Útskrift Brautargengiskvenna.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

12/5/05

Útskriftarnemar, góðir gestir

Það er ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag. Ég hef í gegnum tíðina fylgst af athygli með því góða starfi sem fram hefur farið í nafni Brautargengis á sl. árum og verið svo lánsöm að fá að eiga góðar stundir með ykkur í nokkur skipti.

Í dag fögnum við útskrift Brautargengiskvenna í 8. sinn. Brautargengisnámið var fyrst í stað aðeins kennt á höfuðborgarsvæðinu og hugsað sem hvatning og stuðningur við sterkar konur sem hafa kjark og þor til að hrinda viðskiptahugmyndum sínum í framkvæmd. Dálítil lægð varð í aðsókn að náminu þegar verkefninu um Auð í krafti kvenna var hleypt af stokkunum, þar sem þörfin fyrir nám af þessu tagi var að einhverju leyti uppfyllt á þeim vettvangi. Fyrir tæpum tveimur árum, haustið 2003, varð svo mikil aukning í aðsókn að Brautargengisnámskeiðum þegar 50 konur hófu nám á einu bretti hér á höfuðborgarsvæðinu. Samhliða jókst eftirspurn eftir viðlíka námskeiðum á landsbyggðinni svo verkefnið var útfært með það að markmiði að ná til þeirra kvenna á landsbyggðinni sem höfðu viðskiptahugmyndir í farteskinu en vantaði brautargengi fyrir þær. Nú er svo komið að búið er að útskrifa samtals 397 Brautargengiskonur, 77 af landsbyggðinni og 320 af höfuðborgarsvæðinu.

Fyrirtæki sem stofnuð hafa verið í kjölfar Brautargengisnáms eru orðin mörg og margvísleg. Að auki hafa fjölmargar konur í fyrirtækjarekstri sótt Brautargengisnámið og væri ósanngjarnt að nefna þar eitt fyrirtæki frekar en annað. Það trú mín að Brautargengi sé mikil lyftistöng fyrir íslenskt atvinnulíf, sem vert er að veita athygli og efla enn frekar.

Brautargengisnámskeiðin hafa í gegnum tíðina verið styrkt af Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbæ, Bessastaðahreppi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi, Kópavogi og Akureyrarbæ. Impra hefur því getað boðið Brautargengisnám á mjög hagstæðum kjörum og mun halda áfram að veita öflugum konum Brautargengi á meðan eftirspurn er stöðug. Það lítur reyndar ekki út fyrir að nokkurt lát sé á þátttöku í Brautargengi þar sem konur virðast sækja í sig veðrið á öllum sviðum.

 

Þá er komið að verðlaunaafhendingu.

Viðskiptahugmyndin sem í ár hlýtur viðurkenningu fyrir að vekja sérstaka athygli er ekki alveg ný af nálinni. Konan sem stendur að henni hefur til margra ára lagt mikla vinnu í hana og gefið mikið af sér til að sjá hugmyndina verða að veruleika. Hugmyndin byggir á hreinleika íslenskrar náttúru og þeim krafti sem í henni býr og hefur nú þegar hlotið verðskuldaða athygli.

Áætlanir frumkvöðulsins gera ráð fyrir útrás á næstu misserum, þar sem byggt er á þeirri ímynd sem kostir og gæði landsins hafa upp á að bjóða. Nú þegar hefur verið komið á viðskiptatengslum sem eru í þróun þessar vikurnar en aðstandanda hugmyndarinnar verður að hrósa fyrir afar vandaðan undirbúning og ítarlega og góða vöruþróun sem gerir honum kleift að sjá fram í tímann. Enda þótt enn virðist langt í land með að koma þessari vöru á alheimsmarkað og mikil vinna sé enn óunnin, er frumkvöðull þessi kraftmikill og snjall.

 

Áður en lengra er haldið er rétt er að taka fram að viðskiptahugmyndirnar voru metnar af sérstakri matsnefnd sem skipuð er Helgu Sigrúnu Harðardóttur verkefnisstjóra Brautargengis, Jóni Hreinssyni rekstrarstjóra Frumkvöðlaseturs og Ólafi Ingþórssyni verkefnastjóra Evrópumiðstöðvar Impru.

Matsnefndin ákvað að veita Kristbjörgu Elínu Kristmundsdóttur viðurkenningu fyrir athyglisverða viðskiptahugmynd um íslenska blómadropa. Er það mat nefndarinnar að Íslenskir blómadropar Kristbjargar Elínar eigi framtíð fyrir sér, þar sem mikil vakning á sér stað um þessar mundir á þeim markaði sem ætlunin er að horfa til.

Ráðherra afhendir blómvönd og innrammað viðurkenningarskjal 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval