Aðalfundur IcePro um rafræn viðskipti, afhending IcePro verðlaunanna.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

22/2/05

Ágætu fundarmenn,

Það er óhætt að segja að undanfarin ár hafi einkennst af miklum breytingum og framþróun á sviði upplýsingatækni sem og á sviði rafrænna viðskipta. Íslensk fyrirtæki hafa staðið þar framarlega í alþjóðlegum samanburði og náð athyglisverðum árangri.

Stundum er sagt að upplýsingatæknin eigi sér ekki heimilisfesti í stjórnkerfinu. Ekki vil ég skrifa undir það, málaflokknum er skipt upp með ákveðnum hætti. Það fyrirkomulag krefst að sjálfsögðu stöðugrar endurskoðunar, líkt og annað. Þróunin hefur verið ör í þessari grein og spennandi tímar framundan. Því er mikilvægt að efla samstarf og stilla saman strengi. Á það ekki aðeins við um okkar vinnu innan ráðuneytanna heldur samstarf hins opinbera við fyrirtækin og lausnaraðilana. Í þessu ljósi má segja að hlutverk IcePro, eða hins sameinaða vettvangs, hafi sjaldan eða aldrei verið mikilvægara en einmitt nú.

Ríkisstjórnin hefur eftir bestu getu reynt að sýna gott fordæmi á sviðum rafrænna viðskipta sem og rafrænni stjórnsýslu. Þannig markaði ríkisstjórn Íslands stefnu á síðastliðnu ári sem ber yfirskriftina „Auðlindir í allra þágu - Stefna ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið 2004-2007". Að þeirri stefnumótun komu fjölmargir fulltrúar ýmissa hagsmunaaðila í samfélaginu. Leiðarljós stefnunnar er að skapa framtíðarsýn, skilning og vilja til þess að almenningur, atvinnulíf og opinberir aðilar leggist á eitt og vinni að því að nýta tækifæri tækninnar til að bæta íslenskt samfélag.

 

Í stefnunni er lögð áhersla á rafræn viðskipti og rafræna stjórnsýslu, en þar segir m.a.: „Hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög leggi áherslu á rafræn viðskipti og rafræna stjórnsýslu. Í því felst m.a. að opinberar stofnanir veiti rafræna þjónustu hvarvetna þar sem hún leiðir til hagræðingar og bættrar þjónustu við almenning og atvinnulíf. Áhersla verði lögð á að hægt verði að nýta tiltölulega einfaldan tæknibúnað í samskiptum við stjórnvöld og að nýir samskiptamiðlar verði nýttir. Ávallt þarf þó að vera fyrir hendi val þannig að þeir sem ekki geta notað tæknina geti notið hefðbundinnar þjónustu áfram." Þó er ljóst að rafræn stjórnsýsla snýr ekki eingöngu að stjórnvöldum heldur er opinber stjórnsýsla málefni alls samfélagsins og ekki síst fyrirtækjanna í landinu. Hlutverk IcePro er mikilvægt í þessu ljósi, enda má segja að margir líti á IcePro sem brú milli hins opinbera og fyrirtækjanna í landinu. Brú þar sem atvinnulífið og stjórnvöld koma saman og móta stefnu til framtíðar.

 

Ágætu fundargestir,

Iðnaðarráðuneytið er um þessar mundir þátttakandi í Tilraunasamfélagi um rafræn viðskipti. Auk Iðnaðarráðuneytis eiga aðild að verkefninu fjölmargir aðilar frá atvinnulífinu og sveitastjórnum. Hefur ráðuneytið miklar væntingar um að árangur náist af því verkefni. Ljóst er að Tilraunasamfélagið hefur hlotið alþjóðlega athygli, þannig hlaut verkefni á vegum þess styrk að upphæð 22 milljónir króna frá Norrænu Nýsköpunarmiðstöðinni. Nú er einnig verið að leggja lokahönd á umsókn í 6. rammaáætlun ESB þar sem sótt er um rúmlega tvær milljónir Evra. Er ljóst að mat ESB á þeirri umsókn kemur til með að ráða úrslitum um framtíð Tilraunasamfélagsins. Einnig tel ég ljóst að aðkoma IcePro að þeirri vinnu sem framundan er í Tilraunasamfélagi um rafræn viðskipti, sé eðli máls samkvæmt mikilvæg og forsenda þess að raunverulegur árangur náist.

 

Nú liggur fyrir að miklar breytingar eru framundan á stoðumhverfi rafrænna viðskipta, en á aðalfundi IcePro fyrir ári síðan gerði ég að umræðuefni mikilvægi þess að stofnanir og samtök sem með einum eða öðrum hætti tengjast þróun rafrænna samskipta stilltu saman strengi sína, efldu samstarf eða jafnvel sameinuðu starfsemi sína. Taldi ég þetta mikilvægt þar sem verkefni hafa stækkað og þunginn aukist. Það er því ánægjuefni að nú skuli vera starfandi vinnuhópur sem undirbýr aukið samstarf eða jafnvel samruna fjögurra samtaka á þessu sviði, þ.e. IcePro, FUT, Skýrslutæknifélagsins og EAN. Er það von mín að þessu ferli ljúki áður en lagt um líður þannig að á það reyni hvort um raunhæfan möguleika sé að ræða. Hvernig sem það fer má ljóst vera að þessi vinna hlýtur að skila okkur betri yfirsýn, varpa ljósi á hverjir snertifletirnir eru og skýra hlutverkaskipan.

 

Verðlaunaafhending:

Góðir fundarmenn. Það er mér mikil ánægja að fá að afhenda IcePro-verðlaunin en þetta mun vera í 9. sinn sem þau eru veitt.

Dómnefnd IcePro skipa að þessu sinni

Karl. F. Garðarsson, formaður ICEPRO, forstöðumaður stjórnsýslusviðs Tollstjórans í Reykjavík.

Júlíus S. Ólafsson, forstjóri Ríkiskaupa og

Vilhjálmur Egilsson, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu.

 

Í umsögn dómnefndar segir:

Dómnefnd IcePro hefur valið Landlæknisembætti sóttvarnarlæknis til að hljóta verðlaunin í ár. Fær embættið verðlaunin fyrir fyrsta hluta verkefnis sem unnið er í samstarfi við TölvuMyndir. Snýst verkefnið um koma bólusetningagögnum frá heilsugæslustöðvum í gagnagrunn sem geymdur er hjá Landlæknisembættinu, með hjálp sjálfvirkrar skeytamiðlunar.

 

Ýtrustu öryggis- og persónuverndarsjónamiða er gætt og eru samskiptin dulkóðuð og rafrænt undirrituð. Gögn eru sett fram með XML sniði sem aðilar hafa komið sér saman um að nota. Við skilgreiningu þess var horft til HL7 staðalsins. Að ráðum IcePro er gagnaflutningur framkvæmdur samkvæmt ebMS gagnaflutningsstaðlinum sem er hluti ebXML staðlasettsins. Hugbúnaður frá TölvuMyndum sér um alla þætti gagnameðhöndlunar og gagnaflutnings.

Sú tækni sem hér er notuð er jafnframt sú sama og notuð er við sendingar rafrænna læknabréfa milli heilsugæslustöðva annars vegar og bæði Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og Landsspítala Háskólasjúkrahúss hins vegar.

Ég vil biðja Þórólf Guðnason yfirlækni Sóttverndarsviðs Landlæknisembættisins að koma hér upp og veita verðlaununum viðtöku.3

 

  

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval