Byggðamála- og samkeppnishæfni á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

14/3/05

Kæru gestir,

Það er mér sérstakt ánægjuefni að vera hér í dag á fundi þar sem fjallað verður um byggðamál og samkeppnishæfni á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum, enda erfitt að fjalla um þróun á einum stað án þess að hafa hliðsjón af þróun í nánasta umhverfi.

Á liðnum árum hafa örar breytingar átt sér stað hvarvetna í heiminum, samhliða aukinni alþjóðavæðingu, sem haft hefur veruleg áhrif á alþjóðavettvangi og á einstök lönd – jafnt á atvinnulíf sem byggðaþróun. Hér á landi hafa stjórnvöld lagt ríka áherslu á að aðlagast þessari alþjóðlegu þróun, bæta starfsskilyrði og stuðla að aukinni samkeppnishæfni atvinnulífs með margvíslegum áherslum, m.a. í byggða- og atvinnumálum. Þetta hefur skilað verulegum árangri, sem sjá má af hagvexti, nýsköpun, útrás fyrirtækja og auknum kaupmætti. Frá 1995 til ársins 2004, hefur t.d. samkeppnisstaða Íslands í fjölþjóðlegum samanburði farið úr 25. sæti í það 5., sem verður að teljast verulega mikill árangur.

Í maí 2002 samþykkti Alþingi þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002 – 2005. Eitt meginmarkmið þeirrar stefnu er að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni, ekki síst með því að efla byggðakjarna og sjálfbæran hagvöxt einstakra svæða. Framkvæmdin hefur m.a. verið í formi samstarfs við önnur ráðuneyti, enda tengjast byggðamál starfsemi allra ráðuneytanna á einhvern hátt, s.s. í menntamálum, ferðamálum og sjávarútvegsmálum.

Eins og fram hefur komið hef ég lagt áherslu á eflingu byggðakjarna, m.a. með því að vinna einskonar stöðumat á viðkomandi svæðum, sem unnar eru í samvinnu ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila – sem hefur síðan leitt til Vaxtarsamninga á þeim svæðum. Slík verkefni hafa verið unnin bæði fyrir Eyjafjarðarsvæðið og Vestfirði.

Útfærslan á svokölluðum Vaxtarsamningi er nokkuð nýstárleg, áhersla er lögð á sérstöðu og styrkleika svæðisins og samkeppnishæfni atvinnulífs, þar sem byggt er á markaðstengdum aðgerðum. Markmiðið er að auka hagvöxt svæðisins, fjölga atvinnutækifærum og treysta viðkomandi byggðakjarna svo hann geti enn frekar sinnt því lykilhlutverki að vera miðstöð atvinnu, menningar og þjónustu.

Áherslurnar taka mið af sambærilegum aðgerðum víða erlendis, í fjölmenni eða fámenni, smáum sem stórum hagkerfum.

 

Góðir gestir,

Á grunni þessarar vinnu hafa farið fram umræður um sambærilegt starf fyrir Suðurland og Vestmannaeyjar. Vegna þessa höfum við ákveðið að efna til sambærilegrar vinnu er nái til þessara svæða og tekið skal mið af þeim áherslum er unnar voru fyrir Eyjafjörð og Vestfirði.

Ég hef skipað verkefnisstjórn er hafi umsjón með þessu verkefni og er hlutverk hennar að gera tillögu til ráðherra um stefnumörkun í byggðamálum á Suðurlandi, með sérstöku tilliti til Vestmannaeyja, og kanna hvaða kostir komi helst til greina við að treysta vöxt og samkeppnishæfni svæðisins. Með tillögunum fylgi áætlun um aðgerðir þar sem fram komi markmið þeirra, forsendur, ábyrgð á framkvæmd, þátttakendur, ásamt tíma- og kostnaðaráætlun. Óskað er eftir að verkefnisstjórnin taki mið af skýrslum sem unnar voru fyrir ráðuneytið nýlega fyrir Eyjafjörð og Vestfirði.

 

Í verkefnisstjórninni eiga sæti:

Baldur Pétursson, deildarstjóri, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, formaður,
Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri, Vestmannaeyjum,
Elliði Vignisson, varaforseti bæjarstjórnar, Vestmannaeyjum,
Friðrik Pálsson, hótelstjóri, Hótel Rangá,
Guðrún Erlingsdóttir, forseti bæjarstjórnar, Vestmannaeyjum,
Orri Hlöðversson bæjarstjóri, Hveragerði,
Elín Einarsdóttir, oddviti Mýrdalshrepps,
Þorvarður Hjaltason, framkvæmdastjóri, Samtökum Sunnlenskra Sveitarfélaga og,
Eyjólfur Árni Rafnsson, framkvæmdastjóri Hönnunar, Reykjavík.

Með nefndinni munu starfa Karl Friðriksson, framkvæmdastjóri hjá Iðntæknistofnun og Kristján Óskarsson, sérfræðingur á Iðntæknistofnun.

 

Góðir gestir,

Við lifum á miklum breytingatímum. Við verðum hinsvegar að horfast í augu við þessar breytingar og nýta okkur þau fjölmörgu tækifæri sem í þessu felast. Þau eru e.t.v. ekki alltaf augljós, en leynast víða þegar betur er að gáð.

Takk fyrir 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval