Ársfundur Orkustofnunar.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

10/3/05

Ágætu ársfundargestir!

Næstliðið ár var viðburðarríkt ár í orkumálum og þau voru mjög til umræðu í þjóðfélaginu eins og flesta rekur minni til. Árið var einnig að mörgu leyti merkilegt fyrir þær sakir að haldið var upp á aldarafmæli margra merkisatburða í sögu þjóðarinnar. Þar ber hæst aldarafmæli heimastjórnar, en einnig var minnst aldarafmælis þess atburðar sem óumdeilanlega hefur valdið einna mestum aldarhvörfum hér á landi. Þar á ég við gangsetningu fyrstu rafstöðvarinnar, en hún tók til starfa í desember 1904 í Hafnarfirði. Þar var haldið upp á aldarafmæli rafvæðingarinnar með veglegum hætti 12. desember og er óhætt að fullyrða að oft hefur ómerkari tímamóta verið minnst.

Viðbrögð landsmanna við þessari nýjung létu ekki á sér standa. Á næstu þremur áratugunum fram að síðari heimsstyrjöld voru reistar hér á landi um 200 heimarafstöðvar og sýnir það okkur í hnotskurn hve mjög þessi sárafátæka þjóð hefur þráð þær framfarir er rafmagnið færði henni.

Þrátt fyrir öra uppbyggingu staðbundinna rafstöðva víða um land hófst almenn rafvæðing þjóðarinnar ekki fyrr en undir miðja síðustu öld. Allar ríkisstjórnir þjóðarinnar fram á 7. áratug síðustu aldar lögðu ofuráherslu á rafvæðingu landsins og þetta verkefni var sannarlega mikið afrek á sínum tíma er gerði landið í raun byggilegt á nútímavísu. Á fyrstu árum aldarinnar var Ísland í tölu þeirra Evrópuþjóða er notuðu einna minnsta raforku á íbúa, en við lok rafvæðingar landsbyggðarinnar árið 1970 voru Íslendingar sjöttu í röðinni í heiminum hvað snerti raforkunotkun á mann og 98% þjóðarinnar höfðu þá þegar fengið rafmagn til eigin nota. Hin árangursríka rafvæðing landsins sýnir öðru fremur trú landsmanna á að nýta sér innlenda orku til aukinnar hagsældar og lífsgæða.

Þetta á ekki síður við um hina miklu aukningu á nýtingu jarðhitans, sem segja má að hafist hafi er rafvæðingunni lauk, í upphafi áttunda áratugarins. Þá voru um 50% húsnæðis hituð upp með olíu. Það átak er gert var á áttunda og níunda áratug síðustu aldar til að auka notkun jarðvarma hefur skilað þeim árangri að um 89% húsnæðis er nú hitað upp með hitaveitum. Fjárhagslegur ávinningur þjóðarinnar af nýtingu jarðhitans til hitaveitna á síðustu áratugum hefur því verið gríðarlegur og talinn nema vel á annan tug milljarða árlega sé miðað við að óbreytt olíuhitun húsnæðis hefði haldist frá árinu 1973.

 

Margvíslegir möguleikar eru vitaskuld á frekari nýtingu þessarar auðlindar í framtíðinni og horfa menn þar einkum til aukinnar raforkuframleiðslu sem er að mestu leyti bundin við háhitasvæði. Á síðasta áratug hefur raforkuframleiðsla jarðhitavirkjana fimmfaldast og þar með hafa opnast möguleikar á að nýta afgangsorku þessara raforkuvera til ýmis konar fjölbreytilegrar notkunar. Ekki hefur enn tekist að nýta afgangsvarma jarðhitavirkjana beint til iðnaðarframleiðslu, svo neinu nemi, og er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að leita allra leiða til að auka nýtingu jarðgufunnar meira en gert er í dag.

 

Staða okkar Íslendinga í orkumálum á alþjóðavísu er mjög sterk og þá sérstaklega varðandi nýtingu jarðhitans. Ýmsir möguleikar eru á útflutningi sérfræðiþekkingar og reynslu okkar á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Ríkisstjórnin hefur nýlega samþykkt að auka mjög þróunaraðstoð landsins og verður verulegum hluta þeirrar aukningar varið til að styðja rannsóknir og framkvæmdir við jarðhitanýtingu í þróunarríkjum. Á þessum vettvangi er nauðsynlegt að koma á fót öflugu samstarfi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og Orkustofnunar, Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna og fyrirtækisins ENEX, sem er sameiginlegt útrásarfyrirtæki orku- og ráðgjafafyrirtækja um útflutning á íslenskri orkuþekkingu.

 

Að undanförnu hefur krafa um stóraukna hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í þróuðum ríkjum heims verið mjög áberandi. Evrópusambandið hefur verið í fararbroddi þeirra ríkja er lengst vilja ganga í kröfum um aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa og sett sér metnaðarfull markmið í því skyni. Með nýlegri stækkun Evrópusambandsins til austurs, opnast möguleikar til útrásar fyrir íslenska þekkingu og reynslu á nýtingu jarðhitans en þar er víða að finna mikil vannýtt jarðhitasvæði. Stjórnvöld í nokkrum þessara ríkja hafa lýst áhuga á samstarfi við Íslendinga á þessu sviði og tel ég að þarna opnist verulegir möguleika íslenskra orku- og ráðgjafarfyrirtækja fyrir aukna útrás jarðhitaþekkingar og reynslu ef vel er að verki staðið.

 

Á síðustu misserum hefur allnokkuð verið rætt um orkumál samgangna. Um 90% olíunotkunar Íslendinga eru vegna olíunotkunar í samgöngum og vegna fiskiskipa og þessi olíunotkun veldur um 70% af losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Því er afar mikilvægt að unnið verði að því að draga úr olíunotkun á þessu sviði og nýta innlendar orkulindir til samgangna strax og það þykir tæknilega mögulegt og hagkvæmt.

Íslensk stjórnvöld mótuðu fyrir 5-6 árum þá stefnu að nýta bæri endurnýjanlegar orkulindir landsins til að framleiða vistvænt eldsneyti í framtíðinni. Þau og helstu orkufyrirtæki landsins stóðu að stofnun fyrirtækisins Íslensk-Nýorku á árinu 1999 ásamt erlendum stórfyrirtækjum. Það fyrirtæki hefur annast undirbúning og framkvæmd á umfangsmikilli og vel heppnaðri tilraun á notkun þriggja vetnisstrætisvagna hér í Reykjavík í tæp tvö ár.

 

Stjórnvöld hafa einnig sett sér það markmið að í framtíðinni verði íslenskt samfélag, samfélag hreinna orkulinda og orkubera þar sem notkun á vistvænu eldsneyti komi í stað hefðbundinna brennsluefna í samgöngum og skipum. Sérstakri skrifstofu um vistvænt eldsneyti hefur verið komið á laggirnar hjá Orkustofnun, en stofnunin hefur eins og kunnugt er verið frá upphafi sérfræðistofnun stjórnvalda um eldsneytismál. Þessi starfsemi er ekki síst hugsuð til að annast hina faglegu stjórnun þessa málaflokks fyrir hönd stjórnvalda undir yfirumsjón sérstaks stýrihóps fulltrúa sex ráðuneyta sem hefur það hlutverk að móta stefnu stjórnvalda í þessu efni til næstu framtíðar. Starfsemi þessarar skrifstofu hófst á síðasta ári og bind ég miklar vonir við starfsemi hennar á næstu árum.

 

Gerð fyrsta áfanga svokallaðrar rammaáætlunar um virkjanir lauk fyrir rúmu ári. Hér er um að ræða yfirlitsáætlun um virkjunarkosti landsins, flokkun á hagkvæmni þeirra, umhverfisáhrifum er þeir kunna að valda og hver samfélagsleg áhrif þeirra muni geta orðið. Vinna við annan áfanga áætlunarinnar er nýlega hafin og er stefnt að því að ljúka honum árið 2009. Að mati margra sérfræðinga er vel til þekkja er hér um að ræða einstakt verkefni á alþjóðavísu og hefur verkefnið vakið nokkra athygli erlendis. Enginn vafi er á því að sá samanburður virkjunarkosta er niðurstöður rammaáætlunar leiða í ljós gefa okkur gleggri sýn á líklegum virkjunarkostum og umhverfisáhrifum þeirra. Þá hefur með vinnu að rammaáætlun myndast mikilvægt gagnasafn um rannsóknir og náttúrufarsaðstæður virkjunarkosta sem kemur að miklu gagni þegar ráðist er í frekari rannsóknir eða áætlanagerð um orku- eða landnýtingu.

 

 

Vinna við annan áfanga rammaáætlunar mun að verulegu leyti beinast að rannsóknum á jarðhitasvæðum landsins. Á þeim vettvangi ber hæst svokallað djúpborunarverkefni, en unnið hefur verið að undirbúningi þess í nokkur ár. Nú er komið að þeim áfanga að leita eftir fjármagni til frekari rannsókna og borana og þá ekki síst úr erlendum rannsóknarsjóðum. Þetta verkefni er í raun eðlilegt framhald af þeim grunnrannsóknum er unnar hafa verið hér á landi á eðli jarðhitasvæða og snýst um að reyna að meta raunverulegan og nýtanlegan jarðhitaforða landsins. Ákveðið hefur verið að ríkið verði formlegur aðili að þessu verkefni og þá í gegnum Orkustofnun, sem lögum samkvæmt ber að sinna grunnrannsóknum á jarðhita. Tryggt hefur verið fjármagn til verkefnisins á þessu ári og unnið er að því að skoða fjármögnun á hluta ríkisins fyrir fyrsta áfanga verksins næstu tvö ár.

 

Þá vil ég minnast á að á undanförnum árum hefur verið unnið að umfangsmiklum rannsóknum á landgrunninu umhverfis landið til að afla viðurkenningar á landgrunnsréttindum okkar og kanna hugsanleg svæði til olíu- og gasleitar. Munu niðurstöður þessara rannsókna liggja fyrir árið 2006. Iðnaðarráðuneytið hefur látið taka saman yfirlit um þann undirbúning er þarf að fara fram til að unnt verði að bjóða fram leyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis á Jan Mayen-svæðinu og er gert ráð fyrir því að hann fari fram á næstu 2 árum.

Þá er einnig verið að ljúka við áfangaskýrslu um rannsóknir um hugsanlega olíu- og gasmöguleika á landgrunni Norðurlands.

 

Hin nýju raforkulög sem eru í raun að koma til framkvæmda um þessar mundir eru fyrstu heildstæðu lögin er sett hafa verið hér á landi um raforkumál. Þessi lög kalla á breytingar á ýmsum öðrum lögum.

Til að tryggja góða stjórn og eftirlit með rannsóknum og nýtingu orkulindanna þarf heilsteypta löggjöf þar að lútandi. Frumvarp til laga um jarðrænar auðlindir liggur nú fyrir Alþingi þar sem tekið er á helstu nauðsynlegum endurbótum gildandi laga í ljósi breytinga á lagaumhverfi orkugeirans. Mikilvægt er að lögin verði heildarlöggjöf er nái til rannsókna- og nýtingarleyfa á öllum jarðrænum auðlindum, þar á meðal vatnsorkunni, en engin lög hafa gilt um rannsóknir og nýtingu þeirrar auðlindar hingað til.

 

 

Þá liggur fyrir Alþingi frumvarp til nýrra vatnalaga sem ætlað er að leysa af hólmi gildandi vatnalög frá 1923. Tiltölulega fáar breytingar hafa verið gerðar á þeim lögum í tímans rás og því var orðið tímabært að endurskoða lögin.

Nú er hafin að nýju lagasmíði um hitaveitur en engin heildstæð lög eru til um þennan mikilvæga málaflokk og erum við eina landið á Vesturlöndum sem ekki búa við sérstök lög um hitaveitur og er stefnt að því að leggja frumvarp fram til kynningar á núverandi þingi sem fari til umsagnar hagsmunaaðila næsta sumar.

 

Mikill áhugi hefur verið á uppbyggingu smárra vatnsaflsvirkjana á undanförnum árum. Ástæða þess er vitaskuld sú að hér á landi eins og erlendis leita menn leiða til mestu hagkvæmni við orkuframleiðslu og um leið að auka hlut endunýjanlegra orkulinda. Tækniþróun síðustu ára hefur gert það mögulegt að auðveldara er að samtengja smávirkjanir, dreifiveitukerfi og raforkunotendur og með því opnast möguleikar raforkuframleiðenda á sölumarkaði sem gjörbreytir hagkvæmni flestra smávirkjana. Ríkið hefur lítillega stutt við forrannsóknir smávirkjana og þá aðallega við vatnamælingar. Sú aðstoð byggist á tímabundinni fjárveitingu til 5 ára en ég tel eðlilegt að halda þeim stuðningi áfram um sinn, en vissulega þarf að móta reglur um það hve langt ríkið eigi að ganga á þessu sviði.

 

Ágætu ársfundargestir.

Um þessar mundir eru tæp tvö ár liðin frá því að Alþingi samþykkti lög um Orkustofnun og Íslenskar orkurannsóknir sem komu til framkvæmda 1. júlí 2003. Með lögunum er skilgreint hlutverk Orkustofnunar sem stjórnsýslustofnunar í samræmi við gildandi lög og með nýjum raforkulögum frá 2003 og aftur 2004 auk annarra laga er stofnuninni falin stóraukin hlutverk sem eftirlits- og umsjónarstofnun hins opinbera.

Þó svo að ýmsir hafi verið efins um að nauðsynlegt hefði verið að skilja að stjórnsýslu og rannsóknir hygg ég að núna, í ljósi þeirra breytinga er orðið hafa í umhverfi raforkumála, blandist engum hugur um að hér hafi verið stigið heillaspor. Þessi aðskilnaður var nauðsynlegur og eðlilegur. Þá er fyrirsjáanlegt að hlutverk stofnunarinnar mun enn aukast með samþykkt frumvarps um jarðrænar auðlindir en þar er gert ráð fyrir að leyfisveitingar til rannsókna og nýtingar færist til stofnunarinnar.

 

Í framhaldi af setningu laga um Orkustofnun og Íslenskar orkurannsóknir skipaði ég sérstaka nefnd er skoða skyldi með hvaða hætti starfsemi Vatnamælinga yrði best fyrir komið. Nefndin skilaði áliti sínu í árslok 2003 þar sem lagt var til að skoðaðir yrðu möguleikar á samstarfi eða samruna svipaðrar starfsemi hjá öðrum stofnunum ríkisins til hagræðis og þá í sérstakri stofnun. Í framhaldi af því óskaði ég eftir því að formanni nefndarinnar auk fulltrúa viðkomandi ráðuneyta, yrði í sérstökum vinnuhópi, falið að kanna vilja annarra aðila til samstarfs við núverandi starfsemi vatnamælinga. Þeirri vinnu er enn ekki lokið, en niðurstöðu nefndarinnar er að vænta innan skamms.

 

 

Ágætu ársfundargestir.

Eins og flestum hér er kunnugt hafa blásið nokkrir vindar við setningu hinna nýju raforkulaga og sér enn ekki fyrir um veðurlag á þeim vettvangi.

Lögin tóku gildi um síðustu áramót varðandi aðskilnað einokunar- og samkeppnisþátta í starfsemi raforkufyrirtækja. Við hina miklu undirbúningsvinnu að lagasetningu hefur mikið mætt á starfsmönnum Orkustofnunar og nú við framkvæmd laganna verður hlutur þeirra enn mikilvægari. Vil ég nota tækifærið og þakka starfsmönnum fyrir vel unna vinnu þeirra við þetta verkefni.

 

Orkustofnun er sá aðili er bæði almenningur og stjórnvöld geta leitað til varðandi margvíslegar upplýsingar innan orkugeirans. Stofnunin hefur einnig og ekki síðra hlutverk gagnvart stjórnvöldum varðandi eftirlit og ákvörðun um verðlagningu á einokunarþáttunum, flutningi og dreifingu á raforku. Þetta verður einna stærsta hlutverk hennar á næstu árum þar sem flutningur og dreifing raforkunnar nemur oftar en ekki 40-60% af verðmyndun raforku til neytandans. Ég geri mér grein fyrir því að á þessum sviðum þurfi hugsanlega að herða ýmsar ólar til hagræðingar bæði í flutningi og dreifingu raforkunnar.

Að lokum vil ég þakka stjórnendum Orkustofnunar fyrir farsælt samstarf á liðnum árum og óska stofnuninni og starfsmönnum hennar alls góðs á komandi tímum.

Ég þakka áheyrnina.

 

 

  

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval