Ársfundur Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

29/11/04

Ágætu ársfundargestir.

Um þessar mundir höfum við haldið upp á aldarafmæli margra tímamóta í sögu þjóðarinnar eins og kunnugt er. Ástæða er til að nefna hér í upphafi þessa ávarps á íslensk verkmenntun á aldarafmæli um þessar mundir, en Iðnskólinn í Reykjavík tók til starfa í október 2004. Þá er einnig rúm öld liðin frá því að fyrsti verkfræðingurinn tók til starfa hér á landi.

Á sama tíma höfðu aðrar þjóðir Evrópu byggt upp borgarsamfélag og þróað iðnað sinn um aldir. Hér á landi hafði verkmenntun og verktækni nánast staðið í stað öldum saman. Þegar skoðuð er aldargömul saga íslenskrar verkmenntunar vekur það undrun hversu langt íslenska þjóðin hefur náð við að byggja upp eitt tæknivæddasta ríki á norðuhveli jarðar á nokkrum áratugum. Þetta er ekki síst athyglisvert í ljósi þess að um síðustu aldamót var Ísland meðal vanþróaðri ríkja Evrópu, og þjóðin hafði rétt til hnífs og skeiðar.

II.

Í upphafi tuttugustu aldar varð mikil vitundarvakning hjá þjóðinni um nauðsyn þess að bæta kjör sín. Þessi framfaraandi ásamt auknu erlendu fjármagni í þjóðfélaginu gerði þjóðinni kleift að ráðast fljótlega í margar framkvæmdir, sem aðeins örfáum áratugum áður hefði verið talið óhugsandi. Þar má nefna lagningu símans, uppbyggingu vegakerfis og hafna víða um land.

III.

Fyrstu verkfræðingarnir ruddu þessa braut í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Þó svo að rannsóknir og áætlanagerð frumherja verkfræðinnar hefðu verið af vanefnum gerðar miðað við nútíma aðstæður voru þær eigi að síður merkar og unnar af alúð og vandvirkni sem skilaði þjóðinni miklu. Framan af öldinni voru tækni- og náttúrufarsrannsóknir hér á landi að mestu unnar af erlendum aðilum, sem hafa á margan hátt reynst traustur grunnur frekari þekkingaröflunar innlendra fræðimanna. Sem dæmi má nefna gerð grunnkorta af landinu sem unnin voru á fyrstu áratugum aldarinnar. Á þeim tíma voru einnig allmargir erlendir sérfræðingar hér á landi við rannsóknir á virkjunarmöguleikum. Þó að ekki hafi orðið af fyrirhuguðum framkvæmdum fyrr en síðar leiddi sú vinna margt jákvætt af sér. Allmargir íslenskir verkfræðingar og námsmenn unn að þessum rannsóknum og öðluðust þeir reynslu og þekkingu sem varð þeim mikilvægur skóli og kom að miklu gagni um miðja öldina þegar að því kom að þjóðin réðst í stórhuga mannvirkjagerð.

IV.

Með aukinni velmegun á fimmta áratug aldarinnar hafði þjóðin fyrst efni á að mennta sína fyrstu raunvísindamenn með stofnun verkfræðideildar Háskóla Íslands. Smám saman hefur tekist að efla menntun og rannsóknir á þessu sviði, en vitaskuld eru takmörk fyrir því hversu langt við gátum gengið í sérhæfðri menntun í samanburði við stórþjóðir. Því var eðlilegt að íslenskir tæknimenn sæktu á fyrstu áratugum verkfræðimenntunar í framhalds- og sérmenntun sína við við erlenda háskóla og vísindastofnanir.

V.

Á áttunda áratug síðustu aldar urðu veruleg umskipti í tæknimenntun hér á landi með byggingu sérhæfðra bygginga fyrir verkfræðideild Háskkólans. Sú aðstaða gerði það kleift að unnt varð að skapa nausðynlega rannsóknaraðstöðu við deildina og ljúka BS prófi hér á landi í nokkrum greinum verkfræðinnar og síðar hefur nám í MS og doktorsnám bæst við með betri rannsóknaraðstöðu. Hlutverk Verkfræðistofnunar hefur þar verið afar mikilvægt sem rannsóknarvettvangur í verkfræðigreinum, bæði fyrir kennslu og atvinnulífið. Rannsóknarstofnun á þessu sviði er vitaskuld nausðynleg til að byggja upp og þróa tækniþekkingu og þjálfun í landinu og hefur verið grunnur að framhaldsnámi á mörgum sviðum verkfræðinnar hérlendi og erlendis.

VI.

Rannsóknir, tækniþróun og nýsköpun verður sífellt alþjóðlegri. Landamæri á þessu sviði eru að hverfa og samvinna þjóða um meiri háttar rannsóknarverkefni hefur stóraukist. Íslenska tæknisamfélagið hefur á undanförnum árum orðið að tileinka sér vinnulag og kröfur sem gerðar eru á alþjóðavettvangi um gæði rannsókna. Kröfur í þessum efnum eru sífellt að aukast og menn verða að mæta þessum kröfum hér á landi til að verða gjaldgengir í alþjóðlegu vísindaumhverfi. Þrátt fyrir síbatnandi aðstöðu til rannsókna hér á landi sækja íslendingar að afloku háskólaprófi hér á landi til fjölmargra háskóla erlendis til frekara náms. Það er fagnaðarefni að íslenskir verkfræðingar og raunvísindamenn skuli hafa staðið sig afar vel í framhaldsnámi sínu erlendis að afloknu námi hér við Háskólann og hafa þannig aukið orðspor þess menntunarsamfélags er við búum við hér á landi.

VII.

Ágætu ársfundargestir.

Það er oft haft á orði að mannauðurinn sé mikilvægasta auðlind þjóðarinnar. En gleymum ekki því að mannauðurinn verður aðeins auðsuppspretta að hæfileikar mannsins verði ræktaðir og virkjaðir við verðug verkefni. Mikilvægt er að bæta stöðugt jarðveg fyrir nýjar hugmyndir til að spretta úr og farveg fyrir þær út í atvinnulífið til efla efnahagslega- og félagslega velferð þjóðarinnar.

Að þessu hefur verið unnið og er tilkoma Vísinda- og tækniráðs, sem starfsar undir forustu forsætisráðherra, einn mikilvægasti áfangi þeirrar vinnu. Efling samkeppnissjóðanna og einkum tilkoma Tækniþróunarsjóðs er veigamikil búbót fyrir tækniþróunina og nýsköpun atvinnulífsins. Miklar vonir eru bundnar við þessa nýskipan sem ég vænt að nýtist vel þeim sem stunda rannsóknir og tækniþróun hvar sem er í þjóðfélaginu.

Takk fyrir 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval