Ársfundur Samorku

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra

26/5/05

Ágætu ársfundargestir

Ég vil byrja á því að bjóða ársfundargesti velkoma til Akureyrar, höfðurstaðar Norðurlands, og fagna því að Samorka skuli ávallt halda vorfundi sína hér. Það á einkar vel við að leita til landsbyggðarinnar á vit vorsins, enda þótt í ár hafi okkur Norðlendingum þótt að eitthvað hafi brugðið út af venju í þeim efnum. Þó horfir það allt til bóta.

Í upphafi máls míns vil ég þakka forsvarsmönnum Samorku fyrir afar vel heppnað og árangursríkt aldarafmælisár rafvæðingar hér á landi á síðasta ári. Óhætt er að fullyrða að afmælisárið hafi vakið fjölmarga til vitundar um þann mikilvæga áfanga í sögu þjóðar okkar sem uppbygging raforkukerfisins var á sínum tíma og þýðingu orkunnar í nútíma samfélagi.

Víða um heim skynja menn með svipuðum hætti og okkar þjóð í byrjun síðustu aldar, hvaða þýðingu nýting orku getur haft fyrir framfarir og velmegun jarðarbúa. Æ fleiri þjóðum er orðið það ljóst að vandamál þróunarríkja heimsins eru nátengd ástandi orkumála viðkomandi ríkja. Sú staðreynd að um tveir miljarðar jarðarbúa eiga ekki kost á raforku til húshitunar og notkunar, en notast aðeins við brennslu lífræns efnis til orkuöflunar, færir mönnum sýn á að nauðsynlegar framfarir og þróun í þessum ríkjum gerast ekki án aukinnar rafvæðingar.

Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Jóhannesarborg um sjálfbæra þróun, haustið 2002, kom ítrekað fram hjá fulltrúum þróunarríkja að aukin orkunotkun þeirra væri grundvallarþáttur í útrýmingu fátæktar, sem og fyrir framförum og sjálfbærri þróun þessara ríkja. Var sú skoðun þeirra vel rökstudd og mætti skilningi margra þjóða, þar á meðal okkar Íslendinga, enda er óhætt að segja að við þekkjum harla vel hvaða þýðingu aukin orkunotkun hefur haft fyrir alla þróun þjóðarinnar á liðnum áratugum.

Annað áberandi umræðuefni fundarins var krafan um aukna hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í orkunotkun heimsins, og þá einna helst í hinum þróuðu ríkjum. Því miður er fátt sem bendir til þess að svo verði á næstu áratugum. Nýlegar spár Alþjóða orkumálastofnunarinnar greina frá því að orkueftirspurn heimsins muni aukast um 60% á næstu 25 árum og hlutdeild brennsluefnis muni aukast heldur meira eða um 62%, sem í raun þýðir að hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa mun minnka hlutfallslega. Að sama skapi eru spár um losun gróðurhúsalofttegunda alvarlegar fyrir þetta tímabil. Stofnunin spáir því að losun þessara lofttegunda vegna orkuframleiðslu verði 62% hærri árið 2030 en er í dag, sem að tveimur þriðju hlutum mun verða vegna aukinnar orkuþarfar þróunarríkja. Þessi varnaðarorð glymja nú víða um heim sem hvatning til allra þjóða um að örva og auka enn frekar nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.

Á nýlegri alþjóðaráðstefnu um jarðhitamál í Tyrklandi deildu forráðamenn helstu jarðhitaríkja heims mjög áhyggjum yfir þessari þróun. Þar var ítarlega bent á að tæknilega myndu afköst endurnýjanlegrar orku heims duga vel til að mæta orkuþörfinni, það væri hins vegar spurning um að hve miklu leyti hagkvæmt væri að nýta þessar orkulindir að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða. Af endurnýjanlegum orkulindum sem tæknilega væri unnt að nýta nemur jarðhitinn tæpum 70%, en aðeins innan við 1% þessarar auðlindar er nýtt í dag.

Sérstaða Íslendinga hvað varðar endurnýjanlegar orkulindir er, eins og öllum hér er kunnugt, einstök og hefur vakið athygli á alþjóðavettvangi. Á jarðhitaráðstefnunni í Tyrklandi kom fram verulegur áhugi nokkurra þjóða á því að fjárfesta í nýjum jarðhitavirkjunum og átti ég m.a. fundi með orkuráðherrum Indónesíu og orkuyfirvöldum á Filippseyjum. Lýstu fulltrúar þessara þjóða yfir miklum áhuga á samstarfi við Íslendinga. Er þetta enn eitt dæmið um að hin jákvæða þróun orkumála hér á landi á undanförnum áratugum hefur leitt til þess að sívaxandi áhugi erlendra aðila er á samstarfi við okkur um rannsóknir og fjárfestingu í virkjunum. Enda þótt okkur hafi ef til vill ekki tekist alveg eins vel í jarðhitaútrás orkufyrirtækja hingað til og við hefðum viljað er sígandi lukka oft farsælust í þessum efnum eins og öðrum, og auðvitað þurfa menn að sníða sér stakk eftir vexti. Sá áfangi sem náðist í Kína fyrr í þessum mánuði lofar góðu um framhaldið.

Ríkisstjórnin hefur nýlega samþykkt að auka mjög þróunaraðstoð landsins og verður verulegum hluta þeirrar aukningar varið til að styðja við rannsóknir og framkvæmdir á sviði jarðhitanýtingar í þróunarríkjum. Á þessum vettvangi er að mínu mati nauðsynlegt að koma á fót öflugu samstarfi utanríkis- og iðnaðarráðuneytis, ENEX, ÍSOR, Jarðborana hf., Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, auk ýmissa orku- og ráðgjafafyrirtækja. Tel ég mikilvægt að allir aðilar séu upplýstir um hugsanleg verkefni og óskir um samvinnu og samstarf við aðila hér á landi.

Á síðustu árum hefur komið í ljós að orkufyrirtæki og stjórnvöld þurfa að hafa nánara samráð um margvísleg sameiginleg mál. Þetta á ekki hvað síst við um undirbúning að ýmsum lagabreytingum á orkusviði og í umhverfismálum, og raunar ýmsum öðrum sviðum er tengjast orkuiðnaðinum, eftir því sem ástæða er til hverju sinni. Hin jákvæða uppbygging í orkuiðnaði síðustu árin, og sú sem fyrirsjáanleg er á næstu árum, virðist hafa leitt til þess að æ fleiri aðilar í samfélaginu hafa efasemdir um þýðingu uppbyggingar orkuiðnaðarins í náinni framtíð. Oftar en ekki byggjast þær efasemdir á tilfinningum, og ekki er ástæða til að gera lítið úr þeim.

Lífskjör þjóðarinnar til framtíðar hljóta þó ávallt að vega þungt þegar ákvarðanir um uppbyggingu orkuiðnaðarins eru teknar með lögformlegum hætti, og þá að teknu tilliti til umhverfisáhrifa í hverju tilviki, líkt og lög segja til um. Því tel ég mikilvægt að hagmunaaðilar orkuiðnaðarins standi saman að samstarfi í auknum mæli, þar á meðal varðandi kynningu á þýðingu orkuiðnaðarins fyrir samfélagið. Hugsanlegt væri að vinna sérstakt rit sem gæti til að mynda nýst í grunnskólum sem fræðsluefni um orkumál íslendinga. Nefni ég þetta sem dæmi því oftar en ekki hefur verið stuðst við erlend kennslugögn sem gefa ekki rétta sýn á stöðu okkar og áherslur í orkumálum.

Um síðustu áramót má telja að ný raforkulög hafi formlega tekið gildi, en þá komu til framkvæmda kaflar laganna um skipulag raforkuflutnings og dreifingar, auk þess sem opnað var fyrir frjáls orkukaup stærstu notenda. Þótt á ýmsu hafi gengið og ekki séu öll kurl ef til vill komin til grafar enn, tel ég að vel hafi til tekist með framkvæmd laganna. Hinn knappi tími sem rafveitur höfðu til að birta gjaldskrár sínar, og sú róttæka kerfisbreyting á uppbyggingu raforkuverðs, sem leiddi af lögunum, olli einhverjum vandræðum í upphafi. Með alkunnri eljusemi landans hefur þó að mínu mati tekist vel til við að leysa úr þeim. Nú stöndum við frammi fyrir því að raforkumarkaðurinn opnast að öllu leyti um næstu áramót og því er nauðsynlegt að kynna notendum vandlega á hvern hátt staðið verður að þeirri breytingu. Hefur iðnaðarráðuneytið í huga að gefa út sérstakan kynningarbækling í því skyni, í samstarfi við Samorku og Orkustofnun.

Sem kunnugt er varð frumvarp um jarðrænar auðlindir ekki að lögum á síðasta þingi. Hef ég þó ákveðið að hefja vinnu við endurskoðun gildandi laga, eins og til stóð að gera samkvæmt frumvarpinu, og skipa sérstaka nefnd, Samorku og iðnaðarráðuneytis, en hugsanlega fleiri aðila til að gera tillögu um það með hvaða hætti valið verði á milli umsókna um rannsóknar- og nýtingaleyfi fyrir jarðrænar auðlindir, og á hvern hátt verði staðið að nýtingu þessara auðlinda. Er gert ráð fyrir að nefndin skili tillögum sínum í formi lagafrumvarps - eigi síðar en haustið 2006. Nefndinni til undirbúnings og aðstoðar í starfi hefur verið skipaður sérstakur starfshópur, sem hefur vinnu sína innan skamms.

Þá vil ég einnig nefna að vinna er að hefjast við gerð frumvarps um hitaveitur, en engin heildstæð löggjöf er til um þennan mikilvæga málaflokk. Þar erum við eftirbátar annarra Evrópuþjóða. Mun iðnaðarráðuneytið í því skyni, óska eftir tilnefningu frá Samorku og Sambandi sveitarfélaga í sérstaka samráðsnefnd sem ætlað er að vera til ráðuneytis um efni og gerð frumvarpsins.

Loks vil ég minnast á eitt mikilvægasta samstarfsverkefni Samorku og íslenskra stjórnvalda, en það er rekstur skrifstofu Alþjóða jarðhitasambandsins hér á landi, í húsakynnum Samorku. Um er að ræða verkefni til næstu 5 ára og er enginn vafi á því að skrifstofan verður mikilvægur tengiliður íslenskra rannsóknaraðila og fjárfesta við álitleg jarðhitaverkefni um heim allan. Verður hún vafalítið einnig mikilvægur kynningaraðili þeirra glæstu verkefna á sviði jarðhitans sem við stöndum nú frammi fyrir. Á ég þar ekki síst við djúpborunarverkefnið sem orkufyrirtækin og stjórnvöld hyggjast hrinda úr vör á næstu árum.

Ágætu ársfundargestir

Síðustu ár hafa verið afar viðburðarrík á sviði orkumála og er sama hvar borið er niður. Unnið er að mestu virkjunarframkvæmdum Íslandssögunnar austanlands og einnig eru í gangi miklar framkvæmdir á Suðvesturlandi. Nema framkvæmdirnar ríflega 900 MW að afli og munu þær auka afköst raforkukerfisins um 73%. Þá er einnig unnið að miklum jarðhitarannsóknum um þessar mundir, bæði vegna þeirra virkjana sem nú er unnið að, auk fyrirhugaðra vatnsafls- og jarðhitavirkjana á næstu árum.

Þessar framkvæmdir munu allar styrkja innviði samfélags okkar og stórauka hagvöxt þjóðarinnar næstu árin. Aukin menntun og rannsóknir þjóðarinnar spretta ekki upp úr þurru eins og margir telja. Undirstaða bættra lífskjara eru auknar þjóðartekjur og með uppbyggingu orkugeirans á liðnum áratugum hefur tekist að renna styrkum stoðum undir það markmið að við getum skapað okkur enn bjartari framtíð.

Minnumst þess að það var ekki fyrr en undir lok seinni heimsstyrjaldar sem íslenska þjóðin hafði í raun efni á að mennta fyrstu raunvísindamenn sína. Með auknum tekjum og velferð þjóðarinnar hefur okkur smám saman tekist að efla menntun og rannsóknir á þessu sviði sem öðrum. Vitaskuld eru þó takmörk fyrir því hversu langt við höfum getað gengið í sérhæfðri menntun í samanburði við stórþjóðir. Íslenska tæknisamfélagið hefur á undanförnum árum orðið að tileinka sér vinnulag og kröfur sem gerðar eru á alþjóðavettvangi um gæði rannsókna. Kröfur í þessum efnum eru sífellt að aukast og við verðum að mæta þessum kröfum hér á landi til að verða gjaldgengir í alþjóðlegu vísindaumhverfi. Á ýmsum sviðum erum við samt sem áður í fararbroddi, þar á meðal í jarðhitageiranum, þar sem vísindamenn okkar standa í fremstu röð á heimsvísu vegna þeirrar uppbyggingar er við höfum staðið að innan þessarar greinar á undanförnum áratugum. Þetta er dæmi um þekkingariðnað á háu stigi, sannkallaðan hátækniiðnað, sem við getum óhikað fullyrt að mun standa fyrir sínu í framtíðinni, eins og ég hef rakið hér að framan.

Fundarstjóri og góðir fundarmenn

Með því að halda áfram á þeirri braut sem við höfum ótrauð gengið á undanförum áratugum höfum við hag komandi kynslóða að leiðarljósi. Skynsamleg nýting orkulinda er einn mikilvægasti þátturinn í framþróun og eflingu íslensks samfélags.

Ég þakka áheyrnina.

  

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval