Skapandi atvinnugreinar.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

3/10/05

Ávarp Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra á ráðstefnu um skapandi atvinnugreinar 1.10.2005 Háskóli Íslands, Oddi, stofa 101 Góðir gestir. Það er mér sérstök ánægja að fá að ávarpa þessa ráðstefnu um skapandi atvinnugreinar. Skapandi atvinnugreinar hafa verið mér sérstakt hugðarefni í tíð minni sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra og því fagna ég hverju því tækifæri og viðburði sem vekur athygli á mikilvægi þeirra fyrir íslenskt þjóðfélag. Ladies and Gentlemen. Before I continue with my address I want to use the opportunity to welcome our foreign guests and speakers. I hope you will enjoy this interesting conference. Miklar breytingar hafa átt sér stað í íslensku efnahags- og atvinnulífi á undanförnum árum. Hvarvetna má heyra fréttir af íslenskum kaupsýslumönnum sem standa í miklum fjárfestingum, jafnt hér á landi sem erlendis. Er þetta ekki síst að þakka breytingum sem gerðar hafa verið á skipulagi efnahagsmála hér á landi og má þar m.a. nefna að stjórnvöld hafa mótað almennan ramma um starfsemi fyrirtækja, eflt samkeppniseftirlit, innleitt frelsi á fjármagnsmarkaði ásamt því að hafa styrkt stoðir íslensks atvinnulífs. Skipulagsbreytingar á borð við þær sem stjórnvöld hafa beitt sér fyrir síðustu ár og árangurinn af þeim endurspeglast í samkeppnishæfni þjóðarinnar. Árið 2000 var Ísland í tíunda sæti á lista yfir samkeppnishæfni þjóða heims en í dag erum við í fjórða sæti og fremst allra Evrópuþjóða. Í annarri könnun á samkeppnishæfni þjóða sem birt var nýlega vorum við Íslendingar í sjöunda sæti og höfum hækkað þar um 18 sæti á tíu árum. Því er ljóst að samkeppnishæfni íslensks efnahagslífs er í fremstu röð meðal auðugustu og framsæknustu þjóða heims. Viðamikill þáttur í bættri samkeppnisstöðu Íslands er sú áhersla sem lögð hefur verið á aukna nýsköpun á undanförnum árum. Nýsköpun byggist fyrst og fremst á getunni til að afla þekkingar og hagnýta sér hana. Í nýsköpun felst m.a. að til verði ný afurð, framleiðsluaðferð eða þjónusta. Ekki skiptir minna máli að nýsköpun getur átt sér ýmsar fleiri orsakir, eins og framsækna hönnun, menningarverðmæti, umbætur á innra skipulagi, breyttar markaðsaðstæður og fjölmargt annað. Ríkisstjórn Íslands hefur sýnt vilja sinn til þessara mála í verki og ákvað m.a. nú nýlega að auka eigið fé Nýsköpunarsjóðs um allt að 2,5 milljarða króna í áföngum til ársins 2009. Í ár fær sjóðurinn einn milljarð sem verður varið til sprotafyrirtækja í samræmi við lögbundið hlutverk sjóðsins og ákvarðanir stjórnar. Á árunum 2007-2009 fær sjóðurinn allt að 1,5 milljarða króna í viðbótarframlag til að standa undir hlutdeild sinni í stofnun sameignarsjóðs Nýsköpunarsjóðs, lífeyrissjóða og annarra fjárfesta í sprotafyrirtækjum. Að auki hef ég lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða sem miðar að því að færa nýtt líf í áhættufjármögnun sprotafyrirtækja. Starfsmenn Kauphallar Íslands vinna nú að því að útfæra þennan nýja markað sem á að koma til móts við þarfir sprotafyrirtækja. Þá má einnig minnast á Tækniþróunarsjóð sem varð til árið 2004 en hlutverk sjóðsins er að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Tækniþróunarsjóður er rekinn af Rannís samkvæmt samningi við iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið. Hann mun gegna veigamiklu hlutverki við fjármögnun nýsköpunarverkefna og brúa það bil sem verið hefur á milli gömlu Rannís-sjóðanna og aðkomu framtaksfjárfesta. Úthlutað var úr sjóðnum í fyrsta sinn árið 2004 en þá voru 200 milljónir kr. til ráðstöfunar. Framlag til Tækniþróunarsjóðs úr ríkissjóði mun fara stigvaxandi og miða áætlanir að því að 500 milljónir kr. verði til ráðstöfunar úr sjóðnum árið 2007. Bind ég miklar vonir við að þessar breytingar á umhverfi og fjármögnun nýsköpunar og sprotafyrirtækja skili sér í formi aukins frumkvöðlastarfs og endurnýjunar í atvinnulífinu. Íslendingar eru framarlega á meðal þjóða heims á mörgum sviðum eins og fyrr hefur verið komið að. Samkvæmt nýlegri skýrslu World Economic Forum er Ísland í öðru sæti á lista yfir þjóðir heims ef litið er til þess hversu tilbúnar þær eru til að taka þátt í og hagnýta sér upplýsinga- og samskiptatækni. Við höfum alla burði til að vera áfram í fararbroddi þjóða heims á þessu sviði. Við höfum ágæta innviði, mikinn metnað og nýjungargirni auk framúrskarandi fólks sem býr yfir mikilli þekkingu og hæfileikum. Alla þessa orku þarf að virkja og með því að almenningur, atvinnulíf og opinberir aðilar leggist öll á sömu sveif er ég þess fullviss að tækifæri tækninnar verði nýtt til að bæta íslenskt samfélag. Í því skyni, og til að vekja áhuga almennings, fyrirtækja og opinberra stofnana á þessum málum, hefur iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið í samráði við verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið beitt sér fyrir því að hér á landi verði árlega haldinn svokallaður „rafrænn dagur" (e-dagur), líkt og margar aðrar þjóðir gera. Þetta yrði gert til að hvetja ríki og sveitarfélög til dáða í að efla rafræna stjórnsýslu, og enn fremur til að hvetja almenning til að nýta sér í auknum mæli þær sjálfsafgreiðslulausnir sem þegar eru í boði, ásamt því að efla tiltrú hans á öryggi slíkrar þjónustu. Stefnt er að því að slíkur rafrænn dagur verði haldinn í upphafi næsta árs. Nýsköpun atvinnulífsins byggir á fleiri þáttum en vísindalegri þekkingu. Reynsla annarra þjóða hefur sýnt að fyrirtæki sem leggja aukna áherslu á hönnun í þróun framleiðslu sinnar njóta betri afkomu en þau sem gera það ekki. Hér á landi er stór hópur hönnuða sem getið hefur sér góðs orðspors víða um heim og er ástæða til að efla starfsemi þeirra og tengja betur við framleiðendur en verið hefur. Til að svo verði hefur iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið stofnað til samstarfs um hönnun með Samtökum iðnaðarins, Útflutningsráði Íslands, Iðntæknistofnun og Aflvaka. Samstarfsvettvangur um hönnun verður starfræktur sem þróunarverkefni í þrjú ár og verður vistaður hjá Impru nýsköpunarmiðstöð, enda fellur þessi starfsemi vel að þeirri stuðningsþjónustu sem þar er fyrir. Tilgangur verkefnisins er að á einum stað verði aflað upplýsinga um íslenska hönnun og hönnuði, upplýsingum miðlað milli hönnuða og fyrirtækja og að efla samstarf á markvissan hátt. Markmið Samstarfsvettvangs verður að auka skilning á mikilvægi hönnunar, efla iðnhönnun og koma íslenskum hönnuðum á framfæri hér heima og erlendis. Einnig mun iðnaðarráðuneytið beita sér fyrir því að unnin verði heildstæð úttekt á þýðingu hönnunar fyrir íslenskt atvinnulíf. Á grunvelli þeirrar vinnu verði lagður grunnur að stefnumörkun fyrir stjórnvöld sem gæti síðan orðið grundvöllur að ákvörðun um fyrirkomulag opinbers stuðnings við hönnun til lengri tíma litið. Ekki má sleppa hendinni af umfjöllun um íslenska hönnun án þess að minnast á hönnunardaga sem fyrirhugaðir eru 10.-13. nóvember nk. en þessa daga mun Hönnunarvettvangur standa fyrir námstefnu, fyrirlestrum og öðrum viðburðum til að kynna íslenska hönnuði og hönnun. Á ég von á því að hönnunardagar muni vekja mikla athygli enda eigum við Íslendingar hönnuði á heimsmælikvarða svo sem verk þeirra bera gott vitni um. Ef vikið er að öðrum skapandi greinum er óhætt að segja að mikil gróska hafi verið í framleiðslu kvikmynda hér á landi hin seinni ár. Hafa erlendir jafnt sem innlendir kvikmyndaframleiðendur gripið fegins hendi þau tækifæri sem opnast hafa með því endurgreiðslufyrirkomulagi sem ráðuneytið hefur boðið upp á. Það gengur út á það að kvikmyndaframleiðendur fá 12% heildarframleiðslukostnaðar endurgreiddan úr ríkissjóði vegna framleiðslu kvikmyndar er hér á landi. Í dag hafa 23 verkefni hlotið endurgreiðslu og nemur sú fjárhæð rúmum 316 milljónum króna. Þá hefur 24 verkefnum til viðbótar verið gefið vilyrði fyrir endurgreiðslum og er áætluð fjárhæð þeirra rúmar 478 milljónir króna. Má áætla að velta hér á landi vegna þessara 47 verkefna nemi rúmum 6,5 milljörðum króna á fimm ára tímabili. Nýlegt dæmi um stóra erlenda mynd sem tekin er upp hér á landi er kvikmynd Clint Eastwood "Flags of our Fathers". Um er að ræða afar stórt verkefni, enda Clint Eastwood enginn aukvisi í kvikmyndagerð. Kostnaður sem til fellur hér á landi vegna þessa verkefnis er talinn nema um 15-16 milljónum bandaríkjadala eða sem nemur um einum milljarði íslenskra króna. Fjöldi íslenskra og erlendra starfsmanna kom að tökunum, en á tímabili tóku um 500 leikarar þátt í þeim. Þessu fylgdi einnig mikið umstang í kringum leikmuni, búninga, förðun, tæknibrellur o.þ.h. enda ekki lítið verk að farða og klæða um 500 leikara upp fyrir sömu tökuna! Nærri 240 Íslendingar unnu við þetta verkefni í skemmri eða lengri tíma. Reiknað er með að keyptar hafi verið yfir 10.800 gistinætur á hótelum á Suðurnesjum og í Reykjavík vegna framleiðslu myndarinnar og að erlent starfsfólk hafi eytt yfir 70 milljónum króna á veitingastöðum og við kaup á annarri þjónustu þann tíma sem það dvaldi hér. Af þessu öllu má sjá hvað verkefni sem þetta hefur mikil og jákvæð áhrif hér á landi. Annað gott dæmi er Latibær en þættirnir hans Magnúsar Scheving eru komnir lengra í alþjóðlegum sjónvarpsheimi en nokkuð annað íslenskt efni. Nú nýlega voru undirritaðir samningar við BBC um sýningar á þáttunum og við það tækifæri kom fram að þeir hafa nú verið teknir til sýninga 46 löndum. Stefnt er að því að löndin verði orðin 78 í lok ársins. Enginn sjónvarpsþáttur fyrir börn hefur hlotið viðlíka útbreiðslu, hvorki fyrr né síðar. Í Bandaríkjunum einum horfa alls um 800 þúsund bandarísk börn á aldrinum 2-5 ára á hvern þátt af Latabæ. Önnur skapandi grein sem iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti hafa aðstoðað við að koma á framfæri er íslenskur tónlistariðnaður. Í samantekt á styrkjum ráðuneytisins til íslenskra tónlistarmanna sem kom út fyrir rúmu ári síðan kom glögglega í ljós að styrkveitingarnar höfðu gert gæfumuninn í langflestum þeim verkefnum sem íslenskir tónlistarmenn hafa lagt út í á erlendri grundu síðustu árin og að án þessara styrkveitinga hefðu flest þeirra verkefna sem ráðist var í ekki orðið að veruleika. Þetta er bein niðurstaða viðtala við nær alla þá sem fengu styrki frá ráðuneytinu á tímabilinu frá janúar 1999 til september 2003. Öllum tónlistarmönnunum bar saman um nauðsyn þess að hafa sjóði sem styrkja við bakið á íslenskum listamönnum sem vilja leita úr fyrir landsteinana að frægð og frama – og á sama tíma að kynna Ísland og Íslendinga fyrir umheiminum. Svo tekin séu þekkt dæmi um sjáanlegan árangur af styrkveitingunum má nefna hljómsveitina Sigurrós sem farið hefur sigurför um heiminn og tónlistarkonuna Emiliönu Torrini en á síðustu misserum hefur sól hennar risið hratt. Góðir gestir. Ég hef nú í fáeinum orðum farið yfir nokkur dæmi um aðkomu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og stjórnvalda að nokkrum hinna skapandi greina og umhverfi þeirra. Dæmin eru nokkuð afmörkuð en sýna glögglega hversu miklum tækifærum skapandi greinar búa yfir og hversu mikla þýðingu þær hafa haft og geta í enn auknari mæli haft á hagvöxt og velmegun þjóðarinnar. Um leið og ég vona að ráðstefna þessi veki menn til enn frekar til umhugsunar um þessi tækifæri vil ég þakka viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn, Listaháskóla Íslands og Iðntæknistofnun fyrir að boða til hennar. Ekki síst vil ég þó þakka ykkur ágætu gestir fyrir að sýna málinu áhuga og koma hingað í dag.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval