Flutningsfyrirtæki Landsnets hf.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

3/1/05

Stjórn og starfsmenn Landsnets, fulltrúar eigenda, gestir.

Það er mér sönn ánægja að vera með ykkur hér í dag til þess að fagna tilkomu hins nýja flutningsfyrirtækis Landsnets hf.

Landsnet hf. mun gegna veigamiklu hlutverki í raforkukerfi landsmanna. Flutningskerfi Landsnets mun tengjast öllum byggðum landsins og færa þá nauðsynjavöru sem raforkan er til dreifiveitna er síðan dreifa orkunni til allra landsmanna.

Á undanförnum misserum hefur verið unnið að viðamiklum breytingum á raforkumarkaði í kjölfar nýrra raforkulaga sem sett voru í fyrravor. Nú um áramót verður stigið mikilvægt skref í markaðsvæðingu raforkukerfisins. Nýjar leikreglur koma til framkvæmda, flutningur og dreifing raforku verður háð einkaleyfi, undir eftirliti Orkustofnunar, en framleiðsla og sala raforku lúta markaðslögmálum. Við þessa breytingu er mikilvægt að vel takist til með starfsemi flutningsfyrirtækisins, Landsnets.

Landsnet hf. byggir á traustum grunni. Meginhluti starfsmanna hefur áður starfað hjá Flutningssviði Landsvirkjunar að samskonar verkefnum. Þannig má með sanni segja að starfsmenn hins nýja fyrirtækis sé þaulkunnugir þeirri starfsemi sem framundan er hjá Landsneti hf. Hið nýja umhverfi á raforkumarkaði gerir það þó að verkum að um sumt þarf að nálgast verkefnin á annan hátt en áður.

Iðnaðarráðuneytið hefur fylgst mjög náið með undirbúningi að starfsemi Landsnets hf. og er óhætt að fullyrða að allur undirbúningur hefur verið vandaður og starfsmönnum Landsvirkjunar og hinum nýju eigendum Landsnets hf. til sóma. Með þetta í huga og þegar ég lít yfir hóp starfsmanna Landsnets hf. er ég ekki í nokkrum vafa um að fyrirtækinu mun vel farnast. Ég óska hinu nýja fyrirtæki og starfsmönnum þess alls hins besta.

Mér hefur verið falið að afhjúpa nýtt merki Landsnets hf. Merkið er hannað af auglýsingastofunni Hvíta húsinu. Nokkrar tillögur voru gerðar að merkinu og var síðan efnt til atkvæðagreiðslu meðal starfsmanna. Merki Landsnets hf. endurspeglar upptök orkunnar flutning eftir línum Landsnets og umbreytingu í afl til athafna.

Nú mun ég afhjúpa merki Landsnets hf.

(Afhjúpun)

Eins og viðstaddir sjá er merkið einkar smekklegt og hæfir vel sem tákn hins nýja félags.

Landsnet hf. er netfyrirtæki í þeim skilningi að það hefur með höndum rekstur flutningsnets raforkunnar hér á landi. Landsnet hf. verður einnig netfyrirtæki í öðrum skilningi því mikill hluti samskipta milli fyrirtækisins og viðskiptavina þess mun fara fram í gegnum internetið með aðstoð heimasíðu Landsnets. Þannig munu allar áætlanir um rafmagnsframleiðslu og rafmagnsnotkun koma til Landsnets í gegnum heimasíðu þess og fyrirtækið sinnir svo hlutverki sínu sem kerfisstjóri og stillir saman orkuframleiðslu og orkuþörf.

Ég hef nú ekki frekari orð um heimasíðuna en mun nú opna hana.

Ég ítreka óskir um velfarnað Landsneti til handa og lýsi heimasíðu Landsnets hf. formlega tekna í notkun. 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval