50. fjórðungsÞing Vestfjarða, 2. september 2005.

5/9/05

Kæru þingfulltrúar og gestir.

Það er mér sannarlega ánægjuefni að vera hér í dag.

Það er reyndar ekki svo langt síðan ég var síðast á ferð á þessum slóðum, eða í lok júlí, með gönguhópi og leiðsögumanni sem var heimamaðurinn Úlfar Thoroddsen.

Í erindi mínu nú ætla ég stuttlega að fjalla um áherslur og árangur á sviði byggða- og atvinnumála.

Stefnt er að því að tillaga til þingsályktunar, um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006-2009, verði lögð fyrir Alþingi fljótlega eftir að þing kemur saman. Áætlunin liggur nú fyrir í uppkasti og hefur verið send til umfjöllunar hjá þingflokkum stjórnarflokkanna. Í kjölfar þeirrar umfjöllunar verður uppkastið sent til umsagnar þeirra sem unnið hafa að mótun stefnunnar. Það er mikið ánægjuefni hversu margir hafa lagt hönd á plóg, má þar nefna atvinnuþróunarfélög og fulltrúa sveitarstjórna, Byggðastofnun og ráðuneyta. Fjölmargar hugmyndir hafa komið fram og munu flestar þeirra verða í einhverri mynd í endanlegri tillögu.

Ný byggðaáætlun mun byggja á grunni núgildandi áætlunar. Með henni verður stefnt að því að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni og efla samkeppnishæfni landsins í heild og einstakra landssvæða. Þrjú meginmarkmið hafa verið skilgreind, en þau eru: í fyrsta lagi að landshlutakjarnar verði efldir jafnframt því sem hugað verði að þeim byggðum sem búa við fólksfækkun, í öðru lagi að byggðarlög nái að laga sig að örri samfélagsþróun og hröðum breytingum í atvinnuháttum og í þriðja lagi að atvinnulíf, menntun, menning og félagslegt jafnræði verði styrkt á landsbyggðinni. Gildandi byggðaáætlun byggir á eftirtöldum fimm meginstoðum: Traustu og fjölbreyttu atvinnulífi, öflugum byggðarlögum, aukinni þekkingu og hæfni, bættum samgöngum og áherslu á sjálfbæra þróun. Sérstök áhersla verði þó lögð á fjögur atriði:

 

1. Gildi menntunar og menningar,

2. aukna nýsköpunar- og atvinnuþróunarstarfsemi,

3. bættar samgöngur og fjarskipti og

4. styrkingu þriggja landshlutakjarna, þ.e. Akureyrar, Ísafjarðar og Mið-Austurlands.

Það er ánægjulegt að gengið var frá undirritun Vaxtarsamnings Vestfjarða nú í sumar, sem gildir til ársins 2008. Fjölmargir aðilar eiga aðild að þessum samningi, jafnt einkaaðilar sem og opinberir aðilar, frá sveitarstjórnum, fyrirtækjum, fjármálastofnunum, rannsóknaraðilum, Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða og ráðuneyti. Það er nýjung að fjármálafyrirtæki komi nú að starfinu í fyrsta sinn. Með vaxtarsamningum er lögð áhersla á samkeppnishæfni og klasa í atvinnulífi á Vestfjörðum með samvinnu áðurnefndra aðila – en slíkt er um margt nýjung á sviði byggðamála. Höfð er hliðsjón af sambærilegum áherslum sem komin er góð reynsla á erlendis.

Um 140 milljónir króna eru ætlaðar til vaxtarsamnings Vestfjarða og kemur um helmingur frá stjórnvöldum og hinn helmingurinn frá sveitarstjórnum á svæðinu og fyrirtækjum. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti hafa stutt við fjölda verkefna sem unnið hefur verið að hér á Vestfjörðum með beinum eða óbeinum hætti, með stoðkerfi í nýsköpun og byggðamálum sem tengjast Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, Byggðastofnun, Iðntæknistofnun og Impru Nýsköpunarmiðstöð. Um fjölmörg verkefni er að ræða á þessu sviði. Má þar nefna:

verkefni sem orðið hafa til í samstarfi við önnur ráðuneyti, svo sem menntamálaráðuneyti og samgönguráðuneyti, auk sjávarútvegsráðuneytis. Þar skal fyrst nefna háskólasetrið á Ísafirði og samstarfsverkefni á sviði fámennra skóla á Vestfjörðum. Einnig ýmiss konar mál sem tengjast ferðaþjónustu, veiðafærastofnun og rannsóknum í fiskeldi.

 

 

Góðu gestir:

Andstæðingar stóriðju hafa að undanförnu nokkuð rætt um áhrif stóriðjuframkvæmda á efnahagsmál og atvinnulífið í landinu – og gengið svo langt að kenna þeim um nánast allt sem aflaga fer. Af málflutningi sumra mætti halda að við Íslendingar hefðum aldrei átt að byggja stóriðju því eitthvað annað hefði eflaust dottið af himnum ofan og komið í staðinn. Sérstaklega hefur verið látið að því liggja að gengishækkanir íslensku krónunnar séu allar vegna stóriðjuframkvæmda. Af þessu tilefni er rétt að benda á eftirfarandi:

Breytingar á gengi krónunnar á undanförnum misserum má að stærstum hluta rekja til annars vegar aukinna lána bankakerfisins til húsnæðiskaupenda og hins vegar kaupa erlendra aðila á íslenskum skuldabréfum. Aukin lán til húsnæðiskaupenda nema nú tugum milljarða og Seðlabankinn hefur brugðist við með hækkun vaxta til að sporna við hækkun verðbólgu. Greiningardeild Landsbankans hefur bent á að stærstu þættir í fjárstreymi til landsins árið 2004 hafi verið lánaflæði hingað vegna samruna og yfirtöku í fyrirtækjum sem nema 120 milljörðum, kaup útlendinga á íslenskum skuldabréfum sem nema 75 milljörðum en að innstreymi vegna stóriðjuframkvæmda séu ekki nema 17 milljarðar. Lítur út fyrir að hlutur stóriðju í gjaldeyrisinnstreymi verði jafnvel enn minni nú í ár.

Einhver ruðningsáhrif eru þó af völdum stórframkvæmda en þau koma fyrst og fremst fram á Austurlandi. Á sama tíma á sér hinsvegar stað stórkostleg uppbygging og verðmætasköpun auk þess sem hundruð nýrra atvinnutækifæra myndast.

Mér finnst nauðsynlegt að nefna þetta hér, þar sem borið hefur við að stóriðjuframkvæmdum fyrir austan sé kennt um erfiðan rekstur sjávarútvegsfyrirtækja á Vestfjörðum.

Þetta er mikil einföldun og í raun ósannindi. Þegar ég segi þetta þá er ég ekki að gera lítið úr þeim erfiðleikum sem ýmis fyrirtæki hér eiga við að etja.

Vandamál í sjávarútvegi og öðrum greinum geta stafað af margvíslegum öðrum ástæðum en háu gengi krónunnar. Þannig hefur rækjuafli farið minnkandi hér á landi á sama tíma og mikið verðfall er á erlendum mörkuðum m.a. vegna aukins afla frá Kanada. Þetta er mikið áhyggjuefni. Einnig má benda á mikið fall dollarans og aukna erlenda samkeppni að ég tali nú ekki um þróun olíuverðs, sem reyndar er nýlegt vandamál. Þar sem við erum stödd á Suðurfjörðum Vestfjarða er eðlilegt að beina sjónum að þeim málefnum sem þar eru efst á baugi. Ekki er útséð um það á þessari stundu hvort fiskvinnslan á Bíldudal fer í gang á nýjan leik, en vissulega vonumst við til að svo geti orðið. Mér er kunnugt um að heimamenn vinna að því hörðum höndum. Innan fárra mánaða hefst rekstur Kalkþörungaverksmiðjunnar á Bíldudal sem skapa mun 10 – 15 störf. Stjórnvöld hafa komið að því máli í tengslum við lóðarframkvæmdir sem ég tel að hafi haft afgerandi áhrif á málið á viðkvæmum tíma.

Þær hugmyndir sem uppi eru um markaðssetningu sjóstangaveiði hér fyrir vestan fyrir ferðamenn eru mjög áhugaverðar. Þar gæti ónógt hótelrými orðið ákveðinn flöskuháls, sem þarf að skoða sérastaklega. Eitt af því sem lögð var áhersla á í skýrslu um vaxtarsamning fyrir Vestfirði

Allir sem þekkja til á Vestfjörðum gera sér grein fyrir mikilvægi samgangna. Verulega hefur þokast í þeim málum á síðustu árum, en betur má ef duga skal.

Í skýrslu um Vaxtarsamning Vestfjarða var fjallað um að hraða uppbyggingu heilsársvegar um Vestfirði með jarðgöngum og þannig má gera góðan heilsársveg á láglendi frá norðurfjörðum og stytta vegalengdinþaðan til Reykjavíkur um tæpa100 kílómetra, auk þess sem varanleg tenging næst á milli suðurfjarða og norðurfjarða. Það er mikilvægt að skoða slíkt í fullri alvöru því góðar samgöngur erustór hluti af starfsskilyrðum fyrirtækja og lífskjörum fólks.

Í nútíma samfélagi eru samgöngur víðtækari en svo að þær snúist eingöngu um betri vegi. Ákveðið er að hluti af söluandvirði Símans verði varið til uppbyggingar fjarskiptakerfisins. Á það bæði við um gagnaflutninga og bætt GSM-kerfi. Auk þess má nefna bætta þjónustu við sjómenn.

Einn mælikvarði á heildarárangur í þjóðfélaginu eru tölur um hagvöxt, kaupmátt, atvinnustig og lífskjör almennt. Á öllum þessum sviðum er staða okkar Íslendinga afar góð, sem er árangur mikils starfs á liðnum árum. Þessi árangur hefur hinsvegar ekki komið fyrirhafnarlaust – stjórnvöld hafa lagt sig fram um að skapa sem bestar aðstæður þannig að einstaklingar og fyrirtæki hafi skilyrði til vaxtar og þróunar. Þegar samkeppnisstaða landa er borin saman skorar Ísland hátt. Það segir hinsvegar ekki alla söguna. Markaðsaðferðir gilda ekki að öllu leyti á jaðarsvæðum og þess vegna þarf að leita annarra leiða til að treysta byggð þar. Við höfum náð árangri í byggðamálum á síðustu árum, viðhorfið hefur breyst. Það þarf að halda áfram á sömu braut.

Ágætu fundarmenn.

Það er ör þróun í okkar þjóðfélagi. Í öllum breytingum felast tækifæri. Fyrir tiltölulega fáum árum var strandlengjan setin af þorpum og bæjum, sem voru tiltölulega sjálfbær byggðalög. Þau höfðu útgerðarfélag, verslun, félagsheimili , barnaskóla og kirkju. Þegar vel var, einnig sláturhús og mjólkursamlag. Kaupfélögin höfðu miklu hlutverki að gegna. Þessi tími er að mestu liðinn. Höfum það í huga að þessi heimur, þó að hann fljótt á litið virðist heillandi, gengi ekki upp við þær ytri aðstæður sem við búum við í dag. Með aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu tókum við upp markaðshagkerfi og við erum í beinni samkeppni á innri markaði í Evrópu. Þessa samkeppni þurfum við að standast og í raun að standa framar öðrum þjóðum. Þessi nýi heimur býður upp á betri lífskjör í landinu en ella. Íslensk stjórnvöld leggja mikla áherslu á fjölbreytileikann. M.a. vegna þess er okkur annt um byggðir þessa lands og viljum leggja okkur fram við að styrkja þær og efla. Þetta á ekki síst við um Vestfirði.

Ég óska ykkur velfarnaðar í mikilvægum störfum.

Grein

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval