Aðild Íslands að evrópska einkaleyfasamingnum.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

1/11/04

Ágætu gestir.

Við erum komin hér saman í glæsilegum húsakynnum Þjóðmenningarhússins á þessum Drottins degi sem er föstudagur til að minna á að næsta mánudag, 1. nóvember 2004, verður Ísland aðili að evrópska einkaleyfasamningnum og þar með Evrópsku einkaleyfastofnuninni. Verða þá tæp tvö ár liðin frá því ríkisstjórnin ákvað að Ísland mundi gerast aðili. Síðan þá hefur verið unnið að þýðingu að samningnum og gerð lagafrumvarps auk annars undirbúnings sem nauðsynlegur er vegna aðildarinnar. Sú vinna leiddi til þess að lög nr. 53/2004 litu loks dagsins ljós. Utanríkisráðuneytið gekk svo frá aðild miðað við 1. nóvember.

Evrópska einkaleyfastofnunin - EPO- fær sennilega um eina af hverjum fimm umsóknum um einkaleyfi í heiminum til meðferðar. Stofnunin vinnur ötullega að því að gera rannsóknir á einkaleyfum áreiðanlegri og bæta þannig þjónustu við notendur einkaleyfakerfisins auk þess að vera leiðandi afl í heiminum við það að samræma einkaleyfalöggjöf og straumlínulaga alla meðferð einkaleyfisumsókna. Næsta mánudag verða aðildarríkin, að okkur meðtöldum, orðin 29 talsins. Þetta eru 22 af 25 aðildarríkjum Evrópusambandsins en auk þess 7 önnur ríki, þar á meðal 3 af 4 EFTA-ríkjum, Ísland, Liechtenstein og Sviss. Litháen mun gerast aðili 1. desember n.k. og Lettland væntanlega 1. janúar n.k. en síðasta ESB-ríkið Malta síðar á árinu 2005. Ekki er búist við að af aðild Noregs verði fyrr en í fyrsta lagi á árinu 2006.

Íslenskir aðilar hafi getað sent umsóknir til Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar án þess að Ísland væri aðili að stofnuninni. En með aðildinni geta Íslendingar bæði nýtt Einkaleyfastofuna sem millilið og, það sem er ekki síður mikilvægt, nýtt sér sérfræðiaðstoð hér á landi þegar íslenskir umboðsmenn geta gegnt hlutverki sem fyrirsvarsmenn umsækjenda hjá Evrópsku einkaleyfastofunni. Þá er um mikla hagræðingu að ræða fyrir erlenda umsækjendur sem geta tilnefnt Ísland í evrópskri einkaleyfisumsókn og þannig öðlast einkaleyfi í 29 Evrópuríkjum í einu, að Íslandi meðtöldu. Er eðlilegt að landið skipi sér í sveit nágrannaríkja með aðild að stofnuninni. Aðildin er talin vísbending um að ríki hafi nútímalegt og aðgengilegt viðskiptaumhverfi en slíkt getur skipt máli, jafnvel talsverðu máli, fyrir erlenda aðila sem hyggja á fjárfestingu hér á landi. Þá er vonast til þess að aðildin leiði til aukinnar vitundar um mikilvægi nýsköpunar og verndun uppfinninga sem geta skilað sér í auknum hagvexti hér á landi. Þá verður sparnaður vegna umsókna um einkaleyfi Íslendinga. Einnig opnast nú möguleiki fyrir Íslendinga að fá störf við stofnunina sem gæti síðar leitt til þess að þekking Íslendinga í þessum málum muni enn aukast. Aðild skapar og Íslendingum betri möguleika innan kerfisins, t.d. varðandi aðgang að áfrýjunarnefndum. Einhverjir gallar geta auðvitað fylgt aðild. Nefna má að gerðar eru strangar kröfur til þeirra sem hafa starfstengsl við stofnunina og þarf því að huga vel að hagsmunum íslenskra umboðsmanna á næstunni, þ.e. formlegri útnefningu þeirra. Aðildin mun og draga talsvert úr tekjum Einkaleyfastofunnar á nokkurra ára bili en síðar mun rætast úr vegna aukningar einkaleyfa á grundvelli fjölda tilnefninga í kerfi Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar og innkomu helmings árgjalds af þeim.

Með þátttöku í þessu evrópska einkaleyfakerfi mun meðferð einkaleyfismála hér á landi breytast mikið. Gera má ráð fyrir að meirihluti allra einkaleyfa hér á landi í framtíðinni verði evrópsk einkaleyfi. En með slíku miðlægu kerfi á að vera meira samræmi í rannsókn og meðferð umsókna um einkaleyfi. Þá veitir Evrópska einkaleyfastofan ýmsan stuðning við einkaleyfastofur samningsríkja í þeim tilgangi að hagræða meðferð einkaleyfa og gera alla þjónustu skilvirkari. Fyrirséð er að nokkur breyting verður á stöðu og hlutverki Einkaleyfastofunnar. Það er von mín að breytingin muni leiða til þess að stofnunin hafi meira svigrúm og möguleika á að auka þjónustu við umsækjendur og atvinnulíf hér á landi.

Ég óska væntanlegum notendum evrópska einkaleyfakerfisins og starfsfólki Einkaleyfastofunnar velgengni í nýju starfsumhverfi.

Ágætu gestir.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta en býð ykkur öll velkomin í þetta síðdegishóf sem iðnaðarráðuneytið og Einkaleyfastofan standa að. 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval