Ársfundur Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

3/11/05

Kæru gestir,

Það er mér sönn ánægja að vera hér í dag og ávarpa fyrsta ársfund Rannsóknaseturs verslunarinnar. Rannsóknarsetrið hefur nú verið starfrækt í hartnær ár en að því standa viðskiptaráðuneyti, Samtök verslunar og þjónustu, verslunarfyrirtækin Hagar, Kaupás og Samkaup og síðast en ekki síst Viðskiptaháskólinn á Bifröst en þar er jafnframt aðsetur setursins.

Markmiðin með starfrækslu setursins eru m.a. að:

1. Skapa og miðla þekkingu um mikilvæg málefni er snerta smásöluverslun á Íslandi

2. Taka virkan þátt í umræðu um málefni smásöluverslunar

3. Aðstoða samtök og fyrirtæki í smásöluverslun við lausn faglegra úrlausnarefna

Viðskiptaráðuneytið, sem beinn þátttakandi að setrinu, hefur bæði mikinn áhuga fyrir því sem þar fer fram og jafnframt mikinn metnað fyrir fyrir þess hönd. Ég fagna því útkomu nýrrar skýrslu setursins um skattamál verslunarinnar og vonast til að hún verði innlegg í frjóa umræðu í framtíðinni. Ber skýrslan þess merki að hjá Rannsóknarsetri verslunarinnar hafi nú þegar verið framkvæmdar viðamiklar úttektir á versluninni hér á landi og veit það á gott hvað framhald á rannsóknarþætti starfseminnar varðar.

Starfsgreinin verslun hefur tekið stakkaskiptum síðustu ár. Fáar aðrar atvinnugreinar hafa tekið jafn áberandi þátt í alþjóðavæðingunni og fáar atvinnugreinar ef nokkrar hafa komið íslensku athafnalífi jafn rækilega á heimskortið og raun ber vitni með verslunina. Þessu til viðbótar má nefna að á Íslandi hefur trúlega aldrei verið meiri kraftur og athafnagleði ríkjandi hjá verslunarfólki en einmitt nú. Þetta er gleðileg þróun og afar jákvætt að geta fagnað 150 ára afmæli verslunarfrelsis á Íslandi með þeirri ánægjulegu staðreynd að íslensk fyrirtæki eru í mikilli útrás og stunda landvinninga víða um heim.

 

Í þessum mikla uppgangi verður þó að játast að nokkurt áhyggjuefni er að menntunarstig innan verslunargeirans hefur ekki þann verðuga sess sem því ber. Afleiðingin birtist viðskiptavinum of oft í formi ókunnugleika afgreiðslufólks um leið og verslanirnar sjálfar glíma við mikla starfsmannaveltu og skort á vel þjálfuðu starfsfólki. Á tímum þegar svo vel árar í efnahagsmálum þjóðarinnar sem nú eru öll tækifæri fyrir hendi til að bæta úr þessu.

Ekki má misskilja orð mín á þann veg að ég telji íslenskt verslunarfólk síðri starfskrafta en aðra. Ég vil eingöngu benda á að svo virðist sem verslunargeirinn hafi dregist nokkuð aftur úr almennri þróun í menntunarmálum.

 

Verslunarfólk sjálft er mjög meðvitað um þennan vanda og reiðubúið til að bæta úr. Ég vil nefna í því sambandi verslunarstjóranám á Bifröst, sem hlaut starfsmenntaverðlaun Starfsmannaráðs og Menntar á síðasta ári, og spennandi tilraunaverkefni um verslunarfagnám í Verslunarskóla Íslands. Bæði þessi fræðsluverkefni eru unnin í samstarfi við Samtök verslunar og þjónustu.

Um þessar mundir er Rannsóknasetur verslunarinnar, í samstarfi við SVÞ og með þátttöku verslunarfyrirtækja, að undirbúa nám á háskólastigi með sérstaka áherslu á smásölu. Ég tel þetta afar áhugavert og brýnt verkefni og til þess fallið að efla verslun á Íslandi enn frekar og styrkja undirstöður velgengni undanfarinna ára. Mikilvægt er að þessi menntun nýtist hvoru tveggja þeim sem þegar hafa valið verslun sem starfsgrein til að bæta færni sína og laði einnig ungt og menntað fólk í auknum mæli að henni.

 

Ég sé mikið tækifæri fólgið í því að blanda saman færni íslenskra stjórnenda í smásölu og háu gæðastigi íslensku háskólanna. Slík blanda hefur alla burði til að vekja athygli á alþjóðavetvangi.

Ég vil jafnframt geta þess að mér er kunnugt um að Rannsóknasetur verslunarinnar og Viðskiptaháskólinn á Bifröst eru komin í samstarf við Norræna smásöluháskólann (Nordiska detaljhandelshögskolan) í Stokkhólmi um sameiginleg kennsluverkefni. Í síðasta mánuði fór hópur nemenda ásamt forstöðumanni Rannsóknasetursins til Stokkhólms og tók þátt í sameiginlegu námskeiði fjögurra norrænna skóla. Mjög líklegt að áframhald verði á þessu samstarfi og á ég von á að það geti komið að miklu gagni. Viðskiptaháskólinn á Bifröst er til að mynda kominn mun lengra hvað fjarnámstækni varðar en hinir sænsku frændur okkar en á móti kemur að þeir hafa aðgang að stórum hópi afbragðs fyrirlesara og búa að dýrmætri reynslu í menntun fyrir smásölugeirann.

 

Góðir gestir,

Þekking byggð á rannsóknum, viðskiptaleg samkeppnishæfni og hagfellt rekstrarumhverfi mun skipta meira máli fyrir íslenska verslun á komandi árum en nokkru sinni áður. Við munum mæta stöðugt sterkari samkeppni frá stórum alþjóðlegum fyrirtækjum og framleiðslugreinar og fjármagnsmarkaðir alþjóðavæðast í sífellt auknari mæli. Verslun er elsta atvinnugrein heimsins en hún breytist nú örar en áður. Á Íslandi hafa þróast dugmikil og framsækin verslunarfyrirtæki með samkeppnishæf rekstrarform og alþjóðlegan metnað. Til að byggja upp og þróa þekkingu í versluninni, skapa innlegg í þjóðfélagsumræðu og móta raunhæfa framtíðarsýn skiptir miklu máli að Rannsóknarsetri verslunarinnar takist vel til að sinna hlutverki sínu. Ég hef fulla trú á að svo verði.

Takk fyrir

 

 

  

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval