Blaðamannafundur í Þjóðmenningarhúsi.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra

2/6/05

Nú er úthlutað styrkjum úr Tækniþróunarsjóði í annað sinn, - en sjóðurinn varð til við endurskoðun á opinbera stuðningskerfinu fyrir -vísindarannsóknir, -tækniþróun og -nýsköpun á árinu 2003. Þá var Vísinda- og tækniráð stofnað, en forsætisráðherra er formaður þess - auk þess sem þar sitja fimm aðrir ráðherrar og 14 valinkunnir karlar og konur sem vinna á þessum fagsviðum.

Tilkoma Tækniþróunarsjóðs var eitt veigamesta sporið sem stigið var með þessum breytingum enda stóð skortur á styrkjum til tækniþróunar og nýsköpunar framþróun atvinnulífsins fyrir þrifum. Fjölmörg dæmi má nefna um verkefni sem fengið höfðu styrki úr opinberum sjóðum til vísindrannsókna en náðu ekki því markmiði að skila sér út í atvinnulífið. Ástæaðan var einfaldlega sú að ekki var tiltækt fjármagn til hagnýtrar tækniþróunar - og framtaksfjárfestar voru ekki tilbúnir til að fjárfesta í verkefnum sem voru lítið meira en vísindalegar niðurstöður. Tækniþróunarsjóður var settur á stofn til að bæta úr þessari brýnu þörf. Sjóðurinn styður því fyrst og fremst við þróunarverkefni sem leitt geta til ávinnings fyrir þróandann og eru líkleg til að efla íslenskt atvinnulíf.

Á þessu ári hefur Tækniþróunarsjóður 340 m.kr. til ráðstöfunar. Fyrir liggur ákvörðun um að ráðstöfunarfé sjóðsins muni vaxa á næstu tveimur árum í 500 m.kr. árið 2007 – sem er í samræmi við aukið mikilvægi hans. Það er ekki síst í tengslum við vaxandi vægi hátæknigreina fyrir íslenskt atvinnulíf sem þörf er á auknu stuðningsfé. Atvinnuhættir hafa breyst mikið á undanförnum árum. Þekkingariðnaður hefur sótt á en aðrir hefðbundnir atvinnuvegir hafa látið undan síga. Iðnaður aflar nú um fjórðungs af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins og hefur sú hlutdeild tvöfaldast frá gildistöku EES samningsins árið 1994 - farið úr 12% í 24 % árið 2004.

Helming þessarar aukningar má rekja til útflutnings hátæknigreina iðnaðarins. Hátæknigreinar eins og upplýsingatækni, framleiðsla lyfja, lækningatækja og sérhæfðs vélbúnaðar standa nú undir 7% af útflutningstekjum okkar, en þær voru vart merkjanlegar í hagtölum fyrir áratug síðan. Þrátt fyrir þennan árangur stöndum við nokkuð að baki annarra OECD landa - þar sem hátækniiðnaðurinn leggur mun meira til landsframleiðslunnar en hér er raunin.

Draga má fram veigamikil rök fyrir því að áherslur okkar í atvinnumálum þurfi, í auknum mæli, að taka mið af þeim gríðarmiklu vaxtarmöguleikum sem hátæknigreinarnar geta fært okkur. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að sennilega er raunhæfasta leiðin til að efla fjölbreytni atvinnulífsins og bæta efnahagslega afkomu í framtíðinni sú að efla hátæknigreinarnar. Áherslur í styrkveitingum þurfa í auknu mæli að taka mið af þessu.

Hér á eftri verður fjallað um fyrirliggjandi úthlutunum úr Tækniþróunasjóði og þrjú áhugaverð verkefni sem sjóðurinn styrkir verða kynnt.

  

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval