Samkeppnishæfni í breyttri heimsmynd.

Ávarp ráðherra á ráðstefnu á vegum FKA og Félagsins Auðar, 19. apríl 2005.

19/4/05

Góðir gestir,

Það er sannarlega ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag og fá að ávarpa þessa glæsilegu samkomu sem haldin er á vegum Félags kvenna í atvinnurekstri og Félagsins Auðar.

Umfjöllunarefni þessarar ráðstefnu er samkeppnishæfni í breyttri heimsmynd. Kemur þá margt upp í hugann, m.a. breytt heimsmynd vegna alþjóðavæðingarinnar, vegna falls kommúnismans og lýðræðisvakningar í Austur-Evrópu og ekki síst vegna þess að konur sækja víða fram á við, í atvinnulífi jafnt sem stjórnmálum. Allir hafa þessir þættir áhrif á samkeppnishæfni fyrirtækja og þjóða.

Ég hef lengi verið áhugasöm um að konur komi í auknum mæli að þátttöku í atvinnulífi og stjórnmálum. Sjálf hef ég um töluvert skeið verið þátttakandi í íslenskum stjórnmálum og þekki því vel hver þróunin hefur verið á þeim vettvangi á liðnum árum. Við þokumst hægt og bítandi áfram þótt alltaf megi gera betur. Atvinnulífið er hins vegar önnur saga en þar hefur þróunin ekki verið alveg eins góð hvað þetta varðar.

Síðan ég varð iðnaðar- og viðskiptaráðherra í upphafi árs 2000 hef ég reynt með jákvæðum hætti að hafa þau áhrif að konur taki aukinn þátt í stjórnum atvinnufyrirtækja. Ég hef ekki viljað fara leið lagasetninga líkt og sumar nágrannaþjóða okkar, þar sem ég tel að ekki halli á konur í lagasetningunni sjálfri hér á landi. Fremur er það hugarfarið sem þarf að breytast. Hægt er að stuðla að því með ýmsum hætti. Ég sendi til að mynda forsvarsmönnum 80-90 stærstu fyrirtækja landsins bréf í febrúarbyrjun þar sem ég hvatti þá til að beita sér fyrir því að fjölga konum í stjórn. Ég hef fengið töluverð viðbrögð við þessu bréfi og býsna margar góðar fréttir þótt árangurinn hafi sums staðar vissulega mátt vera betri.

 

Ég hef einnig reynt að stuðla að jákvæðu hugarfari og hvatningu til kvenna með því að styðja við ýmis konar verkefni sem stuðlað hafa að aukinni þátttöku kvenna í stjórnun og rekstri fyrirtækja, og má þar nefna verkefni eins og „Brautargengi" og „Auður í krafti kvenna" sem og hið öfluga „Félag kvenna í atvinnurekstri". Félagið Auður sem stendur að ráðstefnunni hér í dag, í samstarfi við Félag kvenna í atvinnurekstri, er einmitt stofnað af mörgum þeirra kvenna sem sóttu frumkvöðlanámskeið Auðs í krafti kvenna.

 

Ég vil einnig geta þess að fyrir atbeina Norðmanna fékkst styrkur Evrópusambandsins til að vinna verkefni um konur í atvinnurekstri og landbúnaði sem m.a. bæri kennsl á hvaða hindranir verða helst á vegi kvenna sem reka eigin fyrirtæki og finna leiðir til þess að aðstoða og styðja konur í atvinnurekstri. Norðmenn stýrðu verkefninu, en önnur þátttökulönd voru Ísland, Svíþjóð, Lettland og Grikkland. Niðurstöðurnar hafa nú verið birtar í samanburðarskýrslunni "Women towards ownership in business and agriculture". Í ljósi þeirra ábendinga sem þar koma fram og í samræmi við jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar, hef ég falið Byggðastofnun að vinna úttekt á því hvaða árangur hefur náðst undanfarin ár af verkefnum sem hafa haft það að markmiði að örva frumkvæði kvenna í atvinnurekstri, athuga stöðu kvenna gagnvart stuðningskerfi atvinnulífsins, og gera athugun á árangri nokkurra verkefna sem nú þegar eru í gangi til að hvetja konur til að hrinda viðskiptahugmyndum sínum í framkvæmd og styðja konur í rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Markmiðið er að afla upplýsinga sem geti orðið grundvöllur að frekari aðferðum til að efla þátt kvenna í atvinnurekstri.

 

Ágætu ráðstefnugestir,

Eins og ég sagði fyrr í máli mínu hefur heimsmyndin breyst hratt á síðustu árum og áratugum. Eðli málsins samkvæmt hafa fyrirtæki þurft að laga sig að þeim breytingum. Mörgum hefur gengið vel í þeirri aðlögun en öðrum síður. Óhætt er að fullyrða að Íslendingum hefur mörgum öðrum fremur tekist að nýta sér þau tækifæri sem viðskiptaumhverfið býður nú upp á. Kemur þar margt til.

 

Síðast liðinn áratug höfum við Íslendingar búið við stöðugt stjórnarfar og notið mikillar efnahagslegrar velsældar. Stjórnvöld hafa á þessum 10 árum komið í framkvæmd miklum skipulagsbreytingum á íslensku efnahagslífi. Markmið þeirra var að skapa umhverfi fyrir öflugt markaðshagkerfi og kröftugt atvinnulíf sem myndi skapa grundvöll fyrir traust velferðarkerfi. Meðal þess sem stjórnvöld hafa markvisst unnið að er sá þáttur að draga ríkið úr samkeppnisrekstri, m.a. til að fjölga tækifærum almennings og fyrirtækja til að láta að sér kveða og nýta þekkingu sína. Stjórnvöld hafa með öðrum orðum treyst einkaframtakinu til að sinna samkeppnisrekstri og hefur það að meginhluta til gengið afar vel. Áhrif þessara breytinga eru augljós og má þar nefna mörg dæmi en nærtækt er að benda á bætta samkeppnisstöðu þjóðarinnar í ljósi umræðuefnis dagsins. Þar höfum við tekið markviss skref fram á við og er nú svo komið að Íslendingar eru fremstir Evrópuþjóða hvað samkeppnishæfni varðar og í 5. sæti sé litið til þjóða heims. Eru það undraverðar framfarir á aðeins fáeinum árum.

 

Eins og flestum er kunnugt þá er framundan sala Símans. Hafa í tengslum við hana komið fram gagnrýnisraddir á tilhögun sölunnar og er það ekki nýtt af nálinni. Kom sú gagnrýni einnig fram þegar ákveðið var að ráðast í sölu á ríkisbönkunum tveimur og enn heyrast raddir sem segja að þeir hafi verið afhentir einhverjum gæðingum eða vinum stjórnvalda. Sannleikurinn er hins vegar sá að fullkomlega eðlilega hefur verið staðið að sölu ríkisfyrirtækja hér á landi undanfarin ár og er það m.a. staðfest í úttekt sem Ríkisendurskoðun gerði og nær yfir sölu ríkisfyrirtækja á tímabilinu frá 1998-2003. Til að staðfesta þetta enn frekar hefur forsætisráðherra upplýst að hann hafi átt fund með ríkisendurskoðanda og óskað eftir því að Ríkisendurskoðun fylgist með öllu söluferli Símans. Ætti mönnum því að vera ljóst að stjórnvöld hafa staðið faglega að málum í einkavæðingarferli síðustu ára og að í engu verður slakað á í þeim efnum nú.

 

Einkavæðing þessara ríkisfyrirtækja hefur haft jákvæð áhrif á íslenskan fjármálamarkað. Má þar nefna ýmis dæmi:

§ Hann er nú samkeppnishæfari, sterkari til útrásar og skilvirkari en fyrir fáeinum árum.

§ Hlutabréfamarkaður hefur eflst og dregið hefur úr pólitískum áhrifum í fyrirtækjarekstri.

§ Ríkissjóður hefur greitt niður skuldir sínar og fjármagnað ýmis brýn verkefni með söluandvirði ríkisfyrirtækja.

§ Hagkerfið hefur styrkst og skattar á fyrirtæki og einstaklinga hafa lækkað.

§ Helstu matsfyrirtæki heims gefa okkur einhverjar bestu einkunnir sem hægt er að fá sem skilar sér í hagstæðum lánskjörum fyrir ríkissjóð og góðum einkunnum til handa viðskiptabönkunum. Það skilar sér aftur í lægri vöxtum til neytenda.

 

Þá vil ég fullyrða að ef ekki hefði komið til einkavæðingar á ríkisbönkunum væri ekki allur sá fjöldi íslenskra fyrirtækja sem raun ber vitni að fjárfesta á erlendum mörkuðum. Bankarnir hafa gegnt mikilvægu hlutverki í fjármögnun fyrirtækjanna. En þar kemur fleira til. Íslenskir athafnamenn búa yfir áræði, krafti, frumkvæði og útsjónarsemi sem kemur sér vel þegar horft er út fyrir hinn smáa íslenska markað og yfir til annarra landa sem bjóða upp á fjölda spennandi tækifæra í breyttri heimsmynd.

 

Góðir gestir,

Við Íslendingar höfum náð glæsilegum árangri á mörgum sviðum hin síðustu ár. Ég hef þá trú að við getum gert enn betur. Kraftur kvenna hefur ekki enn verið að fullu leystur úr læðingi. Konur búa yfir ýmiss konar reynslu og þekkingu sem karlmenn hafa ekki. Sú auðlind og þau verðmæti sem búa í ólíkum efnistökum og sjónarhorni kvenna er eitthvað sem þjóðin hefur ekki efni á að fara á mis við. Við þurfum á kröftum kvenna jafnt sem karla að halda.

Á heildina litið má segja að Ísland og Íslendingar séu stöðugt að auka þátttöku sína í alþjóðavæðingu heimsins, á grunni bættra starfsskilyrða og aukinnar samkeppnishæfni. Þetta hefur skilað sér í meiri verðmætasköpun, atvinnu og bættum lífskjörum. Svo mun verða enn um sinn ef við höldum vel á spöðunum og nýtum kraft og þekkingu þjóðarinnar allrar.

Ég þakka gott hljóð.

 

 

  

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval