Bikarmót norðlenskra hestamanna á Dalvík.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

23/8/04

Ágætu mótsgestir!

Mér er það heiður og ánægja að geta verið með ykkur hér í dag og hafa fengið að taka beinan þátt í þessum viðburði með því að sitja einn gæðinginn í fríðri fylkingu hesta og knapa sem hér eru saman komnir í upphafi móts. Ég vona að fólk njóti þess bæði að horfa á þá etja kappi hvern við annan nú á eftir og blanda geði í sambandi við það áhugamál sem hefur dregið hingað bæði heimamenn af Dalvík og úr Svarfaðardal og gesti þeirra úr næstu sveitum og sýslum.

Þetta bikarmót norðlenskra hestamanna sem nú er haldið hér á Dalvík er einn þeirra viðburða sem alltaf fer fjölgandi og vekja sívaxandi athygli á hestinum okkar, þessum merkilega kostagrip sem fylgt hefur þjóðinni frá landnámi. Ekki er ofmælt að hann hafi bæði létt henni lífið og lífsbaráttuna - já, beinlínis bjargað mörgu mannslífinu á liðnum öldum ef út í það væri farið. Nú er það liðin tíð og ekki réttmætt að kalla hann þarfasta þjóninn lengur, en vel má segja að hann hafi fengið nýtt hlutverk sem hann gegnir við æ meiri vinsældir og aðdáun þeirra sem kynnast kostum hans og eiginleikum og stunda hestamennsku að einhverju marki.

Og þeir eru býsna margir af báðum kynjum og á ýmsum aldri. Þau eru ekki öll há í loftinu, börnin úr bæ og sveit sem nú setja upp hjálma og bregða sér á bak í reiðskólum eða með sínum nánustu og læra þannig snemma frumreglur hestamennskunnar og kynnast þeirri ánægju og lífsfyllingu sem það veitir að umgangast góðan hest. Þeir sem til þekkja vita að við þau kynni hnýtir margur leyniþráð milli manns og hests sem ekki slitnar. Hvað í því fólst vissu forfeður okkar og formæður mætavel, eins og sá aragrúi hestavísna og -ljóða sem tungan geymir frá fyrri tíð er til vitnis um. Mikið mátti ganga á áður en frá þeim væri tekin gleðin af góðum spretti, eins og Vopnfirðingurinn Einar E. Sæmundsen lýsti þannig, svo eitt dæmi sé tekið:

 

Brestur vín og brotnar gler,

bregðast vinir kærir,

en á Blesa eru mér

allir vegir færir.

Og skyldu þau ekki af heilum hug geta tekið undir línur úr Fákum, bæði karlar og konur, sem í sumarblíðunni núna á dögunum fóru ríðandi í hóp af Langanesi suður á Reykjanesskaga og voru nærri þrjár vikur á leiðinni án þess að dropi kæmi úr lofti nema í eitt skipti í 10 mínútur?:

 

- Menn og hestar á hásumardegi

í hóp á þráðbeinum, skínandi vegi

með nesti við bogann og bikar með.

Betra á dauðlegi heimurinn eigi.

Vegurinn á þessari leið hefur auðvitað ekki alltaf verið þráðbeinn, en slík ævintýri geta gerst á Íslandi og gleymast sjálfsagt seint þeim sem lifa þau. Höfundur Fáka, Einar Benediktsson, var gefinn fyrir víðsýni og þess má líka minnast að norður á Héðinshöfða hafði hann útsæinn á aðra hönd og sumar fegurstu náttúruperlur landsins á hina og lýsti þeim í ljóðum sínum - eins og útreiðunum undir loftsins þök. Og líklega þætti honum nú sem lífsnautn og nytsemi hefðu fallist í faðma þar sem annars vegar er fákurinn og hins vegar ferðamennskan og atvinnan og áhuginn sem af hvoru tveggja sprettur.

 

Hrossarækt og hestamennska er nefnilega ekki bara einkamál innvígðra. Hún er mikilvæg atvinnu- og viðskiptagrein sem skiptir þjóðarbúið og byggðir landsins máli og kemur víða við sögu.

Landsmót eins og haldið var á Hellu í sumar er ekki lítil landkynning fyrir utan allt annað. Í verklegum framkvæmdum og skipulagsmálum gætir áhrifanna einnig, því að mikið hefur verið gert að því upp á síðkastið af hálfu hins opinbera og áhugamanna að leggja nýja reiðvegi, grafa aðra úr gleymsku, merkja þá, gefa út kort og bækur, hressa upp á vörður og hefja fornar þjóðleiðir til vegs á ný.

Góðir gestir,

Samleið hests og þjóðar er orðin löng. Í vitund forfeðra okkar var hesturinn nánast goðkynjuð skepna. Og fornsögurnar geyma örlagaríkar frásagnir af mönnum og hestum og örnefni sem þeim eru tengd.

Nú er sú breyting á orðin að manns og hests bíður ekki einungis endalaust strit eins og áður fyrr. Þar sem þeir eiga samleið fléttast örlög beggja saman á nýjan hátt. Þegar áburðarklárinn hefur fengið frí og gæðingurinn er taminn til kostanna sjást þeir glöggt.

 

Það er ekki úr lausu lofti gripið þegar sagt er að íslenski hesturinn sé einstakur; lítill og fótviss, töltið óþekkt gangtegund annars staðar og landnámshesturinn ekki blandaður öðrum tegundum. Litaafbrigðin eru líka einstök og orðin mörg sem þarf til að lýsa þeim rétt.

Allt rifjast þetta upp á stað og stund eins og hér og minnir áreiðanlega á sig í keppninni á eftir. Ég óska öllum viðstöddum góðrar skemmtunar.

Bikarmót norðlenskra hestamanna á Dalvík 2004 er sett! 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval