Kynning á evrópskri skýrslu um eignarhald kvenna í atvinnurekstri.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

3/3/05

Ég býð ykkur velkomin til þessa blaðamannafundar, en til hans er boðað til að kynna Evrópuverkefnið „Konur í atvinnurekstri og landbúnaði" og skýrslu um það efni sem hér liggur frammi.

Með mér á fundinum eru Sigríður Elín Þórðardóttir, starfsmaður Byggðastofnunar, sem skrifaði íslenska hluta skýrslunnar, Herdís Sæmundardóttir, stjórnarformaður Byggðastofnunar, og þær Stefanía Óskarsdóttir , Erna Bjarnadóttir, Bjarnheiður Jóhannsdóttir, Helga Björg Ragnarsdóttir og Kristín Karlsdóttir  sem störfuðu í ráðgjafahóp verkefnisins. Sigríður Elín mun kynna skýrsluna stuttlega hér á eftir.

Norðmenn áttu frumkvæði að því að sækja um styrk til Evrópusambandsins til að vinna verkefni um konur í atvinnurekstri og landbúnaði og leitaði eftir þátttöku Íslands, Lettlands, Svíþjóðar og Grikklands. Tilgangurinn var m.a. að bera kennsl á hvaða hindranir verða helst á vegi kvenna sem reka eigin fyrirtæki og finna leiðir til þess að aðstoða og styðja konur í atvinnurekstri í þeim tilgangi að fjölga konum sem sjá atvinnutækifæri í eigin viðskiptahugmyndum.

Norðmenn stýrðu verkefninu. Ráðgjafahópar í hverju landi fyrir sig tóku saman þær upplýsingar sem til þurfti. Leitað var til kvenna í þátttökulöndunum sem hafa reynslu og þekkingu á því að reka eigin fyrirtæki. Þannig var miðlað þekkingu og varpað skýrara ljósi á aðstæður kvenna í atvinnurekstri í viðkomandi löndum.

Haldinn var umræðufundur hér á landi í október s.l. með þátttöku fulltrúa úr stoðkerfi atvinnulífsins. Þar skapaðist góður umræðuvettvangur og var fjallað um á hvern hátt hið opinbera stoðkerfi atvinnulífsins, fjármálastofnanir og fræðasamfélagið geti með auknu samstarfi virkjað enn betur menntun, hæfni og þekkingu kvenna til sóknar. Fundurinn tókst mjög vel og varð mikilvægt innlegg í lokaskýrsluna til Evrópusambandsins.

Nú hefur nefndin lokið störfum. Vinnan hefur tekið eitt ár og niðurstöðurnar eru birtar í samanburðarskýrslu sem ber heitið "Women towards ownership in business and agriculture". Er sú skýrsla kynnt í öllum þátttökulöndunum um þessar mundir.

Ég gef hér með Sigríði Elínu orðið, hún mun kynna helstu niðurstöður skýrslunnar.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka Sigríði Elínu fyrir hennar framlag til þessa góða verkefnis.

Í ljósi þeirra ábendinga sem fram koma í skýrslunni og í samræmi við jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar, hef ég ákveðið að beita mér fyrir tilteknum aðgerðum:

Í fyrsta lagi hef ég falið Byggðastofnun að vinna úttekt á því hvaða árangur hefur náðst undanfarin ár af verkefnum sem hafa haft það að markmiði að örva frumkvæði kvenna í atvinnurekstri, þ.m.t. stöðu kvenna gagnvart stuðningskerfi atvinnulífsins hvað varðar styrki, lánsfé og hlutabréf. Markmiðið er að afla upplýsinga sem geti orðið grundvöllur að frekari aðferðum til að efla þátt kvenna í atvinnurekstri.

Í öðru lagi mun ég láta yfirfara og skerpa á reglum nokkurra viðvarandi verkefna sem nú þegar eru í gangi til að hvetja konur til að hrinda viðskiptahugmyndum sínum í framkvæmd og styðja konur í rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Má þar nefna Impru, Brautargengi, Félag kvenna í atvinnurekstri, Lánatryggingasjóð kvenna og Atvinnurekstur kvenna á landsbyggðinni.

Í þriðja lagi hef ég hvatt fyrirtæki til að skoða möguleg tækifæri fyrir konur í stjórn fyrirtækja. Nefnd er að störfum um þetta málefni. Vilji minn er að fyrirtæki taki sig sjálf á í þessum efnum í stað þess að gripið verði til lagasetningar. Í því skyni sendi ég m.a. nýlega stærstu fyrirtækjum landsins bréf þar sem farið var fram á að forsvarsmenn þeirra beiti sér fyrir því að konur fái aukið tækifæri til setu í stjórnum viðkomandi fyrirtækja. Vakti bréfið nokkra athygli og vona ég að árangur verði af þessu.

Ég hef vitneskju fyrir því að fullur vilji er hjá Byggðastofnun og félagsmálaráðuneyti að tryggja framhald á því góða starfi sem jafnréttis- og atvinnuráðgjafar Byggðastofnunar hafa sinnt.

Ég vil einnig taka það fram að ég er mjög meðvituð um nauðsyn þess að jafna kynjahlutfallið í nefndum og stjórnum á vegum opinberra aðila. Nauðsynlegt er að stjórnarráðið taki höndum saman um það mál.

Ég vil þakka ráðgjafahópnum, Stefaníu Óskarsdóttur og Ernu Bjarnadóttur, auk Bjarnheiðar Jóhannsdóttur og Helgu Bjargar Ragnarsdóttur frá Byggðastofnun, fyrir vel unnin störf. Þessi skýrsla er mikilsvert innlegg inn í umræðuna um þátttöku kvenna í atvinnurekstri en eins og nærri má geta þá er fjölgun kvenna í atvinnurekstri mikilvægur liður í eflingu atvinnulífs hér á landi.

Að lokum vil ég þakka ykkur ágætu gestum okkar fyrir að koma hingað í dag og sýna málinu áhuga.

 

  

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval