100 ára afmæli Iðnskólans í Reykjavík.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

1/10/04

Forseti Íslands, Herra Ólafur Ragnar Grímsson, góðir gestir

I.

Á þeim hundrað árum sem liðin eru frá stofnun Iðnskólans í Reykjavík hafa verkmenntun, atvinnuþróun og efnahagslegar framfarir hér á landi tekið þvílíkum stakkaskiptum að þúsund ára aðdragandi er lítilfenglegur í þeim samanburði.

Iðnnámið á sér þó nokkuð lengri sögu, sem sennilega má rekja til "tilskipunar um fríheit kaupstaðanna á Íslandi" frá 1786 og til "tilskipunar um hina íslensku verslun á Íslandi" frá árinu 1787. Þar fá iðnaðarmenn rétt til að setjast að í kaupstöðum og vinna þar við iðn sína og selja smíðisgripi sína svo nokkuð sé nefnt – en aðra verslun máttu þeir ekki stunda. Forsendur fyrir myndun þéttbýlis, með verslunar- og iðnaðarstarfsemi eru þar með komnar. Þjóðfélagsbreytingarnar voru þó fremur hægar framan af.

Í lok 19. aldar verða aftur á móti miklar framfarir í atvinnuháttum landsins. Iðnmenntun tók framförum en þó áttu Íslendingar ekkert vélknúið skip um aldamótin. Tíu árum síðar var orðin gjörbreyting á þessu en þá áttu landsmenn um eitthundrað vélbáta og á annan tug togara. - En hvernig var þessi breyting möguleg á svo stuttum tíma?

 

Fyrir því lágu nokkrar ástæður. Bæirnir efldust með auknu framboði á atvinnu. Það má m.a. rekja til atvinnureksturs útlendinga, einkum Norðmanna, á síðustu tveim áratugum 19. aldarinnar. Þá komu einnig fram á sjónarsviðið Íslendingar sem sýndu dug og áræði í atvinnurekstri. Þessir menn sáu tækifærin í hagnýtingu nýrrar tækni, einkum véltækninnar.

Við þessum breytingum í atvinnu- og þjóðfélagsháttum var m.a. brugðist með setningu laga um iðnnám árið 1893 og reglugerð 10 árum síðar. Þar með var sú braut mörkuð í iðnmenntun sem fylgt hefur verið í megindráttum síðar. Hún hefur reynst þróun íslensks atvinnulífs einkar heilladrjúg og ótvíræður hvati til framfara.

 

II.

Það hefur vakið athygli mína hversu framsækinn Iðnskólinn í Reykjavík hefur verið því auk hinna hefðbundnu iðngreina hefur skólinn verið brautryðjandi í mótun nýrra náms-og starfsgreina sem atvinnulífið hefur kallað eftir. Iðnskólinn hefur þannig verið nýsköpunarskóli sem hefur verið óhræddur við að feta nýjar og oft torfærar leiðir. Sköpunarþörf einstaklinga hefur fengið útrás í lausn verkefna sem hafa haft beina skýrskotun til framfara í atvinnulífinu í breyttu þjóðfélagi. Þessar nýju brautir hafa gefið iðnmenntuninni nýja dýpt. Þær hafa skapað ný tengsl t.d. á sviðum hönnunar og tölvuþjónustu og gefið nemendum ný færi á að sækja framhaldsnám á nýjum sviðum.

 

 

III.

Það fer varla á milli mála að mikilvægasti þáttur þess að bæta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs er aukin menntun. Þar gegnir iðnnám og annað starfsnám miklu hutverki. Fyrir iðnnámið hefur skipt máli, eins og flest annað nú til dags, að það hefur verið sveigjanlegt og fylgst vel með framförum, - bæði í tækni og - varðandi þróun viðskipta. Stuðningur atvinnulífsins við framþróun iðnnáms hefur verið mikilvægur. Á milli skólans og atvinnulífsins liggur rauður þráður gagnkvæmra hagsmuna, - þar sem annar getur ekki án hins verið. Þessi samskipti hafa að mínu mati verið til fyrirmyndar. Félög iðnaðarmanna og iðnaðarins hafa staðið fast við bak iðnmenntunar og stuðlað að öflugri sókn hennar.

 

Nú þegar framkvæmdir í þjóðfélaginu eru meiri en nokkru sinni fyrr vex þörfin fyrir iðnaðarmenn að sama skapi. Janframt þessu eru framfarir í atvinnulífinu almennt hraðari og líftími þekkingar og vöru er stöðugt að styttast. Þetta setur aukinn þrýsting á iðnmenntunina og kröfu um stöðuga endurnýjun.

Skólakerfið hefur lagt sig fram um að bregðast við þessu og má sem dæmi nefna aukið aðgengi iðnaðarmanna að fjölbreyttu framhaldsnámi. Eitt áhugaverðasta dæmið er tilkoma Tækniháskóla Íslands sem opnar iðnaðarmönnum einkar farsæla leið til háskólanáms.

IV.

Ágætu hátíðargestir:

Iðnskólinn í Reykjavík fagnar nú 100 ára afmæli. Á þessari öld hafa átt sér stað miklar framfarir.

Iðnaðarmenn áttu drjúgan hlut í þeim framförum. Iðnmenntunin hefur haldið stöðu sinni, því hún hefur þróast í takt við margbreytilegar þarfir þjóðfélagsins. Iðnskólinn í Reykjavík getur litið stoltur yfir farinn veg og horft með eftirvæntingu til framtíðar.

Ég færi Iðnskólanum í Reykjavík mínar bestu kveðjur og óskir um velfarnað á komandi árum

 

 

 

 

  

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval