Í sjöunda og síðasta lagi eru hins vegar engar töfralausnir til í byggðamálum, heldur er þetta langtímaverkefni sem krefst samræmdra, skilvirkra og markvissra vinnubragða.

Með vaxtarsamningum er einmitt verið að vinna að öllum þessum atriðum sem ráðstefna OECD lagði áherslu á. Í þessu sambandi ber þess einnig að geta að við stefnumörkun á sviði vaxtarsamninga hefur verið horft til ýmissa erlendra fyrirmynda, þar sem vaxtarsamningar og klasar hafa gengið vel s.s. í Finnlandi, öðrum Evrópulöndum og Bandaríkjunum.

Þessu til viðbótar má geta þessa að vaxtarsamningarnir byggja að miklu leyti á uppbyggingu klasa á styrkleikasviðum viðkomandi svæða en klasar hafa verið skilgreindir sem landfræðileg þyrping tengdra fyrirtækja, birgja, þjónustuaðila og stofnana á sérhæfðum sviðum sem eiga í samkeppni en einnig samvinnu. Þegar fjallað er um einstaka klasa er því í raun verið að tala um alla aðila sem tengjast ákveðinni atvinnugrein á afmörkuðu landsvæði. Vaxtarsamningarnir eru ekki ætlaðir til þess að búa til nýja klasa frá grunni, enda torvelt ætlunarverk, heldur byggja á þeim styrkleikum og þar með vísi að klösum sem fyrir hendi eru. Með því að vinna skipulega í klasasamstarfi er mögulegt að auka nýsköpun í klasanum og gera viðkomandi atvinnugrein þróttmeiri. Í þessu sambandi er nærtækt að benda á öflugan sjávarútveg hér á landi sem hefur orðið vísir að nokkrum klösum sem hafa aftur leitt til nýsköpunar í greininni, s.s. hvað varðar hönnun og smíði fiskvinnsluvéla. Á vegum stjórnvalda hefur verið lögð áhersla á fræðslu um klasa og klasasamstarf og hafa í því skyni m.a. verið fengnir hingað til lands virtir erlendir sérfræðingar á þessu sviði. Síðast í gær birtist ágætt viðtal í Viðskiptablaði Morgunblaðsins við dr. Alec Hansen sem er einn helsti sérfræðingur á sviði klasasamstarfs í heiminum, en hann kom hingað fyrir tilstuðlan iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, Impru og Þekkingarseturs Iðntæknistofnunar, og miðlaði af þekkingu sinni og reynslu.

Ég bind vonir við að árið 2020 verði hér á Norðurlandi vestra öflugir klasar á nokkrum hinna fyrrgreindu sviða, til að mynda á sviðum matvælaframleiðslu og hestamennsku. Verður það afleiðing öflugs samstarfs, sérhæfingar og samkeppni sem komst í fastmótaðri farveg fyrir tilstuðlan einbeitts vilja og samtakamátts aðila vaxtarsamnings á svæðinu. Fyrir vikið verða til ný störf út frá nýsköpun og sprotastarfsemi innan þessara greina.

Ef litið er til nýsköpunar og frumkvöðlakrafts má segja að með lögum um Vísinda- og tækniráð, sem tóku gildi á árinu 2003 hafi umhverfi rannsókna og tækni verið breytt þannig að mótuð sé sameiginleg stefna á þessu sviði af ráðherrum, vísindasamfélaginu og atvinnulífinu. Ég fullyrði að þetta var mikilvæg breyting, sem á eftir að skila sér í gríðarlegum framförum á sviði nýsköpunar. Í tengslum við þessa breytingu var stofnað til Tækniþróunarsjóðs, en hlutverk sjóðsins er að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar, sem miðar að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Segja má að með tilkomu hans hafi náðst samfella í opinberum stuðningi við ferlið frá því að hugmynd að vísindarannsóknum verður til og fram til þess að ný söluhæf afurð er tilbúin til markaðssetningar. Eru framlög úr sjóðnum stigvaxandi og miða áætlanir að því að 500 milljónir króna verði til ráðstöfunar úr honum árið 2007.

Annar liður í eflingu nýsköpunar og sprotastarfsemi eru breytingar á lögum sem samþykktar voru á liðnu þingi um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Miða breytingarnar að því að færa nýtt líf í áhættufjármögnun sprotafyrirtækja og vinna starfsmenn Kauphallar Íslands nú að því að útfæra þennan nýja markað. Bind ég miklar vonir við að þessar breytingar á umhverfi og fjármögnun nýsköpunar og sprotafyrirtækja skili sér í formi enn aukins frumkvöðlastarfs og endurnýjunar í atvinnulífinu.

Svo áfram sé haldið með eflingu nýsköpunar má nefna þá mikilvægu ákvörðun stjórnarflokkanna að auka framlög til Nýsköpunarsjóðs um milljarða króna. Ef samstarf við lífeyrissjóði og fjárfesta gengur eftir mun eigið fé sjóðsins aukast um 4 milljarða sem mun hafa gífurleg áhrif á atvinnusköpun í landinu. Lögð hefur verið áhersla á að sú nýsköpun nái til landsins alls og má þar nefna að í tengslum við byggðaáætlun sem samþykkt var árið 2002, var sett á laggirnar Nýsköpunarmiðstöð á Akureyri sem hefur skilað miklum árangri og er tillaga um að halda því starfi áfram í nýrri byggðaáætlun. Þá er rétt að geta þess að á árinu 2003 keypti Byggðastofnun hlut í sprotafyrirtækjum fyrir 350 milljónir króna, sem skapa mun fjölda starfa á landsbyggðinni ef allt gengur eftir.

Væntanlega verður ný byggðaáætlun lögð fyrir Alþingi nú í nóvember og eru meginmarkmið hennar mjög í takt við þessa áherslu á eflingu menntunar og nýsköpunar. Meginmarkmiðin eru:

· Í fyrsta lagi að landshlutakjarnar verði efldir en jafnframt hugað sérstaklega að þeim byggðarlögum sem glímt hafa við viðvarandi fólksfækkun,

· Í öðru lagi að byggðarlög nái að laga sig að örri samfélagsþróun og hröðum breytingum á atvinnuháttum,

· Og í þriðja lagi að atvinnulíf, menntun, menning og félagslegt jafnræði verði styrkt á landsbyggðinni.

Mikið verður því lagt upp úr eflingu nýsköpunar og atvinnuþróunar, áhersla lögð á gildi menntunar og menningar auk þess sem mikilvægi samgangna og fjarskipta er undirstrikað.

Ekki má segja skilið við nýsköpun án þess að minnast á vaxandi framfarir í upplýsinga- og fjarskiptatækni. Í tengslum við sölu Símans var ákveðið að verja 2.5 milljörðum króna til fjarskiptamála. Samkvæmt nýrri fjarskiptaáætlun sem ríkisstjórnin hefur samþykkt verða háhraðatengingar til einstaklinga, fyrirtækja og menntastofnana efldar jafnt og þétt næstu fimm árin. Þannig eiga allir landsmenn að geta tengst háhraðaneti árið 2007. Einnig á að auka aðgengi að GSM-farsímaþjónustu á hringveginum og helstu stofnvegum, ferðamannastöðum og minni þéttbýlisstöðum. Verður ráðist í það verkefni þegar á næsta ári. Langdrægt stafrænt farsímakerfi, sem þjónar landinu öllu og miðunum, á að standa til boða eftir að rekstri NMT-kerfisins lýkur. Þjónusta sem ekki ber sig á viðskiptalegum forsendum verður boðin út og styrkt af fjarskiptasjóði. Með þessu er stefnt að því að Ísland allt verði í fremstu röð á sviði upplýsingatækni og fjarskipta. Afar mikilvægt er að uppfylla það markmið því vaxandi nýsköpun og þekkingariðnaður skipta sköpun í byggðaþróun næstu ára.

Árið 2020 munu hafa orðið til nokkur lítil og meðalstór fyrirtæki í þekkingariðnaði á Norðurlandi vestra sem veita hámenntuðu starfsfólki atvinnu. Sérhæft rannsóknar- og þróunarsetur, sem m.a. vinnur í afmörkuðum verkefnum eins og til að mynda á sviði nanótækni, er einnig starfrækt á Sauðárkróki fyrir tilstuðlan samvinnu á milli Iðntæknistofnunar, Háskóla Íslands og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Er það setur einnig í nánum tengslum við aðra háskóla í landinu. Hugbúnaðarfyrirtæki og þróunarhús á Hvammstanga, Blönduósi og Skagaströnd eru setrinu öflugt bakland enda veita þau mikilvægt innlegg á mjög sérhæfðum sviðum.

Á vestanverðu Norðurlandi hafa á vegum ráðuneyta minna verið til athugunar kostir sem snúa að stærri iðjuverum. Fyrir hendi er gott dæmi um vel heppnaða uppbyggingu á þessu sviði þar sem er Steinullarverksmiðjan á Sauðárkróki. Steinull hf. hefur ekki aðeins verið mikilvæg fyrir atvinnulíf Skagafjarðar á liðnum áratugum heldur skilaði söluandvirði verksmiðjunnar að auki miklu til samfélagsins í öðru formi. Má þar nefna að helmingur söluandvirðisins, ríflega 100 milljónir króna, fóru til atvinnuuppbyggingar í Skagafirði og fór stærsti hluti þess fjármagns til uppbyggingar fiskeldisrannsókna við Hólaskóla. Þar af fór dágóður hluti til uppbyggingar nýrrar rannsókna- og kennsluaðstöðu í því húsi sem við erum í hér í dag. Auk þess var í tengslum við þessa ákvörðun verulegum fjármunum varið í uppbyggingu Þverárfjallsvegar sem hefur gjörbreytt samgöngum milli héraða á Norðvesturlandi.

Nú um stundir er í gangi athugun og rannsóknir á þeim stöðum sem hvað fýsilegastir hafa verið taldir fyrir staðsetningu mögulegs álvers á Norðurlandi. Ritað var undir samning þess efnis í sumar og er einn aðila hans sveitarfélagið Skagafjörður. Vonast er til þess að samningurinn geti á næstu mánuðum leitt í ljós hvort af uppbyggingu álvers geti orðið á Norðurlandi og hafa í því sambandi verið nefndir einkum tveir möguleikar hér á Norðurlandi vestra. Þá hefur Fjárfestingarstofa fyrir hönd stjórnvalda átt aðkomu að athugun á byggingu koltrefjaverksmiðju sem mögulega gæti verið staðsett á þessu landsvæði. Allsendis óvíst er hvort af uppbyggingu annars hvors þessara möguleika mun verða en allar rannsóknir og hagkvæmniathuganir hjálpa til við að vekja athygli á þeim kostum sem svæðið býr yfir til uppbyggingar iðnaðar og auka því verulega líkurnar á því að skjótt sé hægt að bregðast við öllum möguleikum sem upp kunna að koma á næstu árum.

Rétt er að benda á að það er ekki á hendi stjórnvalda að taka ákvörðun um hvort eða hvar einstök iðjuver eru staðsett þótt þau geti aðstoðað við að benda á heppilega kosti og verið viðkomandi fyrirtækjum innan handar um ýmis mál. Það er þekkt að hin ýmsu svæði á landsbyggðinni hafa margvíslega styrkleika og tækifæri sem standast fyllilega alþjóðlegan samanburð og rúmlega það. Í þessu sambandi skal það þó ítrekað að sveitarstjórnarmenn á Austurlandi unnu afar ötullega að þessum málum á skipulegan og samhentan hátt. Að mati hinna erlendu fjárfesta hefði sennilega ekki verið fjárfest á Austurlandi hefði slík samstaða og kraftur sveitarstjórna á svæðinu ekki komið til. Þetta er rétt að hafa í huga ekki síst út frá því sjónarmiði að það er afar mikil samkeppni um alþjóðlegar fjárfestingar sem þessar, enda gríðarlegir fjármunir í húfi og það verður að ríkja traust á milli samningsaðila í slíkum tilvikum.

Mín framtíðarsýn er sú að árið 2020 verði á Norðurlandi vestra orkufrekt iðjuver sem veiti tugum manna beina atvinnu og sem einnig hafi skapað mikinn fjölda afleiddra starfa.

Góðir gestir,

Í Skagafirði og Húnavatnssýslum standa menn nokkuð vel að vígi hvað varðar þróun í sameiningu sveitarfélaga og ekki síður á sviði góðra samgangna. Ekki er útlit fyrir annað en að áframhald verði á þessari þróun. Á árunum 2007-2010 mun 15 milljörðum króna af söluandvirði Símans verða varið til framkvæmda í vegamálum og eru þessir fjármunir hrein viðbót við það sem áður hafði verið áætlað til málaflokksins í núverandi samgönguáætlun. Viðbótarframkvæmdirnar ná til allra helstu þjóðvega landsins og m.a. mun unnt að ljúka gerð Þverárfjallsvegar og brúar yfir Gönguskarðsá við Sauðárkrók árið 2008. Sem afleiðing aðhaldssamrar stefnu í ríkisfjármálum og sölu Símans munu vaxtagjöld ríkissjóðs lækka áfram sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þannig má áætla að þessi gjöld séu tæpum 16 milljörðum króna lægri nú en ef miðað er við óbreytt hlutfall árið 1998. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2006 er áætlað að vaxtagjöld verði í fyrsta skipti lægri en vaxtatekjur. Þessi góða staða skapar svigrúm til enn frekari uppbyggingar á stoðkerfum samfélagsins, þar með töldu samgöngukerfinu, og má þar til að mynda nefna safn- og tengivegi. Ýmsir kostir munu að auki opnast á næstu árum með tækniframförum í jarðgangnagerð og er fullur vilji til að skoða þá til hlítar. Má í því sambandi geta þess að forsætisráðherra hefur sagt að hann telji að hægt sé að vinna við jarðgangnagerð á hverju ári héðan í frá og þarf ekki að fjölyrða um þau jákvæðu áhrif sem slíkar framkvæmdir munu hafa á byggð í landinu.

Árið 2020 má ætla að á Norðurlandi vestra verði a.m.k. ekki fleiri en þrjú sveitarfélög á svæðinu öllu og jafnvel aðeins eitt, sem myndar heildstætt atvinnu- og þjónustusvæði. Fyrir vikið hefur sveitarfélagið komið með aukinn slagkraft í atvinnu- og byggðamálum, stefnumótun þess er heildstæðari og skýrari, skilvirkni hefur aukist og þjónusta batnað. Þessi stærri eining mun vera mjög vel í stakk búin til að taka við ýmsum verkefnum sem nú eru á hendi ríkisins og þar með mun margvísleg þjónusta dagsins í dag hafa færst nær íbúum framtíðarinnar.

Samgöngur innan svæðisins munu óhjákvæmilega enn hafa batnað. Vegabætur mun hafa verið gerðar á milli helstu þéttbýlisstaða svo þar eru ekki lengur fyrir hendi slysagildrur eða óþarfa krókar og skæklar. Verulegar vegabætur hafa orðið á safn- og tengivegum. Tengingin við Norðurland eystra hefur verið bætt með nýjum vegi um Norðurárdal í Skagafirði og þá hafa komið til sögunnar göng á milli Hjaltadals og Hörgárdals sem stytt hafa leiðina milli Sauðárkróks og Akureyrar um 20 km. auk þess að hafa gert hana mun greiðfærari. Má merkja mjög jákvæð áhrif þessa á margvíslegan máta, m.a. á öflugu samstarfi háskólanna á Hólum og á Akureyri og rannsóknarstofnana og þróunarsetra á Norðurlandi sem mynda þétt samstarfsnet sín á milli. Að auki hefur atvinnusvæðið með þessum samgöngubótum stækkað stórlega.

Góðir gestir,

Á Norðurlandi vestra er sagan bókstaflega við hvert fótmál. Má í því sambandi nefna merka sögustaði eins og Bjarg í Miðfirði, Hof í Vatnsdal, Hóla í Hjaltadal, Glaumbæ, Reynistað og Flugumýri svo aðeins séu fáeinir staðir nefndir. Grettis saga, Sturlunga og frásagnir Grænlendingasögu af fyrsta Ameríkumanninum af evrópskum uppruna, Snorra Þorfinnssyni, bjóða upp á mikla möguleika í ferðaþjónustu. Frásagnir seinni tíma, s.s. af Hólabiskupum, munkum á Þingeyrum og nunnum á Reynistað, bjóða upp á enn fleiri tækifæri, ekki síst í tengslum mikinn fornleifauppgröft síðustu ára. Ef haldið er enn nær nútímanum spila Vesturfarasetrið á Hofsósi, Síldarminjasafnið á Siglufirði og Textílsafnið á Blöndusósi stórt hlutverk. Frásagnir, ljóð og munir eftir snillinga eins og Bólu-Hjálmar og Sölva Helgason krydda þetta allt saman og bæta aðeins í fjölbreytta og safaríka flóru sögu og menningar sem þessi landshluti býr yfir.

Þegar saman blandast fjölbreytt afþreying í formi til að mynda gönguferða um Tröllaskaga, selaskoðunar á Vatnsnesi, íþróttaiðkunar í skíðasvæði Tindastóls og á nýrri frjálsíþróttaaðstöðu á Sauðárkróki, stangveiða í Húnavatnssýslum, menningarsérstöðu í Kántrýbæ á Skagaströnd og auðvitað hestamennsku, söngs og gleði á svæðinu öllu þá er ljóst að Norðurland vestra býr yfir miklum styrkleikum á sviði ferðaþjónustu sem aðeins er hægt að nýta til mikillar sóknar fram á við og þar að auki eru Skagfirðingar að mínu mati skemmtilegt fólk.

Árið 2020 hefur byggst upp öflugur klasi á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra. Tekist hefur að auka samstarf, samvinnu og samkeppni heimamanna sem skilað hefur sér í því formi að ferðamenn, jafnt innlendir sem erlendir, hafa í mjög auknum mæli litið á svæðið sem endapunkt en ekki eingöngu skemmtilegan áfangastað á leið sinni landshluta á milli. Bættar samgöngur hafa einnig orðið til þess að vaxandi orlofshúsabyggð hefur risið víða í nýju sameinuðu sveitarfélagi þar sem menn leita friðsældar og kyrrðar í fallegu umhverfi, vitandi það að á næsta leiti eru í boði fjölbreyttustu afþreyingarmöguleikar á landinu öllu.

Ég geri mér grein fyrir því að eitthvað í þessari framtíðarsýn minni mun ekki ganga eftir enda myndi ég hafa talað svo varlega að þið væruð öll löngu sofnuð ef ætlunin hefði verið að horfa eingöngu til skotheldra verkefna. Ég lít heldur ekki á það sem hlutverk mitt í slíkri framtíðarsýn til langs tíma að tala sem hinn ábyrgðarfulli stjórnmálamaður sem ekki vill láta hanka sig á neinu. Eigi að síður er þessi framtíðarsýn sett fram í fullri alvöru. Vonandi gengur margt af framansögðu upp. Eflaust mun eitthvað falla niður en einnig munu koma til hlutir sem ég get ekki séð fyrir í dag. Stjórnmálamenn hafa til að mynda margir hverjir leitað leiða til að flytja opinberar stofnanir og störf frá höfuðborginni til landsbyggðar eins og gert hefur verið í tilfellum Byggðastofnunar, hluta Íbúðalánasjóðs og síðast í gær þegar tilkynnt var um að Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar verði sett upp á Blönduósi. Hefur sú viðleitni mætt nokkurri andstöðu en þrátt fyrir það er það vilji minn að framhald verði á þessari þróun enda hefur hún gefist vel. Markmið mitt og vonir eru jafnframt bundnar við að með einbeitni, samtakamætti og bjartsýni fái stjórnvöld og heimamenn, hvort sem er í atvinnulífi eða sveitarstjórnum, áorkað jákvæðum breytingum sem muni skila sér í öflugu atvinnulífi, fjölgun íbúa og blómlegri menningu. Norðurland vestra á það skilið.

- III -

Eins og ég kom inn á fyrr í ræðu minni þá hafa í mörgum nágrannalanda okkar, og raunar mun víðar, áherslur í atvinnu- og byggðamálum breyst á undanförnum árum og í þá veru að héruð og sveitarfélög fá aukið sjálfstæði í atvinnu- og félagsmálum. Liður í því er m.a. að auka ábyrgð þessara aðila og veita liðsinni með ýmsum hætti, m.a. í formi fjármagns til eftirfylgni á einstökum verkefnum eða aðgerðum. Hafa þessar áherslubreytingar reynst vel og í því ljósi hef ég á undanförnum árum lagt áherslu á að byggðaaðgerðir hér á landi taki mið af þessari þróun.

Ég hef lagt áherslu á gerð vaxtarsamninga og aukna samkeppnishæfni landsins alls, þar sem ég tel þessa þætti afar mikilvæga til að bæta lífskjör og treysta búsetu í landinu. Áhersla á þessa málaflokka á síðustu misserum hefur smátt og smátt verið að komast í framkvæmd með ýmsum verkefnum og aðgerðum.

Ef litið er til þeirra vaxtarsamninga sem þegar eru komnir til framkvæmda þá er í gangi öflugt starf á vegum Vaxtarsamnings Eyjafjarðar sem miðar að því að styrkja Eyjafjarðarsvæðið sem öflugan byggðakjarna. Stjórn vaxtarsamningsins réði framkvæmdasstjóra til að annast reksturinn í samræmi við stefnumörkun stjórnar og framkvæmdastjórnar samningsins. Síðan var leitað til óháðra aðila til að stjórna klösunum sjálfum. Þannig sjá Ferðamálasetur Íslands og Markaðsskrifstofa Norðurlands um ferðamálaklasann og Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri um mennta- og rannsóknarklasann og er gott samstaf við HA um framkvæmdina. Mikil vinna hefur átt sér stað fyrir norðan og hafa um 200 manns tekið þátt í vinnu klasanna til þessa og um 100 fyrirtæki og stofnanir hafa sent fulltrúa á kynningar- og vinnufundi. Á vegum Vaxtarsamnings Eyjafjarðar er unnið að fjölmörgum verkefnum sem einnig snerta Norðurland vestra, s.s. á sviði ferðamála og háskólastarfsemi.

Vaxtarsamningur Vestfjarða er skemmra á veg kominn en hann gildir frá miðju ári 2005 til ársloka 2008. Sami háttur er hafður á rekstri Vaxtarsamnings Vestfjarða, þótt enn sé verið að móta reksturinn þar sem svo stutt er síðan samningurinn var gerður. Auk vaxtarsamningsins hafa iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti stutt við fjölda verkefna sem unnið hefur verið að þar með beinum eða óbeinum hætti, með stoðkerfi í nýsköpun og byggðamálum sem tengjast Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, Byggðastofnun, Iðntæknistofnun og Impru Nýsköpunarmiðstöð. Um fjölmörg verkefni er að ræða á þessu sviði og má þar m.a. nefna verkefni sem orðið hafa til í samstarfi við önnur ráðuneyti eins og háskólasetrið á Ísafirði og samstarfsverkefni á sviði fámennra skóla á Vestfjörðum en einnig ýmiss konar mál sem tengjast ferðaþjónustu, veiðafærastofnun og rannsóknum í fiskeldi.

Á Austurlandi og á Suðurlandi hafa nefndir sem skipaðar voru tekið til starfa og er þeim ætlað að koma með tillögur um stefnumörkun í byggðamálum á þessum landssvæðum ásamt áætlun um aðgerðir.

Góðir gestir,

Ég hef nú ákveðið að skipa verkefnisstjórn er hafi umsjón með undirbúningi fyrir gerð Vaxtarsamnings Norðurlands vestra. Hlutverk verkefnisstjórnarinnar er að gera tillögu til ráðherra um stefnumörkun í byggðamálum á Norðurlandi vestra, og kanna hvaða kostir komi helst til greina við að treysta vöxt og samkeppnishæfni svæðisins. Með tillögunum fylgi áætlun um aðgerðir þar sem fram komi markmið þeirra, forsendur, ábyrgð á framkvæmd, þátttakendur, ásamt tíma- og kostnaðaráætlun. Óskað er eftir að verkefnisstjórnin taki mið af skýrslum sem unnar voru fyrir ráðuneytið nýlega fyrir Eyjafjörð og Vestfirði.

Í verkefnisstjórninni eiga sæti:

Baldur Pétursson, deildarstjóri, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, formaður,

Knútur Aadnegard, K-Tak ehf., Sauðárkróki

Skúli Skúlason, skólameistari Hólaskóla

Svanhildur Guðmundsdóttir, forstöðumaður þjónustusviðs Íbúðalánasjóðs

Jóna Fanney Friðriksdóttir, bæjarstjóri á Blönduósi

Steindór Haraldsson, framkvæmdastjóri Sero ehf., Skagaströnd

Unnar Már Pétursson, fjármálastjóri Þormóðs ramma – Sæbergs hf., Siglufirði

Elín R. Líndal, markaðsstjóri Forsvar ehf., Hvammstanga

Guðmundur Guðmundsson, þróunasviði Byggðastofnunar, Sauðárkróki

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Leiðbeiningamiðstöðvarinnar ehf., Sauðárkróki

Með nefndinni munu starfa Jakob Magnússon, SSNV atvinnuþróun og Elvar Knútur Valsson, verkefnisstjóri hjá Impru nýsköpunarmiðstöð.

Góðir gestir. Í umfjöllun um byggðamál hefur stundum gætt togstreitu á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Til lengri tíma litið fara hagsmunir saman. Til að þroska og þróa umfjöllun um þetta mikilvæga mál og efla enn frekar árangur á sviði byggðamála og samkeppnishæfni almennt, þurfa sem flestir hópar þjóðfélagsins að koma að umfjöllun málsins. Málþing sem þetta er mikilvægur liður í þá átt. Ég vil að lokum þakka ykkur fyrir að fá að ávarpa þessa glæsilegu samkomu og vona að dagurinn verði gagnlegur og fræðandi.

Takk fyrir. 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval