Ráðstefna Orkustofnunar um nýja möguleika til orkuöflunar.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

17/11/04

Ágætu fundargestir

Það er mér ánægjuefni að fá að ávarpa þennan fund hér í dag um nýja möguleika til orkuöflunar á Íslandi. Mér er til efs að sérstök ráðstefna eða opinn fundur hafi áður verið haldin hér á landi um þetta efni. Nýjum möguleikum til orkuöflunar var gerð nokkur skil á Orkuþingi árið 2002 án þess að sérstaklega væri fjallað um það efni miðað við íslenskar aðstæður. Því er það vel að við skulum huga að nýjum möguleikum er við sjáum til sjálfbærrar orkuöflunar í náinni framtíð.

Öll umræða um orkumál í heiminum í dag snýst eins og kunnugt er um sjálfbæra orkuvinnslu og nýtingu og krafa er um að allar þjóðir kanni möguleika sína á endurnýjanlegri orku. Umræðan um loftslagsmál á alþjóðavettvangi á undanförnum áratug er alveg skýr og í síðastliðinni viku lauk í Reykjavík ráðstefnu um áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum. Þar komu fram augljósar niðurstöður um að hitastigshækkun á norðurhveli sé mun hraðari og meiri en áður hafði verið gert ráð fyrir með ófyrirsjánlegum afleiðingum fyrir lífríki á þessum slóðum í framtíðinni.

 

Um þessar mundir höfum við horfst í augu við mikla hækkun á olíu á heimsmarkaði, sem margir sérfræðingar telja að geti orðið varanleg um lengri tíma. Við Íslendingar búum góðu heilli svo vel að hafa aðlagað okkur að þessum aðstæðum fyrir 20-30 árum þegar sérstakt átak var gert hér á landi við að draga úr olíunotkun landsmanna með því að auka hlut hitaveitna og raforku þar sem því var við komið. Árangurinn er alþekktur, húshitun landsmanna með þessum orkugjöfum er um 99% og raforkuframleiðsla okkar byggist alfarið á þeim. Segja má að allar innfluttar olíuvörur fari til samgangna og skipaflota landsmanna og við eigum ekki möguleika á að draga úr notkun þeirra nema með aukinni tækniþróun við að nýta endurnýjanlega orku til samgöngutækja og skipaflotans.

 

Enn sem komið er eru nýir endurnýjanlegir orkugjafar erlendis ósamkeppnisfærir við hefðbundna orkugjafa, t.d. jarðgas og kjarnorku. Einna mest hefur þróuninorðið í virkjun vindorku í Vestur-Evrópu, aðallega í Þýskalandi og Danmörku. Verð frá þessum orkuverum er þó enn ríflega tvöfalt hærra en við þekkjum til hér á landi, en það fer hægt lækkandi. Eigi að síður þurfum við að kanna möguleika okkar til framtíðar hvar mögulegt og hagkvæmt yrði að koma upp vindmyllum til orkuframleiðslu og þá ekki síst á einangruðum stöðum í upphafi til að draga úr notkun díselstöðva. Virkjun vindorku hér á landi kann að verða álitlegur kostur ef tækni- og hagkvæmniþróun þessa orkugjafa verður eins ör og hefur verið síðustu ár.

 

Rannsóknir á nýjum orkugjöfum hér á landi eru eðlilega skemur á veg komnar en víða erlendis. Skýringin er vitaskuld sú að við höfum einbeitt okkur að rannsóknum jarðhita og vatnsafli, sem við eigum góðu heilli enn gnægð af. Hugmyndir manna um lífræna orkuframleiðslu í Evrópu hafa ekki staðist á undanförnum árum, en þar hafa hins vegar önnur lönd eins og Brasilía verið í farabroddi við að framleiða ethanol sem eldsneyti á bifreiðar. Íslenska lífmassafélagið hefur undirbúið á síðustu árum nýtingu ethanols sem orkugjafa hér á landi, sem verður forvitnilegt að fylgjast frekar með. Rannsóknir hafa einnig verið gerðar hér á landi á því hvort unnt væri að framleiða etanol eða metanol með rafgreindu vetni sem blandað væri saman við kolefnissambönd frá Járnblendiverksmiðjunni í Hvalfirði, en það virðist enn sem komið er of dýr kostur til eldsneytisframleiðslu miðað við hefðbundið olíueldsneyti.

 

Rannsóknir á sjávarfalla- og ölduhreyfingavirkjunum verða til umfjöllunar hér á fundinum sem er áhugavert verkefni fyrir Íslendinga þegar til lengri framtíðar er horft Ég upplifði það síðastliðið haust ásamt starfsmönnum iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta að horfa á sjávarfallastrauma úr Hvammsfirði falla til Breiðafjarðar og var það afar merkilegt að horfa á alla þá orku sem þar fellur út og inn úr firðinum. Spurningin er ekki hvort, heldur hvenær þessi mikla orka verður beisluð. Við þurfum því að kanna hagkvæmustu staði hér á landi fyrir hugsanlegar sjávarfallavirkjanir með því að mæla sjávarstrauma og dýpi til að vera í stakk búin að meta hagvæmni þeirra strax og tæknin og reynslan leyfir.

 

Sjávarfallavirkjanir eiga það sammerkt með vindorkuvirkjunum að þær eru ekki í samfelldum rekstri. Þessar virkjanir verða því að styðjast við aðra raforkuframleiðslu, sem vissulega getur verið hagkvæmt, t.d. til að draga úr miðlunarþörf vatnsorkuvirkjana. Tækniþróun þessara orkugjafa kann einnig tímalega að haldast í hendur við mögulega þróun í vetnistækni. Verði framtíðarþróun í vetnistækni á þann veg að unnt verði með hagkvæmum hætti að geyma vetni sem orkubera fyrir samgöngutæki munu þessir virkjunarkostir verða álitlegir til raforkuframleiðslu fyrir vetni á Íslandi.

Hér á þessum fundi verður fjallað um áhugaverð efni, sem eru smávirkjanir og varmadælur. Fyrir 2 árum voru á Alþingi samþykkt lög sem kveða á um tímabundið átak til að styðja við þróun á byggingu smávirkjana hér á landi og kanna möguleika á notkun varmadælna til húshitunar.

 

Á undanförnum árum hafa allmargir aðilar reist smávirkjanir víða um land. Búast má við að veruleg aukning verði í uppbyggingu þeirra á næstu árum ef marka má þróunina erlendis frá. Hefur allmikið verið unnið við þetta verkefni undanfarin 2 ár og ber þar hæst gerð afrennsliskorts af landinu til að geta lagt mat á langtíma rennsli til smávirkjana. Þá hefur einnig verið lögð nokkur vinna í leiðbeiningastarf, bæði kynningu á því hvernig að málum skuli staðið við byggingu smávirkjana en einnig í aðstoð við rennslismælingar, sem nauðsynlegt er að liggi að baki ákvörðunum um virkjanir.

Svo ótrúlegt sem það hljómar erum við Íslendingar eftirbátar nágranna okkar við notkun varmadælna og er helsta skýringin sú hve vel hefur tekist að virkja jarðhitann beint til hitunar. Víða um land á svokölluðum köldum svæðum er að finna volgrur og allheitt vatn sem ekki er unnt að nýta beint til upphitunar. Við slíkar aðstæður er notkun varmadælna oft afar hagkvæmur kostur til að hita vatn upp í nothæfan hita með rafhitun. Í lögunum var einnig kveðið á um að raforka til varmadælna skyldi fá sömu niðurgreiðslu af hálfu ríkisins og venjuleg rafhitun fær, enda er hér um að ræða sambærilega notkun. Bind ég miklar vonir við að niðurstaða úttektar á varmadælum verði áhugaverð fyrir þau landsvæði sem ekki hafa notið jarðhitans enn sem komið er.

 

Á sviði jarðhitaleitar og vinnslu fleygir tækninni fram eins og á flestum öðrum sviðum. Okkur hefur í síauknum mæli tekist á farsælana hátt að virkja jarðhitann til hitunar og raforkuframleiðslu. Sífellt færri svæði landsins teljast nú vera „köld" svæði þar sem ekki hefur tekist að finna heitt vatn. Leit á slíkum svæðum er hins vegar mun dýrari en hefðbundin jarðhitaleit á heitari svæðum og þarf að öðru jöfnu að leggja í langtum meiri kostnað við þær rannsóknarboranir. Þó svo að vel hafi tekist til um það átaksverkefni um jarðhitaleit á köldum svæðum, sem staðið hefur yfir frá árinu 1998, hefur skort fjárhagslegan grundvöll fyrir því að skipulega væri unnt að standa að rannsóknum á þessu sviði. Í lögunum um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar og stofnstyrki til nýrra hitaveitna frá 2003 er ákvæði er segir að iðnaðarráðherra sé heimilt að verja allt að 5% af fjármagni því er Alþingi ákvarðar til þessa verkefnis til jarðhitaleitar á köldum svæðum. Hér er vissulega um að ræða verulega fjármuni sem mun gera sveitarfélögum á köldum svæðum kleift að ganga úr skugga um möguleika sína til nýtingar jarðhita sem þau ella hefðu ekki haft möguleika á að gera ein og sér. Um þetta efni verður fjallað nánar hér á þessum fundi þar sem væntanlega verður gerð grein fyrir þeim verkefnum sem álitleg geta talist.

 

Góðir fundarmenn.

Nefna má nokkra aðra nýja möguleika til orkuöflunar..

Þar má fyrst og fremst telja orkusparnað, hugtak, sem Íslendingum hefur ekki verið tamt í munni síðastliðna 1-2 áratugi vegna hins lága raforku- og hitunarverðs hér á landi. Þar hyggjumst við í ráðuneytinu í samstarfi við orkufyrirtæki landsins skera upp herör og freista þess að kynna þýðingu og mikilvægi orkusparnaðar til að bæta ímynd okkar og eigin hag. Sú orka er þar sparast er verðmæt markaðsvara gleymum ekki því.

 

Í annan stað vil ég nefna djúpborunarverkefnið, ekki er hægt annað en að minnast á það þegar rætt er um nýja möguleika til orkuöflunar hér á landi til framtíðar.

Hér er um að ræða rannsóknarverkefni á alþjóðamælikvarða sem kosta mun hundruð milljóna í upphafi og milljarða er yfir lýkur. Djúpborun er tilraunaverkefni að því markmiði að nýta háhitasvæði okkar mun betur en hingað til hefur verið gert og bora tilraunaholu niður að rótum jarðhitauppsprettunnar á 4-5 þús. metra dýpi. Líkur benda til að með djúpborun verði unnt að margfalda orkugetu ákveðinna háhitavæða sem ligga nærri Atlantshafshryggnum. Þetta er hins vegar langtíma rannsóknarverkefni sem erlendir aðilar munu vinna að í samstarfi orkufyrirtækja og stjórnvalda hér á landi, enda geta slíkar rannsóknir skipt sköpum varðandi möguleika á orkuvinnslu á næstu áratugum.

 

Í þriðja lagi vil ég nefna orkunýtni. Bæði orkusparnaður og orkunýtni eru lykilorð í umræðu um orkumál meðal almennings erlendis vegna þess hve orkuverð þar er hátt. Hér hugsum við lítið um þetta enda er ekki lögð nein rækt við það af seljendum orkunnar að spara hana. Við höfum hafið og munum enn auka framleiðslu raforku með jarðvarmavirkjunum sem aðeins nýta 11-12% af orkunni, en 85-90% af virkjaðri orku er kastað út í umhverfið. .Bætt nýting orkunnar er því eitt form af orkuöflun..

Ágætu gestir.

Eins og ég hef rætt um er efni þessa fundar hvergi nærri tæmt með þeirri dagskrá er fyrir liggur. Okkar bíða því fleiri fundir sem fjalla munu um nýja orkuöflunarmöguleika. Ég vonast til þess að fundurinn verði til þess að við höldum áfram að hugsa og horfa fram á veginn til nýrra tækifæra í orkusamfélagi framtíðarinnar.

Ég þakka áheyrnina.

 

 

 

 

  

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval