Morgunverðarfundur Verslunarráðs Íslands.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

16/9/04

Íslenskt viðskiptaumhverfi – næstu skref

I.

Ágætu gestir. Svíakonungur, jafnt sem almennir ferðamenn sem hingað koma, undrast þá miklu uppbyggingu sem orðið hefur hér á landi á undanförnum árum. Þjóðfélagið hefur tekið miklum framförum, jafnvel stakkaskiptum, á stuttum tíma. Hagur almennings, hins opinbera og fyrirtækja hefur vænkast en samhliða hafa hvers konar kröfur aukist. Almenningur krefst enn betri lífskjara og betri þjónustu hins opinbera og fyrirtækja en finnur hins vegar fyrir auknum kröfum og samkeppni á vinnumarkaði. Fyrirtæki keppa að sem bestri nýtingu framleiðsluþátta og þar með aukinni framleiðni en þrýstingur frá hluthöfum, hinu opinbera og almenningi fer vaxandi. Hið opinbera finnur einnig fyrir auknum kröfum um meiri gæði og betri velferðarþjónustu.

Þær þjóðfélagsumbætur sem orðið hafa eru mikilvægar. Frumkvæði, kraftur og útrás hafa einkennt þessa þróun. Þjóðfélagið nýtur góðs af. Hagvöxtur er mikill og kaupmáttur eykst. Meðal annarra fylgifiska þessara breytinga má nefna aukna hörku í viðskiptum og á vinnumarkaði, fyrirtæki hafa stækkað, Íslendingar hafa eignast auðmenn á heimsvísu og samþjöppun hefur aukist á vissum sviðum.

Við þessar aðstæður og í kjölfar mikillar pólitískrar umræðu um stöðu viðskiptalífsins skipaði ég nefnd um íslenskt viðskiptaumhverfi. Ég vildi að nefndin skoðaði reglur atvinnulífsins í heildstæðu samhengi eftir einkavæðingu bankanna og þær umfangsmiklu breytingar á regluverki sem átt hafa sér stað á undanförnum árum vegna EES-samningsins. Nefndir af þessu tagi hafa verið settar á laggirnar víða um lönd að undanförnu. Mjög víða í nágrannaríkjunum hefur hið opinbera beitt sér fyrir umræðu og breytingum í atvinnulífinu með skýrslum um traust í viðskiptalífinu.

Nefndin hefur nú skilað sinni skýrslu. Fyrstu viðbrögð við henni hafa verið jákvæð. Stjórnmálaflokkarnir, a.m.k. þeir sem styðja markaðshagkerfi frekar en áætlunarbúskap, telja skýrslu nefndarinnar góðan grunn til að byggja á. Forstjórar nokkurra stórra fyrirtækja telja skýrsluna hlutlausa, hófstillta og skynsamlega. Samtök verslunnarinnar og Neytendasamtökin hafa fagnað tillögunum. Viðbrögð forsvarsmanna Verslunarráðs og Samtaka atvinnulífsins hafa verið jákvæð en varfærin.

Það er von mín að takist hafi að finna ásættanlega leið á milli andstæðra sjónarmiða. Það verða að líkindum ekki allir sáttir en heldur ekkert sérstaklega óánægðir. Það skiptir miklu máli að pólítísk sátt náist um laga- og regluumhverfi atvinnulífsins. Slíkt er atvinnulífinu mikilvægt.

Nú er verið að vinna drög að lagafrumvörpum í viðskiptaráðuneytinu sem byggja á tillögum nefndarinnar. Ég geri ráð fyrir að drög að breytingum á hlutafélagalögum og einkahlutafélagalögum verði sett á Netið í næstu viku og hagsmunaaðilum og öðrum þeim sem vilja tjá sig um efni frumvarpanna gefinn kostur á að veita ráðuneytinu umsögn. Drög að samkeppnisfrumvarpi verða heldur seinna á ferðinni. Flest bendir því til að mikil og góð umræða ætti að geta orðið um þessi frumvörp og skýrslu nefndarinnar á komandi haustþingi. Til að umræðan hafi gildi og beri ávöxt þarf hún að vera heildstæð en ekki að einskorðast við hugsanleg álitaefni sem kunna að vera uppi þá stundina.

II.

Góðir áheyrendur. Það er viðbúið að í umræðu næstu vikna munum við oft heyra sagt: ,,Við megum ekki ganga lengra heldur en þjóðirnar í kringum okkur". Mig langar til að leggja út af þessum texta , sem texta dagsins.

Hann vísar til þess að við búum í alþjóðlegu umhverfi og verðum að hegða okkur í samræmi við það. Séríslenskar reglur eru ekki líklegar til að bæta stöðu íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni. Við verðum að gæta að því að við Íslendingar erum í samkeppni um fyrirtæki. Stærstu fyrirtækin okkar eru orðin alþjóðleg og með minni hluta veltu sinnar á Íslandi. Það er auðvelt að flytja höfuðstöðvar fyrirtækja og þessi fyrirtæki starfa þar sem umhverfið er gott.

Þetta er allt saman satt og rétt. En á hinn bóginn felst í þessum texta viss einföldun. Hann gefur til kynna að regluumhverfi atvinnulífsins í hinu alþjóðlega umhverfi sé samræmdara en það er í raun og veru. Einnig getur falist í honum að reglusetning um viðskiptalífið sé almennt tómt vesen og byrði sem minnki samkeppnishæfni fyrirtækja í stað þess að vera sanngjarnar og eðlilegar leikreglur sem skapi traust og trúverðugleika. Meiri reglur en hjá samkeppnisþjóðum kunna í einstökum tilvikum að bæta samkeppnishæfni, háð aðstæðum hverju sinni. Þegar þessi texti er sagður í samhengi við skýrslu nefndarinnar um íslenskt viðskiptaumhverfi er verið að gefa í skyn að hér séu hugmyndir um að ganga lengra en almennt tíðkast. Það er alls ekki rétt.

Það er mikilvægt að hafa í huga að tilskipanir um viðskiptalífið sem teknar eru inn í EES-samninginn eru flestar lágmarkstilskipanir, þ.e. þær skapa ákveðinn ramma um tiltekinn markað eða hegðun en láta aðildarríkjunum eftir að útfæra þær nánar. Yfirleitt kemur þetta til vegna þess að samstæða næst ekki innan Evrópusambandsins um samræmdar aðgerðir, enda hafa skapast hefðir og venjur í einstökum ríkjum sem þau ógjarnan vilja láta af í skiptum fyrir sameiginlegar reglur á öllu svæðinu. Þetta er vel þekkt. Eftir því sem innri markaðnum hefur vaxið fiskur um hrygg hefur Evrópusambandinu þó orðið betur ágengt að setja samræmdar reglur á einstökum sviðum. Aðgerðaráætlun ESB á sviði fjármálamarkaðar er gott dæmi um það og nú er búið að setja Aðgerðaráætlun á sviði félagaréttar sem mun á næstu árum gera innri markaðinn mun skilvirkari. En eftir stendur samt sem áður að viðskiptaumhverfi aðilarríkja EES-samningsins er enn um margt ólíkt. Fyrir Íslendinga er það ekki kostur í stöðunni að setja einungis lágmarksreglur tilskipana. Það er ekki boðið upp á það að taka einungis við tilskipunum að utan umhugsunarlaust og láta þar við sitja, eins og oft má skilja af umræðunni.

Af þessum sökum er mjög erfitt að alhæfa um alþjóðlegar leikreglur viðskiptalífsins. Á sumum sviðum eru staðlaðar, alþjóðlega viðurkenndar reglur, á öðrum eru reglur ólíkar á milli landa, og svo allt þar á milli. Ef ég reyni að meta heildstætt íslenskt laga- og reglugerðarumhverfi um viðskiptalífið í samanburði við EES-ríki, og byggi það mat á reynslu af framlagningu tuga frumvarpa um viðskiptalífið eftir nærri fimm ára starf í viðskiptaráðuneytinu, þá tel ég að það sé minna í sniðum en í nágrannaríkjunum. Tillögur nefndar um íslenskt viðskiptaumhverfi breyta ekki því mati. Þær tillögur sem snúa að samkeppnismálum eru til nánari samræmingar við Evrópurétt. Tillögur um breytingar á félagarétti eru að sönnu ekki komnar inn í Evrópurétt nema að litlu leyti en endurspegla vel þá alþjóðlegu umræðu um stjórnhætti og félagarétti sem verið hefur áberandi að undanförnu.

III.

Góðir áheyrendur. Ég nefndi hér fyrr í ræðu minni að margir yrði að líkindum ekki að fullu sáttir við tillögur nefndarinnar en heldur ekkert sérstaklega óánægðir. En af hverju gæti óánægja einkum stafað? Tillögur nefndarinnar miða að því að efla samkeppniseftirlit, gera það skilvirkara og veita meira fjármagni til þess. Það á að efla kjarnastarfsemina í eftirlitinu og skilja þá starfsemi sem snýr ekki sérstaklega að samkeppnismálum frá. Jafnframt á að veita samkeppniseftirliti auknar heimildir sem eru í fullu samræmi við Evrópuþróun. Takist vel til með þessar breytingar er ekki nokkur vafi á að þær verða atvinnulífinu til heilla.

Tillögur nefndarinnar um stjórnhætti og félagarétt miða einkum að því að bæta minnihlutavernd og upplýsingagjöf og auka hluthafalýðræði. Ég vil undirstrika að þessum tillögum er ekki á nokkurn hátt beint gegn ákaflega jákvæðu frumkvæði Verslunarráðs, Samtaka atvinnulífsins og Kauphallarinnar um leiðbeiningar um stjórnarhætti. Það verður að teljast nokkuð afrek hjá þessum aðilum að hafa komið sér saman um reglur af þessu tagi sem gilda eiga um allt viðskiptalífið. Leiðbeiningar eru vel unnar og munu koma til með að hafa mikil áhrif, sér í lagi ákvæðin um óháða stjórnarmenn. Í tillögum nefndarinnar eru ekki lagðar til lagabreytingar á þeim sviðum sem leiðbeiningarnar taka til, að því undanskildu að lagt er til að stjórnum félaga verði skylt að fá samþykki hluthafafundar á starfskjarastefnu fyrir stjórnendur.

Ég legg mikla áherslu á þær tillögur sem snúa að auknu valdi hluthafafunda. Það er reyndar merkilegt að í jafn frjóu umhverfi og viðskiptalífið starfar nú í, skuli hin almenna regla enn vera sú að hluthafafundir séu hátíðlegar já-samkomur og litið á hvern þann hluthafa sem opnar munninn í forundran og hann stimplaður kverúlant. Hugmyndir um bætta stöðu hluthafa, t.d. með rafrænum hluthafafundum, tel ég vera mjög mikilvægar.

Þá munu þær raddir heyrast að ganga eigi lengra í átt til reglusetningar en nefndin leggur til. Þó ég geti t.d. tekið undir margt sem fram kemur í greiningu Morgunblaðsins á samþjöppun í viðskiptalífinu þá er það mitt mat að besta lausnin sé að nýta þann lagaramma um samkeppnismál sem fyrir er, gera samkeppnisyfirvöld skilvirkari og veita meira fé til þeirra. Þetta ætlar ríkisstjórnin að gera.

IV.

Ég vil að lokum gera að umtalsefni stöðu viðskiptalífsins. Að mörgu leyti býr viðskiptalífið við kjöraðstæður. Þjóðhagslegar aðstæður eru góðar, bjartsýni ríkjandi og viðskiptalífið tilbúið að reyna nýja hluti. En við skulum ganga hægt um gleðinnar dyr, minnug þess að góð ár og mögur skiptast á. Margt hér á landi er nú í hróplegu ósamræmi við alþjóðlega þróun, eins og t.d. hækkun Úrvalsvísitölunnar. Við skulum einnig vera óhrædd að tala um það sem betur má fara, jafnvel þó það kunni að snerta viðkvæma strengi. Það er betra að ræða mál áður en í óefni er komið. Tökum sem dæmi endurskoðendur, en áhugaverður kafli skýrslu nefndar um viðskiptaumhverfi fjallar um ársreikninga fyrirtækja og endurskoðendur. Hversu eðlilegt er það að endurskoðendur séu í áskrift í áratugi að ákveðnum fyrirtækjum og verði smátt og smátt mestu mátar forstjórans og stjórnarinnar? Hvernig væri að setja reglu sem takmarkaði störf endurskoðanda hjá fyrirtæki við ákveðinn árafjölda? Hvernig stendur á því að sama fyrirtæki getur beitt mismunandi aðferðum í mælingum á afkomu og efnahag og fengið gjörólíkar niðurstöður? Hversu trúverðugt er það fyrir fjárfesta? Er það öruggt að stjórnendur hafi ætíð yfirsýn yfir sífellt flóknari vef fyrirtækja og eignarhaldsfélaga og viðskipti þeirra í milli? Hvernig getum við tryggt sem best að Kínamúrar haldi í litlum fjármálafyrirtækjum? Það er hægt að spyrja ögrandi spurninga um íslenskt viðskiptalíf, líkt og um viðskiptalíf annarra landa. Og það eigum við að gera.

Ég hef fengið þau skilaboð frá viðskiptalífinu á fundum sem ég hef átt með Verslunarráði og Samtökum atvinnulífsins að æskilegt sé að stjórnvöld fari að gát við breytingar á viðskiptaumhverfinu. Það ætla stjórnvöld að gera. Ég vil á sama hátt koma þeim skilaboðum á framfæri við viðskiptalífið að fara að öllu með gát á þessum uppgangstímum. Ég þakka fyrir.

 

  

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval